24.02.1954
Sameinað þing: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3693)

126. mál, höfundaréttarsamningur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er svo með þetta mál eins og málin þessu skyld, sem voru hér til umræðu fyrr í vetur og ég drap á, að ég geri ráð fyrir, að þeir, sem um það fjalla á þinginu, svari því til svipað sem afstaða ráðuneytisins er, að úr því að við á annað borð erum þátttakendur í Bernarsambandinu, þá sé eðlilegt að gera þessar viðbótarráðstafanir, hins vegar leiði þessir aðilar hjá sér að svo stöddu að taka afstöðu til meginatriðisins, sem sé hvort við eigum að halda áfram þátttöku okkar í þessu bandalagi.

Ég vil nú beina því til míns ágæta vinar, hv. þm. Seyðf., hvort ekki væri rétt, að hann og ýmsir aðrir þm., sem ég veit að eru sömu skoðunar og hann, flyttu beinlínis þáltill. um, að við gengjum úr þessu, bandalagi, til þess að á daginn kæmi, hvort þingmenn að fenginni reynslu eru því sammála, að við séum áfram í þessum samtökum eða ekki. Og eins og hv. þm. sagði, þá þyrfti í sjálfu sér ekki að vera neitt óboðlegt við þá framkomu okkar, vegna þess að við getum vitanlega gert sérsamninga við þau lönd, sem við teljum ástæðu til, eftir sem áður, ef við teljum ekki fært að hverfa til þess ástands, sem var, áður en við gerðumst aðilar Bernarsáttmálans. — Ég vildi beina þessu til hv. þm. og annarra þeirra sem eru svipaðrar skoðunar.