14.12.1953
Sameinað þing: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

1. mál, fjárlög 1954

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Mér gefst ekki tími til að ræða frv. til fjárl. fyrir árið 1954, sem hér liggur fyrir til umr. Þess í stað mun ég taka til athugunar þá hlið málsins, sem snýr að verkalýðshreyfingunni og meðlimum hennar, og sýna fram á, hvernig ríkisvaldið hefur ár eftir ár ráðizt á lífskjör fólksins og þrengt kosti þess í krafti þess meirihlutavalds, sem andstöðuflokkar alþýðunnar hafa haft og hafa enn á Alþingi.

Á árunum 1942–46 tókst verkalýðssamtökunum undir forustu Sósfl. að fá kjör sín stórlega bætt. 8 stunda vinnudagur var viðurkenndur með samningi við atvinnurekendur án skerðingar á dagkaupi, orlofslög samþykkt á Alþ., tryggingar stórlega auknar, þrælalögin illræmdu brotin á bak aftur undir forustu verkamannafélagsins Dagsbrúnar og fleiri verkalýðsfélaga, kaupgjald hækkaði allverulega, og nýr vísitölugrundvöllur var samþykktur o.fl., o.fl. Ég hef ekki tíma til að ræða um hið glæsilega tímabil nýsköpunarstjórnarinnar, en á þeim árum bjó alþýðan við þau beztu lífskjör, sem hún hafði nokkurn tíma haft, enda næg atvinna fyrir alla þá, sem vildu og gátu unnið.

Allan tímann frá árinu 1947 og til þessa dags hafa allar ríkisstjórnir beitt áhrifum sínum til þess að ná aftur af verkalýðnum þeim stórfelldu kjarabótum, sem alþýðan hafði áunnið sér á árunum 1942–47. Rétt er að benda á, að það var stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar, sem hafði forustuna um að ræna því af almenningi, sem áunnizt hafði á tímabili nýsköpunarstj., með geysilegum tolla- og skattaálögum og beinum árásum á verkalýðssamtökin með bindingu vísitölunnar.

Árið 1950 var mynduð ný ríkisstj. af Framsfl. og Sjálfstfl. undir forsæti Steingríms Steinþórssonar. Strax í upphafi var það lýðum ljóst, að hér var setzt í valdastólinn ríkisstj., sem ekki mundi hika við að vega allharkalega að hagsmunum launastéttanna, jafnhliða því, sem hún mundi í einu og öllu reynast hið þægasta verkfæri í höndum braskara og amerískrar yfirgangsstefnu, sem nú er farin að láta allmjög til sín taka um utanríkis- og innanríkismál Íslendinga. Árásarinnar var ekki lengi að bíða. Fyrsta og aðalmálið, sem hin nýmyndaða ríkisstj. beitti sér fyrir, var að koma á gengisfellingu íslenzku krónunnar. Mun það hafa verið gert eftir kröfum stjórnar Bandaríkjanna og sett sem skilyrði fyrir hinni marglofuðu og umtöluðu Marshallaðstoð. Gengisskráningarfrv. ríkisstj. var barið í gegn með hinni mestu hörku þrátt fyrir eindregin mótmæli allrar verkalýðshreyfingarinnar. Þm. Sósfl. og aðrir þm. stjórnarandstöðunnar vöruðu við hinum skaðlegu áhrifum gengisfellingarinnar, en allar slíkar aðvaranir voru virtar að vettugi. Gengisskráningarlögin voru samþykkt af öllu stjórnarliðinu. Þar með var hafin stærsta og svívirðilegasta árásin, sem gerð hefur verið á lífskjör alls vinnandi fólks í landinu. Með verðfellingu krónunnar var öllu verðiagi kippt úr skorðum. Verð á öllum erlendum vörum hækkaði hröðum skrefum, en kaupgjald hækkaði ekki nema að litlu leyti miðað við hina ört vaxandi dýrtíð, sem nú flæddi yfir þjóðina og veitti öllum launþegum hinar þyngstu búsifjar.

Það sýndi sig fljótlega, að gengisfellingin var engin lausn á vandamálinu, heldur hið gagnstæða. Loforð ríkisstj. um að tryggja sjávarútveginum örugga afkomu og skapa öryggi og festu í atvinnumálum þjóðarinnar reyndust vera helber svik og blekkingar. Útgerðin stóð hallari fæti en nokkru sinni fyrr, og allt virtist ramba á barmi gjaldþrots og stöðvunar. Atvinnuleysi jókst til muna, og öll alþýða manna var að sligast fjárhagslega undan ofurþunga skatta- og tollaáþjánar og sívaxandi dýrtíðar. Þegar sýnt var, að felling krónunnar kom ekki útgerðinni að því haldi, sem lofað hafði verið, var gripið til nýrra áður óþekktra ráðstafana. Bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu var komið á, án þess að leitað væri eftir samþykki Alþ., verðlagseftirlitið á erlendum vörum afnumið, lög um húsaleigu afnumin og fleiri þær ráðstafanir gerðar, sem skrúfuðu enn á ný verðlagið upp úr öllu valdi, en rýrðu kjör almennings að sama skapi. Þar með voru heildsalastéttinni og braskaralýðnum algerlega gefnar frjálsar hendur til stóraukins gróða á kostnað hinna mörgu.

Jafnhliða beinum árásum á lífskjör fólksins höfðu stjórnarflokkarnir að undanförnu gert allt, sem þeir höfðu getað, til þess að lama verkalýðshreyfinguna innan frá og notið til þess aðstoðar stuðningsmanna sinna í Alþfl. til að ná yfirráðum í Alþýðusambandi Íslands. Þar með töldu þeir sig geta ráðíð stefnu og störfum Alþýðusambandsstj. og hindrað nauðsynlegar gagnráðstafanir verkalýðshreyfingarinnar.

Þrátt fyrir hin auknu áhrif afturhaldsflokkanna í Alþýðusambandi Íslands hefur verkalýðshreyfingin svarað árásum ríkisvaldsins með harðvítugri launabaráttu. Í því sambandi má benda á verkfall landverkafólks 1949 og sjómannaverkfallið 1949 og 1950. Í báðum þessum verkföllum náðust fram allmiklar kjarabætur, sérstaklega í því fyrrnefnda.

Á s.l. ári voru háðar tvær stórar vinnudeilur. Sú fyrri var kaupdella sjómanna á togurum. Sjómenn fengu kjör sín bætt á saltfiskveiðum og samningsbundinn rétt til 12 stunda hvíldar á sólarhring. Í desember 1952 hófu verkalýðssamtökin um allt land víðtækustu vinnudeilu, sem um getur í sögu íslenzkrar verkalýðshreyfingar. Tóku yfir 20 þús. meðlimir verkalýðshreyfingarinnar þátt í því verkfalli, sem stóð í 19 daga. Verkalýðsstéttin sýndi í þessari hörðu deilu mikla fórnfýsi og ágætt skipulag og óbilandi baráttukjark. Í upphafi kaupdeilunnar gerði ríkisstj. allt, sem hún gat, til þess að eyðileggja verkfallið. Lengi vel neitaði ríkisstj. að leggja nokkuð fram, sem orðið gæti til lausnar deilunni. Það var ekki fyrr en verkfallið hafði staðið í marga daga og sýnt var, að verkalýðssamtökin létu engan bilbug á sér finna, að ríkisstj. neyddist til að láta undan síga fyrir ofurþunga almenningsálitsins og drattast til að skipa sáttanefnd um málið, enda var þá farið að bresta allharkalega í stólum hæstv. ráðh. Deilan leystist með samningum milli deiluaðila fyrir milligöngu sáttan. 19. des. Verkalýðshreyfingin hafði knúið ríkisstj. til undanhalds. Samið var um allmiklar lækkanir á nokkrum nauðsynjavörum, 5% fækkun á flutningsgjöldum. Orlof hækkuðu um 1%. Samið var um lagfæringar á vísitölunni á lægri launaflokkunum og fjölskyldubætur auknar. Ekki er rétt að skilja svo við þetta mál, að ekki sé bent á þá staðreynd, að hægt hefði verið að komast hjá vinnustöðvun, ef ríkisstj. hefði mætt kröfum fólksins með sanngirni og velvild og viljað skilja þau einföldu sannindi, að alþýða manna til sjávar og sveita á að hafa óumdeilanlegan rétt til að búa við mannsæmandi lífskjör.

Lærdómur undanfarandi verkfalla ætti að vera launþegum og allri alþýðu alvarleg áminnin,g um það, hvílíkur voði er búinn hagsmunum hennar og lífsafkomu, ef hún heldur áfram að standa sundruð á vettvangi stjórnmálanna. Andstæðingar hennar eru sameinaðir. Þeir ráða ríkisstj. og Alþ. Þeir eru samtaka um að drepa hvert einasta hagsmunamál, hverja einustu umbótatill., sem flutt er hér á Alþ. Þessari stefnu sinni munu þeir vera trúir og halda áfram að fylgja, þar til alþýðan neitar þeim um áframhaldandi brautargengi.

Á undanförnum árum var af núverandi stjórnarflokkum mikið rætt um vandamál dýrtíðarinnar. Sérstaklega taldi Framsfl. sig sjálfkjörinn til þess að berjast á móti vaxandi verðbólgu og hinum skaðlegu áhrifum hennar. Nú hafa þessir flokkar hætt öllu slíku tali. Sósfl. og verkalýðshreyfingin hafa bent á leiðir til lækkunar verðbólgunnar, enda er nú svo komið vegna vaxandi dýrtíðar, að meðallaun fyrir 8 stunda vinnudag verkamanns hrökkva tæplega fyrir nauðsynjum heimilanna.

Á þingi Alþýðusambands Norðurlands, sem haldið var á Akureyri nú fyrir skemmstu, voru viðhorf verkalýðshreyfingarinnar til kaupgjalds- og verðlagsmála tekin til rækilegrar yfirvegunar. Meðal þeirra samþykkta, sem gerðar voru í því máli, voru eftirfarandi: Að tollar á nauðsynjum almennings og söluskatturinn yrðu afnumdir, að bátagjaldeyrisokrinu verði af létt, að persónufrádráttur við útreikninga útsvars og skatta verði hækkaður og beinir skattar ekki lagðir á þurftarlaun, að 1/3 hluti launa sjómanna verði skatt- og útsvarsfrjáls, að persónuleg gjöld til almannatrygginga og sjúkrasamlaga verði afnumin, sett verði hámarksflutningsgjöld með skipum, sem miðuð séu við eðlilega afkomu verzlunarflotans, að vextir verði stórlega lækkaðir, að hámarksálagning verði ákveðin á öllum nauðsynjum og þjónustu. Að lokum er bent á, að ef Alþ. geri ekki nauðsynlegar ráðstafanir til lækkunar dýrtíðarinnar, sé verkalýðssamtökunum nauðugur einn kostur að taka upp baráttuna á næsta vori, þar sem frá var horfið s.l. vetur, fyrir hækkun vinnulauna. Í þessu sambandi leyfi ég mér að benda á, að við þm. Sósfl. höfum nú þegar á þessu þingi flutt frv. um flest þau mál, sem þing Alþýðusambands Norðurlands benti á til lausnar dýrtíðarvandamálsins. Allt bendir til þess, að ekkert af þessum málum nái fram að ganga. Verkalýðshreyfingunni mun því nauðugur einn kostur að taka upp baráttu fyrir hækkun vinnulauna, svo framarlega sem hún vill ekki sætta sig við áframhaldandi versnandi lífskjör.

Sjómenn á bátaflotanum hafa þegar hafið baráttuna. Þeir eru í hópi þeirra verst launuðu í þjóðfélaginu, þegar tekið er tillit til hins langa vinnutíma og hinnar geysilegu hættu, sem er samfara störfum þeirra á sjónum og þó alveg sérstaklega, þegar það er haft í huga, að íslenzkir sjómenn afla hlutfallslega margfalt meiri verðmæta en nokkur önnur sjómannastétt í heiminum. Nú um þriggja ára skeið hafa sjómenn með bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu verið sviptir því, sem áður var, að njóta sama verðs fyrir hlut sinn og útgerðin. Þannig hefur raunverulega verið kippt burt af stjórnarvöldunum hinum eðlilega grundvelli undan hlutaskiptafyrirkomulaginu. Sjómenn við Faxaflóa, í Vestmannaeyjum, á Vestfjörðum og á Norðurlandi hafa neyðzt til að segja upp samningum við útgerðarmenn frá n.k. áramótum með það fyrir augum að fá fastákveðið og hækkað verð fyrir hlut sinn. Það er skilyrðislaus krafa alls almennings í landinn, að nú þegar verði gengið til samninga við samtök sjómanna um réttlátt fiskverð, svo að vertíð geti hafizt á réttum tíma.

Í sambandi við yfirvofandi deilu bátasjómanna leyfi ég mér að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort nokkuð hafi yfirleitt verið gert af hennar hálfu til þess, að til vinnustöðvunar þurfi ekki að koma í byrjun vertíðar. Á að senda alþm. heim í jólafrí, án þess að þetta mál verði rætt á Alþ.? Almenningur krefst þess af ríkisstj., að hún beiti áhrifum sínum til þess, að nú þegar verði samið við bátasjómenn, þannig að þeir fái kröfum sínum framgengt.

Jafnhliða baráttu verkalýðssamtakanna um lífvænleg vinnukjör og bætt vinnuskilyrði hefur það verið ein aðalkrafa verkalýðshreyfingarinnar, að tryggður sé sá frumstæði réttur verkamanns að fá nægilega atvinnu til framfærsla sér og sínum. Þessi sjálfsagði réttur fólksins hefur í orði verið viðurkenndur af öllum ríkisstj. undanfarin ár, en reynslan hefur orðið allt önnur. Um það geta þeir bezt borið, sem kunnugir eru atvinnuástandinn á hinum ýmsu stöðum á landinu og þá fyrst og fremst í kaupstöðum og sjávarþorpum norðanlands. Víðs vegar um land er atvinnuástandið þannig, að fjöldi fólks verður að yfirgefa heimili sín í leit að atvinnu. Margt af þessu fólki hefur af sárri neyð leitað eftir vinnu suður á Keflavíkurflugvöll, enda í mörgum tilfellum ekki um aðra atvinnu að ræða. Þetta fólk á enga ósk heitari en þá að geta verið kyrrt heima og stundað atvinnu þar við nytsamleg framleiðslustörf. slíkir möguleikar hafa ekki verið fyrir hendi, enda stefna fyrrverandi og núverandi ríkisstj. að beina sem mestu af vinnuafli þjóðarinnar suður á Keflavíkurflugvöll til vinnu við herstöðvar í þágu erlends stórveldis, en í óþökk allra góðra Íslendinga. Mikill aflabrestur, sérstaklega á síldveiðum, ásamt skilningsleysi og óvild ríkisstj. að veita ekki fé til endurreisnar og stofnunar nýrra atvinnufyrirtækja, eins og tvímælalaust hefði átt að gera, hefur leitt til þess, eins og ég hef áður bent á, að fjöldinn allur af verkafólki verður að leita sér atvinnu með miklum tilkostnaði til Suðurlands. Hundruð manna sjá sér þann kost vænstan að yfirgefa byggðarlag sitt fyrir fullt og allt. Þetta ástand orsakar samdrátt á öllum sviðum, svo sem í verzlun, iðnaði, húsbyggingum o.fl. Eftir standa auðar húseignir arðlausar og óseljanlegar. Bæjar- og sveitarfélög komast í greiðsluþrot, eru neydd til að draga úr öllum framkvæmdum til hins ýtrasta, og dugir þó engan veginn til.

Meðal þeirra verkefna, sem nauðsynlegt er að komið verði í framkvæmd, svo að bætt verði úr ástandinu, er eftirfarandi: að útgerðin á Norðurlandi verði aukin, m.a. með nýjum togurum og stærri vélbátum, jafnframt verði sjómönnum gert fært með hentugum lánum að eignast vélbúna smábáta til veiða á grunnmiðum á þeim stöðum, sem bátaútvegur er hagkvæmur, að hraðfrystihús verði byggð, þar sem þau eru ekki til, að ríkið hafi forgöngu um, að tekin verði upp niðurlagning á verulegum hluta Norðurlandssíldarinnar til útflutnings; að togararnir verði reknir svo sem hægt er með það fyrir aðalsjónarmið að veita sem mesta atvinnu; að tunnuverksmiðjur ríkisins verði reknar eigi skemur en sex mánuði á vetri á tveim átta stunda vöktum; að byggð verði á Norðurlandi dráttarbraut, sem tekið getur upp 1000–1500 smálesta skip; að veitt verði nauðsynlegt fé til hafnarmannvirkja og lendingarbóta.

Það hefur komið í ljós, svo að ekki verður um deilt, að einstaklingsframtakið hefur ekki, m.a. vegna skorts á fjármagni, reynzt fært um að halda atvinnurekstrinum í horfinu, hvað þá að rétta við hina hnignandi atvinnuvegi. Fyrir því er það ófrávíkjanleg krafa verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlandi, að yfirstandandi Alþ. veiti nú þegar fé til viðreisnar atvinnurekstrinum með sérstöku tilliti til hins mikla áfalls, sem síldarleysi nær heilan áratug hefur orðið fyrir þennan landsfjórðung, sem að miklu leyti hefur byggt atvinnulíf og afkomu á síldveiðum í nær 3 áratugi. Með því að verða við þessari sjálfsögðu kröfu væri að nokkru bætt fyrir margra ára andstöðu og skilningsleysi stjórnarvaldanna til úrbóta á hinu hörmulega ástandi, sem ríkt hefur í atvinnu- og fjármálum norðlenzkra sjávarþorpa.

En hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar virðast líta öðrum augum á þetta mál. Í því sambandi vil ég benda á, að nú fyrir nokkrum dögum felldi stjórnarliðið till. frá mér um að heimila ríkisstj. að taka lán, að upphæð 15 millj. kr., sem varið yrði til endurbyggingar og uppbyggingar atvinnuveganna í þeim kaupstöðum og sjávarþorpum, sem verst hafa orðið úti vegna 9 ára veiðibrests á síldveiðum. Ekki einn einasti þm. úr stjórnarliðinu greiddi þessari till. atkv. Þeim hefur ekki fundizt það neitt alvarlegt ástand, þótt heil byggðarlög legðust í auðn vegna skorts á framleiðslutækjum. Þessum ágætu þm. finnst lítið við það að athuga, þótt fólk sé atvinnulaust í 6–8 mánuði á ári og hafi oft og tíðum ekki hugmynd um, hvað það á að borða þennan eða hinn daginn. Þeirra eina afsökun gæti verið, að þeir vissu ekki hvað þeir voru að gera.

Góðir hlustendur. Ég vil hvetja allan verkalýð Íslands, hvar í flokki sem hann stendur, til að sameinast í eina órofa heild til sóknar og varnar fyrir betri lífskjörum, taka upp þráðinn þar, sem frá var horfið í síðustu kjaradeilu verkalýðssamtakanna, og taka nú þegar upp ákveðna baráttu móti hinu seigdrepandi atvinnuleysi. Verkamenn, sjómenn, verkakonur, iðnaðarmenn og bændur, takið höndum saman í baráttunni fyrir bættum kjörum ykkar og afkomenda ykkar. Gerið ykkur það ljóst, að það eruð þið, hin vinnandi stétt, sem berið þyngstar byrðar þjóðfélagsins. Það eruð þið, sem eruð skapendur þeirra verðmæta, sem framleidd eru á Íslandi, og þið, góðir hlustendur í alþýðustétt, sem kosið hafið stjórnarflokkana að undanförnu, athugið, hvað er að gerast í sölum Alþingis daglega. Krefjizt þess af þm. ykkar, að þeir standi við gefin kosningaloforð. Látið þá ekki komast upp með að ganga á móti kröfum ykkar og hagsmunum. Krefjið þá um, að þeir beiti sér fyrir aukinni atvinnu, auknum og betri húsakosti, stórauknum stuðningi við iðnaðinn og auknu fjármagni til landbúnaðarins, til jarðræktarframkvæmda o.fl. Sjómenn, krefjizt þess af Alþ., að lögfest sé 12 stunda hvíld á togurum. Krefjizt þess að fá frádrátt á tekjum ykkar vegna hins mikla kostnaðar við störf ykkar á hafi úti. Og þið, verkamenn, sem farið í atvinnuleit frá heimilum ykkar, krefjið valdhafana um ríflegan frádrátt frá tekjum ykkar til skatts vegna stóraukins kostnaðar. Alþýða Íslands til sjávar og sveita, rís upp til baráttu fyrir betri og farsælli framtíð, fyrir frelsi lands þíns og þjóðar.

Ég vil að lokum óska allri alþýðu svo og öðrum íslendingum gleðilegra jóla, góðs og farsæls nýárs í von um, að komandi ár færi hinni vinnandi stétt og þjóðinni allri aukið frelsi, alþýðunni auknar kjarabætur og henni auðnist að samhæfa og styrkja samtök sín, fagleg og pólitísk. — Góða nótt.