08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

1. mál, fjárlög 1954

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. meiri hl. fjvn. ber með sér, hefur ekki náðst fullt samkomulag í n. um fjárlfrv. Brtt. við gjaldabálkinn á þskj. 240 og 247 eru þó bornar fram af n. allri, en hv. fulltrúar Sósfl. og Alþfl. töldu sér hins vegar ekki fært að fallast á tillögur varðandi tekjubálkinn á þskj. 242, og munu þeir því skila sérstöku nál.

Ég sé ástæðu til þess að taka það fram, að samstarf í n. hefur verið mjög gott og afgreiðsla mála yfirleitt verið ágreiningslaus, þótt einstakir nm. og raunar n. í heild hefðu kosið að geta veitt meira fé til ýmissa framfaramála, en n. var mjög þröngur stakkur sniðinn vegna þess, að greiðsluafgangur var svo til enginn á fjárlfrv. og tekjuliðir allir mjög hátt áætlaðir, svo sem ég mun síðar víkja að.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n. gerðu enga grein fyrir sérsjónarmiðum sínum og gáfu meiri hl. engan kost á því að kynna sér, í hverju ágreiningur þeirra væri fólginn. Ég hef því ekki í þessari framsöguræðu minni aðstöðu til þess að ræða sérsjónarmið hv. minni hl. n. Ég sé að vísu, að það hefur verið útbýtt hér nál. frá þeim, en ég mun geyma mér að ræða þau, þar til þeir hafa gert grein fyrir þeim meginviðhorfum, sem liggja til grundvallar þeirra sérstöðu.

Í nál. meiri hl. er gerð grein fyrir starfi n. og brtt. hennar, bæði þeim, sem n. óklofin stendur að, og einnig þeim brtt., sem sérstaklega eru fram bornar af meiri hl. n. Ég mun því ekki nema að mjög litlu leyti víkja að hinum sérstöku brtt., nema eftir því sem tilefni gefst til, heldur ræða sjónarmið n. í stórum dráttum. Mun ég fyrst skýra nokkuð einstakar tillögur n. til viðbótar því, sem segir í nál., síðan ræða horfur um tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári og loks ræða nokkuð möguleika til samdráttar í útgjöldum ríkissjóðs, fjármálaþróun síðustu ára og framtíðarhorfur.

Svo sem hv. þingmenn sjá, felur meginhluti tillagna meiri hl. fjvn. í sér útgjaldahækkun fyrir ríkissjóð. Óskir þær, sem n. bárust um margvísleg fjárframlög úr ríkissjóði, nema þó margfaldri þessari upphæð. Margar ríkisstofnanir leituðu samþykkis n. fyrir ráðningu nýrra starfsmanna, en augljóst er, að n. hefur enga aðstöðu til þess að meta þarfir einstakra stofnana að þessu leyti og telur, að rn. verði að meta þarfir ríkisfyrirtækja fyrir nýtt starfsfólk. Hefur því n. í sínar till. aðeins tekið örfáa starfsmenn, sem fjmrn. hefur þegar samþykkt. Mun ég síðar víkja nokkuð að launamálum ríkisins almennt.

Fyrir Alþ. liggur nú frv. frá ríkisstj., sem gerir ráð fyrir mjög aukinni þátttöku ríkissjóðs í rekstrarkostnaði sjúkrahúsa víðs vegar um land. Þótt frv. þetta sé ekki enn orðið að lögum, þótti n. óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir þessum viðbótarútgjöldum fyrir ríkissjóð, þar sem ætla má, að frv. verði samþ. Leggur n. því til, að rekstrarstyrkur til sjúkrahúsa verði hækkaður um 600 þús. kr. Er þetta þó ekki nema nokkur hluti af gjaldaauka ríkissjóðs vegna þessara væntanlegu laga, því að styrkurinn er greiddur eftir á, og koma því aukaútgjöld þessi ekki með fullum þunga á ríkissjóð fyrr en árið 1955, en þá má ætla, að útgjöld á þessum lið geti orðið um 1750 þús. kr. Þykir hins vegar ekki verða hjá því komizt, að ríkissjóður leggi þennan skerf til sjúkrahúsanna, því að héruðunum er yfirleitt að verða um megn að standa undir rekstrarhalla sjúkrahúsanna. Mikið er nú um sjúkrahúsabyggingar og ný sjúkrahús fyrirhuguð á ýmsum stöðum. Er ljóst, að ógerlegt er að fullnægja gjaldskyldu ríkissjóðs til þessara framkvæmda með því einnar millj. kr. framlagi, sem áætlað er í fjárlfrv., og hefur n. því lagt til, að þessi fjárveiting verði hækkuð um 1/2 millj. kr. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, að það hlýtur að kosta geysimikið fé, ef reisa á fullkomin sjúkrahús í öllum sýslum landsins og kaupstöðum, og því er mjög mikilvægt, að heilbrigðisstjórnin fylgist vel með framkvæmdum í sjúkrahúsamálum. Er það mikilvægt varðandi tilhögun alla og staðsetningar, þannig að sem bezt sé séð fyrir þörfum þjóðarinnar um sjúkrahúsakost, en um leið sé gætt fyllstu hagsýni. Auk tillagna landlæknis um fjárframlög til sjúkrahúsabygginga bárust n. ýmsar óskir um sérstakar fjárveitingar í þessu skyni, m.a. til sjúkrahúss á Blönduósi og til kaupa á húsi fyrir heilsuverndarstöð í Vestmannaeyjum. Fjvn. hefur ekki skipt fé því, sem veitt er á þessum lið, til einstakra sjúkrahúsa, læknisbústaða eða sjúkraskýla, og mun ekki heldur gera það nú, heldur ætlar ríkisstj. að gera það með hliðsjón af því, hvar þarfirnar eru brýnastar.

Vegna aðildar Íslands að sóttvarnarsamningi þeim, sem verið hefur til meðferðar nú á þessu þingi, er áætlað, að útgjöld vegna tollbáta aukist um allt að 70 þús. kr. á næsta ári og kostnaður vegna sóttvarna við erlend skip hækki einnig verulega. Á móti mun það koma, að útgjöld íslenzkra skipa í erlendum höfnum minnka hvað snertir hliðstæð gjöld. N. telur rétt að athuga, hvort ekki sé rétt að hækka afgreiðslugjöld skipa þannig, að hægt sé að verulegu leyti að vinna upp þennan tekjulið.

Í fjárlfrv. voru framlög til vega-, brúar- og hafnargerða lækkuð um 4 millj. frá fjárl. þessa árs. N. telur með engu móti mega lækka fjárframlög til þessara mikilvægu framkvæmda, sem eru undirstaða þess, að við geti haldizt byggð og atvinnulíf þróazt víðs vegar um landið. Hefur því n. lagt til, að fjárveitingar til þessara framkvæmda hækki samtals um 5 millj. kr. Hefur n. að venju skipt þessu fé svo sem brtt. á þskj. 240 bera með sér.

Í sambandi við hækkun fjallvegafjár um 150 þús. kr. skal það tekið fram, að n. hefur hér sérstaklega í huga tvo fjallvegi, Múlaveg fyrir Ólafsfjarðarmúla og Vestfjarðaveg. Mér er nú ekki fullkunnugt um, hvað vegurinn er kallaður, en það mun naumast valda misskilningi, hvað hér sé við átt. Hvorugur þessara vega er kominn í þjóðvegatölu, en hér er um mikilvægar samgönguleiðir að ræða milli héraða, sem því ekki geta talizt sýsluvegir, og telur n. rétt að greiða fyrir þessum framkvæmdum.

Þá hefur n. tekið upp fjárveitingar til nokkurra ræktunarvega og til vegalagningar á landi ríkissjóðs í Kópavogi, svo sem er í fjárl. þessa árs. Liðurinn til ferjuhalds lækkar um 30 þús. kr. í samráði við vegamálastjóra.

Ýmsir gamlir þjóðvegir eru nú orðnir mjög illa farnir og brýn nauðsyn á endurbyggingu þeirra. Hefur þó yfirleitt ekki verið talið fært að veita nýbyggingarfé til þessara framkvæmda, og vegamálastjóri hefur á hinn bóginn talið mjög erfitt að nota viðhaldsfé í þessu skyni. Leitaði vegamálastjóri nú eftir einnar millj. kr. fjárveitingu til endurbyggingar þjóðvega. Vegna hækkunar á nýbyggingarfénu taldi n. ekki auðið að veita viðbótarfjárveitingu í þessu skyni, en lækkaði hins vegar fjárframlagið til viðhalds þjóðvega um 1/2 millj. kr. og leggur til, að þeirri upphæð verði varið til endurbyggingar þjóðvega. Er þessi brtt. gerð í samráði við vegamálastjóra.

Fjvn. leggur til, að framlag ríkisins til lánasjóðs stúdenta verði hækkað um 100 þús. kr. Með stofnun lánasjóðsins er gert ráð fyrir að létta í framtíðinni af ríkissjóði styrkjum til háskólastúdenta við nám hér heima. Felur lánasjóðurinn tvímælalaust í sér mjög heilbrigða stefnu og því nauðsynlegt að stuðla að því, að hann geti sem fyrst orðið fær um að sinna hlutverki sínu. Óskað var eftir 500 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni samtals. N. hefur ekki séð sér fært að taka upp alla þá fjárhæð, en væntir þess, að hægt sé að einhverju leyti að leysa fjárþörf sjóðsins með lántöku.

Skuldir ríkissjóðs vegna skólabygginga munu nú nema um 14 millj. kr., þar af 10 millj. vegna barnaskóla, 3 milljónir vegna gagnfræðaskóla og 1 milljón vegna húsmæðraskóla. Hefur mjög verið sótt á um aukna fjárveitingu, en n. ekki séð sér fært að hækka hana að öðru leyti en því, að framlag til byggingar húsmæðraskóla er hækkað um 300 þús. kr., sem aðallega er vegna mikilla endurbóta á tveimur húsmæðraskólum.

Á 16. gr. er tekinn upp nýr liður til þess að koma upp sýningarreitum í jarðrækt, námskeiðum í því sambandi og til tilraunastarfsemi varðandi fiskiðnað, samtals 750 þús. kr. Breytingar mun þurfa að gera á orðalagi þessa liðar, og er því þessi till. tekin aftur til 3. umr., og mun ég ekki skýra hana frekar nú. Aðrar brtt. við 16. gr. munu ekki þurfa skýringa við umfram það, sem segir í grg. meiri hl. n.

Hæstu útgjaldatillögur n. eru viðbótarframlög til almannatrygginga, að upphæð 2 millj. 350 þús. kr., og hækkun fjárveitinga til dýrtíðarráðstafana um 2 millj. og 400 þús. kr. Tryggingastofnun ríkisins hefur sótt mjög á um það, að ríkið taki á sig allan áætlaðan halla Tryggingastofnunarinnar á næsta ári, sem er talinn verða allt að 7 millj. kr. N. telur ekki fært að mæla með því, að raskað sé því greiðsluhlutfalli, sem nú er milli ríkissjóðs og annarra gjaldenda almannatrygginganna, en telur það atriði verða að takast til athugunar í sambandi við endurskoðun tryggingalaganna, sem ætla má að fari fram á næsta ári.

Svo sem hv. þingmönnum er kunnugt, tók ríkissjóður á sig verðhækkun þá á mjólk, sem varð á s.l. hausti, og hafa þessar niðurgreiðslur í för með sér útgjaldahækkun, sem áætlað er að muni nema um 2.4 millj. kr. á næsta ári.

Hinn nýi menntaskóli að Laugarvatni er nú tekinn til starfa af fullum krafti, en mjög skortir enn á nauðsynleg húsakynni, og er lagt til, að 250 þús. kr. verði varið til byggingar menntaskólahúss á Laugarvatni á næsta ári.

Starfsskilyrði kennaraskólans eru fyrir löngu orðin óviðunandi, og er brýn nauðsyn að koma upp nýju skólahúsi. Leggur n. til, að áætluð fjárveiting í þessu skyni verði hækkuð um 250 þús. kr.

Í nál. meiri hl. fjvn. er ekki víkið að till. n. til viðbótar við heimildagrein fjárl., og vil ég víkja að einstökum atriðum þeirra tillagna nokkrum orðum. Till. þessar eru á þskj. 242, og er lagt til, að þar hæfist nokkrir nýir liðir við heimildagrein fjárlaganna.

Í fyrsta lagi er um það að ræða að verja allt að 220 þús. kr. úr ríkissjóði til niðurgreiðslu vaxta af viðreisnarláni, sem tekið verður fyrir hönd bænda á garnaveikisvæðinu milli Lónsheiðar og Öxarfjarðar. Gert er ráð fyrir því, að tekið verði í þessu skyni lán allt að 4.5 millj. kr., sem væntanlega verður tekið í Búnaðarbanka Íslands, og er ætlunin, að láni þessu verði varið til bústofnskaupa fyrir þá bændur á þessu svæði, sem hafa orðið fyrir þyngstum búsifjum vegna garnaveikinnar. Lán þetta verður hins vegar með þeim kjörum, að brýn nauðsyn þykir til þess að létta undir með bændum að því leyti að greiða hluta af vöxtum af láninu, því að ætla má, að vextirnir verði um 7%, en það þykir sanngjarnt að greiða þá niður, þannig að bændur þurfi ekki við þessi bústofnskaup sín að greiða hærri vexti en sem svarar þeim vöxtum, sem teknir eru í fastadeildum Búnaðarbankans, en það eru rúm 2%, eða um 21/2%, sem mundi koma út, ef þessi niðurgreiðsla ætti sér stað.

Í öðru lagi er lagt til að veita ríkisstj. heimild til að verja allt að 5 millj. kr. til að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu, og er hér um að ræða jafnháa heimild og er í fjárl. þessa árs. Fé það, sem veitt hefur verið í þessu skyni síðustu tvö árin, hefur orðið að mjög miklum notum og bætt viða úr brýnni þörf og stuðlað að því að viðhalda því jafnvægi í byggð landsins, sem þjóðinni er svo mikil nauðsyn á. Mun naumast þurfa að efa, að allir hv. þm. séu hér á einn máli.

Þá hefur n. einnig talið rétt að leggja til, að heimilað verði að verja hugsanlegum umframtekjum flugvallanna á næsta ári til nýrra flugvallagerða. Sýnist mjög eðlilegt að verja nettótekjum flugvallanna til þessara mjög mikilvægu framkvæmda í þágu flugsamgangna í landinu.

Samkvæmt l. nr. 11/1951 er gert ráð fyrir að leggja niður alla minkarækt í landinu, og er óhjákvæmilegt að greiða eigendum minkabúa einhverjar bætur vegna þessarar löggjafar. Ekki er enn fullljóst, hversu há sú upphæð kann að verða, en lagt er til að heimila ríkisstj. að verja allt að 250 þús. kr. í þessu skyni.

Nauðsynlegt þykir að stuðla að því, að Sölufélag garðyrkjumanna geti komið upp söluskála fyrir framleiðsluvörur sínar, og er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að lána sölufélaginn allt að 300 þús. kr. til þessarar byggingar, sem gert er ráð fyrir að kosti alls um 1200 þús. kr.

Samkvæmt núgildandi l. greiðir ríkissjóður helming hitakostnaðar héraðs- og húsmæðraskóla. Flestir þessara skóla njóta jarðhita, en hitakostnaður þeirra skóla, sem ekki hafa þessi þægindi, er miklum mun hærri. Þykir sanngjarnt, að ríkissjóður taki nokkurn þátt í aukaútgjöldum þessara skóla, og er því lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að greiða 3/4 hluta hitakostnaðar þessara skóla, sem ekki búa við jarðhita, en það munu vera tveir héraðsskólar og fjórir húsmæðraskólar.

Þá er lagt til að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 550 þús. kr. rekstrarlán fyrir samband íslenzkra byggingarfélaga, en í sambandi þessu eru samvinnubyggingarfélög og verkamannabústaðafélög. Í fjárlögum ársins 1947 var heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast 750 þús. kr. rekstrarlán, en sú upphæð er orðin alveg ófullnægjandi. Sambandið hefur með höndum ýmis innkaup fyrir félögin og starfrækir verkstæði. Hefur þessi starfsemi faríð vaxandi, og nú er t.d. fyrirhuguð framleiðsla á aluminiumgluggum og ýmis önnur starfsemi, sem krefst aukins fjár.

Ég hef þá lokið athugasemdum mínum við gjaldabálkinn, en vil aðeins bæta því við, að enn liggja óafgreidd hjá n. nokkur erindi, er snerta gjaldabálkinn, og enn fremur mun n. samkvæmt venju ekki leggja fram brtt. sínar við 18. gr. fyrr en við 3. umr. fjárl. Þá hefur n. heldur ekki gert neina till. um fjárveitingu til flóabáta, því að samvn. samgm. mun gera till. um heildarupphæð og skiptingu þess fjár.

Brtt. n. við gjaldabálk frv. hækka það samtals um 15837754 kr. Gjaldahækkun er 17193054 kr., en gjaldalækkun 1355300 kr., þannig að gjaldahækkunin verður að frádreginni lækkuninni samtals 15837754.

Greiðslujöfnuður á frv. er hagstæður um aðeins rúmar 1.6 millj. kr., svo að það hrekkur skammt fyrir þeirri útgjaldahækkun, sem leiðir af till. n. Árið 1952 urðu rekstrartekjur ríkissjóðs rúmar 420 millj. kr., en eru áætlaðar í þessa árs fjárl. rúmar 418 millj. Þótti sú tekjuáætlun óvarleg, en leiddi af verkfallinu í fyrra, sem jók útgjöld ríkissjóðs um nær 2 milljónatugi. Í frv. fyrir 1954 eru rekstrartekjur áætlaðar 427 millj. kr.

Í lok októbermánaðar voru rekstrartekjur ríkíssjóðs orðnar 363 millj. kr. Þar af eru tekjur af söluskatti, verðtolli og vörumagnstolli 200 millj. kr. og tekjur af ríkisstofnunum rúmar 86 millj. kr. Þessir tekjustofnar eru þeir einu, sem ætla má að fari fram úr áætlun, svo að nokkru nemi. Þess ber þó að gæta, að af tolltekjum þessa árs verða um 25 millj. kr. tollar af efnum og vélum til stórfyrirtækjanna þriggja, virkjananna og áburðarverksmiðjunnar, og er ekki hægt að gera ráð fyrir hliðstæðum tekjum á næsta ári. Þess ber einnig að gæta, að árið í ár er mjög gott tekjuár hjá almenningi og mjög mikill innflutningur. Er því naumast vogandi að gera ráð fyrir betri afkomu á næsta árl. Vegna mikilla tekna almennings á þessu ári má gera ráð fyrir, að tekju- og eignarskattur yrði á næsta ári verulega hærri en áætlað er í frv., en vegna fyrirhugaðrar skattalækkunar er útilokað að hækka þann tekjulið.

Meiri hl. n. leggur til að hækka ýmsa tekjuliði frv. um 16.6 millj. kr., og miðað við horfurnar nú og reynslu síðasta árs og ársins í ár er augljóst, að gera verður ráð fyrir mjög góðu árferði, til þess að ekki verði greiðsluhalli hjá ríkissjóði, og verður þó að gera ráð fyrir, að ekki verði um að ræða neinar teljandi umframgreiðslur og ekki komi til launahækkana eða hækkunar á vísitölu. Það eina, sem réttlætir svo háa tekjuáætlun, er í rauninni það, að kaupgjaldsvísitala og verðlag er nú orðið stöðugra en áður hefur verið, þannig að fært hefur þótt að miða fjárlfrv. fyrir 1954 við sömu kaupgjaldsvísitölu og fjári. í ár. Gefur það vissulega betri vonir um heilbrigðari þróun í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar, ef tekst að hafa hemil á verðbólguskrúfunni.

Síðasta áratug hafa fjárl. farið mjög hækkandi með hverju ári. Enn stefnir að vísu í þá áttina, en þó gætir nú meiri stöðvunar, og hækkanir eru á tiltölulega fáum liðum. Hækkun á launaliðnum frá núgildandi fjárl. er 1–2%, en þessi liður hefur valdið hvað mestri hækkun á undanförnum árum, enda eru laun langstærsti liðurinn í útgjöldum ríkissjóðs. Þess má þó geta, að kaupgjaldsvísitala hefur síðan hækkað um 1 stig, sem ekki er reiknað með í frv., að því er mér skilst, en eitt vísitölustig mun nema fyrir ríkissjóð í launum 800–900 þús. kr.

Haustið 1952 var gerð athugun á launagreiðslum ríkissjóðs. Laun fastra starfsmanna voru þá að meðtalinni 6% greiðslu í lífeyrissjóð um 120 millj. kr. Þar við bætíst aukavinna og laun samkvæmt kjarasamningum um 36 millj. kr. Hækkun vegna afleiðinga verkfallsins var áætluð rúmar 3 millj. kr. Samtals eru þá launagreiðslurnar um 160 millj. kr. Og þegar þess er gætt, að hækkun vísitölu um eitt stig nemur fyrir ríkissjóð um 800–900 þús. kr. útgjaldaaukningu, gefur það auga leið, að ekki þarf að verða um miklar breytingar að ræða á vísitölunni, til þess að það valdi stórfelldum gjaldaauka fyrir ríkissjóð.

Fjvn. gerði á síðasta þingi allmiklar athugasemdir um launagreiðslur ríkisins. N. hefur ekki séð ástæðu til þess að leggja mikla vinnu í slíka athugun nú, þar sem hinar almennu athugasemdir nefndarinnar þá eru enn í fullu gildi, enda sýnast því miður slíkar athugasemdir ekki hafa mikil áhrif. Hljóta enda ráðuneytin að verða að hafa eftirlit með því, að ekki sé óeðlilega mikið mannahald hjá ríkisstofnunum, en rétt þykir þó að vekja athygli á því, að sá háttur virðist vera ískyggilega tíðkaður, að stofnanir ráði starfsfólk, þótt ráðuneyti hafi synjað beiðni um það. Verður auðvitað að koma í veg fyrir, að slíkt eigi sér stað, ella kemur eftirlit ráðuneytanna að litlu haldi.

Ef með eru taldar till. fjvn., þá eru aðalhækkanirnar þessar frá núgildandi fjárl.: Utanríkismál (sendiráðið í Moskva) 1 millj. Sjúkrahúsastyrkir 0.6 millj.

Bygging sjúkrahúsa 0.5 millj.

Verklegar framkvæmdir 1 millj.

Skipaútgerð ríkisins 1.5 millj.

Kennslumál 2.2 millj.

Jarðræktarstyrkir 1 millj.

Rannsóknir á tilraunastarfsemi í landbúnaði og sjávarútvegi 1.5 millj.

Raforkumál 7 millj.

Almannatryggingar 2.3 millj.

Dýrtíðargreiðslur 9.1 millj.

Aðalútgjaldalækkun er við sauðfjárveikivarnir, en kostnaður við þær er áætlaður rúmum 7.4 millj. kr. lægri en í þessa árs fjárl. Sauðfjársjúkdómarnir hafa kostað ríkissjóð feikna útgjöld, en vonandi hefur nú tekizt að útrýma þessum vágestum, og ætti þessi útgjaldaliður þá að lækka enn verulega á næsta ári.

Undanfarin ár hefur hinn sívaxandi rekstrarkostnaður ríkisins og hækkun lögboðinna framlaga valdið því, að hlutur hinna verklegu framkvæmda hefur orðið æ minni. Er sú þróun mjög óheppileg, og telur n. mikilvægt, að hægt sé að bæta þessi hlutföll. Hlutur hinna verklegu framkvæmda batnar þó töluvert vegna stefnu ríkisstj. í raforkumálum og vegna till. n. um að hækka framlög til vega, brúa og hafna um 1 millj. kr., sem er þó lítil upphæð miðað við heildarútgjöld ríkissjóðs.

Framlög til kennslumála hækka ár frá ári. Barnakennurum mun fjölga um 17–25 á ári hverju og kennurum við gagnfræðaskóla um 10. Árið 1951 urðu framlög til kennslumála rúmar 46 millj. kr., árið 1952 tæpar 54 millj., 1953 áætluð tæpar 56.5 millj. og 1954 áætluð 59.5 millj. Nemendum fjölgar árlega, og má því án efa gera ráð fyrir svipaðri þróun næstu ár.

Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir n. hafa legið frá Tryggingastofnun ríkisins, hafa áætlanir þær um barnafjölda og fjölda gamalmenna, sem lagðar voru til grundvallar við upphaflega áætlun um rekstur stofnunarinnar, reynzt rangar, þannig að horfur eru á miklum rekstrarhalla hjá Tryggingastofnuninni. Ríkissjóður greiðir nú yfir 40 millj. kr. til trygginganna, en yrði farin sú leið, sem forstjóri Tryggingastofnunarinnar hefur lagt til, að ríkissjóður greiddi allan hallann, er ófyrirsjáanlegt, hversu þessi útgjaldaliður mundi hækka á næstu árum, en beðið er um, eins og ég áður gat um, allt að 7 millj. kr. viðbót á næsta ári.

Ýmis önnur lögboðin útgjöld ríkissjóðs vaxa einnig ár frá ári. Áður er vikið að skólabyggingunum, en þar skuldar ríkið nú 14 millj. kr. Jarðræktarstyrkir hækka með auknum jarðabótum. Margra milljóna útgjöld eru áfallin eða fyrirsjáanleg vegna sjúkrahúsabygginga, og ný útgjöld eru að myndast vegna rekstrarstyrkja til sjúkrahúsa, og þannig mætti lengi telja.

Dýrtíðargreiðslurnar eru að verða mjög tilfinnanlegur útgjaldaliður fyrir ríkissjóð. Við gengisbreytinguna losnaði ríkissjóður við útflutningsuppbæturnar, en greiðslur ríkissjóðs til að halda niðri vísitölunni hafa síðan aukizt hröðum skrefum. Árið 1951 urð;i þessar greiðslur um 23 millj. kr., árið 1952 tæpar 28 millj., árið 1953 áætlaðar tæpar 37 millj. og 1954 áætlaðar tæpar 46 millj.

Ég hef rakið þessi atriði hér til þess að gefa hv. þm. nokkra mynd af því, hvar helzt sé um útgjaldaaukningu að ræða nú og væntanlega næstu ár að óbreyttri löggjöf.

Fjvn. hefur ekki nú fremur en undanfarin ár gert till. um sparnað eða lækkun útgjalda ríkissjóðs, svo að neinu verulegu nemi. Þótt allir ábyrgir menn hljóti að vera sammála um nauðsyn þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, sem er frumskilyrði varanlegra skattalækkana, þá hafa fæstir gert nokkrar raunhæfar till. um þetta atriði.

Ég hef bent á það, sem raunar er ekki nýr sannleikur, að meginhluti útgjalda ríkissjóðs eru laun starfsmanna og framlög, sem ákveðin eru með lögum. Með hliðsjón af þeirri ákvörðun stjórnarflokkanna að samþykkja skattalækkun á þessu þingi, sýnist mér óhjákvæmilegt, og ég hygg mig geta sagt það einnig fyrir munn n., að rækileg athugun fari fram á því, hversu draga megi úr rekstrarkostnaði ríkisins. Um þetta hlýtur ríkisstj. að verða að hafa forgöngu, því að það er með engu móti hægt að ætlast til þess, að fjvn., sem á 6–7 vikum á að fara í gegnum allt fjárlfrv. og afgreiða hundruð erinda auk starfa nm. á þingi, geti framkvæmt þær yfirgripsmiklu rannsóknir, sem gera þarf í þessu sambandi. Vel tel ég þó geta komið til mála, að formaður fjvn. verði hafður með í ráðum við slíka athugun, og raunar tel ég, að það mundi mjög greiða fyrir störfum fjvn., ef formaður hennar fylgdist með undirbúningi fjárlfrv. í fjmrn. og ráðh. hefði samráð við hann um samningu þess. Ég tek fram, að þetta síðasta atriði er mín persónuleg skoðun, en málið hefur ekki verið rætt í n.

Verði ráðstafanir ekki gerðar til þess að stöðva útgjaldahækkun ríkissjóðs, er sýnilegt, að jafnvel við samningu næstu fjárlaga verður sprengdur sá rammi, sem tekjurnar setja. Fyrir þá hættu verður að girða, því að ég geri ekki ráð fyrir, að sú skoðun hafi mikið fylgi innan þings eða utan, að hægt sé að leggja auknar álögur á þjóðina, enda beinlínis ákveðið að stefna nú í öfuga átt. Þessa staðreynd verða menn að gera sér ljósa.

Þótt mjög sé haldið uppi gagnrýni vegna hárra útgjalda ríkissjóðs, þá er það oftast meir í orði en á borði. Með ári hverju vaxa kröfurnar á hendur ríkissjóði um aukin útgjöld, og þau samtök munu vart finnanleg í landinu, sem ekki hafa styrk frá ríkissjóði eða hafa a.m.k. beðið um hann. Þessi hugsunarháttur verður auðvitað að breytast, ef unnt á að vera að lækka verulega útgjöld ríkissjóðs. Það verður líka áreiðanlega enginn leikur að koma fram lækkun ríkisútgjalda, því að flestir munu með oddi og egg halda í þær fjárveitingar, sem þeir nú hafa. Eigi sparnaðartill. að hafa nokkurt gildi, verður að framkvæma þær. Fyrir nokkrum árum var starfandi sparnaðarn., sem í sátu ýmsir af beztu og fróðustu embættismönnum ríkisins á sviði fjármála. Sú nefnd gerði ýmsar eftirtektarverðar till., m.a. skyldu ýmsir embættismenn afhenda bifreiðar, sem ríkið átti og þeir höfðu til afnota. Aðeins einn mun hafa afhent sinn bíl, og við það sat.

Ég mun ekki hafa þessi orð mín fleiri nú, en framsöguræður hv. minni hl. n. gefa án efa tilefni til andsvara af minni hálfu. Ég legg aðeins að lokum áherzlu á það, sem ég veit að meginhluti hv. þm. er mér sammála um, að greiðsluhallalaus fjárlög eru einn af hornsteinum heilbrigðrar efnahagsþróunar í þjóðfélaginu. Og í samræmi við það sjónarmið hefur meiri hl. fjvn. starfað. Hefur því ekki nema að nokkru leyti verið unnt að verða við þeim óskum um fjárveitingar, sem til n. hafa borizt, bæði frá hv. þm. og ýmsum öðrum aðilum, en þó telur n. sig hafa gengið það langt, að ekki verði lengra farið nema með því að tefla afkomu ríkissjóðs í mikla hættu. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 3. umr.