08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

1. mál, fjárlög 1954

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. á þskj. 280.

Hin fyrri þeirra er um, að teknar verði upp fjárveitingar til þriggja ferjubryggja við Ísafjarðardjúp. Hv. þingmönnum kann nú að virðast við fyrstu sýn sem það sé nokkuð einkennilegt að fara fram á, að hafnarmannvirki séu reist á einstökum sveitabæjum. Ég hef áður skýrt frá því hér á hv. Alþ., hvernig á því stendur, að þörf er slíkra mannvirkja við Djúp. En þar hagar þannig til, að meginhluti sveitahéraðsins verður að byggja samgöngur sínar eingöngu á samgöngum á sjó. Þessar ferjubryggjur eru þess vegna byggðar til þess að bæta aðstöðu Djúpbátsins, sem ferðirnar annast, annars vegar og hins vegar bændanna, sem flytja afurðir sínar frá búum sínum að viðkomustöðum bátsins. Á nokkrum stöðum hafa verið byggðar slíkar bryggjur, og hér er farið fram á það, að bætt verði við einum stað, þ.e.a.s. á Laugabóli í Ísafirði, og til þess veittar 40 þús. kr. Enn fremur er lagt til í brtt., að veittar verði 20 þús. kr. til ferjubryggju í Skálavík. Á síðasta Alþ. voru veittar 10 þús. kr. til ferjubryggju á þessum stað. En við nánari rannsókn á lendingarskilyrðum þar er talið nauðsynlegt að fá nokkru hærri fjárveitingu til hafnarmannvirkis þar. Þess vegna hef ég flutt þessa brtt. Um þriðja staðinn, Reykjanes, þar sem stendur héraðsskóli, er það að segja, að þar er mjög myndarleg ferjubryggja, en á henni hafa orðið nokkrar skemmdir, þannig að brýna nauðsyn ber til þess að endurbæta hana.

Ég veit, að hv. þm, hafa fullan skilning á þörf þessara staða, sem ekki eru í vegasambandi þannig, að þeir geti flutt afurðir sínar landleiðis, til þess að fá þessar samgöngubætur, sem þessar fjárveitingar eru ætlaðar til.

Önnur brtt., sem ég flyt, er VII. liður á þskj. 280. Ég flyt hana ásamt hv. 5. landsk. þm., hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Eyf. Hún er við 22. gr. um það að heimila ríkisstj. að greiða Jóni Björnssyni rithöfundi 25 þús. kr. styrk vegna húsbyggingar. Það er alkunna, að Alþ. hefur oft á undanförnum áratugum veitt listamönnum styrki til þess að byggja yfir sig og þá fyrst og fremst myndlistarmönnum, listmálurum og myndhöggvurum. Þegar ég ásamt nokkrum hv. þm. flutti svipaða till. og þessa á síðasta þingi, var því haldið fram, að ekkert fordæmi væri fyrir því, að rithöfundum væri veittur slíkur húsbyggingarstyrkur, og till. náði m.a. af þeim sökum ekki fram að ganga. Ég hef nú rannsakað það, að fyrir því eru fordæmi, að rithöfundum hafi verið veittur styrkur til húsbygginga. Það er þess vegna gersamlega ástæðulaust að snúast gegn því, að þessum ágæta rithöfundi, Jóni Björnssyni, verði veittur lítilfjörlegur styrkur til þess að koma upp yfir sig sómasamlegu húsnæði. En húsnæði hans nú er þannig, að hann býr í hriplekum bragga hér inni við Suðurlandsbraut, og allir þeir, sem þekkja þau húsakynni og hafa komið þangað, vita það, að það eru gersamlega óviðunandi skilyrði til þess að vinna í, hvort sem er fyrir mann, sem vinnur andlega vinnu eins og ritstörf, eða við önnur störf. Mér er sem ég sæi þann iðnaðarmann, sem hafa ætti verkstæði sitt í slíku húsi. Ég held, að það væri mjög vel farið, ef hv. Alþ. sýndi þessum merka rithöfundi, skáldsagnahöfundi og leikritaskáldi þann skilning og mæti það mikið starf hans, að það samþ. þennan lítilfjörlega styrk, sem ég ásamt þremur hv. öðrum þm. hef lagt til að honum yrði greiddur.

Ég vil þess vegna vænta þess, að þeim upplýsingum fengnum, að það eru fordæmi fyrir því, að rithöfundum séu veittir byggingarstyrkir, þá verði þessi brtt. okkar samþykkt.