24.02.1954
Sameinað þing: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3691)

126. mál, höfundaréttarsamningur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þessi till. er í nánu sambandi við tvö mál, sem hafa verið fyrir Alþ. hér fyrr í vetur, annars vegar breyting á höfundaréttarlögunum og hins vegar um það að Ísland skyldi gerast aðili að allsherjarsamningi um höfundarétt.

Lagabreytingin fór í þá átt að auðvelda, að Ísland gæti fengið gagnkvæm réttindi við Bandaríkin um þessi efni, og gat komið til greina að láta nægja í því sambandi þennan allsherjarsamning um höfundarétt, þar sem Bandaríkin eru aðili að honum. Að betur athuguðu máli hefur þótt sýnt, að það mundi dragast of mikið, að nauðsynleg vernd fyrir íslenzk hugverk fengist í Bandaríkjunum með þessu móti, þar sem búizt er við, að allsherjarsamningurinn taki ekki gildi milli allra aðila fyrr en eftir nokkuð langan tíma, þar sem gæti staðið á staðfestingu í ýmsum löndum. Þess vegna hefur þótt réttara að leita eftir beinum gagnkvæmum samningi við Bandaríkjastjórn um þessi efni, og er sú þáltill., sem hér er borin fram, í þá átt.

Mér skilst, að allir séu sammála um, að það sé eðlilegt, að slík réttindi fáist í Bandaríkjunum, og það því fremur sem flest bandarísk hugverk njóta verndar á Íslandi nú þegar, þar sem t. d. bækur, sem gefnar eru þar út, eru einnig flestar samtímis gefnar út í þeim löndum, sem eru þátttakendur í Bernarsáttmálanum, svo að Ísland verður verr úti í þessu efni en hinn aðilinn, í þessu tilfelli Bandaríkin. Verður hægt að bæta úr því með því að gera sérsamning við Bandaríkin um þessi efni, en áður en slíkur samningur er gerður, er hins vegar ekki hægt að fá þessi verk skráð í Bandaríkjunum, þannig að þau njóti þar verndar.

Það hefur komið fram nokkur gagnrýni á íslenzk stjórnarvöld fyrir það, að þau hafa ekki útvegað slíkan skráningarrétt þar vestra. Það er ekki hægt án slíkrar samningsgerðar sem hér er ráðgerð, og ef menn telja, að það sé nokkurs virði að fá réttinn, þá þarf að veita stjórninni þá heimild, sem hér er farið fram á.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, heldur legg til, að málinu verði vísað til hv. allshn. í Sþ. Hún mun hafa haft málið á fyrri stigum þess, og getur hún þá aflað sér frekari upplýsinga, ef hún telur þörf á. Legg ég til, að umr. sé frestað og till. vísað til hv. allshn.