08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

1. mál, fjárlög 1954

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það má segja, að það einkenni fjárlfrv. fyrir árið 1954, að rekstrarútgjöld ríkisins færast enn í aukana, en framlög til verklegra framkvæmda lækka í hlutfalli við rekstrarútgjöldin. Ég ætla ekki að þessu sinni að ræða þessa öfugu þróun né fara mörgum orðum um fjármálastefnuna í heild. Þess mun væntanlega verða kostur innan skamms í sambandi við eldhúsdagsumr., sem fyrirhugaðar eru í byrjun næstu viku.

Við þm. Þjóðvfl., hv. 8. landsk. og ég, flytjum á þskj. 264 allmargar brtt. við fjárl. Þessar till. beinast einkum að því að leiðrétta áætlanir ýmissa tekjuliða og auka framlög til verklegra framkvæmda. Jafnframt höfum við sýnt nokkra viðleitni til sparnaðar á miður nauðsynlegum liðum, sem við leggjum til að ýmist séu lækkaðir eða jafnvel felldir niður. Þar hefði þó vissulega þurft að ganga miklu rækilegar til verks, en það er óhægt um vik fyrir aðra en ríkisstj. sjálfa, sem verður að hafa forustu í þeim efnum, þar eð lagabreyt. þarf í ýmsum tilfellum, ef um verulegan niðurskurð ætti að vera að ræða.

Hv. 8. landsk. þm. mun gera grein fyrir till. okkar um áætlunarhækkanir á tekjuliðum, svo og sparnaðartill. okkar á þskj. 264. Um þau atriði vil ég aðeins geta þess, að við leggjum til, að áætlun um tekjur ríkissjóðs sé hækkuð um tæpar 37 millj. Það rökstyðjum við einkum með því, að samkvæmt yfirliti um tekjuliði ríkissjóðs, elns og þeir voru orðnir í lok októbermánaðar, virðist alls ekki óvarlegt, ef hægt væri að reikna með svipuðu eða ekki miklu verra árferði á næsta ári, að hækka tekjuáætlunina eins og við leggjum til. Sú lækkun gjalda, sem við leggjum til, nemur samtals röskum 2 millj. Till. okkar um aukin útgjöld nema hins vegar um 34 millj., og við leggjum til, að meginþorra þess fjár sé varið til atvinnuframkvæmda.

Ég vil nú í stuttu máli gera grein fyrir nokkrum einstökum brtt. okkar þjóðvarnarmanna á þskj. 264. Ég nefni þar fyrst 6 millj. kr. framlag til fiskveiðasjóðs. Það er vitað og hefur verið viðurkennt hér í umr. á Alþingi margsinnis, að fiskveiðasjóður er alls ekki starfhæfur eins og sakir standa, getur ekki gegnt því hlutverki, sem hann á að gegna, en allir viðurkenna þó að er bráðnauðsynlegt. Þetta er vegna fjárskorts, og við leggjum þess vegna til, að 6 millj. kr. sé varið til fiskveiðasjóðs. Það er að vísu allt of litið, en þó betra en ekki.

Í fjárlfrv. er gert ráð fyrir í millj. kr. framlagi til sementsverksmiðju, og jafnframt er á heimildagrein 1 millj. kr. í því sama skyni. Þetta mikla nauðsynjafyrirtæki, sementsverksmiðjan, hefur verið undirbúið allmikið, og ef verksmiðjumálið á að komast á verulegan rekspöl á næstunni, þá verður ríkissjóður að hlaupa nokkuð rækilega undir bagga, þó að til slíks stórfyrirtækis verði að sjálfsögðu að taka mikið lánsfé. Sér hver maður, að 1 millj. kr. er hlægilega litið framlag til svo stórs fyrirtækis. Við höfum lagt til, að til þessa verði varið 5 millj. kr.

Þá höfum við flutt till. um tvo stóra nýja liði á heimildagrein.

Fyrri liðurinn heimilar ríkisstj. að veita væntanlegri veðdeild Iðnaðarbanka Íslands 7 millj. kr. óafturkræft framlag, sem yrði varið til útrýmingar braggaíbúða og annars heilsuspillandi húsnæðis. Veðdeild við Iðnaðarbankann er að vísu ekki til enn sem komið er, en við flm. þessarar till. höfum í hyggju að flytja nú á þessu þingi frv. um það efni. Húsnæðismálið er, eins og margoft hefur verið lýst hér á þingi, eitthvert allra stórfelldasta vandamálið, sem við eigum við að stríða, sérstaklega í bæjunum, og raunar víðs vegar um land, og það væri í sjálfu sér ótækt, ef Alþingi gengi frá fjárl. án þess að sýna einhvern lit á því, að það vilji bæta úr í þessu efni, því að hér kreppir skórinn vissulega fast að.

Hinn nýi liðurinn á heimildagr., sem við berum fram, er um, að allt að 15 millj. kr. verði varið til nýrra atvinnuframkvæmda. Fyrir þessu þingi liggja ýmis frv. og tillögur, sem beinast að því að afla þjóðinni nýrra framleiðslutækja, eins og vissulega er brýn þörf á, og Alþingi má ekki afgreiða fjárlög, án þess að það leggi allmyndarlega fjárhæð til nýrra atvinnutækja og annarra bráðnauðsynlegra framkvæmda á sviði atvinnumála.

Þá ætla ég að víkja að nokkrum smærri liðum. Við flytjum till. um nokkra hækkun á framlagi til byggingar kennaraskólans. Það hefur undanfarið verið varið allmiklu og raunar á okkar mælikvarða miklu fé til skólabygginga. Er vissulega allt gott um það að segja. En kennaraskólinn, sem nú hefur starfað í nálega hálfa öld, hefur orðið þar algerlega afskiptur, og ég efast um, að nokkur skóli eigi við öllu verri aðstöðu að búa um húsnæði heldur en hann. Skólahúsið, sem er gamalt timburhús og var upphaflega ætlað fyrir 40–50 nemendur, er nálega óbreytt frá því, sem það var, þegar það var byggt, en nemendafjöldi hefur, að ég hygg, fullkomlega þrefaldazt, er nú þrefalt meiri a.m.k. heldur en reiknað var með að yrði, þegar húsið var á sínum tíma reist. Skólinn hefur á síðari árum sprengt svo gersamlega utan af sér húsnæðið, að kennsla og nauðsynlegar kennsluæfingar í sambandi við hana fara nú ekki lengur fram í skólahúsinu nema að hálfu leyti eða varla það, og þó er þar hver smuga þétt setin allt frá morgni til kvölds. Það sagði mér nýlega kennari við skólann, að kennsla þar færi nú fram á ekki færri en 8 stöðum. Ég get til fróðleiks nefnt þá staði, sem nemendur og kennarar kennaraskólans verða að þeytast á milli. Fyrir utan kennaraskólahúsið sjálft er það Grænaborg, Miðbæjarbarnaskóli, Melaskóli, Málleysingjaskóli, Laugavegur 118, enn fremur íþróttahús Jóns Þorsteinssonar og sundhöllin. Í mörgum eða flestum tilfellum er hér um að ræða leiguhúsnæði eða aðra aðstöðu, sem engan veginn má treysta, hve lengi helzt, því að það er alveg undir náð þeirra aðila og velvilja komið, sem yfir húsnæðinu ráða. Forráðamenn kennaraskólans geta því búizt við því, að það fjúki í þessi skjól svo að segja hvenær sem er.

Ég held, að þó að mörg þörf kalli að í byggingarmálum skólahúsa víðs vegar um land, þá sé hún hvergi brýnni heldur en einmitt í sambandi við húsnæðismál kennaraskólans. Teikningar að fyrirhuguðu skólahúsi munu nú fullgerðar, og mér er sagt, að þeim sé þannig hagað, að það sé hægt að reisa nokkurn hluta hússins í fyrsta áfanga og taka hann í notkun, þó að viðbót verði látin bíða. Ég vil vænta þess, að hv. alþm. viðurkenni hina miklu nauðsyn þessa máls og samþykki þá hóflegu till., sem við flytjum hér á þskj. 264 um 800 þús. kr. byggingarframlag til skólans á næsta ári.

Þá vil ég stuttlega víkja að fáeinum brtt., sem ég flyt á þskj. 277. Þær snerta yfirleitt sjávarútvegs-, siglinga- og öryggismál. Hér eru fyrst till. undir liðnum V. Þar er ósköp lítil till. um svolitla hækkun á styrk til sjóminjasafns. Á fjárlfrv. er svo ráð fyrir gert, að til þess séu veittar 3500 kr., en það veit hver maður, að með þá upphæð er í sjálfu sér ekkert eða nálega ekkert hægt að gera nú á dögum. Ég flyt till. um það, að þessi styrkur verði 10 þús. kr. — 10 þús. kr. hrökkva að vísu skammt, en það sýnir þó dálitla viðleitni.

Þá hef ég lagt til, að tekinn verði upp nýr liður á 14. gr., 300 þús. kr. framlag til rekstrar væntanlegs sjóvinnuskóla. Frv. um það efni hef ég borið fram í hv. Nd. og mælti þar lítillega fyrir því í gær. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum að því, hver þörf er á að hefja hér skipulagða fræðslu ungra sjómannaefna, og vil ekki heldur fjölyrða um það, hvort það fyrirkomulag, sem ég hef' nú stungið upp á í frv. mínu, er nákvæmlega það rétta eða hvort eitthvert annað fyrirkomulag kynni að þykja heppilegra, en hitt vil ég fullyrða, að þeir fjármunir, sem færu til starfsemi, sem miðaði í þessa átt, eiga að geta komið margfaldlega aftur í betri nýtingu dýrra framleiðslutækja og í aukinni framleiðslu. Ég hef lagt til, að til sjóvinnuskóla, til launa kennara og áhaldakaupa og annars kostnaðar, verði varið 300 þús. kr.

Þá eru að lokum þrjár tillögur á þessu sama þskj., undir XII.

Það er í fyrsta lagi till. um að hækka styrkinn til Slysavarnafélags Íslands, þ.e. styrkinn til almennra slysavarna, úr 150 þús. kr. í 300 þús. kr. Hv. frsm. 1. minni hl. fjvn., hv. 3. landsk., flytur till., sem gengur í svipaða átt. Ég held, að það sé aðeins minni hækkun, sem hann fer fram á. Hann mælti vel og réttilega fyrir þeirri till. hér í dag, svo að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um nauðsyn Slysavarnafélagsins til að fá aukinn fjárstyrk. En ég vil aðeins taka undir þau ummæli hv. 3. landsk., að þetta er sá félagsskapur, sem ég held að nálega allir landsmenn séu sammála um að hefur unnið stórmikið og þjóðnýtt starf og eigi þess vegna allt gott skilið. Það hefur verið sýnt fram á það, að þó að starfsemi félagsins hafi stórvaxið á síðarí árum og rekstur þess kosti nú árlega yfir hálfa milljón króna, þá hefur styrkur ríkisins til almennra slysavarna ekki verið hækkaður s.l. 10 ár. Hinn almenni styrkur var árið 1944 100 þús. kr., og hann er það raunverulega enn, því að þær 50 þús. kr., sem við hafa bætzt, eru veittar í alveg sérstöku skyni, til þess að styrkja eða halda uppi sjúkraflugi, og munu alls ekki endast einu sinni til þess að bera hallann af þeirri starfsemi Slysavarnafélagsins.

Þá er hér tillaga um allverulega aukinn styrk til dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Dvalarheimilismálið eða bygging dvalarheimilis fyrir aldurhnigna sjómenn hefur nú um allmörg ár verið eitt af mestu áhuga- og baráttumálum sjómannasamtakanna. Það hefur verið unnið kappsamlega að undirbúningi þess máls, og nú er þetta hús eða hluti þess að rísa á fögrum stað hér nálægt, á Laugarásnum, eins og margir hv. alþm. kunna að hafa séð. Mér er tjáð, að á næsta vori eða snemma næsta sumar verði það fjármagn, sem byggingarnefndin hefur yfir að ráða, alveg búið, þ.e. um 31/2 millj., sem hún hefur getað safnað saman á allmörgum undanförnum árum. Þetta fé mun þrjóta að fullu á næsta vori, og þá munu sakir standa þannig, að það vantar til þess að fullgera og taka í notkun þann hluta sjómannaheimilisins, sem nú er verið að byggja, um eða lítið eitt yfir 1/2 millj. kr. Ég hygg, að það sé mjög óráðlegt og óskynsamlegt fyrir þjóðarheildina að hafa þessa dýru byggingu ónotaða kannske meira en ár, kannske tvö ár eða lengur, ef hægt væri með nokkur hundruð þúsund króna framlagi úr ríkissjóði að gera það að verkum, að sjómannaheimilið gæti tekið til starfa næsta haust. Þá mundu fá þar vist, að því er mér er tjáð, yfir 100 vistmenn, eða líklega um 150 manns, sem fengju þar inni að starfsfólki meðtöldu.

Að lokum hef ég leyft mér að flytja hér tillögu um það, að framlag til vitabygginga verði aukið um þriðjung, úr 1 millj. í 11/2 millj. Það eru nú rétt 75 ár frá því að fyrsti viti landsins var reistur á Reykjanesi. Mikið hefur áunnizt í sambandi við vitabyggingar síðan, en þó er vissulega mjög margt ógert í því efni. Ljósmagn margra þeirra vita, sem þegar hafa verið reistir, er allt of lítið, og úr því verður nauðsynlega að bæta verulega á næstu árum. Þá er einnig þörf margra nýrra vita. Ýmsar hættulegar siglingaleiðir eru enn illa lýstar, og mörg hættuleg sker eru enn þá ólýst með öllu. Hjá vitamálastjórninni munu stöðugt liggja fjölmargar umsóknir um nýja vita og ljósdufl, og margar þessara umsókna eru studdar sterkum rökum. Það fjármagn, sem árlega fer til vitamála, er minna nú, miðað við verðgildi peninga, en það var fyrir 10–12 árum. Vitagjaldið, sem átti að standa undir rekstri vitanna að verulegu eða kannske öllu leyti, hefur aðeins tvöfaldazt frá því fyrir styrjöldina. Eigi þróun þessara mála að geta talizt nokkurn veginn jöfn og örugg, þarf að auka fé til vitanna allverulega að krónutölu, og ég held, að 11/2 millj. á ári til nýbygginga sé algert lágmark, en þyrfti raunar að vera hærra.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um fjárl. á þessu stigi umræðunnar.