08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

1. mál, fjárlög 1954

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég er hér viðriðinn aðeins tvær brtt.

Ég hef leyft mér að gerast meðflm. að till. þeirri, sem hv. þm. A-Sk. (PÞ) gerði áðan að umtalsefni, og ég vil hið bezta mæla með samþykkt þeirrar till., það er um viðurkenningargreiðslu til fyrrverandi alþm. Þorleifs Jónssonar í Hólum í Hornafirði. Ég vil vona, að hv. alþm. kunni að meta og virða starf þessa heiðursmanns, og það gerist ekki þörf að gera frekari grein fyrir störfum hans heldur en hv. þm. A-Sk. hefur gert.

Þá höfum við leyft okkur, þm. þriggja héraða austanfjalls, Árnesþings, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, að flytja brtt. við 22. gr. fjárlfrv. Þessi brtt. er á þskj. 280,VIII, þ.e., að það komi nýr liður á gr., heimild til ríkisstj. að kaupa jarðirnar Kirkjubæ vestri og eystri á Rangárvöllum og leigja þær Landssambandi hestamannafélaga fyrir hrossaræktarbú. Á síðasta þingi var um svipað efni flutt af okkur nokkrum þm. brtt., en svo slysalega vildi til, að þegar atkv. voru greidd um till., þá var einn af fylgismönnum hennar bundinn í síma, og féll till. með jöfnum atkv. Reyndar mun atkvæðamunurinn á þann veg, að fylgi till. varð ekki enn meira, hafa stafað af því, að hv. þm. þekktu ekki nægilega tilefni þessarar till. Þessar jarðir á nú dánarbú Eggerts heitins Jónssonar frá Nautabúi í Skagafirði. Hann hafði um langt skeið lagt stund á hrossarækt og átti orðið valið kyn, sérstaklega reiðhestakyn. Við fráfall hans er mjög á huldu um, hvað verða kann um þetta hrossakyn. Landssamband hestamannafélaganna er ungt að árum, á litla fjármuni og hefur enga getu til þess að kaupa jarðirnar með því, sem þeim fylgir, og hestana, sem eru allmargir. Það væri þess vegna að okkar áliti mjög illa farið, ef starf þessa manns færi að miklu eða að öllu leyti forgörðum, en bezta ráðið til þess, að geti orðið framhald af því og komið að gagni fyrir þjóðina, er, að það verði haldið áfram með að rækta þetta hestakyn. Það ætlar Landssamband hestamannafélaganna að gera, ef það með nokkru móti getur, en það getur ekki gert hvort tveggja, bæði að kaupa jarðirnar og að kaupa hestana. Það hefur enga fjárhagslega getu til þess. Það ætlar sér að reka þarna bú og halda ræktun hestanna áfram, ef greitt er fyrir því þannig, að það geti fengið jörðina. Þetta eru góðar og miklar jarðir, og fyrst svo er ástatt um þetta mál, að þarna er hrossaræktarbúið komið og jarðirnar voru í eigu þess manns, sem átti þessa kynbótagripi, þá færi vel á því, að greitt væri fyrir hestamannafélagasambandinn um, að það geti haldið starfinu áfram. Geri ríkið ekkert í þessa átt, þá er alveg gefið, að þetta kynbótabú fer á tvístring, og hæpið, að nokkur árangur verði þá af því starfi, sem búið er að leggja í þetta, og hvað um jarðirnar verður, er ósýnt. Ef til vill kæmust þær þá í hendur einhverra þeirra, sem ekki væri sérstakur vinningur að fyrir íslenzkan landbúnað eða þetta starf, sem þarna hefur verið rækt um skeið, og hvorugt er æskilegt eða gott.

Nú hef ég spurt menn úr hv. fjvn., hvort legið hafi fyrir í þetta sinn erindi, — á síðasta þingi vissi ég til þess, að það var, — og hefur mér skilizt, að ekki sé víst, að það hafi legið fyrir, en talað hefur verið eigi að síður við n. um málið, þó að hún sæi sér ekki fært án frekari athugunar að taka málið upp og gera till. um kaup á jörðunum.

Ég þykist vita, og við flm. þessarar till., að auðgert verði fyrir ríkisstj. að komast að hóflegum samningum um þessi kaup við erfingja Eggerts heitins Jónssonar og ekki gerðist þörf á því að greiða þetta á mjög skömmum tíma. Vel má vera, að jarðirnar kosti með öllum byggingum eitthvað yfir 400 þús. kr. Mikið fram úr því fer nú verðið sennilega ekki, en þó að svo yrði, þá vil ég mega vænta þess, að ríkissjóði væri það ekki ofvaxið með þeim greiðsluskilmálum, sem hann vafalaust gæti komizt að.

Við flm. viljum nú gjarnan, að hv. fjvn. gefist kostur á að athuga málið ýtarlegar en hún hefur haft tækifæri til hingað til, og erum því fúsir til að taka þessa till. aftur til 3. umr., ef hv. n. vildi athuga málið nánar. Ég vona, að við heyrum einhver orð af hálfu hv. frsm. n. um þetta efni.

Ég ætla svo ekki að gera frekar að umtalsefni fjárlfrv. Ég tel, að það sé ekki til mikils að setja á langar ræður um slíkt. Hv. þm. kynna sér vafalaust það mál, svo að ekki er ástæða fyrir menn að gera einstakar till. að miklu umtalsefni eða frv. í heild.