14.12.1953
Sameinað þing: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

1. mál, fjárlög 1954

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Sá á kvölina, sem á völina, segir máltækið, og mætti þá einhver ætla, að mér væri nú vandi á höndum að velja mér yrkisefni úr öllum þeim firrum, sem stjórnarandstæðingar hafa nú borið á borð. En ég er í engum vanda. Auðvitað væri til sálubótar að hirta dálítið suma þessara ræðumanna, en við, sem verðum að sitja undir óstöðvandi bunu þeirra nær ævinlega, et við höldumst við í þingsætunum, erum löngu búnir að sigrast á freistingunni til að greiða höggið aðeins vegna þess, hversu vel ræðumaður liggur við höggi, og flest, sem hv. ræðumenn hafa sagt hér í kvöld, hafa þeir ýmist sagt hundrað sinnum áður hér á Alþ. eða miklu oftar í blöðum þeirra.

Ýmsir okkar eru vanir að láta sér nægja að yfirgefa þingsalinn til þess að gegna áríðandi störfum, þegar það, sem í hliðarherbergjum þingsins er kallað kanínuplágan, flæðir yfir, þ.e.a.s. þegar mennirnir, sem minnst hafa að segja, mesta ánægju hafa af að hlusta á sjálfa sig, en síðan að lesa um sjálfa sig í grein eftir sjálfa sig í blaði sjálfs sín, trítla eða hoppa upp í ræðustólinn til þess þar af mikilli mælsku, en lítilli skerpu að dýrðast yfir sjálfs sín verðleikum eða að bera aðra ósönnum óhróðri, svo sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson áðan gerði, þegar hann réðst á Björn Ólafsson fyrrv. ráðh., mig og fleiri út af greiðslu á stóreignaskatti. Það mál hefur verið margskýrt í blöðum landsins, og vita þess vegna allir, sem því hafa viljað kynnast, að hér er hvorki um spillingu né sakir að ræða. Ég vil þó enn einu sinni minna á, að enginn þessara aðila óskaði þess að greiða skatt sinn með umræddum fasteignum, heldur kröfðust þeir þess þvert á móti allir, að eignirnar yrðu undanfelldar mati til stóreignaskatts, en þá gátu þeir auðvitað ekki greitt með þessum eignum. Það er ekki fyrr en að ríkið neitar að verða við þessari sanngjörnu kröfu, að þessir aðilar afhenda ríkinu þessar eignir og þá við því verði, sem ríkið sjálft lagði á þær.

Ræða hv. þm. Gils Guðmundssonar var nokkuð laus í böndunum og sannast sagna með því losaralegasta, ef krufið væri til mergjar, sem ég hef lengi heyrt hér á þingi, og þar var flestum staðreyndum snúið við. Þannig staðhæfði þessi hv. þm., að sjómenn sköðuðust á bátagjaldeyrinum. Hann vill kannske sanna það á morgun. Hann sagði, að Samband íslenzkra fiskframleiðenda græddi á lágu fiskverði. Hann sannar það kannske líka á morgun. Flest annað var svipað. Hann fjandskapaðist gegn gengisfellingu og bátagjaldeyri og öllu því, sem haldið hefur skipunum á floti, öllu því, sem bægt hefur atvinnuleysi og böli frá bæjardyrum almennings í landinu. Síðan er sunginn í þúsundasta og fyrsta sinni söngurinn um stórgróðann í því skyni að reyna að vekja öfund, slá á lægstu hvatirnar. Loks er svo spurt:

Hvað ætlar stjórnin að gera? Ég svara Gils Guðmundssyni: Stefna og aðgerðir stjórnarinnar er kunn og hefur leitt til blómlegs atvinnulífs í stað böls atvinnuleysisins, sem ella hefði sorfið að landsfólkinu. En Gils Guðmundsson, þessi hv. þm., gleymdi að segja, hvað hann vill láta gera. Ég skora nú á hann að leiða rök að því, að hægt sé að hverfa frá stefnu ríkisstj., og segja til hvaða ráða hann ætlar þá að grípa í staðinn. Þá dugir ekki að segja: Leiðir má finna, eins og hann sagði hér áðan. Hann verður að finna þessar leiðir og sýna mönnum þær, því að á neikvæðum belgingi lifir enginn til lengdar.

Ég hef líklega heyrt eitthvað skakkt, en mér heyrðist hollvinur minn, Brynjólfur Bjarnason, vera eitthvað að lofsyngja Rússa, og er það þá í fyrsta skipti, ef mig ekki misminnir, sem ég hef heyrt þann söng. En ef það er misminni, þá hlýt ég að hafa svarað því áður og þarf ekki að svara því aftur.

En annars get ég látið mér í léttu rúmi liggja flest það, sem þessir hv. þm. hafa sagt. Við sjálfstæðismenn höfum aldrei ætlað okkur að mæla okkur við slíka menn, hvorki við mikilleik þeirra í sjálfsmeðvitund þeirra né smæð þeirra í augum margra annarra. Stjórnmálabaráttan á Íslandi er ekki og getur aldrei orðið metingur við þessa menn, heldur barátta við þá örðugleika, sem vanefni og fjárskortur leggja í götu allra þeirra, sem sækja fram til bættra lífskjara þjóðinni til handa. Við þessa örðugleika eru stjórnarliðar nú að glíma, og ég segi enn við nöldrarana eins og Clemenecau gamli forðum, þegar Frakkar lögðu taumana í hans hendur 1917 og fólu honum að vinna styrjöldina: „Je fait la guerre.“ — Ég er í stríði. — Hann virti þvaður ráðleysingjanna að vettugi, sneri sér beint að verkefninu, eins og við erum að gera, tók á af alefli, eins og við ætlum að gera, og sigraði, eins og við vonum að gera.

Ég þykist vita, að flestir hv. hlustendur skilji þetta sjónarmið. Ég hygg einnig, að þess sé öðru fremur af mér vænzt, að ég skýri frá, hvar stjórnarflokkarnir séu á vegi staddir um úrræði til þess að efna þau fyrirheit, sem gefin voru í stjórnarsamningnum, fyrirheit, sem svo margir landsmenn eiga svo mikið undir að séu flutt frá pappírnum yfir í framkvæmdirnar. Um hitt ættu menn að vera einfærir að dæma, hvort stjórn, sem gefið hefur fyrirheit stjórnarsamningsins og ætlar sér að efna þau, sé afturhaldsstjórn eða stjórn stórhuga framfara og frelsis, og þá einnig, hvort heldur það séum við, sem af raunsæi viljum forðast, að land okkar liggi óvarið fyrir árásarhættu ofbeldisaðilanna, sem svíkjum ættjörð okkar, eða hinir, sem af ráðnum hug og fyrir opnum tjöldum hafa valið Rússland, en ekki Ísland, sem föðurland sitt, og einfeldningarnir, sem þeim leggja lið.

Samningur sá, sem stjórnarflokkarnir gerðu með sér, þegar núverandi stjórn var mynduð, var þegar í stað birtur almenningi í blöðum og útvarpi. Ég leyfi mér að ætla, að hv. hlustendur þekki hann í aðalefnum, og rek þess vegna ekki einstök ákvæði hans umfram brýnustu þörf til þess að skýra loforð og fyrirhugaðar efndir. Ég tel víst, að allir viðurkenni, að þess er ekki að vænta, að ríkisstj., sem við völdum tekur í byrjun kjörtímabils og rétt í sama mund sem Alþ. kemur saman og þess vegna engan starfsfrið hefur haft eða a.m.k. lítinn til að klæða hugmyndir sínar og fyrirheit holdi, geti á fyrsta þingi efnt meginhluta, hvað þá öll fyrirheit sín. Því meira gleðiefni er að geta skýrt frá því, sem skeð hefur.

Stjórnarsamningurinn hefst á þessari yfirlýsingu: „Það er höfuðstefna ríkisstj. að tryggja landsmönnum sem öruggasta og bezta afkomu. Til þess að því marki verði náð, telur ríkisstj. nauðsynlegt, að sem mest frjálsræði ríki í viðskipta- og atvinnulífi þjóðarinnar, en skilyrði þess, að svo megi verða, er, að tryggt verði jafnvægi í efnahagsmálum inn á við og út á við. Ríkisstj. mun því beita sér fyrir hallalausum ríkisbúskap og fyrir því, að atvinnuvegirnir geti orðið reknir hallalaust, þannig að þeir veiti næga atvinnu.“

Hér heitir stjórnin m.a. því að beita sér fyrir hallalausum ríkisbúskap. Efndir þess fyrirheits felast í því, að fjárl. verði afgreidd án greiðsluhalla. Það er nú verið að leggja síðustu hönd á fjárlfrv. Er mér óhætt að staðhæfa, að stjórnin hefur einskis og mun einskis láta ófreistað til að standa við þetta loforð. Vita allir, sem til þekkja, að slíkt skeður ekki átakalaust hér á Alþ., enda kallar það á mjög mikinn þegnskap allra stjórnarliða. Get ég um þetta að öðru leyti vísað til þess, sem hv. frsm. fjvn., Magnús Jónsson, um þetta sagði í framsöguræðu þeirri, sem hann flutti við 2. umr. fjárl. Hefur sú ræða verið prentuð í víðlesnustu blöðum landsins, og ég skal þess vegna ekki endurtaka þær staðreyndir og rök, sem þar greinir. Hæstv. fjmrh. geri ég einnig ráð fyrir að ræði þetta mál nánar hér í kvöld.

Þá hefur stjórnin, eins og þjóðin veit, lagt fram frv. til efndar því fyrirheiti, „að fjárhagsráð sé lagt niður, enda séu nauðsynlegar ráðstafanir gerðar af því tilefni“, svo sem segir í stjórnarsamningnum. Um þetta frv. þarf ég síður að fjölyrða fyrir það, að efni þess hefur verið skýrt í blöðum landsins. Kjarni málsins er þessi: Með lögum um fjárhagsráð, sem sett voru á Alþ. 1947, var 5 manna nefnd falið meira vald yfir atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar en dæmi munu til í sögu þjóðarinnar. Þessi lög verða nú afnumin og ráð þetta lagt niður, en vald þess ýmist afhent þjóðfélagsþegnunum sjálfum eða þeim stjórnarvöldum, sem þjóðin á hverjum tíma felur að fara með völdin í landinu. Þó skal ríkisstj. skipa tvo menn, sem fari enn um skeið með brot af því valdi, sem fjárhagsráði var falið. Verður hlutverk þessara tveggja manna aðallega að úthluta milli manna réttindum til innflutnings á þeim vörum, sem af gjaldeyrísástæðum hefur enn ekki verið talið mögulegt að gefa frjálsan innflutning á. Enn fremur fjalla þessir sömu menn um þá fjárfestingu, sem enn verður háð leyfum. En almenningur öðlast nú fullt frelsi til þeirra húsabygginga og annarra framkvæmda, sem hann helzt þarfnast, og kaup og sala á byggingarefni á hérlendum markaði er nú með öllu gefin frjáls.

Auk þessara gerbreytinga fylgja hinni nýju skipan ýmsir ágætir kostír. Nefni ég þar til m.a., að miklu og rándýru bákni er létt af þjóðinni, sein og að mikil trygging fyrir ábyrgri og réttlátri meðferð þess valds, sem enn hefur ekki verið afhent borgurunum sjálfum, felst í því, að í stað 5 manna, sem alltaf gátu skotið sér hver á bak við annan við beitingu hins mikla og ótakmarkaða valds, fara nú aðeins tveir menn með takmarkað vald. Séu þeir sammála, þá eru þeir báðir ábyrgir fyrir teknum ákvörðunum. Beri á milli, ber hvor um sig opinbera ábyrgð á samþykki sinn eða synjun, og sker þá ríkisstj. úr. Hér er því viðureignin fyrir opnum tjöldum. Hér ber hver og einn ábyrgð á eigin gerðum og getur ekki falið skoðun sína eða tillögur. En sú skipan og sú skipan ein tryggir almenningi það ýtrasta réttlæti, sem lýðræðið getur fært fólkinu.

Fögnuður almennings yfir þessum ráðstöfunum ber vott um, að menn hafa fundið sárt til viðjanna og gera nú hvort tveggja að fagna þessum stórvægilega áfanga og líta vonglaðari fram á veginn í trausti þess, að þeir flokkar, sem 1951 juku stórkostlega verzlunarfrelsið og þetta nýja frelsi eru nú að lögleiða, muni stefna áfram í áttina til fulls frelsis með þeim hraða, sem aðstaðan frekast leyfir. Þarf ég varla að segja kjósendum Sjálfstfl., að í þeim efnum mun ekki standa á þingfl. sjálfstæðismanna. Annað væri líka svik við kosningaloforð okkar 1949 og 1958 og þá stefnu, sem minnihlutastjórn Sjálfstfl. markaði með því frv. um gengisskráningu o.fl., sem hún lagði fyrir Alþ. snemma á árinu 1950, og við sjálfa sjálfstæðisstefnuna.

Ég vil í þessu sambandi að gefnu tilefni alveg sérstaklega vekja athygli á því, hvílík öfugmæli það eru, að Sjálfstfl. beiti sér gegn verzlunarfrelsi varðandi útflutningsvörur landsmanna. Flokkurinn hefur einmitt eftir beztu getu aðstoðað framleiðendur við að verzla sjálfir með framleiðsluvörur sínar, frjálsir og í friði og með þeirri skipan, sem þeir sjálfir og einir hafa ákveðið, þ.e.a.s. hinum ýmsu sölusamtökum framleiðenda.

Ég læt útrætt um þetta merka mál með tilvísun til þess, sem hæstv. viðskmrh. mun um það segja, um leið og ég minni á, að mat þjóðarinnar á stefnu rauðliða, eins og hún birtist í ljósi reynslunnar, óbeit fólksins á höftum, bönnum og ráðavaldi, sést bezt á þeim óvinsældum, sem fjárhagsráð hefur sætt þrátt fyrir óvenjuhæfni og ágæta mannkosti margra þeirra manna, sem þar hafa starfað að því að framkvæma vilja okkar, sem illu heilli létum til leiðast að lögfesta ofurvald ráðsins.

Þá gaf stjórnin fyrirheit um að ljúka á þessu þingi „endurskoðun skatta- og útsvarslaganna, m.a. með það fyrir augum að lækka beina skatta og færa með því til leiðréttingar misræmi vegna verðlagsbreytinga og stuðla að aukinni söfnun sparifjár“. Hér hefur stjórnin færzt mikið í fang og óséð, hvort tekst að ljúka þessari endurskoðun. Hefur að sönnu verið unnið að málinu af miklu kappi síðustu tvo mánuðina, og mun svo verða þar til yfir lýkur. En hér er risavaxið verkefni við að etja, og hafa sumar nágrannaþjóðirnar þurft áratug til slíkrar allsherjarendurskoðunar á skattalögunum. Þori ég enn ekki að fullyrða, hversu til tekst að öðru leyti en því, að stjórnarflokkarnir hafa nú gert með sér samning, sem bindur fastmælum þann þátt málsins, sem skattþegnar sérstaklega láta sig varða. Samkvæmt þessu samkomulagi er nú í fyrsta skipti á mörgum og löngum árum létt á beinu sköttunum, og það er enginn smápinkill, sem af er létt, heldur 20%, þ.e. 1/5 hluti þessara skatta. Er nú verið að vinna að rannsókn þess, hvernig réttlátast þykir að deila þessum fríðindum. Vil ég sérstaklega aðvara gegn því, að sérhver skattþegn telji sjálfan sig með þessu hafa öðlazt fyrirheit um ákveðna lækkun á sínum skatti, því að sumir fá meiri lækkun en aðrir. En um það verður ekki dæmt til fullnustu, fyrr en rannsókn kunnáttumanna, sem að þessu vinna á vegum ríkisstj., er lokið. Skattalækkun þessi mun ná til skattársins 1953.

Ég veit, að öll þjóðin fagnar þessu stóra og þýðingarmikla spori til að létta ofurþunga skattanna, og vona einlæglega, að þegar þessi vilji stjórnarflokkanna er kominn í framkvæmd, leiði breytingin ekki til tekjurýrnunar, heldur til tekjuauka. Ég vona, að framtölin verði því nær sanni sem skattstiginn er lægri, en miklu meiri vonir bind ég þó við það, að lækkun beinu skattanna örvi framtakið, ýti úr vör nýjum atvinnurekstri og skapi með því þjóðinni auknar tekjur, en ríkissjóði nýja og vaxandi tekjustofna. Veit ég til slíks ýmis dæmi og hið síðasta nú, þegar Kanada í fyrra lækkaði beinu skattana allverulega. Eftir að lækkunin hafði staðið í hálft ár, kom í ljós, að ríkistekjurnar höfðu vaxið um 1500 millj. kr. á þessum 6 mánuðum og þjóðartekjurnar þá auðvitað að sama skapi meira. Mætti svo einnig reynast hér á landi, og mundi þá enn fylgja ný skattalækkun.

Að öðru leyti mun hæstv. fjmrh. skýra þetta mál.

Ég kem þá að tveimur voldugum verkefnum, sem blasa við og stjórnarflokkarnir hafa bundizt fastmælum um að leitast við að leysa. Á ég þar annars vegar við byggingu orkuvera, dreifingu raforku og fjölgun smástöðva, eða hin svo nefndu raforkumál, en hins vegar við, að tryggt verði aukið fjármagn til íbúðabygginga í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum og lagður grundvöllur að því að leysa þetta vandamál til frambúðar.

Ræðir hér um tvö mikil mál, sem hvort um sig hnígur að því að leysa hinar brýnustu þarfir fólksins í landinu. Þarf ég hér engan að fræða um nauðsyn almennings í þessum efnum né það, hversu heitar eru óskir fólksins um, að úr þessum þörfum verði bætt, og sterkar vonir þess um, að það verði einmitt þeir, sem að núverandi ríkisstj. standa, sem það gera. Um þetta getur hver og einn frætt sjálfan sig. Enn síður dettur mér í hug að gera að yrkisefni, hvort það er þáltill. Framsfl. eða frv. nýsköpunarstjórnarinnar, sem síðari ára framkvæmdir í raforku- eða byggingarmálum verða til raktar. Úr því skera grúskarar síðar og þá væntanlega með sagnfræðilegu öryggisleysi. En fólkið, sem veit, að ylur og birta og húsaskjól eru jafndýrmæt lífsgæði, hvaða eyrnamörk eða flokksstimpill sem á þeim er, hugsar fyrst og fremst um það, að fyrirheitin verði ekki aðeins helberar hillingar. Þetta fólk, allt þetta marga fólk, spyr um þetta aðalatriði: Getur stjórnin útvegað fé í þessar miklu framkvæmdir, og ef svo er, þá hvernig?

Ég vil aðeins geta þess, að á undan fjáröflun til þessara framkvæmda kemur fjáröflun til þess hluta kostnaðar við byggingu sementsverksmiðjunnar, sem eigi fæst með erlendum lántökum, en þess fjár verður a.m.k. að nokkru leyti aflað með sama hætti og fjár til raforku- og byggingarmálanna, og ræði ég það mál því ekki sérstaklega.

Ég vil taka það fram, að það, sem ég hér segi, er ætlað til þess eins, að menn geti glöggvað sig á frumhugmyndum stjórnarinnar um úrræði til úrlausnar. Stjórnin hefur að sönnu rætt málið mjög ýtarlega og vonar að komast smám saman fram úr vandanum. En því fer víðs fjarri, að nokkrar endanlegar ákvarðanir hafi enn verið teknar. Á þetta legg ég áherzlu.

Ég skal að þessu sinni ekki ræða þau úrræði, sem ef til vill þyrfti að grípa til, ef annað þryti, og heldur ekki minnast á þær úrlausnir, sem fyrir hendi kunna að vera, en Íslendingar eru ekki einráðir um, svo sem erlendar lántökur.

Ég læt nægja að víkja stuttlega að þeim frumhugmyndum, sem uppi eru innan stjórnarliðsins og veita á vilja valdhafanna og efnahagsafkomu þjóðarinnar. Ætla ég mér að sjálfsögðu ekki þá dul að greiða úr þeim flóknu viðfangsefnum í stuttu máli, í svo stuttu máli sem hér er kostur á, til nokkurrar hlítar, enda, sem fyrr segir, málið enn ekki svo undirbúið, að það sé auðið.

Framkvæmdir þessar eru mjög fjárfrekar. Þannig er ætlað til raforkuframkvæmdanna um 250 millj. kr. á 10 árum, mest fyrstu árin, en síðan árlega minnkandi. Í þessu skyni lofaði stjórnin að hækka ríkisframlag um 5–7 millj. kr. árlega. Það heit hefur nú verið efnt og útgjöld fjárl. verið í þessu skyni hækkuð um 7 millj. kr., eða úr 4 í 11 millj. kr. á ári. Er gert ráð fyrir, að fjáröflun í þessu skyni gangi fyrir öðru, þegar tryggt hefur verið lán til sementsverksmiðjunnar.

Til byggingarmálanna þarf einnig stórfé. Er hugmyndin sú að leysa þær þarfir til frambúðar á þann hátt, að útlán til íbúðarhúsa verði fastur liður í útlánastarfsemi peningastofnananna.

Til fjáröflunar fyrir allar þessar framkvæmdir eru fjórar leiðir. Hin fyrsta er að gera nýja peninga. Sú leið mundi raska jafnvægi efnahagsmálanna og kemur þess vegna ekki til greina. Hin önnur er að leggja á þjóðina nýja skatta. Allir vita, að það er ekki kleift, a.m.k. ekki svo að neinu nemi. Sú leið kemur þess vegna ekki til greina. Hin þriðja er erlendar lántökur, en einnig þeirri úrlausn er stakkur skorinn. Eftir stendur þá aðeins að hagnýta sér aukningu sparifjár í landinu með breyttri útlánastarfsemi. Á þessu úrræði yrði fyrst og fremst að hyggja. Er þá nauðsynlegt auk annars að ná samkomulagi við banka landsins og þá fyrst og fremst Landsbankann til þess að forðast allar þvinganir, en um vissa þætti málsins getur þó þurft að setja lög.

Frumskilyrði þess, að fyrirætlanir stjórnarinnar takist, er, að eðlileg og sem mest aukning verði á sparifé landsmanna. Virðist nú horfa vel í þessum efnum, svo sem sjá má af því, að árið 1950 og 1951 varð aukning sparifjár hjá bönkum og sparisjóðum aðeins 16 millj. kr. árlega, en 1952 var þessi aukning 92 millj. kr. og fyrstu þrjá ársfjórðungana í ár hvorki meira né minna en 140 millj. kr., og gæti þá svo farið, að aukning í ár nálgaðist 200 millj. kr. Tel ég rétt að vekja sérstaka athygli á þessari ánægjulegu þróun, sem fyrst og fremst er ávöxtur af stjórnarstefnunni undanfarin fjögur ár.

Fyrir stjórninni vakir enn fremur að ýta undir þessa aukningu sparifjárins, og hefur hún í því sambandi til athugunar, að vextir á sparifé verði útsvars- og skattfrjálsir. Og teljum við margir, að rétt væri að undanþiggja þetta fé líka framtalsskyldu, en þó er enn í algerri óvissu um, hvort menn að athuguðu máli geta komið sér saman um það.

Verði þessar ráðstafanir gerðar, er ekki að efa, að þær ýta mjög undir söfnun sparifjár. Með því er þó ekki vandi stjórnarinnar leystur, því að ekki ræður ríkisstj. útlánastarfsemi bankanna. En til eru þó ráð, sem að því hníga að beina fjárstrauminum í ákveðnar áttir, og það eru einmitt þau úrræði, sem stjórnin hefur mikið athugað og rætt í því skyni að tryggja það, að nokkrum hluta sparifjáraukningarinnar verði varið til þess að leysa raforkumálin og húsnæðisþarfirnar. Haldbezta ráðið og það, sem flest eru fordæmi fyrir með nágrannaþjóðunum, er útgáfa verðbréfa með hærri vöxtum en greiddir eru af sparifé. Bréfin yrðu að sjálfsögðu að njóta sama útsvars- og skattfrelsis sem sparifé. Hætt er þó við, að vegna þess, hversu örðugt hefur reynzt að selja verðbréf hérlendis við viðunandi verði, mundu þessi úrræði ná skammt. Stjórnin hefur þess vegna til athugunar að tryggja, að þessi verðbréf og þau ein verði seljanleg hvenær sem eigendur óska að selja þau og þá án allra affalla annarra en þeirra, sem leiða kynnu af breyttum vaxtakjörum eða a.m.k. þannig, að eigandi bréfsins við innlausn verði alltaf skaðlaus, miðað við, að fé hans hefði legið á sparisjóði.

Verði að þessu ráði hnigið og út gefin sérstök verðbréf, sem njóti alls sama skattfrelsis og annarra fríðinda sem sparifé, en gefi talsvert hærri vexti, en auk þess sé eiganda tryggð innlausn bréfsins á svipaðan hátt og ég lýsti, ætti að mega treysta því, að sala þessara verðbréfa yrði ör. Yrði þá að gæta hófs um útgáfu bréfanna, þannig að til sölu yrði ekki meira en svo, að fullnægt yrði fjárþörfinni til sementsverksmiðjunnar og þeirra framkvæmda á sviði raforkumálanna og húsabygginganna, sem ríkisstj. hefur gefið fyrirheit um og mundi því beita sér fyrir. Mundi þá öllu svo í hóf stillt, að aldrei yrði varið nema nokkrum hluta sparifjáraukningarinnar í þessu skyni, og er þá gert ráð fyrir, að sparifé vaxi með eðlilegum hætti. Í þessu sambandi er rétt að skýra frá því varðandi byggingarmálin, að stjórnin telur nauðsynlegt, að lánin verði svo há, að verulega muni um til bygginga smáibúða, vextir hóflegir, lánstími langur, en afborganir mánaðarlega svo sem mest líkist greiðslu á húsaleigu.

Ég hef hér aðeins brugðið upp frumdráttum þeirra úrlausna, sem stjórnin hefur rætt um, þótt engar fullnaðarákvarðanir hafi enn verið teknar í þessum efnum. Ætla ég það nægi til að sýna, að stjórnin hefur ríkan hug á framkvæmdum, en get þó ekkert um það sagt, hversu langt er hægt að komast áleiðis á þessu þingi.

Fjár til framhaldsvirkjunar Sogsins er ætlað að afla með erlendum lántökum, og hefur enn ekki verið neitt í því aðhafzt, eins og heldur ekki var gert ráð fyrir.

Þá er í stjórnarsamningnum ákvæði um að tryggja framleiðendum sauðfjárafurða rekstrarlán út á afurðir sínar eftir hliðstæðum reglum og lánað er út á sjávarafurðir og enn fremur, að endurskoða beri reglur um lán til iðnaðarins með það fyrir augum að koma fastri skipan á þau mál. Ræðir hér um mikilvæg hagsmunamál landbúnaðarins og iðnaðarins. Hefur ríkisstj. rætt ýmis úrræði til að uppfylla þessi fyrirheit. Ríkisstj. viðurkennir, að réttlátt er og æskilegt, að þeir, sem stunda heilbrigða framleiðslu fyrir innanlandsmarkaðinn, eigi kost svipaðra lána sem þeir, sem framleiða fyrir erlendan markað, og að um þetta séu settar fastar reglur, svo að framleiðandinn viti, að hverju hann gengur. Yrði þá seðlabankinn að kaupa slíka framleiðsluvíxla. Eru þessi mál nú í athugun, og get ég enn ekki sagt, hvaða ráðum verður hnigið að, enda margs að gæta, ef vel á að fara.

Til efnda á fyrirheitinu um að halda áfram öflun atvinnutækja þangað, sem mest er þörfin, og stuðla þar með að því, að jafnvægi haldist í byggð landsins, verða á fjárl. ársins 1954 svipaðar greiðsluheimildir og voru á þessa árs fjárl., auk þess sem aðrar aðgerðir stjórnarinnar stefna að þessu sama marki.

Um stofnun varnarmáladeildar í utanrrn. hefur nýlega verið rætt í útvarpsumr. hér á Alþ., og læt ég það nægja.

Eru þá upp talin fyrirheit stjórnarsamningsins, og enda þótt langt sé frá því, að þeim hafi verið enn komið heilum í höfn og raunar megi, að því er sum þeirra varðar, eins vel segja, að enn sé tæplega landsýn, þá þykist ég þó mega vænta þess, að þeir, sem á mál mitt hafa hlýtt, viðurkenni, að vel hafi þokað í rétta átt og með meiri hraða en hægt var með sanngirni að krefjast, þegar tekið er tillit til þess, hversu stuttur enn er starfstími stjórnarinnar og vinnufriður oftast lítill, ekki sízt meðan Alþ. á setu.

Hv. hlustendur. Þetta er í fyrsta skipti, sem ég á þess kost að ávarpa landsmenn í útvarpinu í umboði Sjálfstfl., frá því að þingkosningar fóru fram í júnílok s.l. Mér er skylt og ljúft að þakka þjóðinni það mikla traust, sem hún sýndi Sjálfstfl. Ég ofmæli ekki, þótt ég segi, að þm. Sjálfstfl. hafi fullan hug á að endurgjalda það traust í verki. Við kunnum sæmilega skil á þörfum og óskum landsmanna, og við höfum einlæga löngun til og brennandi áhuga á því, að störf okkar megi leiða til sem mestrar blessunar fyrir sem allra flesta landsmenn. Fyrir því höfum við ákveðið að leggja til atlögu gegn ofurvaldi myrkurs og kulda íslenzks skammdegis og vetrarríkis með því að færa ljós og yl inn á sem allra flest heimili landsins. Af sömu hvötum viljum við ráðast gegn húsnæðisskortinum, sem lengi hefur verið höfuðþraut óhæfilega margra manna, og vonum við, að takast megi að greiða götu þessa fólks úr hreysum í sæmilegar vistarverur, og fyrir því hefjum við nú allsherjarsókn gegn ófrelsinu.

Okkur sjálfstæðismönnunum hefur lengi skilizt, að sé framtak og athafnaþrá þjóðarinnar lögð í hlekki, mun Íslendingum aldrei til langframa auðnast að draga alla þá björg í búið, sem með þarf, til þess að svo fámenn þjóð fái lifað frjálsu menningarlífi í jafnstóru landi, einfaldlega vegna þess, að þótt land og sjór séu gæðarík, eru gæðin torsótt og þeim einum föl, sem gæddir eru miklum manndómi og njóta athafnafrelsis. Þetta er dómur sögu okkar á öllum öldum. Af þessari löngu og ströngu reynslu er sprottin athafna- og frelsisþrá Íslendinga, en sú eðlishneigð er einmitt hið volduga afl, sem ævinlega teagir okkur sjálfstæðismenn órjúfanlegum böndum þrátt fyrir ólíka hagsmuni og oft mismunandi sjónarmið í ýmsum efnum. Við erum nú að brjóta hlekkina af þjóðinni. Við vitum, að aukið frelsi mun fara sem heitur straumur um allt athafnalífið, vekja af dvala og leysa úr læðingi sterk öfl til nýrra athafna og dáða einstaklingum og þjóðarheildinni til farsældar og blessunar. Engan, sem þekkir skoðun, trú og vissu okkar sjálfstæðismanna, mun undra, þótt við eftir svo langa áþján fögnum frelsi einlæglega og ákaft.

Okkur sjálfstæðismönnum er ljóst, hversu margt þeim flokkum ber á milli, sem að ríkisstj. standa. Okkur og framsóknarmenn greinir á um trúna á athafnafrelsið og mátt einstaklingsframtalsins. Við vitum, að þessi skoðanamunur skapar ýmis vandkvæði, sem vel geta fært hættu yfir samstarfið. En þó hygg ég, að báðir stjórnarflokkarnir hafi til þess vilja að hera fram til sigurs þau hin miklu áhuga- og hagsmunamál þjóðarinnar, sem ég hef gert hér stuttlega grein fyrir, ekki sízt raforku- og húsnæðismálin. Ég held þess vegna og þá einnig vegna þess öngþveitis í þjóðlífinu, sem leiða mundi af samstarfsrofi þessara stærstu flokka þjóðarinnar, að hin stóru og mikilfenglegu verkefni, sem í bili sameina okkur, reynist sterkari þeim grundvallarágreiningi og dægurþrasinu, sem skilur okkur, a.m.k. nægilega mikið til þess, að við þurfum ekki að vonsvíkja þá mörgu, sem til okkar bera traust og í samstarfi okkar eygja vanina um úrlausn örðugleika sinna. Með þessu held ég að ég geti glatt hina mörgu stuðningsmenn stjórnarinnar og þá af andstæðingunum, sem meira meta þjóðarheill en eigin metorð.