13.11.1953
Neðri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

99. mál, sveitastjórnarkosningar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að geta neina skýrslu hér út af eldhúsdagsræðu hv. 1. landsk. áðan, sem að vísu var ekki varðandi það mál, sem nú er til umræðu. Það geta náttúrlega oft verið ástæður til þess, að sá ráðh., sem mál heyrir undir, geti ekki verið við við 1. umr. málsins. Ég veit ekki, hvort skýrsla hv. 1. landsk. um 7 eða 8 stjórnarfrv., sem þannig hafi verið flutt án þess, að nokkur framsaga hafi fylgt, er rétt, — ég efa það nokkuð. En ég vildi geta þess, að ég veit ekki til, að það hafi neitt frv. komið hér fram á Alþ. frá þeim rn., sem ég hef með að gera, sem ekki hafi verið flutt framsaga um.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 163, er smávægileg breyting á sveitarstjórnarkosningalögunum. Þessi breyting er sú ein, að sveitarstjórnarkosningalögin eru færð til samræmis við alþingiskosningalögin um eitt atriði, og það er um það, að kjósendur geti neytt kosningarréttar síns utan þess heimilis eða þess kjörstaðar, sem þeir eiga heima á, og að þar sé að öllu leyti fylgt sömu reglum og gilda um alþingiskosningar, þannig að kjósendur, sem eru á kjörskrá annars staðar hér á landi eða erlendis, geti á sama hátt neytt þar kosningarréttar sins. Það er í sveitarstjórnarkosningalögunum mjög oft vitnað til laganna um kosningar til Alþingis og auðséð, að löggjafinn hefur ætlazt til þess, að sömu reglum væri fylgt í öllum meginatriðum, en það mun hafa frekar verið af einhvers konar mistökum á sínum tíma, að þetta atriði var ekki fært til samræmis, en virðist mjög eðlilegt, að þar gildi sömu reglur. Ég sé nú ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, enda er skýrt frá þessu í athugasemdum við frv. rækilega. En ég vænti þess, að hið háa Alþ. geti fallizt á það að gera þessa samræmingu á milli sveitarstjórnarkosningalaganna og laganna um alþingiskosningar. Og ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.