14.12.1953
Sameinað þing: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

1. mál, fjárlög 1954

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Heiðruðu áheyrendur. Þeim, sem vill fylgjast með umr. um fjárlfrv. og fjárlagaafgreiðslu Alþingis, er nauðsynlegt að gera sér mjög ljósa grein fyrir nokkrum meginatriðum, sem hljóta að marka afstöðu þingflokka til þessa máls.

Fyrst af öllu ber að hafa það hugfast, að fjárlfrv. er ekki heimadæmi fjmrh. í bókfærslu og þó sízt af öllu til að reikna það vitlaust, heldur tæki ríkisvaldsins til að hafa meiri og minni áhrif á líf og hag hvers einasta þjóðfélagsborgara og getur jafnvel ráðið sköpum einstakra atvinnugreina og atvinnulífsins í heild. Ráðdeildarlaust bruði og hóflausar kröfur um aukinn rekstrarkostnað ríkisins geta mjög auðveldlega torveldað eða hindrað eðlilega og nauðsynlega framþróun efnahagslífsins, ef framleiðslunni er íþyngt um of með sköttum og tollum. Til að semja skynsamleg fjárlög, — fjárlög, sem gætu verið etnahagslífi þjóðarinnar lyftistöng, en ekki snara um háls þess, þarf því mjög víðtæka og mjög nákvæma þekkingu á efnahagslífinu í heild og í einstökum greinum, aðgang að upplý singum, sem það varða, og skilning á frumþörfum vaxandi þjóðfélags fyrir sívaxandi framleiðslu. Af fjárlfrv. því, sem hér liggur fyrir, má hverjum vera ljóst, sem það athugar, að ekkert af þessum atriðum hefur hvarflað að þeim, sem réð gerð þess.

Annað atriði, sem hafa ber hugfast, er það, að áður en hin efnislega umr. fjárlfrv. hefst, eru allir tekjustofnar ríkissjóðs ákveðnir samkvæmt öðrum lögum og leiðum og þar með raunverulega tekjur ríkissjóðs næsta ár. Skattarnir eru ákveðnir með skattalögum, tollarnir með lögum um tollskrá, verðlag á áfengi og tóbaki er ekki háð ákvörðunum Alþingis og þá ekki heldur raunverulegar tekjur af sölu þessara vara, og þannig mætti lengi telja. Söluskattinn, óvinsælasta og ranglátasta tekjustofn ríkissjóðs, er Alþingi látið framlengja árlega, áður en umr. um fjárl. hefjast. Þegar lögin um framlengingu söluskattsins voru til umr., bárum við þm. Þjóðvfl. Íslands fram þá brtt. við þau, að söluskatturinn yrði felldur niður af smásölu, innlendum iðnaðarvörum og alls konar þjónustu, þ.e.a.s. ranglátasti hluti hans, sá hluti, sem vitað er og viðurkennt að aldrei rennur í ríkissjóð, heldur verður ýmsum ófyrirleitnum bröskurum að féþúfu. Hefði þessi till. náð samþykki, mundum við hafa létt af almenningi um 35 millj. kr. skattabyrði. Þrátt fyrir þá tekjulækkun, sem hér um ræðir, hefði hæstv. ríkisstj. getað afgr. fjárlfrv. eins og það var lagt fram, eins og ég mun síðar sýna fram á. Ef þessi till. hefði náð samþykki, mundu þm. Þjóðvfl. hafa talið það eftir atvikum svo mikilvægan áfanga að heilbrigðri fjármálastjórn, að þeir hefðu sætt sig við að samþykkja fjárlfrv. að öðru leyti án meiri háttar breytinga. En þessi till. var felld með atkv. allra hv. þm. stjórnarflokkanna, sem viðstaddir voru í hv. Nd., og þegar slík misindismál sem söluskatturinn eru á dagskrá, sækja þeir óvenjuvel.

Þegar 2. umr. um fjárlfrv. hefst, eru tekjustofnarnir þannig ákveðnir, eins og ég áður sagði. Við fjárlagaumr. er því hlutverk Alþingis það eitt að reyna að áætla tekjurnar samkvæmt tekjustofnunum og ráðstafa þeim síðan til ákveðinna þarfa. Nú er það skylda Alþingis að reyna að áætla tekjurnar eins rétt og nákvæmlega og nokkur tök eru á, vegna þess að á því veltur það, hvort fjárveitingavaldið er raunverulega í höndum Alþingis eða í höndum ríkisstj. Þær upplýsingar, sem hæstv. ríkisstj. lætur Alþingi í té til að vinna þetta verk vel og skynsamlega, eru harla bágbornar. Það er þá helzt, að það er staðreynd, að nokkur undanfarin ár hafa tekjuáætlanir hæstv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, verið svo fjarri raunveruleikanum, að líkja mætti við sögur Vellygna-Bjarna. Ég nefni aðeins þessi dæmi: Árið 1951 urðu tekjur ríkissjóðs 115 millj. kr. hærri en fjmrh. hafði áætlað þær. Árið 1952 urðu þær 44 millj. kr. hærri en áætlað var, og var þó áætlun ráðh. þá hækkuð stórlega í meðförum þingsins, og árið 1953 munn tekjur ríkissjóðs verða um 70 millj. kr. hærri en áætlað var á fjárl. yfirstandandi árs samkvæmt upplýsingum, sem hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, gaf sjálfur við 2. umr. fjárlfrv. Öll þessi ár hefur hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, haldið því fram á Alþingi og frammi fyrir þjóðinni allri af miklum fjálgleik, að tekjuhlið fjárlfrv. væri of hátt spennt og teflt væri á tæpasta vað um afgreiðslu fjárl., eins og hann hefur orðað það og mun orða það í umr. hér í kvöld. Hinn bláberi sannleikur, sem öllum er ljós, er þó sá, að hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, hefur aldrei farið yfir Fúlalæk skattpíningarinnar á neinu vaði, heldur ekið yfir hann í lúxusbifreið á brú byggðri af striti íslenzkrar alþýðu. Þannig er þá fyrsta heimildin, sem Alþingi hefur að leiðarstjörnu við afgreiðslu fjárl. Auk þess geta þm. svo stuðzt við næsta fjárlagaár á undan því, sem til umr. er hverju sinni. Fjárlagaárið 1953 var gert ráð fyrir, að ríkistekjurnar yrðu 418 millj. kr. samkvæmt fjárl. Samkvæmt upplýsingum hæstv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, sem ég áðan gat, má nú þegar gera ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs á þessu ári verði ekki 418 millj. kr., heldur a.m.k. 485 millj. kr., eða fari allt að 70 millj. kr. fram úr áætlun. Þá skal það tekið fram, að hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, sagði við 2. umr. fjárl., að ef nota ætti þessa upphæð sem viðmiðunartölu, bæri að draga frá henni 25 millj. kr. óvenjulegar tekjur, sem ríkissjóður hefði fengið á yfirstandandi ári í tolla og skatta af virkjununum við Sog og Laxá. Er það í fyrsta skipti, sem hann hefur fengizt til að viðurkenna það, sem ég upplýsti við 1. umr. fjárlfrv., að ríkissjóður hefði haft þessar þjóðnauðsynlegu framkvæmdir að féþúfu í eyðsluhít sína. Er óþarft að fara fleiri orðum um það mál hér, svo ljóslega sýnir það hug og afstöðu stjórnarflokkanna til framkvæmda og eflingar íslenzks atvinnulífs. En þó að þessar 25 millj. kr. séu dregnar frá ríkistekjunum 1953, verða eftir um 460 millj. kr. Talsmenn stjórnarflokkanna hafa haldið því fram við fjárlagaumr. og munu halda því fram við þessar umr., að árið 1953 hafi verið óvenjulega gott ár, eins og það er kallað, og þess vegna sé ekki rétt að gera ráð fyrir, að árið 1954 verði eins gott ár. Sannleikurinn er hins vegar sá, að árið 1953 hefur um ekkert verið óvenjulegt annað en það, að grasspretta var óvenjulega góð, en það hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs, a.m.k. ekki samsumars. Árið 1953 er um flesta hluti meðalár hvað framleiðslu snertir og því heppilegt til viðmiðunar. Auk þess ber að hafa það hugfast, að ef ekkert óvenjulegt dynur yfir, svo sem enn þá meiri aflabrestur en verið hefur á síldveiðum um langt skeið eða ástæðulaust atvinnuleysi og skipulagðir erfiðleikar framleiðslunnar af ráðdeildarlausum valdhöfum, má alltaf gera ráð fyrir, að þjóðartekjur næsta árs og þar með tekjur ríkissjóðs verði nokkru meiri en á yfirstandandi ári hjá þjóð, sem er í vexti, og að öðru jöfnu. Stafar það af því, að í fyrsta lagi bætast árlega við allmargir nýir skattgreiðendur og þar með breikkar skattagrundvöllurinn; í öðru lagi af því, að hin nýja kynslóð leitast við að fullnægja lífsbjargarviðleitni sinni og athafnaþrá jafnvel af meiri stórhug og bjartsýni en fyrri kynslóðir þessa lands, stofnar sinn eigin atvinnurekstur og framleiðslufyrirtæki, leggur sitt nýja framlag til þjóðarbúsins árlega, sem breikkar skattagrundvöllinn og eykur ríkistekjurnar að óbreyttum skatta- og tollalögum. Og þó að hin unga kynslóð sé ekki hert í baráttunni við harðræði elds og ísa eins og hinar eldri kynslóðir, þá er hún hert í baráttunni við spillta, hugsjónalitla og makráða valdhafa, sem glatað hafa trúnni á getu þjóðarinnar og möguleika til að lifa án betlidóms í landi sínu.

Þessi atriði, sem ég hef nú lýst, eru sá grundvöllur og það leiðarljós, sem a.m.k. stjórnarandstaðan hefur til að marka afstöðu sína við afgreiðslu fjárl. Ég hef af ásettu ráði rætt þau eins ýtarlega og tök voru á á þeim tíma, sem ég hef til umráða. Geri ég það til þess að skynsöm alþýða þessa lands elgi auðveldara með að átta sig á fánýti þeirra blekkinga, sem talsmenn hæstv. ríkisstj. munu halda hér fram, að till. okkar þjóðvarnarmanna hafi verið óraunhæfar og af þeim sökum hafi þær verið felldar af stjórnarliðinu handjárnuðu.

Við hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, lögðum til með hliðsjón af framangreindum rökum, að tekjur ríkissjóðs árið 1954 yrðu áætlaðar á fjárl. ekki 485 millj. kr., eins og upplýst er að þær muni verða 1953, heldur aðeins 464 millj. kr., eða 37 millj. kr. hærri en hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, lagði sjálfur til í fjárlfrv. Er það mun lægri upphæð en umframtekjur ríkissjóðs hafa reynzt árlega um langt skeið. Má því öllum ljóst vera, að varlega var í sakirnar farið. Rökstuddum við þessar till. okkar allýtarlega lið fyrir lið, þótt ekki sé tími til að rekja það hér. Þarf varla að taka það fram, að hv. þingmenn stjórnarflokkanna voru látnir fella þessar till. allar, þó að þeim væri öllum ljóst, að tíminn mundi eiga eftir að sanna, að þær voru sannleikanum samkvæmari en það, sem þeir voru látnir samþykkja. Þó skal viðurkennt, að meiri hl. fjvn. lagði til og fékk samþ. með atkvæðum stjórnarandstöðunnar, að tekjur ríkissjóðs yrðu áætlaðar 161/2 millj. kr. hærri en hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, hafði lagt til. Er skylt að veita meiri hl. fjvn. viðurkenningu fyrir þá karlmennsku, sem hann þar sýndi, þótt í litlu væri, þar sem vitað er, að þetta var fyrst og fremst gert til að gefa almenningi vísbendingu um það, hvers eðlis fjárlfrv. er svo og frágangur þess frá hendi ráðh. En megintilgangur hæstv. ríkisstj. með því að áætla ríkistekjurnar visvítandi 50–100 millj. kr. lægri árlega en þær raunverulega verða er svo sem kunnugt er sá að vera óbundin af ákvörðunum Alþingis um umframgreiðslur úr ríkissjóði til valdabaráttu og atkvæðasnapa stjórnarflokkanna.

Þá lögðum við þingmenn Þjóðvfl. Íslands fram nokkrar till. til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Lögðum við m.a. til, að aðeins væri starfandi eitt sendiráð á Norðurlöndum, að lækkaður yrði um nokkur hundruð þús. kr. ferðakostnaður og annar kostnaður við tilgangs- og nauðsynjalausar tildursráðstafanir úti í löndum og lúxusflakk stjórnargæðinga og fleira þess háttar.

Samtals námu þessar sparnaðartill. okkar á ríkisrekstrinum um 2.2 millj. kr., og kynni ýmsum að finnast varlega í sakirnar farið. Þessar till. voru þó allar felldar af stjórnarflokkunum, og voru hv. þm. stjórnarflokkanna einir um það afrek og sýndu með því ótvírætt, að þeir vilja ekkert spara í ríkisrekstrinum, enda vitað, að stjórnarflokkarnir líta þannig á, að nú sé svo komið, að eina von þeirra til að halda völdum sé bundin við það, að hæstv. ríkisstj. ausi til þess fé úr ríkissjóði. Það eina, sem hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, hafði til þessara mála að leggja við fjárlagaumræðurnar yfirleitt, var það, að nauðsynlegt væri að framkvæma rannsókn á því, á hvern hátt mætti spara í ríkisrekstrinum. Nefni ég þetta fyrst og fremst vegna þess, að þetta mun verða eitt meginatriðið í ræðu þessa hæstv. ráðh. við þessar umr. Vil ég ráðleggja mönnum að gjalda varhuga við alvöru þessara orða, þegar þau koma frá hæstv. núverandi fjmrh. Færi ég þau rök fyrir því, auk þess sem þegar er greint, að hv. 2. þm. Eyf., Magnús Jónsson, sem var frsm. meiri hl. fjvn. við 2. umr. fjárl., gat þess, að fyrir nokkru hefði verið starfandi sparnaðarnefnd á vegum ríkisstj. til að rannsaka og gera till. um sparnað í rekstri ríkisins og ríkisstofnana, hefði þessi n. lagt fram allýtarlegar till. til sparnaðar, þ. á m., að ýmsir embættismenn ríkisins afhentu bifreiðar, sem þeir hefðu á kostnað ríkissjóðs. Árangurinn af þessum sparnaðartillögum sagði þessi hv. þm. orðrétt þann: „að aðeins einn embættismaður hefði afhent sinn bil og þar við hefði setið“. Þetta þýðir það, að ríkisstj. núverandi stjórnarflokka kostaði sparnaðarnefnd af ríkisfé og hafði siðan till. hennar að engu. Þá bið ég menn einnig að athuga það vandlega, að allar till. um aukinn rekstrarkostnað ríkisins á undanförnum árum, sem samþ. hafa verið, hafa komið frá núverandi stjórnarflokkum, sem öll ráð hafa haft í hendi sér. Till. Alþfl. og Sósfl. í þeim etnum hafa allar verið felldar, og Þjóðvfl. hefur engar till. borið fram um aukinn rekstrarkostnað ríkissjóðs. Bið ég menn að hafa þetta vandlega hugfast.

Til enn frekari rökstuðnings í þessu efni skal ég lesa nokkur orð úr framsöguræðu hv. 2. þm. Eyf., Magnúsar Jónssonar, við 2. umr. fjári., sem birt var í Morgunblaðinu 10. des. s.l. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Undanfarin ár hefur hinn sívaxandi rekstrarkostnaður ríkisins og hækkun lögboðinna framlaga valdið því, að hlutur hinna verklegu framkvæmda hefur orðið æ minni.“

Það mun tæplega unnt að lýsa hinni óheilbrigðu fjármálastefnu núverandi valdhafa öllu betur í jafnfáum orðum. Í stað þess að vera lyftistöng fyrir atvinnu- og efnahagslífið í landinu eru fjárlög og fjármálastefna hæstv. ríkisstj. drápsklyf og fjötur á eðlilegu athafnalífi landsmanna. Útgjöld ríkissjóðs eru að langmestu leyti bundin með löggjöf, sem þingmeirihluta þarf til að breyta, löggjöf, sem ekki verður breytt í jákvæða átt, fyrr en kominn er á Alþ. meiri hl., sem hefur skilning á því, að auðugu menningarlífi, félagsstarfsemi og sjálfsögðum kröfum nútíma þjóðfélags um lífsþægindi getur þjóðin aðeins með einu móti haldið uppi og fullnægt, með því, að efnahags- og atvinnulíf hennar geti risið undir þeim fórnum, sem slíkt hefur óhjákvæmilega í för með sér, að kröfur, sem gerðar eru í þessu efni til efnahagslífsins umfram getu þess, valda aðeins hruni og upplausn og grafa undan tilveru og sjálfstæði þjóðarinnar, eins og berlega hefur komið í ljós hin síðari ár. Af þessum sökum hefur Þjóðvfl. Íslands haldið því fram og mun gera, að þjóðin verði í þessum efnum að neita sér um mjög margt, á meðan hún er að koma efnahagslífi sínu og framleiðslu í það horf, að það geti borið uppi það menningarlíf og afkomuöryggi, sem hún á margfaldlega skilið, en þessu takmarki nær þjóðin aðeins með einu móti: með fórnum og framkvæmdum sjálfrar sín, en aldrei með ölmusugjöfum auðugra vina né stórhættulegu og lífsfjandsamlegu hernaðarbrölti í landi sínu.

Í ljósi þessara óhrekjanlegu sanninda bárum við hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, fram þær brtt. við fjárlfrv., að þeim samtals 39 millj. kr., sem við lögðum til að tekjur ríkissjóðs yrðu hækkaðar um og sparaðar í ríkisrekstri, yrði varið á þann veg, að 15 millj. kr. rynnu til nýrra atvinnuframkvæmda, fyrst og fremst til að hefja undirbúning að ýmiss konar þjóðnýtum iðnaði í stórum stíl, sem skipulega yrði byggður upp á nokkrum árum með árlegum framlögum og lánsfé til að veita vaxandi þjóðfélagi nauðsynleg viðfangsefni og lífsmöguleika. Þá lögðum við til, að 6 millj. kr. yrði varið til fiskveiðasjóðs til eflingar sjávarútveginum á sama hátt, að 5 millj. kr. af ríkisfé yrði varið til byggingar sementsverksmiðjunnar auk lánsfjár í stað 1 millj., sem hæstv. ríkisstj. hyggst veita til þess verks, sem sýnilega þýðir það, að ekkert á að þoka byggingu sementsverksmiðjunnar áfram á næsta ári. Loks lögðum við til, að 7 millj. kr. yrðu látnar renna til væntanlegrar veðdeildar Iðnaðarbanka Íslands, sem lánaði þær síðan út til að byggja yfir það fólk, sem nú þegar hefur beðið tjón á heilsu sinni við það að búa í hriplekum braggaskriflum og öðru slíku húsnæði, sem á engan hátt er mannsæmandi. Var þessi till. okkar miðuð við það þrennt: að útrýma því húsnæði, sem ég gat um, úr tölu mannabústaða, tryggja byggingariðnaðinum aðgang að lánsfé, svo að takast mætti að hefja byggingu í stórum stíl á einföldum og ódýrum, en heilsusamlegum íbúðum án íburðar og komast fram hjá þeirri sérkennilegu peningapólitík Landsbanka Íslands, sem telur sér hentast að binda útlán sín í velflestu öðru en varanlegum fasteignum og lánar ekki nema 55 kr. út á rúmmetra í íbúðarhúsum á sama hátt og gert var fyrir 40–50 árum, ef hann þá veitir lán til íbúðarhúsabygginga. Auk þessa bárum við fram nokkrar minni brtt., sem ekki vinnst tími til að rekja.

Útgjaldatill. okkar námu samtals 36.5 millj. kr. og voru því 2.5 millj. kr. lægri en tekjuhækkunar- og sparnaðartill., og mun það í fyrsta skipti í þingsögunni, að stjórnarandstöðuflokkur ber fram lægri till. til útgjalda en til hækkunar á tekjum. Er rétt, að menn hafi það atriði hugfast, þegar stjórnarliðið fer að fjargviðrast út af því, hvað till. þjóðvarnarmanna um fjárlagaafgreiðslu hafi verið óraunhæfar, en það mun það lið gera, ef ég þekki það rétt. Allar þessar till. voru hv. þm. stjórnarflokkanna látnir fella, og vil ég geta þess hér, að mér hefur þótt átakanlegt að horfa upp á það, hvað þessir hv. þm., sem sumir hverjir a.m.k. hafa reynt að sýna nokkra fyrirferð og reisn heima í héraði, eru fyrirferðarlitlir í vösum flokksleiðtoganna, þegar á þing kemur. En þannig verða þeir látnir afgreiða fjárl. á þessu þingi með æ minni hlut hinna verklegu framkvæmda og sívaxandi rekstrarkostnaði ríkisins, eins og hv. þm. Eyf., Magnús Jónsson, komst svo réttilega að orði. Sem smádæmi um hinn sívaxandi rekstrarkostnað ríkisins og óhófseyðslu hæstv. ríkisstj. má nefna það, að 6 ráðh. halda nú samtals 7 bíla og a.m.k. 5 fastráðna einkabílstjóra á ríkiskostnað, að hæstv. forsrh., Ólafur Thors, og fjmrh., Eysteinn Jónsson, létu sér sæma að bera fram till. um það, að hæstv. utanrrh., Kristni Guðmundssyni, skyldi greitt þingfararkaup eins og þm., þó að hann sé ekki þm. Mun þá þessi hæstv. ráðh. kosta ríkissjóð með öllu saman, ráðherralaunum, þingfararkaupi, lúxusbíl, einkabílstjóra, nær 8000 kr. húsaleigu á mánuði, sem ekkert fordæmi er fyrir að greiða, risnu o.fl., o.fl., um 300 þús. kr. á ári eða helmingi hærri upphæð en hæstv. ríkisstj. taldi ríkissjóð hafa efni á að veita Slysavarnafélagi Íslands til almennra slysavarna. Er það dæmi þó auðleyst, hvort þjóðinni er nauðsynlegra sex dáðlitlir ráðherrar eða öflugar slysavarnir á sjó og landi.

Þá nefni ég það og til, sem vitað er, að ráðherrar hafa notað vald sitt og aðstöðu til að koma sonum sínum og tengdasonum á ríkisjötuna, eins og t.d. hæstv. landbrh., Steingrímur Steinþórsson, og fyrrv. hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, og jafnvel veitt þeim frí frá störfum á eftir til langdvala erlendis.

Loks nefni ég það, að sömu dagana og hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, flutti ræðu á Alþ. um nauðsyn þess að rannsaka, á hvern hátt mætti spara í ríkisrekstrinum, réð hann sjálfur tvo menn til að starfa hjá ríkisstofnun, sem heyrir undir hann og ég get nefnt, ef óskað er, að forstöðumönnum þeirrar stofnunar forspurðum, og vissu þeir ekki, hvað þeir áttu að láta mennina gera, þegar þeir birtust í fyrirtækinu. — Skora ég á hæstv. ríkisstj. að hrekja þessi atriði, ef ekki er rétt með farið.

Þannig undirbýr hæstv. ríkisstj. líf og lífsmöguleika komandi kynslóðar þessa lands. Á þennan hátt býr hún þjóðina undir það að geta 2-faldazt á næstu 40 árum og séð 300 þús. manns farborða í landinn af eigin rammleik — með sívaxandi rekstrarkostnaði ríkisins og minnkandi framlögum til verklegra framkvæmda. Með ráðdeildarlausu óhófsbruðli, erlendum neyzlulánum og sníkjum lifir þessi hæstv. ríkisstj. í dag langt um efni fram og skrifar skuldina hjá þeirri kynslóð, sem við á að taka, svo að hún geti stunið undir okinu. Þær minjar lætur hún eftir sig, þegar hún hverfur, og mundi það eitt halda smán hennar á lofti langt fram í tímann, þótt ekki kæmi annað til.

Með fjárlfrv. því, sem hér liggur fyrir, bætir hæstv. ríkisstj. heimsmet sitt í skattakúgun og fjármálaóstjórn einu sinni enn. Raunverulegar ríkistekjur munu verða árið 1954 nær 500 millj. kr., þó að þær séu ekki áætlaðar nema 443 millj. kr. á fjárl. Við það ber að bæta bátagjaldeyrisokrinu, sem á næsta ári mun nema 70–100 millj. kr., þar sem vitað er, að það á að auka eftir áramótin. Ríkisálögurnar 1954 munu því nálgast 600 millj. kr., og má fullyrða, að hvergi í veröldinni séu þær jafnháar miðað við þjóðartekjur né hlutfallslega minna af slíkri upphæð varið til verklegra framkvæmda. Slíkt er fjármálavit hæstv. ríkisstj.