14.04.1954
Sameinað þing: 52. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (3679)

Starfslok deilda

Einar Olgeirsson:

Ég vil leyfa mér fyrir hönd hv. þm. að þakka hæstv. forseta góðar óskir í vorn garð.

Hæstv. forseti, sem einnig er aldursforseti þings vors og varð sjötugur að aldri nú á þessu þingi, hefur nú lengur en nokkur annar núlifandi Íslendingur gegnt forsetastörfum í þingi voru. Í meira en tvo áratugi hefur alltaf öðru hverju forsetastarfið, einkum í neðri deild, hvílt á hans herðum. Meira en 20 þingum hefur hann stjórnað, lengstum í neðri deild, oft á stormasömum tímum. Við þm., sem með honum höfum starfað, geymum góðar endurminningar frá liðnum árum um gott samstarf og dugnað hans og röggsemi í forsetastóli. Ég vildi mega nota þetta tækifæri í tilefni af þeim tímamótum, sem á þessu þingi hafa orðið í hans lífi, að flytja fyrir hönd hv. þm. okkar beztu árnaðaróskir til hans, óska honum langra og farsælla lífdaga, óska honum góðrar heimferðar og heimkomu, þegar við höldum nú frá þessu þingi, og að við megum sjá hann heilan aftur, þegar við hittumst á nýhaust.

Ég vil biðja hv. þm. um að taka undir árnaðaróskir mínar til hæstv. forseta með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]