08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

1. mál, fjárlög 1954

Fram. 1. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjvn. hefur nú sagt frá aðaltill. n., sem hún gerði sameiginlega, og sagt frá vinnubrögðum n., og get ég tekið undir það með honum, að samkomulag hefur verið hið bezta í n. Það, sem kann að kastast í kekki út af samstarfinu, mundi þá helzt gerast við þessa umr. og sennilega þó aðallega í eldhúsdagsumr., sem fram eiga að fara við 3. umr. fjárl. En þá kemur fyrst og fremst meira til umr. það, sem okkur greinir á um í sambandi við afgreiðslu fjárl., heldur en hitt, sem við erum sammála um.

Við erum allir í n. sammála um till. fjvn., sem útbýtt hefur verið á þskj. 240, svo langt sem þær till. ná. Í ýmsum tillöguliðum hefði ég þó viljað ganga lengra, og einstaka till. eru þar að vísu, sem ég hefði ekki talið til bráðnauðsynlegra útgjalda og hefði getað fallizt á að ekki hefðu verið bornar fram. Eins og hv. frsm. skýrði frá, hækka gjöld fjárlfrv. um rúmar 15 millj. við þessar till., og hefur hv. meiri hl. n. séð leið til þess að mæta þessum auknu útgjöldum með því að líta undir lokið hjá hæstv. fjmrh., vitandi það, að þar voru þeir tollar og skattar, sem á þjóðina eru lagðir lögum samkvæmt, vitanlega hærri en þeir eru áætlaðir og útfærðir í tölum á tekjuhlið fjárl. Hv. meiri hl. fjvn. varð því í samráði við hæstv. fjmrh. og ríkisstj., að ég hygg, engin skotaskuld úr því að finna 16 millj. kr. hækkunarmöguleika í tekjubálki fjárl. til þess að jafna þann halla, sem orðið hafði af auknum útgjaldatill. n., og verð ég að segja, að það er engum efa undirorpið, að þetta er fullforsvaranleg aðferð hjá hv. meiri hl. fjvn., enda hefði hæstv. fjmrh. aldrei lagt blessun sína yfir það að öðrum kosti. Hann veit, að hann á þarna í handraðanum a.m.k. þessar 16.6 millj. kr., sem nú á að sækja í tekjubálk fjárl., og vitanlega á hann þar meira til.

Margsinnis hefur því verið haldið fram af mér hér mörg undanfarin ár, að nálega allir helztu tekjuliðir fjárl. væru áætlaðir of lágt. Það er ekki óviljaverk, og það er ekki af því, að menn viti ekki nokkurn veginn, hvernig þessir tekjuliðir leggi sig. Menn áætla þetta á þann hátt, að menn rannsaka, hversu þessir liðir hafi breytzt, hækkað eða lækkað, nokkur undanfarin ár, hvort þeir hafi orðið hærri en í fjárlagaáætlun, og síðan er borið saman, hvernig þeir liti út á yfirstandandi ári, og ef þeir eru þá ekki heldur á niðurleið, heldur á uppleið, þá þykir öllum nokkuð auðsætt, að það megi byggja á þessum samanburði undanfarinna ára með hliðsjón af yfirstandandi ári, og byggja síðan upp áætlun næsta árs með tilliti til þess, ef ekki örlar á neinum gerbreytingum, sem valdi þarna straumhvörfum. Þessum áætlunum hefur verið haldið langt fyrir neðan það, sem allar skynsamlegar ályktanir, byggðar á þessari athugun, sem ég nú gerði grein fyrir, hafa gefið fullt tilefni til að áætla þessa liði. Og í hvaða tilgangi er þetta gert? Það hefur verið í fyrsta lagi gert af ríkisstj. til þess að hafa meira olnbogarúm til þess að fara yfir fjárlagaheimildir um útgjöld. Og því miður ber allt of mikið á því, að farið sé fram yfir útgjaldaheimildir í fjárl., svo að það fer að skipta mjög mörgum milljónatugum á hverju ári, og er auðvitað með þessu sniðgengið fjárveitingavald Alþ., sem á að vera í höndum þess, en ekki hæstv. ríkisstj. Til þess eru fjárl. gerð og samin. Í annan stað er það vafalaust gert til þess að dylja þjóðina eins lengi og hægt er, hve mörg hundruð milljóna séu lögð á þjóðina í tollum og sköttum. Sagt er í áætluninni, að þeir séu ekki nema 325 millj., þegar þeir geta kannske orðið 350–360 millj. Í þriðja lagi er þetta gert til þess að geta þrengt meira að verklegum framkvæmdum, segjandi sem svo: Þið sjáið tekjuhliðina á fjárl. Hún er ekki hærri en þetta. Hún leyfir ekki meiri útgjöld á gjaldabálknum en hér er ákveðið af meiri hl. Alþ. og ríkisstj., og þess vegna verðum við að skera verklegar framkvæmdir niður. — Þessi feluleikur með réttar tekjur ríkissjóðsins er vitanlega gerður í þessum tilgangi, og þegar þetta gerist ár eftir úr, hvernig sem fram á þetta er sýnt, þá er þetta ekki óviljaverk, heldur vitandi vits, og skýringin er þessi, sem ég nú hef gefið, en jafnóforsvaranlegt er þetta að öllu leyti, því að með þessu er verið að lítilsvirða Alþ. Það er verið að fótumtroða rétt þingsins, fjárlagaþingsins, löggjafarþingsins, til þess að setja fjárl. og marka þannig ramma fyrir því, hvaða útgjöld ríkisstj. megi greiða úr ríkissjóði á hinu komandi fjárlagaári. Það nær vitanlega ekki nokkurri átt t.d. með áætlun um tekjur ríkisstofnana, þ.e.a.s. áfengisverzlunar og tóbakseinkasölu, þegar sá liður fer á árinu 1951 15 millj. kr. fram úr áætlun og árið ettir rúmar 10 millj. fram úr áætlun samkvæmt ríkisreikningi 1952. Þetta er að skapa sér sjálfum í raun og veru fjárveitingavald. Þessum upphæðum er svo varið án heimildar fjárlaga. Þarna er á þessum tveim póstum á 2 árum um 25 millj. kr. skekkju milli ríkisreiknings og fjárlagaáætlunar að ræða.

Hv. frsm. meiri hl. fjvn. gat um það, að í fjárlfrv. hefðu verið lækkaðar fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Þetta nam þeim upphæðum, sem nú skal greina. Í fjárlfrv. var ætlað 8 millj. og 100 þús. kr. til nýrra akvega á næsta ári, en í fjárl. síðasta árs hafði þessi fjárveiting verið 10 millj. 105 þús. kr. Til brúargerða var áætlað í frv. 3 millj. og 100 þús. kr., en í gildandi fjárl. ársins 1953 4 millj. 65 þús. kr. Og til vitamála og hafnargerða var lagt til í frv. að fjárveitingin yrði 10 millj. 828 þús. kr., en í gildandi fjárl. er sú upphæð 11 millj. 617 þús. kr. Þannig var lagt til í frv. eins og það var lagt fyrir þetta hv. þing, að fjárframlög til nýrra akvega og brúa-, vita- og hafnarmála lækkuðu um 3.7 millj. kr., miðað við fjárl. yfirstandandi árs. Þetta hefði þýtt geysimikinn samdrátt verklegra framkvæmda, einkum þegar litið er á það, að kostnaður við allar verklegar framkvæmdir hefur stórkostlega hækkað, eins og skýrsla, sem vegamálastjóri hefur sent fjvn., ber ljóslega með sér. Þar er frá því skýrt, að kostnaður við framkvæmdir vega- og brúargerða hafi í sumum tilfellum hækkað um 102% frá árinu 1949. Tvöfaldast þannig kostnaðurinn frá því 1949 í einstökum tilfellum, og sýnir það, að samdráttur verklegra framkvæmda hefði orðið miklu stórfelldari en hin tölulega lækkun gefur bendingu um, ef þessar till. hæstv. fjmrh. um lækkun á framlögum til verklegra framkvæmda hefðu náð fram að ganga. Öll fjvn. var á þeirri skoðun, að þetta væri mjög svo óheppilegt og raunar ekki gerlegt, og þess vegna fór svo, að öll n. var sammála um að hækka þessar upphæðir til verklegu framkvæmdanna þannig, að samtals eru þær nú um 1 millj. kr. hærri en á fjárl. þessa yfirstandandi árs. Þó mun það verða þannig, að það verður minna hægt að framkvæma fyrir þessa fjárveitingu heldur en upphæðina á fjárl. núna vegna dýrtíðaraukningar.

Ég er sammála meiri hl. n. um það, að eins og sakir standa sé ekki rétt að gera till. um hækkanir á fyrsta tejkjulið fjárlfrv., þ.e.a.s. tekju- og eignarskattinum. Sakirnar standa, eins og hann greindi frá, þannig, að starfandi er milliþn. í skattamálum. Ríkisstj. hefur lofað að afgreiða ný skattalög á þessu þingi, og það er megininnihald allra stjórnarloforðanna í þessu efni, að skattar skuli lækkaðir. Þess vegna hefði jafnvel mátt búast við, að áætlunin um tekju- og eignarskattinn yrði að lækka í þessu fjárlfrv., en á móti því kemur það, að það er rétt, sem fjmrh. tekur fram í athugasemdum sínum við frv., að það má gera ráð fyrir því, að tekjur manna verði talsvert miklu hærri fjár heldur en á s.l. ári. Þetta leiðir til þess, að áætlunarupphæðin hefði eflaust mátt hækka um nokkrar millj. kr. að óbreyttum lögum.

Ég hef því ekki gert neina till. um tekju- og eignarskattinn, en sá liður er núna áætlaður í fjárlfrv. 59.9 millj. kr. Það verður svo að koma í ljós síðar á þessu þingi, þegar frv. mþn. í skattamálum sér dagsins ljós, hvort hægt verður að hækka þennan skatt eða hins vegar verður að lækka hann vegna þess, að svo vel verði staðið við loforð stjórnarinnar um skattalækkanir. En allt er það nú óséð enn þá.

Ég hef leyft mér að gera till. um, að vörumagnstollurinn verði áætlaður 25 millj. kr. Hann er á fjárlfrv. áætlaður 24 millj. Hann náði þeirri upphæð s.l. ár, 1952, og í októberlokin núna var komin inn af vörumagnstollinum 2 millj. kr. hærri upphæð en á sama tíma í fyrra. Allar líkur benda því til, að hann verði um það bil 2 millj. kr. hærri eða um 26 millj., en ég tel rétt að áætla hann 25 millj. kr. Það er þá innan þess ramm2 fyllilega, sem líkur benda til að hann verði.

Verðtollurinn er hæsti tekjustofn fjárl. Hann er núna í frv. áætlaður 110 millj., og hefur meiri hl. fjvn. lagt til, að hann verði hækkaður um 7 millj., verði áætlaður 117 millj. En eftir seinustu upplýsingum frá fjmrn. og endurskoðun ríkisins eru líkur til, að hann verði ekki undir 124 –125 millj. á yfirstandandi ári, og þess vegna virðist ekki óvarlegt að áætla hann á næsta ári 120 millj. kr., og legg ég til, að það sé gert; 4–5 millj. lægra en útlit er fyrir að hann verði á yfirstandandi ári. Það er vegna þess, að það er upplýst og vitanlega rétt, að í þessari geysiháu verðtollsupphæð liggja stórar upphæðir, sem komnar eru vegna virkjana Sogs og Laxár og vegna byggingar áburðarverksmiðjunnar, og má búast við, að úr þessu kippi á næsta ári. Þess vegna fellst ég á að áætla þennan tekjustofn 4–5 millj. kr. lægri en ég tel fullvíst að hann verði á yfirstandandi ári.

Innflutningsgjald af benzíni er í frv. áætlað 91/2 millj. kr. Það var í októberlokin s.l. orðið rúmlega 1/2 millj. kr. hærra en á sama tíma í fyrra, og virðast því líkurnar benda til þess, að þessi tekjustofn verði í ár um 10 millj., og ég hef áætlað, að á næsta ári verði hann um 10 millj. kr. Benzínnotkunin fer heldur vaxandi en minnkandi, og ekkert bendir til þess, að breyting verði á því á næsta ári.

Þá er það tekjuliðurinn „gjald af innlendum tollvörutegundum“. Það er áætlað 7 millj. og 200 þús. kr. í frv. Ég geri ráð fyrir, að það verði um 8 millj. kr. á þessu ári, og áætla það sama á næsta ári.

Þá er það liðurinn „aukatekjur“. Hann er áætlaður á frv. 4 millj. Meiri hl. n. telur óhætt að hækka hann um 500 þús., og ég hef áætlað, að það megi hækka hann um 600 þús. Það ber ekki mikið á milli okkar, aðeins 100 þús. kr., og tel ég, að þessar áætlanir okkar hvorar tveggja séu mjög nærri lagi og báðar þó varfærnislegar.

Stimpilgjaldið á samkv. frv. að gefa 9 millj. kr., en það gaf 9 millj. og 700 þús. kr. á árinu 1952, og í októberlok núna var það orðið 1.6 millj. kr. hærra en á sama tíma í fyrra. Samkv. því áætla ég það 10.6 millj. og tel það þó raunverulega neðan við það, sem líkurnar benda til að það verði, og það verulega.

Vitagjaldið er áætlað 1 millj. kr. Það áætla ég 1.3 millj. Í októberlokin var það komið upp í 1 millj. 270 þús., eða rétt upp undir 1 millj. og 300 þús. kr., og það er því vitað, að það verður á þessu ári ekki undir 1.5–1.6 millj. kr. Áætla ég það þannig 200–300 þús. kr. lægra á næsta ári en það er í ár, og sýnir það hina fyllstu varfærni.

Þá er það leyfisbréfagjaldið. Ég legg til, að það hækki úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr., þar sem nú vantar sáralítið upp á, að sú upphæð sé fyrir hendi í októberlok s.l., en meiri hl. hv. fjvn. hefur lagt til, að það hækki um sömu upphæð, þ.e.a.s. tvöfaldist, verði áætlað 200 þús. kr. í staðinn fyrir 100 þús. kr.

Útflutningsleyfisgjöld eru áætluð 500 þús. kr. í frv., en voru í októberlok orðin hærri en sú áætlunarupphæð, og virðist vera varlegt að áætla þau 100 þús. kr. hærri, þannig að þau verði 600 þús. kr.

Þá er komið að næsthæsta tekjulið fjárl., söluskattinum. Hann er áætlaður í fjárlfrv. 911/2 millj. kr., og meiri hl. n. hefur lagt til, að hann verði áætlaður 951/2 millj. kr. Það er vissulega mjög varfærnislega gert af hv. meiri hl., eins og vænta mátti, en af söluskattinum innheimtist í fyrra í nóvember- og desembermánuðum um 21 millj. kr., og núna í haust, í októberlok, var hann orðinn 10 millj. kr. hærri en á sama tíma í fyrra. Það lítur því fyllilega út fyrir, að hann verði ekki undir 110 millj. kr. í ár, og er ég þess vegna langt fyrir neðan þá upphæð, þegar ég áætla hann 100.5 millj. kr. á næsta ári, þ.e.a.s. 9 millj. kr. hærri en gert er í fjárlfrv., en 5 millj. kr. hærri en meiri hl. n. telur varlegt að gera. Ég tek þarna sama tillit eins og áðan með verðtollinn, að ég tel, að þarna lækki kannske nokkuð á næsta ári, vegna þess að lokið er virkjunum Sogs og Laxár og byggingu áburðarverksmiðju.

Leyfisgjöld — það er lítill liður í tekjubálki fjárl., 1.7 millj. kr. í frv. — voru í októberlok orðin 2 millj. 155 þús. kr. og þannig mun hærri en árið áður. Ég tel mjög varlegt að áætla þau 2.3 millj. kr. og leyfi mér að gera það.

Eins og kunnugt er, hafa tekjur af áfengisverzlun ríkisins og tóbakseinkasölu ríkisins ávallt verið hin síðari ár með hæstu tekjuliðum fjárl. Ég gat þess áðan sem dæmi um það, hversu mjög skeikaði áætlunarupphæðum og reikningsupphæðum oft og tíðum hin síðari ár, að 1951 voru 15 millj. kr. vanáætlaðar af tekjum þessara ríkisstofnana, áfengisverzlunar og tóbakseinkasölu. Það er nú þannig, að nú hafa aftur í fyrsta sinn verið áætlaðar talsvert miklu hærra tekjur tóbakseinkasölunnar heldur en undanfarið, enda þótti mér mjög fróðlegt að sjá bréf, sem lá fyrir fjvn. og hafði verið skrifað af forstjóra tóbakseinkasölunnar til fjmrh. í sumar. Ég tel þennan bréfkafla svo skemmtilegan og svo skýra og ótvíræða játningu á því, sem ég hef haldið fram undanfarin ár, að vitandi vits væru vanáætlaðir allir stærstu tekjuliðir fjárl., að ég get ekki stillt mig um að lesa upp kafla úr þessu bréfi forstjórans, með leyfi hæstv. forseta. Bréfkaflinn er svo hljóðandi:

„Viðvíkjandi áætlun tóbakseinkasölunnar fyrir árið 1954, þá hefur áætlunin verið hækkuð allverulega, eða upp í 30 millj. kr. úr 22 millj. kr. í fyrra (það er hækkun um 8 millj.). Hefur þannig sá háttur verið tekinn upp að færa áætlunina sem næst í samræmi við það, sem verða kann, enda þótt henni sé haldið nokkuð fyrir neðan það, sem reynast kann samkv. reikningnum.“

Þetta finnst mér vera skýr og skemmtileg játning á því, að þeir hafa vel vitað það undanfarin ár, að þeir voru ekki að gera sér far um að áætla tekjur þessarar stofnunar sem næst því, sem líkur væru til að þær yrðu, en nú á að taka upp þann hátt að færa áætlunina sem næst í samræmi við það. Og þó er tekið fram, að enn þá sé það gert þannig, að það kunni að verða nokkurt bil á milli áætlunar og reikningslegrar niðurstöðu. Þar með er sagt í raun og veru, að enn þá sé haldið sér a.m.k. við það, sem vera ber, að gera varlega áætlun, sem fyllilega muni standast. Það er gott út af fyrir sig. — Þetta var nú sú játning, sem lá fyrir í fjvn. frá forstjóra tóbakseinkasölunnar og upplýsir það, að nú muni áætlun tóbakseinkasölunnar vera nær lagi en áður.

En athugun á tekjum áfengisverzlunarinnar sýnir þó, að í októberlok s.l. voru þær orðnar 49.6 millj. kr., og reynsla undanfarinna ára sýnir, að áfengissalan í nóvember og desember er a.m.k. 10–12 millj. kr. báða mánuðina. Þetta sýnir okkur, að tekjur áfengisverzlunarinnar í ár, þ.e.a.s. nettótekjur, verða ekki undir 59–60 millj. kr., en á fjárlfrv. eru þær áætlaðar á næsta ári 52 millj. kr. Nú er ég fús til þess að taka það með í reikninginn, að það hafa verið samþykkt héraðabönn í 3 kaupstöðum landsins, og það er von ýmissa, að þessi ráðstöfun verði til þess að draga nokkuð úr vínneyzlu í þessum kaupstöðum. Það þýðir aftur, að það má búast við, að áfengisverzlun ríkisins verði fyrir nokkru áfalli um tekjur, nokkurri tekjurýrnun, vegna þessa, og þykir mér rétt að áætla frádrag, þegar nú væri gengið frá áætlunarupphæð fyrir árið 1954. Ég hef því aflað mér upplýsinga um það hjá bókhaldi áfengisverzlunar ríkisins, að áfengissala til Akureyrar, Ísafjarðar og Vestmannaeyja var s.l. ár tæpar 10 millj. kr. Nú vil ég gera ráð fyrir því, að áfengisverzlunin missi um helming þessara tekna á næsta ári og fái ekki nema 5 millj. kr. sölu úr þessum kaupstöðum. Ég vil því draga frá 59 milljónum 5 millj. kr., og þá eru eftir 54 millj., og það tel ég ákaflega varlegt að áætla tekjur Áfengisverzlunar ríkisins næsta ár og geri það. Hv. meiri hl. n. hefur áætlað þessa upphæð 53 millj. Er þarna um að ræða lítils háttar hærri upphæð hjá mér, enda hef ég þá gert þarna mikið frádrag vegna héraðabannanna. Sumir vilja að vísu halda því fram, einmitt í stjórnarliðinu, að þessi ráðstöfun um héraðabönn muni kannske ekkert draga úr áfengisneyzlu, og ef farið væri eftir þeirra skoðun, þá ætti að mega hækka þessa áætlun enn þá um allt að 5 millj. kr., en það geri ég nú ekki.

Tekjur ríkisins af tóbakseinkasölu virðast fara hraðvaxandi. Á þessa árs fjárl. eru þær áætlaðar 35 millj. kr. nettó, en á frv. núna eru þær 4 millj. hærri en í fyrra, eða 39 millj. Nú í októberlok eru nettótekjur ríkissjóðs orðnar 37 millj., og reynsla undanfarinna ára sýnir það nokkur ár í röð, að tekjurnar af nóvember- og desembermánuði eru 5–6 millj. kr. Það má því telja víst, að tekjur tóbakseinkasölunnar verði 42–43 millj. í ár, og það eru engar líkur til, að sú upphæð lækki neitt á næsta ári, og áætla ég þessar tekjur því 43 millj. kr.

Þá eru nú taldar þær till. flestar, sem ég geri við hækkun tekjubálks fjárl., nema ég tel, að það sé forsvaranlegt að áætla, að póstsjóður verði rekinn hallalaust, og enn fremur, að tekjuliðirnir „vaxtatekjur“ og „óvissar tekjur“ verði hækkaðir lítillega, og hef ég gert það hvort tveggja með hliðsjón af niðurstöðum ríkisreikningsins 1951 og 1952. En í báðum þessum reikningum eru þessir liðir mun hærri en áætlunartölurnar í fjárlfrv.

Þá hef ég lagt til við gjaldabálkinn, að ýmiss konar kostnaðarliðir verði lækkaðir eða felldir niður. Ég hef þó ákaflega lítið farið út í þetta af þeim sökum, að ég er margsinnis búinn að gera á undanförnum árum víðtækari breytingar til lækkunar, en það hefur naumast komið fyrir, sennilega alls ekki komið fyrir, að nein þeirra hafi verið samþykkt af hv. stjórnarflokkum. Ég tel þess vegna alveg tilgangslaust að efast um, að sú stefna ríkisstj. að samþykkja ekki neina sparnaðartill. sé óbreytt enn, því að ég hef ekki séð neitt það, hvorki í samningu frv. né meðferð, sem bendi til þess, að hv. stjórnarflokkar séu búnir að taka upp nýja siði eða játast undir ný viðhorf að því er það snertir. Það er því nánast sem fyrirspurnir um ólíklega hluti til meiri hl. Alþ., að ég hef gert till. um nokkrar einstakar lækkanir, flestar smávægilegar, alls nokkuð á aðra millj. króna.

Ég legg t.d. til, að ríkisstj. láti sér nægja 100 þús. kr. til ferðakostnaðar og lækki áætlunarupphæðina um 70 þús. kr. Þessi liður er nú 170 þús. kr. En ég hef lagt þetta til áður en ég fór í gegnum gögn hjá fjvn., en þar sá ég ekki, að ríkisstj. hefði þurft að nota á s.l. ári nema 21200 kr., held ég, í þessu skyni.

Þá legg ég til, að kostnaður við alþjóðaráðstefnur lækki um 100 þús. kr. Í frv. eru ætlaðar til þessa hlutverks 500 þús., en ég legg til, að það verði 400 þús. kr., því að auk þess eru 200 þús. kr. áætlaðar vegna kostnaðar við alþjóðaráðstefnur á vegum annarra en utanrrn. og enn fremur 500 þús. kr. vegna samninga við erlend ríki. Í gögnum fjvn., sem ég fór gegnum síðar en ég gerði till., sé ég nú ekki, að ríkisstj. hafi þurft á árinu 1953 að verja nema 73 þús. kr. til kostnaðar vegna samninga við erlend ríki. Þar sem þessi upphæð virðist því hafa farið margfaldlega niður úr áætlun, þá sé ég ekki ástæðu til, að það standi í frv. heimild til þess að eyða 500 þús. kr. í þetta, ef normalkostnaður, er innan við 100 þús. kr.

Þá legg ég til, að felld verði niður fjárveiting til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju við Grundarfjörð, 175 þús. kr., af því að það er ekki vitað, að þetta hæli sé enn tekið til starfa. Auk þess hefur tvö undanfarin ár verið veitt fé á fjárl. til rekstrar þessa hælis, sem ekki er til, hvort árið um sig 125 þús. kr. Ég álít því, að það sé alveg að ófyrirsynju að áætla nú í þriðja sinn ekki aðeins 125 þús., eins og verið hefur tvö undanfarin ár, að óþörfu, heldur 175, og tel, að það beri að fella þetta niður.

Skipaskoðunin, löggildingarstofan og síldarmatið legg ég til að verði látið standa undir sér eins og öryggiseftirlit ríkisins, bifreiðaeftirlitið, eftirlit með skipulagi bæja og sjávarþorpa og matvælaeftirlitið, sem öll eru látin taka það gjald fyrir starf sitt, að tekjurnar standi undir rekstrarkostnaðinum. Ég fæ ekki annað séð en að þetta sé bara tilhögunaratriði, en þetta mundi þó spara ríkissjóði 500 þús. kr., ef þessar stofnanir væru látnar taka gjald fyrir sína þjónustu þannig, að það samsvaraði rekstrarkostnaðinum.

Fiskmatið hefur ár frá ári verið með stórkostlega hækkandi ferðakostnaðarupphæð. Núna á frv. er þessi ferðakostnaður hjá fiskmatinu kominn upp í 175 þús. kr. Ég hef ekki rekizt á eins mikinn ferðakostnað hjá nokkurri ríkisstofnun. Skil ég að vísu vel, að þarna þurfi mikið að ferðast, en ég held samt, að þarna sé ekki sparlega á haldið. Ég hef gert mér hugmyndir um, að það mætti kannske komast af með 100 þús. kr. í ferðakostnað hjá fiskmatinu, án þess að það gengi út yfir hlutverk stofnunarinnar. Ég skal líka segja það, að ég hef sjálfur séð, að óþarflega hefur verið lagt heldur ríflega í kostnað við að ferðast á vegum þessarar stofnunar, þar sem flugvél hefur verið tekin á leigu milli nálægra staða, þegar hægt hefði verið að komast annaðhvort á bilum eða öðruvísi.

Þar sem búið er að afnema húsaleigulögin og ekki er lengur neitt eftirlit með óhóflegri húsaleigu, þá þykir mér óskemmtilegt, að eftir standi bara skrifstofubáknið og taki til sín 130 þús. kr. á fjárl., og legg til, að sú upphæð hverfi þaðan.

Þá sé ég og, að undir menntamálaliðinn, sem menn fjargviðrast nú mjög um að fari hækkandi og hækkar óðfluga, er tekinn upp liður, sem heitir „fjármálaeftirlit á gagnfræðastiginu“, að upphæð 35 þús. kr. Í skýringum við fjárlfrv. segir, að þessu embætti sé m.a. ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd fræðslulaganna. Ég hafði staðið í þeirri meiningu sem kennari um áratugi, að eftirlit með framkvæmd fræðslulaganna á hverjum tíma heyrði undir embætti fræðslumálastjóra og þyrfti ekki neitt nýtt embætti til þess að sjá um framkvæmd fræðslulaganna. En svo lengi lærir sem lifir. Ég fræðist nú um það, að það heyri ekki undir fræðslumálastjóra að hafa eftirlit með fræðslulöggjöfinni, til þess þarf nýtt embætti. Fræðslumálastjórinn mætti á fundi fjvn., var m.a. spurður um þetta embætti, og hann sagði, að það hefði verið sett á án samráðs við sig og án sinnar vitundar og hann teldi, að það heyrði undir sig að hafa eftirlit með framkvæmd fræðslulaganna. Það verða því einhverjar skýringar að koma til nýjar, til þess að ég skilji, að það sé nauðsyn á þessum hálfa fjórða tug þúsunda á gjaldabálki fjárl.

Þá hef ég enn fremur lagt til, að niður falli liður, sem er 30 þús. kr., fjárveiting til tilrauna um betri nýtingu á heitu vatni til upphitunar húsa, ekki af því, að ég telji ekki nokkuð mikils virði að kunna tökin á að nota heitt vatn til að hita upp hús með sem beztum árangri. En það er búið að veita fé oftar en einu sinni á fjárl. til þess að rannsaka, hvernig eigi að nota heitt vatn til þess að hita upp hús á Íslandi. Og ég tel ekki, að það eigi að verða neitt eilífðarmál að hafa menn við að rannsaka það. Það verður að taka einhvern endi að komast að niðurstöðu um, hvernig eigi að fara að því að nota heitt vatn til að hita upp hús. En í sambandi við það dettur mér í hug, þótt ekki komi það beint fram í sérstökum liðum á fjárlfrv. og við höfum það þannig fyrir augum, að margt er skrýtið um þessa rannsóknarstarfsemi í landinu og mikið til hennar lagt, sem ég held að þjóðin hafi kannske naumast efni á, og að inni sé haldið fjárveitingum til þessara rannsókna nokkru lengur en brýn þörf kalli á. Látum vera, að þetta sé gert í eitt skipti, en þegar. þetta verður ár eftir ár, þá fer það að verða frekar sjúkdómseinkenni en vitnisburður um brýna þörf.

Ég fann t.d. í morgun í skjölum fjvn., sem ég hafði ekki athugað áður, að það er ýmiss konar tilraunastarfsemi skemmtileg, sem veitt er til fé, auk þessa, svo sem til tilraunaráðs búfjárræktar. Það er samtals 165 þús. kr. Nú þarf náttúrlega ýmislegt að rannsaka í sambandi við landbúnaðinn, en að halda þurfi áfram frá ári til árs að gera tilraunir með fitun sláturlamba á ræktuðu landi og verja til þess fé ekki í eitt skipti, heldur ár ettir ár, það fæ ég ekki skilið. Ég held, að bændur geti varla búið svo, að þeir afli sér ekki vitneskju og fái reynslu af því, hvernig eigi að fara að því að fita sláturlömb á ræktuðu landi. En ríkissjóður Íslands borgar til þessara rannsókna 10 þús. kr. í ár og 10 þús. kr. í fyrra og sjálfsagt 10 þús. kr. að ári, ef þær tölur fara þá ekki hækkandi.

Það er líka borgað fé úr ríkissjóði vegna fóðurtilrauna með ær á Hólum í Hjaltadal. Það kostar 15 þús. kr. Það er ódýrt. Þegar ærnar eru að bita á Hólum, þá verður að borga 15 þús. kr. í rannsóknir á því.

Það þarf að gera fargtilraunir í sambandi við votheysgerð á Hvanneyri. Bændaskólinn á Hvanneyri aflar sér ekki niðurstöðu um það, hvernig þurfi að fergja vothey. Þessar tilraunir eru líka gerðar á Hesti og í tveimur heyturnum nálægt Reykjavík. Þetta er dálítið dýrara en hinir liðirnir, sem ég nefndi. Þetta kostar 50 þús. kr. (Gripið fram í.) Já, og er alls ekki lokið, það verður líka að ári. Aðrar votheysrannsóknir en þetta, hvernig eigi að fergja vothey, fara fram á nokkrum stöðum og kosta 10 þús. kr. í viðbót.

Svo þarf að gera sláttartímatilraunir, sem kosta 15 þús. kr. Ég er alveg viss nm það, að bændur eru búnir að finna það út, að það er ekki sama, hvenær þeir slá túnin sín. Það er ekki sama, hvort þeir gera það áður en stöngull af grastegundum er orðinn að hálmi, og þeir vita þetta vel og slá nokkurn veginn á réttum tíma flestir. En það fara fram tilraunir með þetta, sláttartímatilraunir, og kosta 15 þús. kr. á þessa árs fjárl.

Svo þarf að gera tilraunir með að beita mjólkurkúm á ræktað land. Það kostar 30 þús. kr. Tilraunaráð búfjárræktar fer með þessar tilraunir og framkvæmir þær á Hvanneyrartúninu, — á bændaskólanum á Hvanneyri. Þar þarf að gera tilraunir með það, hvernig árangur verði af því að beita mjólkurkúm á ræktað land, — 30 þús. kr. til þess að vita, hvernig þetta fer nú með sig í haust.

En það er ekki búið enn. Það þarf að gera, fóðurtilraunir með lembda gemlinga á Reykhólum, og það kostar 10 þús. kr.

Svo þarf náttúrlega að gefa út rit um þessar rannsóknir, og til þess þurfa þeir í ár 20 þús. kr. og þyrftu helzt að fá meira. Sérstaklega er sagt, að þær hafi verið kostnaðarsamari en búizt var við, tilraunirnar um að beita mjólkurkúm á ræktað land á Hvanneyri. Það er tekið fram í bréfi til ráðuneytisins, að því sé hvergi nærri lokið og verði að taka mörg ár enn.

Svo rak ég líka upp stór augu, þegar ég sá bréf hjá fjvn. frá Nautgriparæktarfélagi Eyjafjarðar. Þar var farið fram á það, að komið yrði upp afkvæmarannsóknarstofnun í þágu nautgriparæktarinnar í Eyjafirði. Og hvað haldið þið, að stofnunin hafi farið fram á? Hálfa milljón króna til afkvæmarannsóknarstofnunar í þágu nautgriparæktarinnar í Eyjafirði. Nú getur auðvitað kannske breytzt viðhorf í þessu máli vegna atburða síðustu vikna, en fram á þetta var farið í haust. Og því er svarað til, að það sé ekki siður þörf á þessu en fjárveitingunum til Nautgriparæktarsambands Suðurlands. Nautgriparæktarsamband Suðurlands tók fyrir nokkrum árum við búinu í Laugardælum, sem Kaupfélag Árnesinga hafði fram að þeim tíma rekið styrklaust, og þarf nú að fá mikið fé til sinnar starfsemi og sinna rannsókna. Búnaðarsamband Suðurlands skrifar auðvitað líka bréf og biður um fjárveitingu vegna tilraunabúsins í Laugardælum. Þar segir, að hallinn á búinu hafi ekki orðið nema 28 þús. kr. s.l. ár, bæði hafi það nú orðið vegna sparnaðar og svo líka góðs árferðis. En þrátt fyrir hið góða árferði, þá er sagt í framhaldi bréfsins, að búskapurinn þarna nái ekki tilgangi sínum, nema hann fái fé til húsabygginga, um 100 þús. kr., og til tilrauna 80 þús. kr., þá muni þetta ná tilgangi sínum, og svo þurfi þarna að vera fastur tilraunastjóri, sem mæli mjólkina og fitumagn hennar og sjái sérstaklega um uppeldi ungviðisins. Ég er alveg viss um það, að ef það hefði verið beðið um kennara til þess að annast uppeldi á nokkrum börnum, þá hefði verið talið vafasamt, að það væri nauðsynlegt, en þarna þarf tilraunasljóra til þess að sjá um uppeldi kálfanna í tilraunabúinu í Laugardælum, og það þarf 180 þús. kr. til þess, 100 þús. kr. til húsaaukningar og 80 þús. kr. til tilraunanna sjálfra.

Ég sé nú, að vegna bréfs til vélasjóðs hefur fjmrn. ekki verið alveg við því búið að fallast á það, sem þar var um beðið, því að þeim hefur fallið það fyrir brjóst, að það er upplýst, að stjórn vélasjóðs hafi kostað 50 þús. kr. hálft árið núna, hafi kostað 120 þús. kr. árið áður, beðið um, að veittar verði 200 þús. kr., en fallizt á, að það megi verja 180 þús. kr. til þess. En ég er alveg sannfærður um það, að þarna er bara gripið á einum stað niður á kýlið. Þetta er allt saman í hringavitleysu hjá okkur með þetta rannsóknafálm hér og þar. Það er verið að gera rannsóknir uppi í háskóla fyrir sjávarútveginn. Það er verið að gera rannsóknir fyrir sjávarútveginn hér niður við Fiskifélagshús. Það er verið að gera rannsóknir á einum stað viðvíkjandi fiski í saltvatni og á öðrum stað rannsóknir viðvíkjandi fiski í ósöltu vatni. Þetta er allt saman sundurtætt, og alls staðar þarf þessi rannsóknastarfsemi tugi og hundruð þús. kr., og enginn hefur manndóm í sér til þess að færa þetta saman á neinn hátt, þó að bent sé á þetta ár ettir ár. Og ég er viss um, að et við spyrðum bændur landsins, hvort þetta væri í þeirra þágu, hvort þetta. væri fyrir þá gert, hvort þeir hefðu af þessu ávöxt, þá mundu þeir svara í hneykslun: „Nei, þetta er ekki fyrir okkur gert.“ Enda kemur maður varla svo á bóndabæ í námunda við þessar stöðvar, að þeir séu ekki fullir hneykslunar yfir þessum ríkisfyrirtækjum. Alveg sama er með sjómennina. Ég hygg, að þetta tilraunakák hér og þar um landið sé að litlu eða engu leyti í þeirra þágu.

Það kom fulltrúi frá rannsóknaráði ríkisins á fund n. og var spurður að því, hvaða tilraunir af þeim, sem þeir hefðu haft með höndum. hefðu borið jákvæðan árangur. Ég hygg, að allir hv. nm. geti borið það með mér, að þessi fulltrúi rannsóknaráðsins sagði: „Engar.“ Það eru engar búnar að bera árangur enn þá, ekki ein einasta. Hann gat ekki nefnt eina einustu tilraunastarfsemi, sem hefði enn þá skilað árangri. Þess vegna verður að halda þeim öllum áfram og ekki nóg með það, heldur að halda þeim öllum áfram í sama skipulagsleysinu eins og þeim hefur verið haldið áfram hingað til.

Eitt af því, sem ég legg til til lækkunar á gjaldabálkinum, er það, að liðurinn „veiðimálaskrifstofa“ falli niður. Það eru nokkur ár síðan veiðimálastjóraembættið var lagt niður, og loðdýraræktarráðunautarembættið var líka lagt niður þá. Og þetta gerðist af því, að það var vakin athygli á því hér á Alþ., að embættiskostnaðurinn væri áætlaður í fjárl. eins og árið áður, en embættismaðurinn væri ekki í landinn, hann væri setztur að úti í Kaupmannahöfn, og viðkomandi ráðh. vissi ekkert um þetta. Þetta hafði atvikazt þannig, að viðkomandi embættismanni höfðu tæmzt tveir geysilega stórir arfar. Hann var orðinn svo ríkur maður allt í einn, að hann gat ekki verið hér á landi vegna skattalöggjafarinnar og fór úr landi og skildi embættið ettir, skrifstofurnar, var úti í Kaupmannahöfn. Svo sást nú ekkert á fjárl. til þessa embættis um sinn, en þegar maðurinn var búinn að standa af sér auðinn, hinn skyndilega auð. í nokkur ár í öðru landi, þá kom hann heim til Íslands á ný, og þá bólar á því í fjárl. í fyrra, að það eru áætlaðar 90 þús. kr. vegna framkvæmda á l. um lax- og silungsveiði. Nú er þessi sami liður farinn að færast nær hinu gamla orðalagi, nú heitir það „vegna veiðimálaskrifstofu“. Skrifstofurnar eru þrjú herbergi full af bókum á mörgum tungumálum um fiskirækt, sjálfsagt góðum bókum, og þar er tvennt eða þrennt á skrifstofu. Nú eru áætlaðar til þessa á fjárlfrv. 142 þús. kr., en samkvæmt bréfi, sem liggur fyrir í plöggum fjvn. frá hinum heimkomna embættismanni, gerir hann grein fyrir því, að hann þurfi að fá 182269 kr. Þar af gerir hann grein fyrir, að til veiðimálan. og til styrks til fiskiræktar og veiðieftirlits, þ.e.a.s. til að byggja klakhús, sem er nauðsynlegt, og til þess að búa til fiskivegi í ám, muni fara 30 þús. kr., auk þess sem veiðimálan. á að fá eitthvað af þeirri upphæð og eftirlitið með þessum lið. M.ö.o.: Það virðist af þessum plöggum auðsætt, að það er mikið innan við 30 þús. kr., sem á að fara til praktískra viðfangsefna í sambandi við fiskiræktina, en öll meginupphæðin — og maðurinn segist þurfa 180 þús. kr. — á að fara í skrifstofubákn embættisins. Ég segi, að þessu fé sé illa varið, og þessi liður á að falla niður.

Um svipað leyti og embætti veiðimálastjórans var lagt niður, var, eins og ég áðan sagði, embætti loðdýraræktarráðunautarins lagt niður og Búnaðarfélagi Íslands falið eftirlit með loðdýrunum. Þá átti mjög að fækka loðdýrum á Íslandi, því að ég held að á sama þingi hafi verið samþykkt að banna minkaeldi hér á landi. En þá fóru fyrst að hækka útgjöldin vegna loðdýra í fjárl. og hafa þó held ég aldrei verið hærri en núna, því að Búnaðarfélagið hefur sínar 10 þús. kr. til eftirlits með loðdýrum, 250 þús. kr. er lagt til í fjárlfrv. að verði varið til eyðingar loðdýrum, og á heimildagrein leggur nú meiri hl. fjvn. til að varið sé öðrum 250 þús. kr. til eyðingar loðdýrum. Þannig eru útgjöld á fjárlfrv. vegna loðdýra 510 þús. kr.

Brtt. mínar samtals við tekjubálkinn, að viðbættum lækkunum á gjaldabálkinum, eru að upphæð 32 millj. kr. Hins vegar nema þær till., sem ég flyt og leiða af sér aukin útgjöld, samtals tæpum 18 millj. kr. Frv. kæmi því út með verulegum tekjuafgangi, þó að allar þessar till. Alþfl. væru samþ. Það er sjálfsagt að taka það fram, að svo að segja allar hækkunartill. hv. meiri hl. fjvn. felast innan ramma þeirra till., sem ég hef flutt, og eru þannig ekki til viðbótar, heldur einmitt felast innan 32 millj. kr. upphæðarinnar.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um þær hækkunartill., sem ég legg mesta áherzlu á og tel brýnasta þörf fyrir.

Það er í fyrsta lagi, að ég legg til, að 1 millj. kr. sé varið til malbikaðra og steyptra vega og gatna í kaupstöðum og kauptúnum. Það hafa verið einar 100 þús. kr. á fjárl. í mörg ár, allt frá því að ég kom fyrst á þing, 1946, til malbikunar vega, og mér er sagt, að þær hafi alltaf farið til malbikunar vega hér í Reykjavík, en eftir orðalaginu var sýnilega tilætlunin sú, að þær færu til malbikunar í kaupstöðum og kauptúnum, og Reykjavík er sjaldan nefnd því nafni í fjárl., ef henni er ætluð fjárveiting. Það er þess vegna um 900 þús. kr. hækkun þarna til verkefnis, sem ég tel vera mjög aðkallandi í bæjum og þorpum.

Þá legg ég til, að fiskveiðasjóði Íslands séu ætlaðar 5 millj. kr. til þess að geta gegnt sínu brýnasta hlutverkí. Sjútvn. Ed. hefur að undanförnu verið að fást við þessi mál, og hefur held ég öll verið á einu máli um það, að fiskveiðasjóðinn vanti tilfinnanlega mikið fé til þess að geta gegnt hlutverki sínu, greitt fyrir byggingu báta og kaupum á bátum, og við svo búið megi ekki standa, það verði einhvern veginn að sjá sjóðnum fyrir fé, svo að hann sé starfhæfur. Þessu tel ég ríkissjóð ekki geta lokað augunum fyrir og ekki mega loka augunum fyrir, heldur verði að sjá sjóðnum fyrir þessari upphæð, sem nm. hafa einmitt tjáð mér að sé sú lægsta upphæð, sem komið geti að gagni, ef hann eigi að geta starfað eins og æskilegt sé.

Þá legg ég til í þriðja lagi, að aukaframlag til Tryggingastofnunar ríkisins verði ákveðið í fjárl. 6.3 millj. kr., en hv. meiri hl. fjvn. hefur lagt til, að þetta tillag til Tryggingastofnunarinnar verði 2 millj. og 350 þús. kr. Það er upplýst af forstjóra trygginganna, að fyrirsjáanlegur halli þeirra, sem hann hefur nákvæmlega gert grein fyrir, verði aldrei undir 7 millj. kr.

Þá er lagt til, að framlag til verkamannabústaða hækki um 3 millj. og 360 þús. kr. og verði þannig 5 millj. í stað 1 millj. og 640 þús., sem nú eru í frv. Húsnæðisskorturinn er núna eitt versta þjóðfélagsbölið, sem við eigum við að stríða. Það getur ekki verið, að það hafi farið fram hjá Reykvíkingum, því að hér er hann kannske með því versta, og þessi vandræði verður að leysa. Með hagfelldustu móti verður hann leystur, að ég hygg, með byggingu verkamannabústaða. Það hefur allt of mikil stöðnun verið í þeirri starfsemi að undanförnu að byggja verkamannabústaði vegna fjárskorts, og margir af þeim mönnum, sem hafa haft forustu fyrir byggingu slíkra húsa, hafa staðið ráðalausir uppi með seinasta áfangann vegna þess, að byggingarsjóðurinn hefur ekki getað greitt það, sem honum hefur borið að greiða til þess að ljúka uppgjöri við verkamenn og iðnaðarmenn, sem að þessum bústöðum hafa unnið. Mér er því kunnugt um, að það eru stórkostleg vanskil víða við iðnaðarmennina, sem hafa verið að leggja síðustu hönd á að byggja verkamannabústaði, og er slíkt óviðunandi með öllu. Auk þess hafa svo auðvitað framkvæmdirnar að miklu leyti stöðvazt vegna fjárskorts sjóðsins. Ég trúi ekki öðru en að hv. Alþ. finni það sem skyldu sína að leggja fram fé til aukinnar byggingarstarfsemi íbúðarhúsnæðis í landinu, því að öllum er ljóst, að það er nú eitt af hínum brýnustu og mest aðkallandi viðfangsefnum.

Þá legg ég til, að inn á 17. gr. fjárl. verði tekinn nýr liður: „framlag til byggingar verkamannaskýla í hafnarbæjum“, að upphæð 750 þús. kr., gegn tvöföldu framlagi annars staðar að. Það er vitanlega sjálfsagt, að viðkomandi bæjar- og sveitarfélög leggi fram fé til hlutverks eins og þessa, og er lagt til, að tvöfalt framlag komi frá þeim aðilum, en ríkið örvi þessa starfsemi með því að leggja fram 1/3 hluta og ætli til þess 750 þús. kr. á þessa árs fjárl.

Það er samróma álit verkamanna hér í Reykjavík, að þrátt fyrir hið fátæklega verkamannaskýli hér við höfnina, sem er margra áratuga gamalt og er hvergi nærri fullnægjandi, til þess að verkamenn við höfnina hér geti fengið kaffi og mjólk og mat eins og þeir þyrftu að fá, þegar hlé er á vinnu, þá vantar hér tilfinnanlega við vesturhluta hafnarinnar annað verkamannaskýli. Og í mörgum hafnarbæjunum, raunar flestum, er þetta alveg óviðunandi að því er snertir aðstöðu verkamanna, þegar þeir eiga að neyta matar eða drykkjar í vinnuhléum. Það er menningaratriði, sem þarna þarf að leysa, og það á að leysast af ríki og bæjarfélögum í sameiningu.

Þá er lagt til hér, að lánasjóður stúdenta fái 600 þús. kr. fjárveitingu í stað 300 þús. kr., sem nú eru í frv. Hv. meiri hl. n. hefur lagt til, að í þessu skyni verði veittar 400 þús. kr., en stúdentasamtökin halda því fram, að sjóðurinn sé mjög getulítill, gegni ekki hlutverki sínu sem skyldi vegna fjárskorts, og það þurfi að koma undir hann fótum og hans lánastarfsemi sem allra fyrst. Ég tel, að það væri ekki nema ánægjulegt fyrir Alþ. að efla lánasjóð stúdentanna með þessum hætti, með 600 þús. kr. upphæð, og tel, að þeirri fjárveitingu væri betur varið en mörgu öðru, sem ég hef bent hér á og gert að umræðuefni að þessu sinni, og munu þó mörg fleiri vera ónefnd, sem síður væri aðkallandi að inna af hendi.

Hv. frsm. meiri hl. fjvn. hafði lofsamleg ummæli áðan í framsöguræðu sinni um gagnsemi lánasjóðsins, en það er ekki nóg. Stúdentarnir geta ekki fengið lán út á fögur orð, og þeir hafa borið þessi tilmæli fram við hæstv. menntmrh., að sjóðurinn fengi núna 600 þús. kr. Ég hygg, að hann hafi tekið heldur vel undir það, en hv. meiri hl. n. hefur ekki séð sér fært að fara lengra í þessu máli en að leggja til, að 400 þús. kr. verði veittar.

Þá flyt ég till. um það, að starfsemi Slysavarnafélags Íslands sé veitt sú viðurkenning, að styrkur ríkissjóðs til almennra slysavarna verði hækkaður um 100 þús. kr. Þá yrði hann 250 þús. kr. Félagið hefur nú til almeunna slysavarna 150 þús. kr. Ég held, að það sé rétt, að Slysavarnafélag Íslands sé einhver vinsælasti félagsskapur hér á landi og sá félagsskapur, sem einna bezt rækir sitt hlutverk, svo að þjóðin er ánægð með og ann þessu félagi. En þrátt fyrir það hefur ekki verið hækkuð fjárveitingin til Slysavarnafélags Íslands, að mér er tjáð, til almennra slysavarna s.l. 10 ár þrátt fyrir alla dýrtíðaraukningu, sem hefur orðið á þessu tímabili. Hækkun nokkur tölulega varð fyrir nokkrum árum, þegar félaginu var þá jafnframt gert að skyldu að taka að sér rekstur björgunarflugvélar, en félagsstjórn:n hefur tjáð mér, að reksturinn á þeirri mjög svo nauðsynlegu og gagnlegu starfsemi, sem alls ekki er umdeild af neinum, hafi bakað félaginu meiri útgjöld en upphæðin var þá hækkuð. Að öðru leyti hefur fjárveitingin til SIysavarnafélagsins ekki verið hækkuð s.l. 10 ár og félagið þannig orðið í mikilli fjárþröng, þó að því berist viða gjafir að vegna þess góðhugar, sem það hefur vakið með starfi sínu.

Annar liður í starfsemi Slysavarnafélagsins, sem ég held að allir vilji að sé efldur, en kostar þá líka fé, ef hann er efldur, er slysavarnastarfsemin til þess að afstýra umferðarslysum. Ég hef lagt til, að félagið fái 25 þús. kr. hækkun til þessarar starfsemi sinnar og fái þannig 75 þús. kr. alls til hennar. Ég vil vona, að við nánari athugun verði fallizt á, að starfsemi Slysavarnafélagsins hljóti viðurkenningu með nokkurri hækkun, af því að nauðsyn ber til, að það fái aukið fé til starfsemi sinnar, ef ekki á að draga úr henni.

Það er sjálfsagt að geta þess, sem gert er. Fjvn. féllst á að veita núna 50 þús. kr. til flugbjörgunarsveitar, sem kom á fund n. og gerði grein fyrir fyrirætlunum sínum um aðstoð, ef flugslys bæri að höndum, og n. lagði til, að þessi flugbjörgunarsveit, sem er skipuð sjálfboðaliðum, fengi 50 þús. kr. fjárveitingu úr ríkissjóði til sinnar starfsemi, aðallega til þess að koma upp færanlegri björgunarstöð eða aðstöðu til þess að veita hjálp í viðlögum á slysstað. Ég undrast það raunar ekkert, sem ég nú hef orðið var við, að Slysavarnafélaginu sárnar það nokkuð, að öðrum aðilum en Slysavarnafélaginu skuli fremur vera veitt fé til slysavarnastarfsemi, og bendi á, að það sé hvorki praktískt né viturlegt að skipuleggja slysavarnastarfsemi á margar hendur, og það er óefað rétt, þegar manni er bent á það. Undir öllum slíkum tilfellum, ef flugslys hefði borið að höndum eða óttazt væri um, að flugslys hefði orðið, mundi vera kallað til Slysavarnafélags Íslands. Það yrði að hafa sín sambönd úti um landið í námunda við þá staði, sem umferðarslysið hefði orðið, og flugbjörgunarsveitin gæti aldrei innt annað af hendi en aðstoð við starfsemi Slysavarnafélags Íslands í þessu efni, og því er Slysavarnafélagið dálitlum órétti beitt og fær ekki viðurkenningu fyrir sitt starf, þegar annar aðili, sem segist ætla að inna af hendi vissan þátt slysavarna hér á landi, fær 50 þús. kr., en erindi frá Slysavarnafélaginu fá enga áheyrn. En ég er ekki vonlaus um, að vinsældir félagsins komi því til vegar, að litið verði á þeirra mál, áður en gengið er frá afgreiðslu fjárl., — ég trúi ekki öðru.

Þá leggur Alþfl. að síðustu til, að ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 50% af tekjuafgangi ríkissjóðs á árinu 1953 til að greiða hluta af skuldum ríkisins vegna skólabygginga, sjúkrahúsa og hafnarmannvirkja. Ég tel það alveg víst. að tekjuafgangur ríkissjóðs á árinu 1953 sé allverulegur. Hv. frsm. meiri hl. fjvn. gat þess áðan, að tekjur manna á yfirstandandi ári hefðu orðið miklum mun meiri en á s.l. ári, og allt árferði hefur verið hið bezta, afurðasalan hefur gengið með afbrigðum vel, og allar líkur benda til þess, að tekjur ríkissjóðs hljóti að hafa farið langt fram úr áætlun. Ég ætla þó ekki að ganga út frá því sem gefnu og vísu, að farið hafi verið svo freklega fram úr heimildum fjárl. um greiðslur úr ríkissjóði, að þarna sé ekki um verulegt fé að ræða, sem sé óráðstafað og hljóti því að koma til ráðstöfunar þessa Alþ., sem nú situr. Ég tel, að það beri fyrst og fremst að verja því a.m.k. að nokkru leyti — ég hef lagt til allt að helmingi — til þeirra hluta, sem ríkið stendur í óbættum sökum við aðra samstarfsaðila sína í þjóðfélaginu. Það var upplýst af hv. frsm. meiri hl. fjvn. áðan, að ríkið skuldaði raunverulega 14 millj. kr. vegna skólabygginga. Enn fremur skuldar það nokkurt fé vegna sjúkrahúsbygginga, og 3.8 millj. kr. skuldar það vegna hafnargerða. Það er því a.m.k. um 20 millj. kr., sem stendur upp á ríkissjóð að greiða móti framlögum sveitarfélaga og annarra aðila í sambandi við skólabyggingar, sjúkrahús og hafnargerðir, og þyrfti vitanlega að höggva í þetta og borga þetta að einhverju leyti og helzt að öllu leyti niður, svo að ekki stæði upp á ríkið í þessu efni. Hálfum tekjuafgangi þessa árs, þ.e.a.s. því, sem ekki er búið þegar að ráðstafa í fjárl. með neinu móti, tel ég að væri vel varið til þess að draga úr þessum vanskilum ríkissjóðsins.

Ég hef þá með þessum orðum gert grein fyrir till. þeim, sem ég fyrir hönd Alþfl. hef flutt í sambandi við fjárlfrv., bent á ýmiss konar eyðslu, sem ég tel að eigi sér stað og þyrfti að taka fyrir, ýmiss konar skipulagsleysi í starfsemi ríkissjóðs og stofnana, sem sækja fé í ríkissjóð eftirlitslitið, og tel, að á þessu þyrfti að ráða bót. Ég hef með till. mínum eins og oft áður sýnt fram á það, að því fer fjarri enn, að tekjuáætlun fjárl. sé rétt. Með því að áætla tekjurnar hærra er ekki verið að auka neitt álög á gjaldþegnana, síður en svo, það er verið að framkalla rétta mynd af þeirri skattlagningu, sem á sér stað, og annað ekki með þessum till. mínum. Það er hægt að verja fé til þeirra hluta, sem ég hef hér bent á og allir eru bráðnauðsynlegir, án þess að auka nokkurn skatt á nokkrum gjaldþegni hér á landi. Ég fullyrði, að eins og það hefur sýnt sig mörg undanfarin ár, að þær till., sem ég hef gert til hækkunar á tekjuhlið fjárl., hafa staðizt, — og það er ekki hægt af neinum að segja það, að þær hafi verið óvarlegar og reynslan hafi sýnt, að tekjustofnarnir hafi orðið lægri en ég hef áætlað þá, — eins er það alveg áreiðanlegt, að till. mínar núna eru innan ramma raunveruleikans og tekjurnar á næsta ári verða a.m.k. þær, sem ég hef áætlað þær, og þó sennilega nokkrar milljónir umfram það. Það er þess vegna rúm innan fjárl. fyrir þær framkvæmdir og þær umbætur, sem ég hef hér lagt til, án þess að halli verði á fjárl., og þykir mér það enn rangt af hæstv. ríkisstj. að neita að áætla tekjurnar sem réttast og skorast þannig undan því að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir, sem vel er hægt að ráðast í án þess að bæta við nýjum tollum eða sköttum. — Læt ég svo máli mínu lokið.