12.10.1953
Sameinað þing: 5. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

1. mál, fjárlög 1954

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í byrjun þessa fundar var aðalreikningi ríkissjóðs 1952 útbýtt, og er það dálítið bagalegt, að þetta plagg skyldi berast þingmönnum svo seint. Í ríkisreikningnum 1952 eru auðvitað ýmsar upplýsingar, sem gott hefði verið að byggja á í þessum umræðum, þegar ræða á fjárlfrv. fyrir næsta ár, 1954.

Það er séð, að það hefur farið eins og áður oftast nær, að ýmsir tekjuliðir hafa verið of lágt áætlaðir í fjárlfrv. fyrir árið 1952. T.d. eru tollar og skattar 30 millj. hærri samkv. reikningnum en þeir voru í áætluninni, og þær ágætu ríkisstofnanir, tóbakseinkasalan og áfengiseinkasalan, hafa skilað 94 milljónum rúmum í staðinn fyrir 84, sem áætlað var, og hafa þannig ekki orðið fjármálaráðherra sínum til vonbrigða fremur en fyrri daginn. Skuldir ríkissjóðs í árslok 1952 virðast samkvæmt sjóðsyfirlitinu vera 490 millj. kr., og margt er fleira, sem fróðlegt væri fyrir útvarpshlustendur að fá að vita úr þessu plaggi, sem því miður barst svo seint, en það verður að bíða seinni tíma, því að það er bezt að snúa sér að dagskrárefninu.

Frv. það til fjárl., sem hér liggur fyrir til 1. umr., hefur fáar nýjungar að flytja. Það er á uppleið með öll útgjöld ríkissjóðs eins og öll þau fjárlfrv., sem ég man eftir.

Skattar og tollar eru nú 325 millj. og 200 þús. kr. á móti 296 millj. á frv. í fyrra. Ég skal taka það fram, að ég tel réttast að miða allar samanburðartölur við fjárlfrv. nú og fjárlfrv. í fyrra. Gjöldin á sjóðsyfirliti núna eru 427 millj. móti 388 millj. á fjárlfrv. í fyrra. Tekju- og eignarskatturinn hefur hækkað um 41/2 millj., úr 52 í 56 millj. Og skrýtið er það með stríðsgróðaskattinn. Hann — og þá sjálfsagt líka stríðsgróðinn — fer síhækkandi eftir því, sem lengra líður frá stríðinu. Í fyrra var hann áætlaður réttar 4 millj. Nú er hann áætlaður — sjálfsagt varlega áætlaður — 6 millj. og 800 þús. Verðtollurinn, sem er hæsti tekjuliður fjárl., er nú áætlaður 110 millj. og er 5 millj. kr. hærri en á frv. í fyrra. Og þá gerir illræmdasti skattur þessarar skattheimturíkisstjórnar, söluskatturinn, það ekki endasleppt. Hann er kominn upp í 911/2 millj. á þessu frv., en í fyrra var hann áætlaður 77 millj. Hækkunin á einu ári er hvorki meira né minna en 14 millj. og 500 þús. Árið 1948 var söluskatturinn ekki til. Frá árinu 1949 hefur hann farið síhækkandi, en samt aldrei tekið svona heljarstökk eins og nú frá haustnóttum í fyrra og þar til núna. 141/2 millj. kr. hækkun á einum skatti á einu ári er dálítið athyglisverð hækkun frá fyrra árs meti, jafnvel þótt íþróttamaður í skattahækkunum eins og Eysteinn Jónsson fjmrh. eigi í hlut. Þá var söluskattinum ætlað það hlutverk, þegar hann var fyrst lagður á, að standa undir fiskábyrgðarverðinu og skyldi þannig verða aðalframleiðslustétt þjóðarinnar, sjómönnunum, til tekjubóta og afkomuöryggis. En þegar hætt var við fiskábyrgðina, gleymdist bara að fella söluskattinn niður; það var gleymska hæstv. fjmrh. Þá var hann tekinn til almennra búdrýginda, þ.e.a.s. til aukinnar eyðslu. Með sívaxandi eyðslu hefur söluskatturinn líka hækkað, og hann hefur hækkað um 50 millj. á síðustu 5 árum, en þið megið reiða ykkur á, að söluskatturinn fer upp í 100 millj. á árinu 1954. Það er á þennan hátt, sem hæstv. fjmrh. hefur ávaxtað sitt pund þjóðinni til lítils fagnaðar eða ánægju.

Og hvað áætlar svo hæstv. fjmrh., að víndrykkja þjóðarinnar skili ríkissjóði miklum tekjum á næsta ári? Á þessa árs fjárl. gerði hann sér vonir um, að áfengissalan gæfi ríkissjóði a.m.k. hálft hundrað millj. og tveimur betur. Og á þessu fjárlfrv. fyrir árið 1954 áætlar hann enn 52 millj. kr. nettótekjur af brennivínssölu ríkisins. Þetta bendir ótvírætt til þess, að hæstv. ríkisstj. sé búin að semja um einhverjar meiri háttar aðgerðir til aukinnar vinsölu, sem fyllilega bæti það upp, sem draga kynni úr vínsölu við ráðstafanir fólksins sjálfs í þeim kaupstöðum landsins, sem þegar hafa ákveðið að loka vínbúðum ríkisins, en það hefur þegar verið gert a.m.k. í þremur stærri kaupstöðum landsins.

Það hefur heyrzt, að hinu kátlega brennivínsstríði hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssonar, og hæstv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, hafi lyktað með friðarsamningi á þá lund, að Sjálfstæðishúsíð ásamt nokkrum öðrum veitingahúsum, sem dómsmrh. ber fyrir brjósti, og svo Hótel Borg, Hótel KEA og nokkur önnur álíka mörg, sem fjmrh. hefur áhuga fyrir að komist vel af, eigi að fá óskorað vinveitingaleyfi, svo að þau geti selt vínföng fyrir sig og íslenzka ríkið hvert í kapp við annað. Þetta þarf þó ekki endilega að vera rétt, en trúlegt verður að teljast, að friður hafi verið saminn, einnig á þessu sviði, þegar þeir Eysteinn og Bjarni gengu á ný undir jarðarmen og mynduðu nýja ríkisstj,.

Þá er það með tekjurnar af víndrykkjunni eins og með söluskattinn, að þær hafa alltaf bætt fyrri met, farið síhækkandi frá ári til árs allt fram til þessa. Það er t.d. ekki óviðeigandi að geta þess, að fyrir tíu árum, þegar lýðveldi var stofnað á Íslandi, gerðu menn sér vonir um, að lýðveldið kynni að standast, þó að ríkissjóður fengi ekki meira en 9–10 millj. kr. tekjur af áfengissölu, en nú eru þær sem sé orðnar 52 millj., eða rétt ein millj. á viku. En bölið, sem hlýzt af ofdrykkju áfengis í landinu, — ja, hver treystir sér til þess að mæla það? Hitt er víst, að það er til smánar, hversu lítið er gert til gæzlu og lækningar þeim ógæfusömu mönnum, sem áfengissala ríkisins hefur sogað niður í hyldýpi eymdar og niðurlægingar. Þar eru þeir látnir eiga sig, eftir að ríkissjóður hefur hirt til sín milljónatugina sem auðfenginn gróða af eymd þeirra og böli.

Þá hafa tekjur ríkissjóðs ekki aukizt minna af tóbakssölu ríkisins á undanförnum árum. Nú eru þær tekjur áætlaðar 39 millj., og er það 4 millj. hærra en á fjárl. þessa árs og 9 millj. hærra en þær voru áætlaðar á seinasta fjárlfrv. Má því telja víst, að raunverulega séu þær orðnar yfir 40 millj. Það er nefnilega ein af meginreglum núverandi hæstv. fjmrh. að áætla alla stærstu tekjuliði fjárl. vísvitandi of lága, svo að samtals hefur numið milljónatugum á hverju ári. Þetta er svokölluð fjármálaspeki hans, sem hann ætti að taka „patent“ á, en er í rauninni algert blygðunarleysi gagnvart fjárveitingavaldinu, sem samkv. lögum og stjórnarskrá á að vera í höndum Alþingis. Síðan 1950 hafa tóbakstekjur ríkissjóðs hækkað um 20 millj. og síðan á ári aldanna, 1944, um rúmar 33 millj. kr.

Samtals eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs af ríkisstofnunum nærri 96 millj. þrátt fyrir halla póstsjóðs, sem aldrei virðist ætla að verða yfirbugaður þrátt fyrir margfalt heimsmet í uppskrúfuðum burðargjöldum. Hefðu þó ýmsir getað ímyndað sér, að með lokun áfengisbúðanna úti um land yrði því marki náð, að halli póstsjóðs hverfi og sjái ekki framar dagsins ljós. En samkv. fjárlfrv. er svo að sjá sem hæstv. fjmrh. geri sér jafnvel ekki vonir um það.

Samtals eru áætlaðar tekjur á sjóðsyfirliti fjárlfrv. nú 430 millj., og er þá hagstæður greiðslujöfnuður aðeins upp á 1.6 millj. kr. Fer varla hjá því, að þessar niðurstöðutölur fjárl. eigi eftir að hækka um 25–30 millj. í meðförum þingsins. Má það a.m.k. líklegt teljast eftir reynslu undanfarinna ára. Það mun þannig ekki fara fjarri því, að niðurstöðutölur fjárl. að þessu sinni verði eitthvað í kringum 450–460 millj. kr. — Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um tekjuhlið frv.

Nú mundi ef til vill vera spurt: Sjást þess engin merki á þessu fjárlfrv., að hæstv. ríkisstj. vilji draga úr kostnaði við rekstur ríkisins og ríkisstofnana og verða þannig öðrum í landinn til fyrirmyndar í því efni? Það er nefnilega ekki svo langt síðan hæstv. fjmrh. kom fram fyrir þjóðina í ríkisútvarpinu og áminnti hana hæði fyrst og síðast um sparnað, sparnað umfram allt. En þrátt fyrir þessar leiðbeiningar til gjaldendanna um að spara er það sannast sagna, að hér sést síður en svo örla á nokkurri viðleitni til sparnaðar. Gjaldendurnir eiga að vera einir um það, — og til hvers mundu þeir eiga að spara? Auðvitað til þess, að þeir geti betur staðið í skilum við ráðh. og ríkissjóð. Í þessu efni er hæstv. ráðh. þó sjálfum sér samkvæmur sem bezt má verða, því að menn muna það sjálfsagt, að í hvert skipti sem hann hefur verið spurður um, hvort ekki væri hægt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, hefur hann, svo langt aftur í tímann sem stálminnugustu menn muna, alltaf haft eitt og sama svarið á reiðum höndum: Nei, hjá ríkissjóði er fyllsta sparnaðar gætt í smáu og stóru. Þar fer ekkert í súginn. Þar er fyllsta reiða og regla á öllum hlutum og ekkert hægt að spara. — Og þetta margra ára gamla svar sitt las hann einmitt upp hérna áðan úr seinnstu ræðu hér við fjárlagaumræður. (Fjmrh.: Það var nú ekki eins og þm. segir.) Það var efnislega alveg samhljóða þessu — ekkert hægt að spara. Það var upphafið, og það var endirinn, og það var sem sé niðurstaðan, sem er búin að fá á sig nokkurn veginn hefð.

Ég get ekki fengið af mér að vera svo harðbrjósta við hæstv. ráðh. að leiða talið að slíku enn þá einu sinni, enda hef ég nú heyrt, að hann hefur kippzt við, af því að hann hélt, að það ætti að fara að tala um þetta, en ég sleppi honum þá. Ég veit það líka fyrir fram, hvert svarið yrði, og þið vitið það líka jafnörugglega, góðir hlustendur. Það er einmitt þetta: Það er ekki hægt — og þar með búið. Og þar með vitum við a.m.k. það, að það verður ekki heldur reynt að spara, því að sjálfsagt hefur hæstv. ríkisstj. eitthvað þarfara að fást við en að vera að bisast við það, sem hún fyrir fram er sannfærð um að sé ómögulegt.

En þá er eðlilegt, að spurt sé, hvort ríkisútgjöldunum sé þá ekki haldið í skefjum, reynt að stöðva þenslu ríkisbáknsins samkv. þeirri myndarlegu áminningu, sem verkalýðssamtökin veittu hæstv. ríkisstj. í desemberverkfallinu s.l. haust. Því miður verður einnig að svara því neitandi.

1. liður 10. gr., sem heitir: Til ríkisstjórnarinnar er veitt — hefur t.d. hækkað úr 5.6 millj. í 6.4 millj., kannske ekki neitt stórkostlegt, en þó um 800 þús. kr., sem sýnir strax, hvert stefnir og hvert ríkisstj. virðist ætlast til að sé stefnt. Hefur þó kostnaður við ráðunaut ríkisstj. í efnahagsmálum og ritara hans verið færður út af þessari gr., þar sem ráðunauturinn er nú orðinn bankastjóri Framkvæmdabankans.

3. liður sömu gr., utanríkismálin, hækkar um 1 millj. og 100 þús. kr., úr 5.3 millj. í 6.4 millj. Þessari hækkun veldur að mestu hið nýendurreista sendiráð í Moskvu, sem áætlað er að kosti 1 millj. kr. og ráða má af athugasemdum ráðh. með frv., að kunni þá jafnvel að taka til sín svona 11/2 millj. kr.

11. gr., um fjárveitingu til dómgæzlu og lögreglustjórnar og til opinbers eftirlits og innheimtu tolla og skatta, er alls komin upp í 38 millj. 777 þús. kr., eða nærri 39 millj., og er ekki alveg ólíklegt, að í framkvæmdinni geti gr. komizt eitthvað á fimmta milljónatuginn.

Ríkislögreglan, sem einn sinni var mikið deilumál, er ekki orðin neitt smáfyrirtæki í landi voru. Ríkislögreglan í Reykjavík kostar ríkissjóð 1 millj. og 800 þús., ríkislögregla á Keflavíkurflugvelli 1 millj. og 100 þús. og ríkislögreglan á Akureyri, í Hafnarfirði og á Siglufirði 260 þús. Auk þess er svo hlutur ríkissjóðs af lögreglukostnaðinum í Reykjavík rúmlega 1 millj. kr. Er nú þarna einhverju óþörfu eða lítt nauðsynlegu til kostað? Menn vita það ekki. En hitt er mér a.m.k. kunnugt um, að óþörfum lögreglukostnaði er með lögboði þröngvað upp á kaupstaðina úti um land. Það er engin þörf á fimm lögregluþjónum að vappa um göturnar í 3000 manna bæjum, en það skal vera einn á hverja 700 íbúa, og bæirnir hafa ekki frjálsræði til að draga úr þessum kostnaði, þó að þeir hafi hver á fætur öðrum reynt það.

Á þessari gr. er í þriðja eða fjórða sinni fjárveiting til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju við Grundarfjörð, sem þó er alls ekki tekið til starfa. Þarna er komið nálægt hálfri milljón í rekstrarstyrk til stofnunar, sem ekki er í rekstri og verður kannske aldrei rekin, en þetta er talin einhvers konar innheimtuaðstoð fyrir Reykjavíkurbæ. Ber svona örlæti nú vott um sparnaðarvilja? Ég segi nei.

Þá ber líka þarna annað fyrir augu. Húsaleigulögin eru úr gildi felld og veita engum lengur neina vernd í húsnæðisneyðinni, en á annað hundrað þús. kr. kostar húsaleigueftirlitið eftir sem áður og virðist þó hafa verið beðið um meira fé til þess.

Innheimta tolla og skatta samkv. þessari gr. kostar 10 millj. og 700 þús. kr. Tollstjóraembættið í Reykjavík er orðið eitt stærsta embættisbákn og kostar fast að 31/2 millj. kr. Tollgæzlan í Reykjavík er þar að auki um 21/2 millj. og tollgæzla úti um landið, utan Reykjavíkur, kostar eina millj. Skattstofan í Reykjavík kostar talsvert á þriðju millj. kr., þar af borgar Reykjavík 500 þús., svo að ríkishlutinn verður 13/4 millj. Hins vegar kosta allar skattstofurnar utan Reykjavikur ekki nema 600 þús. kr.

Á 12. gr. fjárl., sem fjallar um heilbrigðismálin, er að vísu ekki um stórfelldar hækkanir að ræða. Heildarniðurstöðutala gr. er tæpar 29 millj. En þessi gr. sýnir annað. Hún sýnir greinilega, að ríkið misskiptir fjárveitingu til Reykjavíkur annars vegar og landsbyggðarinnar utan höfuðborgarinnar hins vegar svo, að fullkomið ranglæti verður að kallast. Tökum t.d. tvo liði gr. Landsspítalinn er í rauninni að miklu leyti bæjarsjúkrahús fyrir Reykjavík. Þó er hann rekinn af ríkinn, sem hefur 3 millj. og 150 þús. kr. í halla af rekstri hans. Fæðingardeild landsspítalans er einnig að sjálfsögðu að langmestu leyti stofnuð fyrir Reykjavikurbæ. Samt borgar ríkið rétt við 1/2 millj. upp í rekstrarhalla hennar. Vegna þessara tveggja heilbrigðisstofnana í Reykjavík borgar ríkissjóður rúma hálfu fjórðu millj. kr. En samkv. 7. lið þessarar sömu greinar greiðir ríkissjóður svo einar 160 þús. kr. í styrki til samans til sjúkrahúsanna á Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði, Siglufirði og í Vestmannaeyjum, sem öll veita utanbæjarfólki heilbrigðisþjónustu, sum í svo ríkum mæli, að legudagafjöldi utanbæjarmanna nálgast það að vera eins mikill og innanbæjarmanna. Síðan verða þessi fátæku bæjarfélög, sem teljast eiga þessi sjúkrahús, að bera hundraða þús. kr. halla af sjúkrahúsum sínum, að nokkru leyti vegna utanbæjarsjúklinga.

Það verður að teljast höfuðnauðsyn, að ríkið tryggi það, að til sé a.m.k. í hverjum landsfjórðungi eitt stórt og vandað sjúkrahús, sem sé búið hinum fullkomnustu tækjum og sé undir stjórn hinna færustu sérfræðinga. Þetta verður varla tryggt nema með einn móti, því, að Landsspítali Íslands starfi auk aðalspítalans í Reykjavík í fjórum deildum, sinni í hverjum landsfjórðungi. Hef ég nú þegar Lagt fram á Alþingi frv. til laga, sem túlkar þessa lausn málsins. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram á þinginu frv. um 5–20 kr. styrki á legudag til sjúkrahúsa úti um land, hæstu styrkina til stærstu húsanna. Þetta frv. er fram komið vegna hins mikla og vandaða sjúkrahúss Akureyrar, sem á að geta tekið til starfa upp úr næstu áramótum. Mun það hafa álíka mörg sjúkrarúm og landsspítalinn hefur nú. Allir viðurkenna, að það sé Akureyrarbæ ofvaxið að standa undir rekstrarkostnaði slíks sjúkrahúss, enda væri það ranglátt, þar sem það mun veita utanbæjarsjúklingum heilbrigðisþjónustu að ekki minna leyti hlutfallslega heldur en landsspítalinn gerir hér. Hér á því ekkert náðarbrauð eða styrkjakák við. Hér ber að stiga heilt spor og gera Akureyrarspítala að fjórðungsdeild úr Landsspítala Íslands. Annað eða minna geta Norðlendingar varla sætt sig við.

Þá er komið að 13. gr. fjárl., fjárveitingunni til samgöngumála, þ.e. hinna verklegu framkvæmda. Og nú koma lækkanirnar allt í einu eins og fyrri daginn. Á fjárlfrv. fyrir 1954 er áætlað til nýrra akvega 8 millj. og 100 þús. kr., en í gildandi fjárl. þessa árs eru ætlaðar 10 millj. og 150 þús. kr. til nýrra akvega. Lækkunin nemur þannig 2 milljónum. Til viðhalds er hins vegar ætluð sama upphæð og í gildandi fjárlögum, en þar hefur vegamálastjóri þó talið sig þurfa 2 millj. meira, og aðrar 2 millj. segist hann þurfa til endurbóta á aðalleiðum. Sú fjárveiting er þannig 4 millj. kr. lægri en vegamálastjóri telur nauðsynlegt. Til brúargerða eru á gildandi fjárl. ætlaðar rúmar 4 millj., en á fjárlfrv. eru brúnum ætlaðar 3 millj. á næsta ári. Lækkunin er þar 1 millj. Til vita- og hafnargerða eru á þessa árs fjárl. ætlaðar 11 millj. og 600 þús., en á frv. næsta árs ekki nema 10 millj. og 800 þús. Lækkunin er 800 þús. kr.

Samkv. fjárlfrv. er áætlað, að ríkissjóður styrki strandferðaskip með 7 millj. og 750 þús. kr. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja, því að auðvitað dettur engum í hug, að þessi nauðsynlega þjónusta við fólkið í dreifbýlinu sé möguleg án halla, sízt af öllu nú við sívaxandi vöru- og fólksflutninga með bílum og flugvélum. En vitlausara fyrirkomulag er naumast hægt að hugsa sér á þessum málum. Einkafyrirtæki er látið hafa hinn gróðavænlega hluta vöruflutninga til landsins og fólksflutninga, og sá einkarekstur er hafður skattfrjáls, en ríkið er síðan látið reka hinn hlutann, sem ekki getur með nokkru móti borið sig. Er þó auðsætt, að vöru- og fólksflutningarnir til landsins ættu auðvitað að vera í ríkisrekstri og síðan ætti að verja nokkrum hluta þess gróða, sem af því fengist, til þess að standa undir myndarlegum strandferðum og flóabátaferðum. En þetta samrýmist ekki hagsmunum braskaranna í landinu, og þess vegna kemur ekki til mála, að þessi ríkisstj. fari inn á slíka braut.

Sama er að segja um flugsamgöngurnar, sem ríkið kemst ekki hjá að hafa hið strangasta eftirlit með og veita hina fullkomnustu aðstöðu. Þær eru svo þýðingarmikil þjónusta fyrir þjóðina, að þær mega alls ekki veita fjárgróðamönnum fritt spil. Auk þess eru þær svo alþjóðlegar í eðli sínu, að það er jafneðlilegt; að þær séu í ríkisrekstri, eins og póst- og símaþjónustan. Nettóútgjöld ríkissjóðs til flugsamgangna nú eru 3.3 millj. kr.

14. gr. fjárl., til kirkju- og kennslumála, hækkar um 2 millj. Er niðurstöðutalan 58 millj. Þar af eru til kirkjumálanna 6 millj., sama upphæð og á þessu ári. Fara þannig til kennslumálanna 52 millj. kr., eða sama upphæð og áætlað er til tekna af áfengisverzlun ríkisins. Sá liður þessarar gr., sem einna örast hækkar frá ári til árs, er kennslueftirlit, sem nú er komið upp í 570 þús. kr., — liður, sem ég er ekki alveg viss um að svari tilgangi sínum.

Framlög ríkissjóðs til atvinnumála samkv. 16. gr. haldast óbreytt í frv. Það eru 54 millj. Aðalbreytingin er sú, að útgjöld vegna fjárskiptanna lækka um 7 millj., en sama upphæð fer aftur til raforkumála. Samkv. skýringum ráðh. með frv. virðast þó aðeins 2 millj. eiga að fara til nýrra raforkuframkvæmda. Er það sýnu minna en búast hefði mátt við eftir glæstum loforðum stjórnarsamningsins, — loforðunum, sem hæstv. ráðh. einmitt var að rifja hérna upp áðan. Sjást þess þannig engin merki, að hæstv. stjórn geri sér ljóst. að ráðast verður híð bráðasta í stórfelldar raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum og Austfjörðum, einmitt nú, þegar miklum og merkum áfanga er náð í rafvæðingu Suðurlands og Norðurlands með viðbótarstórvirkjunum Sogs og Laxár. En það er vitað mál, að að gerólíka og óhagstæða aðstaða atvinnulífsins í þeim landshlutum, sem útundan hafa orðið í raforkumálum, getur á skömmum tíma leitt til landauðnar austanlands og vestan, ef ekki fæst fljótlega vissa um, að framkvæmdir séu á næsta leiti og þeirra verði ekki langt að bíða.

Landbúnaðinum eru ætlaðar 341/2 millj. kr., sjávarútveginum 6 millj., iðnaðinum 2 millj. Eru þessi hlutföll mjög lík og áður milli aðalatvinnuveganna, og er engin von til þess, að þau þyki réttlát eða veki ánægju. Þýðingarmestu ráðstafanir, sem gera þyrfti fyrir sjávarútveginn að minni hyggju, eru í fyrsta lagi að kaupa nokkra dieseltogara til þess að afla hráefna fyrir illa hagnýtt fiskiðjuver víðs vegar um landið og tryggja þannig þrennt í senn: atvinnurekendum bætta efnahagsafkomu, verkafólki í landi aukna atvinnu og þjóðarheildinni aukin framleiðsluverðmæti. Jafnframt er brýn nauðsyn á að koma þegar í veg fyrir nauðungarsölur nauðsynlegra atvinnutækja í útgerðarbæjum, sem barizt hafa við atvinnuleysi mörg undanfarin ár. Í þriðja lagi er aðkallandi að vinna ötullegar en gert hefur verið að markaðsöflun fyrir sjávarafurðir. Í fjórða lagi er nauðsynlegt að tryggja sjómönnum okkar undir öllum kringumstæðum rétt verð fyrir afla sinn, svo að það standist samanburð við fiskverð nágrannalanda okkar, sem við keppum við, eins og t.d. Noregs. En hér er fullkomið ósamræmi á milli, hvað sem veldur. Hlýtur hæstv. ríkisstj. að vera kunnugt um það, að það er einmitt þetta atriði, sem á mestan þátt í því, að erfitt er nú orðið að fá sjómenn á fiskiflotann, svo að útgerðarmenn eru jafnvel í fullri alvöru farnir að tala um innflutning erlendra fiskimanna.

Fráfarandi stjórn fékk það eftirmæli, að hún hefði verið iðnaðinum í landinu næsta óþörf og óvínveitt. Rétt fyrir kosningarnar þóttist hún þó ætla að bæta ráð sitt, taka sinnaskiptum, og var þá lofað gulli og grænum skógum iðnaðinum til eflingar. Nú er ný stjórn búin að sýna andlit sitt, og til iðnaðarins brosir hún ekki hýrt. Það hefur þegar komið í ljós.

Fyrir kosningarnar lofaði gamla stjórnin því m.a., að fiskibátar skyldu ekki fluttir inn frá útlöndum og skyldu innlendar skipasmíðastöðvar fá alla þá nýsmiði fiskibáta, er þær gætu annað. Segir um þetta í skýrslu til 15. iðnþings Íslendinga, sem var sett í fyrradag:

„Um miðjan september s.l. fengust þær fréttir úr fjárhagsráði, að þá ætti að taka til afgreiðslu til samþykktar eða synjunar nær 20 beiðnir um innflutning skipa. Skrifaði þá landssambandið enn fjárhagsráði og fór þess á leit, að frestað yrði aðgerðum, þar til Alþingi hefði haft tækifæri til að sýna, hvað það vildi gera til þess að tryggja, að skipin yrðu smíðuð innanlands. Sömu tilmæli voru og munnlega borin fram við atvmrh. og iðnmrh., og hefur þessi beiðni verið tekin til greina.“

Þeir héldu það.

Þessi tilvitnun sýnir, að þegar komið var fram í september, átti að fara að svíkja kosningaloforðin. Svo er lofað að bíða eftir aðgerðum Alþingis, en áður en neitt er vitað um vilja þingsins, hleypur hin nýja ríkisstj. til og úrskurðar nú fyrir fáum dögum, að veitt skuli innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir 21 vélbát frá útlöndum. Munu margir þeirra vera gamlir bátar, og er gjaldeyrisverðmæti þessara skipa talið a.m.k. 10–12 millj. kr. Þarna eru iðnaðarmenn sviknir í annað sinn í þessu bátasmíðamáli, nú af nýrri ríkisstj. Hagsmunum innlendu skipasmiðanna er fórnað fyrir hagsmuni þeirra, sem milliliðahagnaðar njóta af að kaupa inn fiskibáta. Þetta eina mál gefur raunar táknræna heildarmynd af þessari nýju ríkisstj. Hún er fyrst og fremst stjórn braskara og milliliða, ekki stjórn hins vinnandi fólks, hvorki á landi né sjó.

Iðnaðarsamtökin hafa auðvitað snúizt hart til varnar út af þessari óþjóðlegu stefnu ríkisstj. og árás á iðnaðarmannastéttina einmitt sömu dagana sem iðnþing Íslendinga er að koma saman. Félag ísl. iðnrekenda kallaði samdægurs saman fund og vítti harðlega þessa ákvörðun ríkisstj., skoraði á hana að breyta afstöðu sinni og hætta við innflutning bátanna, en velja aðra leið, sem betur samrýmdist íslenzkum þjóðarhagsmunum. Samþykktin, sem gerð var á fundi Félags ísi. iðnrekenda, var á þessa leið:

„Fundur í Félagi ísl. iðnrekenda, haldinn í þjóðieikhúskjallaranum laugard. 10. okt. 1953, vítir harðlega þá ráðstöfun að veita nú innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir 21 vélbát á sama tíma og sannanlegt er, að inniendar skipasmiðastöðvar skortir verkefni. Fundurinn telur, að þessi stefna í innflutnings- og gjaldeyrismálum feli í sér þá hættu, að öll starfsemi innlendra skipasmíðastöðva dragist verulega saman, og að horfur séu á, að viðhald bátaflotans sé í hættu af þessum sökum, þar sem faglærðum mönnum í þessari grein hljóti að fækka verulega, þegar verkefni vantar.

Félag ísl. iðnrekenda skorar því á ríkisstj. að breyta nú þegar afstöðu sinni í þessu máli og leita eftir annarri leið, er betur samrýmist íslenzkum þjóðarhagsmunum.“

Í dag mun svo sjálft iðnþingið fjalla um þetta hneykslismál, og er ekki að efa, að hin fáránlega stefna ríkisstj. verður fordæmd harðlega af þingi iðnaðarmannastéttarinnar. Íslendingar eiga og verða að smíða sjálfir sína fiskibáta, og ríkisstj. verður að breyta um stefnu í þessu máli, svo framarlega sem hún vill heita íslenzk ríkisstj. Seinustu fréttir af þessu hneyksli eru þær, að þingnefnd frá iðnþinginu hefur gengið á fund hæstv. iðnmrh. og krafizt þess af honum, að hann breyti afstöðu til þessa máls.

Góðir hlustendur. Ég sé það, að tími minn muni vera á þrotum. Ég hef haldið mér vandlega við dagskrárefnið, fyrsta fjárlfrv. nýju ríkisstj. Ég hef sýnt fram á, að það ber öll einkenni óbreyttrar fjármálastefnu. Íhaldsstjórn leið undir lok, íhaldsstjórn skreið saman aftur. Það er eins og kveðið var einu sinni:

Góður er sérhver genginn,

gæti hann þá legið kyrr,

en Ólafur aftur fenginn

er Ólafur verri en fyrr.

Það reyndist þannig með allar afturgöngur í þjóðsögum, að þær voru alltaf verri eftir því, sem þær gengu oftar aftur.

Hvergi örlar á vilja til heilbrigðs sparnaðar í þessu fjárlfrv. Sama sukkið, sami verzlunarbragurinn á mörgum liðum fjárl. Flestar tölur skatta og tolla svo og nálega allra útgjalda eru hækkandi, nema hvað fjárframlög til verklegra framkvæmda eru stórlega lækkuð borið saman við gildandi fjárl. Engin fjárveiting er til atvinnuaukningar. Allt, sem atvinnuvandamálum við kemur, ætlast ríkisstj. bersýnilega til að skuli leysast suður á Keflavikurflugvelli. Engar ráðstafanir til atvinnujöfnunar. Ekkert orð eða stafur um úrbætur í stórkostlegasta vandamáli liðandi stundar, húsnæðisskortinum. Hvorki gert ráð fyrir fjárframlögum til byggingarsjóða verkamanna, smáíbúða né til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum. Í fáum orðum sagt: Frv. er vanabundið, eins og það væri samið undir askioki, og bendir ekki á lausn neinna aðkallandi vandamála, bendir hvorki upp né fram. Það er líkast visnum kransi á dauðs manns gröf.

Ég hef í fáum orðum lýst þeirri stefnu Alþfl., að lífvænlegt atvinnulíf og aukna framleiðslu þurfi að tryggja með jöfnun atvinnutækja um landíð, aðstöðuna til atvinnuathafna þurfi að jafna með byggingu raforkuvera, einnig og sérstaklega í þeim landshlutum, sem nú hafa dregizt aftur úr, að þjónusta ríkisvaldsins við þegnana í heilbrigðismálum verði að vera sem allra jöfnust og beri ríkinu í því skyni að koma upp landsspítaladeildum í öllum landsfjórðungum. Sama gildir um aðstöðuna til æðri sem lægri menntunar. Ég hef áður borið fram frv. um menntaskóla á Austfjörðum og Vestfjörðum í stað þeirrar stefnu að reisa tvo eða þrjá slíka skóla í Reykjavík fyrir 20—30 millj., eins og nú er stefnt að og byrjað á. Ég hef víkið að því, að ríkið eigi auðvitað að hafa í eigin höndum hina arðvænlegustu þætti samgöngumálanna og styrkja svo af gróða þeirrar starfsemi samgöngur meðfram ströndum landsins. Ekkert af þessu er núverandi ríkisstj. líkleg til að vilja eða skilja og því síður til að framkvæma. Þess vegna er það sannfæring Alþfl., að það sé þjóðinni til blessunar, að ævidagar íhaldsstjórnarinnar, sem Ólafur Thors hefur nú myndað, verði sem fæstir, og með þeirri ósk lýk ég líka máli mínu í þessum útvarpsumræðum.