14.12.1953
Sameinað þing: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

1. mál, fjárlög 1954

Emil Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hér liggja nú fyrir fjárl. til 3. og síðustu umr. Af þeim má jafnan fá ýmislegar þýðingarmiklar upplýsingar. Heildarupphæð á sjóðsyfirliti fjárlfrv., þegar það var lagt fram, var rúmar 427 millj. kr. Þessi upphæð hefur hækkað í meðförunum við 2. umr. í 443 millj. og á sjálfsagt eftir að hækka enn við þessa umr., þannig að gera má ráð fyrir, að upphæðin verði orðin 460–470 millj. um það er lýkur, og verður sjálfsagt í raun yfir 500 millj. kr.

Fyrir nokkrum áratugum komst íslenzkur stjórnmálamaður þannig að orði, að hann sundlaði, þegar hann heyrði nefnda milljón. Hvað mundi sá heiðursmaður segja nú, ef uppi væri, þegar hann yrði að fara að læra ný orð yfir tölur fjárl.? Milljónin er orðin úrelt hugtak. Niðurstöðutala fjárl. nemur um það bil hálfum milljarð króna og er á stöðugri hreyfingu upp á við. Er því sýnilegt, að milljarðurinn hefur verið innleiddur í stað milljónarinnar áður.

Langmestur hluti þessa hálfa milljarðs króna er tekinn af þjóðinni með sköttum og tollum og meira en helmingurinn með innflutningsgjöldum og söluskatti, sem leggst beint á almenning í hlutfalli við vörukaup hans, en ekki eftir efnum og ástæðum, og hann kemur því þyngst niður á þeim, sem hafa fyrir stærstum fjölskyldum að sjá. Söluskatturinn var á sínum tíma lagður á til þess að greiða niður vöruverð og greiða útflutningsuppbætur, til þess að á þann hátt væri hægt að forðast gengislækkun, en hann hefur verið tekinn áfram, eftir að gengislækkunin var gerð og þrátt fyrir hana og bátagjaldeyrinn, og er engu minni nú en áður. Með álagningu söluskattsins hafa tekjuöflunarmöguleikar kaupstaðanna og kauptúnanna verið gífurlega skertir, því að frá þessum stöðum er söluskatturinn tekinn að langsamlega mestu leyti. Eiga því nú ýmsir þessara staða mjög erfitt með að jafna niður nægilega háum útsvörum til þess að standast nauðsynleg útgjöld. Það var því ekki að furða, að jafnvel framámönnum í Sjálfstfl. blöskraði þessar aðfarir, enda reis upp borgarstjórinn í Reykjavík á þingi 1951 og bar þar fram till. um, að 25% af söluskattinum yrði látið renna til bæjarfélaganna samkv. ályktun bæjarstjórafundar, sem saman var kominn og

setinn af flestum eða öllum bæjarstjórum á landinu, sem höfðu gert ályktun um þetta efni. Þessi till. náði samþykki í Nd. En þá skeði það furðulega, að fjmrh. hæstv. reis upp og byrsti sig og sagðist ekki mundu taka við fjárl. þannig og krafðist þess, að þetta ákvæði um 25% handa sveitarfélögunum yrði tekið út aftur, því að ekki mundu fást greiðsluhallalaus fjárl., ef þessi upphæð væri látin renna til sveitarfélaganna. Og sjá, stjórnarliðið beygði sig, framlagið til sveitarfélaganna var þurrkað út, og jafnvel flm. sjálfur, hv. borgarstjóri, sat hjá við endanlega atkvgr. um málið, þar sem þetta framlag var numið úr lögum aftur. Að nokkur möguleiki hafi verið fyrir hendi til þess, að sveitarsjóðirnir mættu njóta þessarar upphæðar, sýnir bezt, að á sama þingi var verið að ráðatafa greiðsluafgangi frá árinu áður, sem nam tugum milljóna króna, og raunverulegur greiðsluafgangur 1952 virðist einnig hafa numið svipaðri upphæð og þessi 25% af söluskattinum samkvæmt skýrslu hæstv. fjmrh. í október í haust um afkomu ársins 1952. Þannig er nú komið á daginn, að þó að þessi hluti söluskattsins hefði runnið til sveitarfélaganna, þá hefði greiðsluafgangur samt getað orðið á ríkisreikningnum 1952, ef dregið hefði verið nokkur úr lánveitingum, sem þar eru nú færðar, eða lán tekin fyrir þeim á móti. Nei, það var ekki af því, að þetta væri ekki hægt. Það var viljinn, sem vantaði. Hin aðþrengdu bæjarfélög við sjávarsíðuna, sem stynja undir álögum ríkisstj. og stöðugt vaxandi dýrtið, geta ekki nú orðið jafnað niður hjá sér nauðsynlegum útsvörum. Þau njóta ekki sömu umhyggju hjá hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokkum, Sjálfstfl. og Framsfl., eins og aðrir landsmenn, og mun ég víkja aðeins að því aftur síðar. Kvað svo rammt að þessu, að þegar flutt var till. um, að ef söluskatturinn kynni að fara fram úr áætlaðri fjárhæð, skyldi það, sem umfram yrði, renna til sveitarfélaganna, þá var sú till. einnig steindrepin af stjórnarliðinu. Þetta verður að nægja um tekjuhlið fjárlfrv.

Hvað er þá að segja um hina hliðina, um gjaldahliðina? Hefur ekki þessu mikla fé, sem nú er innheimt af almenningi, verið varið meira en áður til verklegra framkvæmda? Það er sjálfsagt að athuga það.

Árið 1946 voru rekstrarútgjöld áætluð á fjárl. 127.4 millj. kr. Það ár voru veittar til hafnargerða og lendingarbóta og til hafnarbótasjóðs 5.1 millj. kr., eða um 4% af heildarupphæð fjárl. Á þessu fjárlfrv., sem hér liggur fyrir fyrir árið 1954, eru niðurstöðutölur á rekstrarreikningi, eins og áður er sagt, 427 millj. kr., eða rúmle2a þrisvar sinnum hærri en 1946. En framlagið til hafnargerða og lendingarbóta og hafnarbótasjóðs á frv. er aðeins rúmlega 11/2 millj. kr. hærra en það var 1946, eða 6.7 millj. krónur. Þetta framlag, sem nam 1946 4% af fjárlagaupphæðinni, nemur nú aðeins 11/2% af þeirri upphæð. Að vísu má gera ráð fyrir, að þessi upphæð hækki eitthvað lítillega í meðferð þingsins, og hún hefur við 2. umr. hækkað um 1 millj. kr., en þó aldrei meira en svo, að hún nái 2% af heildarrekstrargjöldunum í stað 4% 1946. Framlagið til þessara verklegu framkvæmda hefur því þarna lækkað um helming, en ekki hækkað, hlutfallslega.

Svipað verður upp á teningnum, ef athugað er framlagið til vitabygginga. Það var 700 þús. kr. 1946. Ef það hefði hækkað í sama hlutfalli og fjárl., ætti það að vera í dag 2 millj., en er aðeins 1 millj. kr.

Þó að ég hafi minnzt hér á verklegar framkvæmdir vita- og hafnarmálanna og framlög til þeirra fyrst, af því að ég er þeim kunnugastur, þá er þessu einnig á sama hátt varið um fleiri svipaða liði. Framlögin til verklegra framkvæmda hafa lækkað hlutfallslega viðar. Tökum til dæmis nýbyggingar þjóðvega. Framlag til þeirra var 71/2. millj. kr. 1946 og ætti því að vera yfir 20 millj. kr. nú, ef það hefði hækkað í hlutfalli við heildarhækkun fjárl. En þetta framlag er á fjárlfrv. nú 8:1 millj. kr. aðeins, og þá að sú upphæð kunni eitthvað að hækka í meðförum þingsins, þá verður það aldrei meira en svo, að upphæðin nær ekki helmingi þeirrar upphæðar, sem vera ætti, ef hlutfallsleg hækkun hefði verið á því og heildartölu fjárl. Hin aukna eyðsla úr ríkissjóði hefur því ekki gengið til hlutfallslegrar aukningar þessara verklegu framkvæmda, heldur þvert á móti, fjárveitingar til þeirra hafa minnkað um helming hlutfallslega, miðað við heildarupphæð fjárl.

Hefur þá ekki auknu fé verið varið til styrktar höfuðatvinnuvegum landsmanna, sjávarútvegi og iðnaði? mætti spyrja. Hefur ríkissjóður ekki lagt fram stórfé til byggingar orkuveranna við Laxá og Sog og til áburðarverksmiðju? Því fer nú víðs fjarri. Mér vitanlega hefur ekki verið lagt fé úr ríkissjóði til þessara framkvæmda nema til hlutafjárkaupa í áburðarverksmiðjunni. En hins vegar hefur ríkissjóður haft tugi millj. kr. í tolltekjur og söluskatt af þessum fyrirtækjum, tekjur, sem gera miklu meira en að jafnast á við það, sem út kann að hafa verið lagt.

Á fjárlfrv. eru ætlaðar 6.1 millj. kr. til sjávarútvegsmála og 1.9 millj. til iðnaðarmála, sem út af fyrir sig er nokkurt fé. En þegar þessar upphæðir eru bornar saman við það, sem veitt er til landbúnaðarmála, sem eru 34.4 millj. kr., þá má segja, að hlutur sjávarútvegs og iðnaðar sé ekki stór, þegar á hitt er litið. Sérstaklega er það athugavert, að bátaútvegsmenn hafa ekki til stofnlána nú annað en tóman fiskveiðasjóð, sem engar ráðstafanir hafa enn verið gerðar til þess að afla fjár til annars en útflutningsgjalds af sjávarafurðum, sem útvegsmenn verða sjálfir að greiða í sjóðinn. Þegar þetta er borið saman við þá milljónatugi, sem fyrr og síðar hefur verið veitt til landbúnaðarins og til lánsstofnana hans, verður mismunurinn gífurlegur. Með því að styrkja fiskveiðasjóðinn með myndarlegu fjárframlagi úr ríkissjóði mætti líka gera tvennt í senn: styrkja bátasmiðarnar innanlands og auka skipaflotann hjá útvegsmönnum. En fiskveiðasjóður er tómur, og framlag til hans var fellt við 2. umr. nú fyrir nokkrum dögum.

Þar sem nú þessar gífurlegu fjárfúlgur, sem heimtar eru af landsfólkinu, fara ekki að ráði meira en áður til verklegra framkvæmda né heldur til styrktar stærstu atvinnuvegum landsins, verður manni á að spyrja: Til hvers fara allir þessir peningar? Til hvers fer hálfi milljarðurinn? Ég skal aðeins nefna þrennt.

Í fyrsta lagi hafa allar launagreiðslur ríkissjóðs hækkað gífurlega vegna gengislækkunar og bátagjaldeyrisbrasks ríkisstj. og þar af leiðandi vaxandi dýrtíðar. Kemur þetta fram nálega á öllum liðum fjárlfrv. og skiptir milljónatugum. Kemur þetta þó einna greinilegast fram á kostnaðinum við utanríkisþjónustuna, þar sem gert er nú ráð fyrir 61/2 millj. kr. útgjöldum til þeirra hluta í stað 2 millj. kr., sem áætlaðar voru á fjárl. ársins 1949, sem var síðasta árið fyrir gengisfellinguna miklu. En þetta er ekkert einsdæmi. Þannig er þetta nálega alls staðar, þó að það komi skýrast í ljós þarna, þar sem greiðslurnar fara að miklu eða mestu leyti fram í erlendri mynt.

Í öðru lagi vil ég benda á 19. gr. fjárl., en hana er vert að athuga alveg sérstaklega. Það er lærdómsríkt að gefa henni gaum. Þar eru nú áætlaðar til dýrtíðarráðstafana 43.5 millj. kr. Þessi liður hefur verið á hraðri uppleið hin síðustu ár. 1952 var hann 25 millj., 1953 var hann 36.8 millj., en nú er hann áætlaður 43.5 millj. kr. Hvað þýðir þetta? Það þýðir einfaldlega það, að núverandi stjórnarflokkar eru komnir hér inn á nákvæmlega sömu brautina sem þeir fordæmdu mest fyrir 1950, hjá stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar, og þar áður. Og það þýðir, að þeir fara meir og meir inn á þessa leið með hverju árinu, sem líður. Hin geysilega gengisfelling íslenzkrar krónu, þegar verð hennar var fellt um 43% 1950, dugir ekki. Bátagjaldeyrisbraskið dugir ekki heldur. Alltaf verða leiðirnar, sem valdar eru, þessar tvær til þess að hækka verðlagið í staðinn fyrir að lækka það. Alnám hámarksálagningar á vörur verkar einnig í sömu átt. Er þá gripið til þess ráðs, sem ekki mátti nefna um áramótin 1949–50, þegar gengislækkuninni var skellt á og niðurgreiðslurnar á vörur nú auknar, þannig að þessar niðurgreiðslur eru nú komnar upp í 43.5 millj. kr. þrátt fyrir gengislækkun og bátagjaldeyri, eða kannske réttara sagt einmitt vegna gengislækkunar og bátagjaldeyris. Árið 1949, sem var síðasta árið fyrir gengislækkun, voru áætlaðar á fjárl. 64.6 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana, sem ætlað var að skiptist nokkurn veginn að jöfnu á niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur. Niðurgreiðslurnar urðu það ár 36.4 millj. kr. Nú mun ekki, eða a.m.k. ekki sem neinu nemur, vera greiddur útflutningsstyrkur eða útflutningsuppbætur, heldur mun upphæðin öll fara til niðurgreiðslu á vörum til að halda dýrtiðinni í skefjum. Þessi útgjöld eru því orðin nú rúmum 7 millj. kr. hærri en þau komust hæst fyrir gengislækkunina og nálgast óðfluga þá upphæð, sem í heil3 var varið þá til dýrtíðarráðstafana. Öruggari gjaldþrotayfirlýsingu fyrir gengisfellingar- og bátagjaldeyrispólitíkinni er ekki hægt að fá. Og haldi svona áfram sem horfir, þá stefnir óðfluga að nýju hruni. Það má sjálfsagt, fræðilega séð, hugsa sér að fara aðra hvora leiðina, leið niðurgreiðslu eða leið gengislækkunar. En það er að ofbjóða þolinmæði fólksins í landinu að fara þær báðar, eins og hér er nú gert.

Þriðja atriðið, sem mig langar til að minnast á örfáum orðum og veldur því, að nú þarf að fara að telja niðurstöðutölur fjárl. í milljörðum, er hin gífurlegu fjárframlög til landbúnaðarins. Í 16. gr. A. er talið veitt í þessu skyni 341/2 millj. kr., eins og ég minntist á áðan, og vantar þó mikið á, að þar sé allt talið. Það væri að vísu ekki nema gott eitt um það að segja að veita allt þetta mikla fé á hverju ári til uppbyggingar landbúnaðinum, ef það væri hægt að skaðlausu fyrir hina þjóðfélagsþegnana að missa það. En það er það bara ekki. Og það er þetta, sem að mjög verulegu leyti er orsök til þess jafnvægisleysis og stöðugt vaxandi dýrtíðar, sem einkennt hefur okkar efnahagslíf hin síðustu ár. En um þetta eru stjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., innilega sammála — jafnsammála og um hitt, að afnema hámarksálagningu á vörur, svo að heildsalarnir geti leikið lausum hala og tekið handa sér það, sem þeir ákveða sjálfir. Og þetta er svo áberandi, að maður freistast jafnvel til að halda, að þarna á milli framlaganna til bændanna í tugum milljóna kr. og afnáms hámarksálagningarinnar fyrir heildsala sé eitthvert samband eða um það samið milli stjórnarflokkanna. En mest er þetta gert á kostnað almennings í bæjunum, fólksins við sjávarsíðuna, sem fær ekki heldur að halda eftir litlum hluta af söluskattinum til sinna eigin þarfa.

Stjórnin lofaði skattalækkun, þegar hún settist að völdum. Ekki hefur enn bólað á frv. um þá hluti. Og nú er manni sagt, að þingið eigi ekki að koma aftur saman til starfa úr jólafríinu fyrr en í febrúar, þ.e.a.s. ekki fyrr en að afstöðnum bæjarstjórnarkosningum. Mætti því segja mér, að öruggara væri að gera ráð fyrir, að sú skattalækkun verði ekki um of rífleg, þegar hún þolir ekki að sjá dagsins ljós hérna megin við kosningarnar.

Ríkisstj. er nú búin að fara hringinn í efnahagsmálum. Hún byrjar með stærstu gengisfellingu, sem sögur fara af, tekur síðan upp bátagjaldeyrisfyrirkomulagið, sem leggur 100 millj. kr. skatt á þjóðina, og endar svo þar, sem hún byrjaði, með því að greiða niður vöruverðið, sem hún fordæmdi í upphafi, með 40–50 millj. kr. á ári úr ríkissjóði.

Tíminn sagði fyrir kosningarnar í vor, að félagar hans í ríkisstj. hefðu enga stefnu aðra en þá að halda völdum sér og sínum til styrks og hagnaðar. Skyldi þetta vera svo fjarri lagi? Morgunblaðið sagði um sína samstarfsmenn, að þeir væru fjárplógsmenn og braskarar, jafnvel á heimsmælikvarða. Gæti þetta ekki líka farið að nálgast það að vera rétt, þegar fjárlögin verða talin saman á heimsmælikvarða með því að nota milljarðinn sem einingu og úthlutunum úr ríkissjóði er deilt jafnherfilega misjafnlega milli þegna þjóðfélagsins og raun ber vitni og þegar einstakir flokkar manna í landinu eru efldir til gróða á kostnað almennings við sjávarsíðuna eins og raun ber vitni? Það væri undarlegt, ef þessi almenningur færi ekki úr þessu að láta stjórnarflokkana til sín heyra á því tungumáli einu, sem þeir skilja.