08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

1. mál, fjárlög 1954

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það er aðeins ein brtt., sem ég vil mæla hér nokkur orð fyrir, og mun ég ekki á þessu stigi málsins ræða fjárlfrv. eða einstakar brtt., sem fram hafa komið við það nú. Þessi till., sem er á þskj. 280,VI og er frá okkur þingmönnum Skagf., er við 16. gr. D. 11. 5. og er um það, að til borana eftir heitu vatni til Sauðárkrókshitaveitu verði veittar úr ríkissjóði 118 þús. kr.

Skal ég með örfáum orðum rökstyðja þessa brtt. okkar.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er nýlega lokið að gera hitaveitu á Sauðárkróki, og hefur sú framkvæmd yfirleitt heppnazt vel. En þó hefur verið heldur lítið vatn, sem fengizt hefur á köldustu dögum, og talin þörf á að auka heita vatnið nokkuð til öryggis, og vitað er, að með borunum þarna má auka heita vatnið. Það var á árunum 1948 og 1949, að gerðar voru boranir þarna, sem í raun og veru voru gerðar til þess að athuga, hvort tiltækilegt væri að ráðast í hitaveituna. Þessar boranir voru kostaðar af Sauðárkróki að hálfu leyti og ríkissjóði að hálfu leyfi. En eftir að hitaveitunni var lokið árið 1952, voru hafnar boranir að nýju og þá algerlega á reikning Sauðárkrókskaupstaðar með það fyrir augum að auka heita vatnið nokkuð, þannig að öruggt væri, að það þryti aldrei. Kostnaður við þessar síðari boranir varð 237 þús. kr. En svo sorglega tókst til með þessa tilraun, að það varð enginn árangur af henni, og það verður að segjast, að það var ekki eingöngu af því, að ekki kunni að hafa verið vatn þar undir, sem borið var, heldur af því, að ýmiss konar mistök urðu um framkvæmd verksins, sérstaklega það, að þau tæki, sem lögð voru til af jarðborunardeildinni, reyndust óhæf, þannig að gangur verksins varð sama og ekki neinn. Það er fyrst og fremst á þessum grundvelli, sem við þm. Skagf. teljum að sé rökstudd krafa frá okkar hálfu, að ríkið taki á einhvern hátt þátt í þessum kostnaði, þótt að öðru leyti mætti kannske segja, að þetta væri aðeins einn þáttur í sjálfu hitaveitufyrirtækinu og ætti því að vera borinn uppi af Sauðárkrókskaupstað.

Raforkumálastjóri hefur lagt til í sínum till., að þessi upphæð, 118 þús. kr., yrði greidd úr ríkissjóði vegna þessara framkvæmda sumarið 1952, og veit ég, að hann hefur gert það fyrst og fremst vegna þess, að honum er ljóst, að þarna var um mistök að ræða, sem kannske er ekki hægt að kenna neinum sérstökum um, en tækin reyndust bara ónothæf mikinn hluta sumarsins, þótt verið væri að basla við það, en verkakaup og allt annað varð að greiða vitanlega.

Við þm. Skagf. lögðum áherzlu á það við fjmrn., að þessi upphæð fengist tekin upp í fjárlfrv., en rn. vildi ekki á það fallast. Þetta erindi hefur legið fyrir fjvn., og hún hefur ekki heldur séð sér fært að taka það upp í sínar till. Við teljum ekki hægt annað en að flytja þessa till. hér og það sé að öllu leyti réttmætt, að a.m.k. þessi hálfur borunarkostnaður frá sumrinu 1952 verði greiddur úr ríkissjóði, það sé ekki nema alveg rétt viðurkenning á því, að af hálfu þeirra, sem létu framkvæma þetta verk, hafi orðið mistök, sem sjálfsagt sé að leiðrétta. Og þegar raforkumálastjóri hefur sjálfur lagt til, að þetta yrði greitt úr ríkissjóði, þá er það frá hans hálfu nokkurs konar viðurkenning á því, að hér sé um réttlætismál að ræða.

Ég vona, að ég hafi með þessum fáu orðum getað rökstutt það, hvers vegna við þm. Skagf. berum fram þessa till. um 118 þús. kr. fjárveitingu til þess að greiða heiminginn af borunarkostnaðinum frá 1952, og ég vænti þess fyllilega, að hið háa Alþ. muni fallast á það, að hér sé um réttlætismál að ræða, og samþ. þetta því. Ég skal taka fram, að ef kæmi um það ósk frá fjvn. eða frsm. hennar, að þetta yrði látið bíða til 3. umr., þá mundum við að sjálfsögðu vera fúsir til að draga till. til baka og eiga þá tal við fjvn. á milli umr.