14.12.1953
Sameinað þing: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

1. mál, fjárlög 1954

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Nýr flokkur, Þjóðvarnarflokkurinn, hefur nú bætzt í hóp þeirra, sem taka þátt í eldhúsdagsumræðum. Sá flokkur telur sig eiga eitt aðalerindi á stjórnmálasviðið, en segist ætla í hjáverkum að bæta siðferðið þar. Ekki virðist þó þm. flokksins, hv. 8. landsk., Bergur Sigurbjörnsson, ætla að verða öðrum þm. fremri um vandaðan og siðlegan málflutning á þessu fyrsta þingi, sem hann situr. Ég nefni aðeins sem dæmi margendurteknar aðdróttanir hans hér í kvöld, tilefnis- og tilhæfulausar, um að meiri hl. þm. láti aðra menn skipa sér fyrir um það, hvernig þeir greiða atkvæði um mál á þingi. Þessi hv. þm. Þjóðvfl. sýnist því ekki vera efnilegur síðameistari.

Fjárlagafrv. er hér á dagskrá, en eins og venjulegt er við svonefndar eldhúsdagsumræður eru ræður manna ekki einskorðaðar við fjárlagaafgreiðsluna, heldur einnig talað um fleira. Ég mun nota tíma minn hér til að ræða lítið eitt um það, hvernig viðskiptamálin koma mér ná fyrir sjónir, en þau mál eru meðal þeirra þýðingarmestu.

Nú liggur fyrir Alþ. frv. til l. um skipun innflutnings- og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o.fl., sem útlit er fyrir að verði samþ. bráðlega. Um leið og þessi vænfanlegu nýju lög koma til framkvæmda, eiga núgildandi lög um fjárhagsráð að falla úr gildi. Í staðinn fyrir fjárhagsráð á að koma svonefnd Innflutningsskrifstofa, og á sú stofnun að annast framkvæmd viðskiptamálanna í umboði ríkisstj. í stað fjárhagsráðsins áður. Tveir stjórnskipaðir menn eiga að stýra hinni nýju stofnun, en 5 menn eru í fjárhagsráði. Ef til vill verður einhver sparnaður af fækkun stjórnendanna, en þó er það reynslan ein, sem fær úr því skorið, hvort mannahaldið í heild og kostnaðurinn við þessa nýju stofnun verður eitthvað minni en nú er hjá fjárhagsráði.

Eitt af verkum fjárhagsráðs var að ákveða, hvað leyft skyldi af nýjum byggingum og öðrum slíkum framkvæmdum og hafa eftirlit með þeim. Í reglugerð um þessi efni, sem gilt hefur siðan 1947, er þó ákveðið, að heimilt sé að ráðast í ýmsar minni háttar framkvæmdir án leyfis fjárhagsráðs. Þannig hefur verið og er heimilt án fjárfestingarleyfis að gera mannvirki eða tæki, sem ekki kosta yfir 10 þús. kr., að byggja íbúðarhús til eigin afnota, ef stærð þeirra er ekki yfir 350 m3, og að byggja verbúðir á útgerðarstöðum og útihús á jörðum, ef þær byggingar kosta ekki yfir 50 þús. kr. í efni og vinnu. Við samanburð sést, að heimild er veitt til nokkru stærri framkvæmda án fjárfestingarleyfa með nýju lögunum heldur en samkvæmt reglugerðinni, sem gilt hefur undanfarið. En ekki verður séð, að nauðsynlegt hati verið að setja ný lög til að gera þá breytingu. Með breytingu á reglugerðinni um fjárhagsráð hefði eins mátt ákveða hin nýju stærðartakmörk frjálsra framkvæmda. En ekki skiptir máli, hvor aðferðin er höfð.

Það er æskilegt, að menn hafi frjálsræði til að ráðast í húsabyggingar eða aðrar framkvæmdir, sem þeir telja sér nauðsynlegar eða til hagsbóta. En það eitt er ekki nóg, að slíkt frelsi sé til á pappírnum í lögum eða reglugerðum.

Fleira þarf til. Hv. 7. þm. Reykv., Gunnari Thoroddsen, láðist að minnast á baráttu manna við að fá lóðir undir hús í Reykjavík, og þeirri baráttu er vist alls ekki lokið. En enginn byggir hús, nema hafa land til þess að setja það á. Byggingarefni þarf líka að vera fáanlegt. Í þeim efnum er þannig ástatt, að enn þarf innflutningsog gjaldeyrisleyfi fyrir helztu efnivörum til bygginga. Að svo stöddu veit enginn, hvort hægt verður að kaupa til landsins á næstu missirum allt það byggingarefni, sem þarf til þeirra bygginga, sem mönnum er heimilt eða þeir fá leyfi til þess að reisa. Það fer eftir gjaldeyrisástæðunum á hverjum tíma. Enginn veit fyrir fram, hvernig þær verða, og því ekki hægt að segja með nokkurri vissu, hvort byggingar eða aðrar nýjar framkvæmdir verða auðveldari hér eftir en nú er.

Í nýja lagafrv. um viðskiptamálin segir, að ríkisstj. skuli ákveða með reglugerð, hvaða vörur skuli heimilt að flytja til landsins án innflutnings- og gjaldeyrisleyfa. Ekki er þörf nýrrar lagasetningar til að ákveða þetta. Á grundvelli fjárhagsráðslaganna hafa verið gefnir út svonefndir frílistar og breytingar gerðar á þeim í samræmi við breyttar gjaldeyrisástæður, eftir því sem ríkisstj. hefur talið fært. Fyrirmæli nýja lagafrv. um gjaldeyrisverzlunina eru líka nákvæmlega þau sömu að efni til og eldri lagastafir. Eins og áður hafa Landsbankinn og Útvegsbankinn einir rétt til að verzla með erlendan gjaldeyri.

Í 1. gr. nýja lagafrv. um viðskiptamálin segir, að stefnt skuli að því, að allur vöruinnflutningur til landsins verði frjáls. Þetta var ekki í lagafrv. upphaflega, en sett í það í þinginu. En hér er ekkert nýmæli á ferð. Það var stefna fyrrv. ríkisstj. eins og þeirrar, er nú situr, að slaka á innflutningshöftunum eftir því, sem viðskiptaástæður leyfðu, og hefur það verið gert síðustu árin.

Við athugun á nýja lagafrv. verður ekki séð, að það marki nein þáttaskil í okkar verzlunarsögu. En þáttaskilin í þessum málum urðu þegar fyrrv. stjórn var mynduð 1950. Þá voru gerðar ráðstafanir til að rétta við hag atvinnuveganna, til þess að framleiðsla á vörum til útflutnings gæti haldið áfram. Og þá var tekin upp ný stefna í fjármálum ríkisins, þannig að síðan hefur ríkisbúskapurinn verið hallalaus, í stað þess að árin á undan var mikill greiðsluhalli hjá ríkissjóði. Og einmitt vegna þeirrar nýju fjármálastefnu var mögulegt að slaka á verzlunarhöftunum, sem hefur orðið mjög til hagsbóta fyrir almenning, og hæstv. núverandi stjórn hefur ákveðið að fylgja áfram þeirri stefnu fyrrv. stjórnar að gera verzlunina frjálsari, eftir því sem efni standa til.

En það skiptir auðvitað engu máli, hvort reglugerð hæstv. ríkisstj. um innflutninginn, þar sem ákveðið er, hvaða vörur skuli settar á frílista, er gefin út samkvæmt þessum nýju lögum eða lögunum um fjárhagsráð, eins og verið hefur fram að þessu. Eldri lögin um fjárhagsráð voru jafnvel nothæfur grundvöllur til að byggja slíka reglugerð á. En hæstv. ríkisstj. taldi heppilegra að leysa fjárhagsráð frá störfum, en setja í þess stað aðra stofnun til þess að stjórna innflutningsmálunum.

Það var engin ástæða fyrir þingið til að vera á móti þeirri breytingu.

Hitt er eftir að vita, hvort menn verða nokkuð ánægðari með nýja ráðið með nýja nafninu, þegar stundir líða fram, heldur en þeir eru nú með fjárhagsráð. Og það er misskilningur, sem virðist hafa komið inn hjá sumum mönnum, að með þessari nýju stofnun sé það tryggt, að þjóðin fái aukið verzlunarfrelsi. Sennilega veit enginn það nú, hvort innan skamms verður slakað á innflutnings- og gjaldeyrishöftunum meira en búið er að gera. Það hlýtur að fara eftir því, hvort viðskipta- og gjaldeyrisástæðurnar verða þannig, að ríkisstj. sjái sér þetta fært. En við skulum vona, að það geti orðið. Vitanlega er æskilegast, að frjáls innflutningur sé á sem flestum og helzt öllum vörum. En það væri þýðingarlaust og aðeins til að blekkja fólk, ef meira af vörum væri sett á frílista heldur en hægt er að fá gjaldeyri fyrir hjá bönkunum viðstöðulitið. Ég hef heldur enga ástæðu til að ætla, að hæstv. ríkisstjórn geri það.

Eins og hér hefur verið rakið, fer það eftir gjaldeyrisástæðum og ákvörðunum innan ríkisstj. á hverjum tíma, að hve miklu leyti er frjáls innflutningur á vörum til landsins. Stjórnin ákveður með reglugerð, hvaða vörur eru á svonefndum frílista, en til innflutnings á öðrum varningi þarf leyfi Innflutningsskrifstofunnar. Þetta er um vöruinnflutninginn að segja.

En innkaup á vörum til landsins er aðeins annar þáttur verzlunarinnar. Hitt skiptir ekki minna máli, hvernig ástatt er með útflutningsverzlunina, því að á vörusölunni til annarra landa veltur það, hvað við getum keypt af vörum frá öðrum löndum. En þó að mönnum þyki frjálsræðið mjög takmarkað að því er snertir vöruinnflutning til landsins, þá er þó frelsi til að selja vöru úr landi enn minna. Þar er enginn frílisti til. Ég veit ekki betur en að útflutningsleyfi þurfi að sækja til stjórnarráðsins fyrir öllum þeim íslenzku afurðum, sem seldar eru úr landi. Og oft hefur verið erfitt fyrir menn að fá útflutningsleyfi, þó að þeir vildu selja vörur úr landi og hefðu möguleika til þess. Og um eina af helztu útflutningsvörunum, saltfiskinn, er það svo og hefur verið um langt skeið, að aðeins einn aðili, Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, hefur fengið útflutningsleyfi fyrir þeirri vöru. Hér er því einkasala á útfluttum saltfiski í höndum Sölusambandsins.

Því er stundum haldið fram, að þetta sé eðlilegt, vegna þess að fiskframleiðendurnir sjálfir vilji hafa það svo. Trúlegt er, þó að ekki verði það fullyrt hér, að meiri hluti þeirra vilji láta S.Í.F. annast söluna, en áreiðanlega ekki allir. Og hvers vegna að neyða þá menn til að skipta við S.Í.F., sem fremur kjósa að koma sölu á framleiðsluvörum sínum fyrir á annan hátt? Það sýnist bæði óþarft og óviðeigandi. Hitt er annað mál, að þörf getur verið á löggjöf um þessi efni til þess að koma í veg fyrir, að einstakir útflytjendur valdi tjóni með því að bjóða framleiðsluvörur fyrir lægra verð en unnt er að fá fyrir þær. Reglur um útflutninginn er auðvelt að setja til þess að fyrirbyggja undirboð, og vafalaust væri æskilegast, að stjórn á þeim málum væri að sem mestu leyti í höndum framleiðenda sjálfra, en ekki hjá ríkisvaldinu.

Til samanburðar má vitna hér til þess fyrirkomulags, sem er á sölu landbúnaðarafurða. Með lögunum um framleiðsluráð landbúnaðarins eru m.a. ákvæði sett, sem fyrirbyggja, að einstaklingar geti valdið heildinni tjóni með því að bjóða vöru sína fyrir óeðlilega lágt verð. Hins vegar er ekki einkasala á landbúnaðarvörum. Í mörgum landbúnaðarhéruðum er það svo, að þó að mikill meiri hluti bændanna sé í samvinnufélögum og feli þeim sölu á framleiðsluvörunum, þá hafa félögin engan einkarétt til afurðasölunnar, enda ekki farið fram á það, heldur geta menn valið um það, hvort þeir fara með vörur sínar til félaganna eða selja þær öðrum. Þess hefur ekki orðið vart, að það frjálsræði, sem þar er um að ræða, hafi komið að sök. Og útflutningur á landbúnaðarvörum er ekki í höndum eins aðila. Svipuðu fyrirkomulagi mætti vafalaust koma á við sölu sjávarafurða, svo að hægt væri að gera útflutningsverzlunina frjálsari en nú er. Hér á Íslandi eru margir kaupsýslumenn, og ekki er ótrúlegt, að gagn mætti af því hljótast, ef fleiri af þeim hefðu tækifæri til að vinna að markaðsöflun og sölu á íslenzkum framleiðsluvörum utanlands en nú er. Samvinnufélög framleiðenda eiga líka að hafa frelsi til að flytja út og selja framleiðsluvörur félagsmanna sinna. Þeir menn eru til, sem halda því fram, að heppilegast muni að láta ríkið annast alla utanríkisverzlunina, bæði útflutning og innflutning á vörum. Það mun vaka fyrir þeim, að sú landsverzlun, sem þeir vilja koma á fót, hafi einkarétt til utanríkisverzlunar. Ég hef ekki trú á því, að slík allsherjar landsverzlun mundi vel gefast. Hitt tel ég þó jafnvel enn varhugaverðara, að láta einkafyrirtæki hafa einkarétt til viðskipta við önnur lönd um langan tíma, hvort sem um er að ræða innkaup eða sölu á vörum. Og enginn, sem vill hafa frjálsa verzlun, getur verið ánægður með slíkt fyrirkomulag. Verzlunin er því aðeins frjáls, að hvorki séu innflutnings- eða útflutningshöft.

Að því ber hiklaust að stefna, að þjóðin geti búið við verzlunarfrelsi sem allra fyrst. Þá geta menn óhindraðir keypt þær vörur, sem á annað borð eru einhvers staðar fáanlegar, ef þeir óska og hafa efni á að kaupa, og þá geta menn óhindraðir selt vörur sínar úr landi. Þá geta menn líka hagað viðskiptum sínum á þann hátt, sem þeir telja sér hagkvæmast. Þeir, sem það vilja, geta verzlað við kaupmenn, og hinir, sem það kjósa fremur, geta verið þátttakendur í samvinnufélögum og látið þau annast kaup og sölu á vörum fyrir sig.

En til þess að landsmenn geti búið við verzlunarfrelsi, þarf annað og meira en að birta hátíðlegar yfirlýsingar um þá stefnu. Til þess að verzlun geti verið frjáls, þurfa viss skilyrði að vera fyrir hendi. Það þarf jafnvægi í fjárhags- og peningamálum, heilbrigðan atvinnurekstur og greiðsluhallalausan ríkisbúskap. Án þeirrar stefnubreytingar í fjármálastjórn ríkisins, sem varð með komu fyrrv. ríkisstj. árið 1950, hefði alls ekki verið mögulegt að slaka á verzlunarhöftunum eins og gert hefur verið síðustu árin.

Því aðeins að ríkisbúskapurinn verði greiðsluhallalaus framvegis er hægt að vænta einhvers frjálsræðis í verzluninni.

Margir munu fagna fyrirheitinu um skattalækkun, en skattalækkunin má ekki verða til þess, að greiðsluhalli verði hjá ríkissjóði, því að með því væri unnið á móti verzlunarfrelsi. Hallarekstur hjá atvinnufyrirtækjum, ef um hann er að ræða, torveldar líka afnám viðskiptahafta, og til þess að verzlunin geti verið frjáls, þarf jafnvægi í peningamálum.

Þau skilyrði, sem hér hafa verið nefnd, þurfa að vera fyrir hendi, og jafnvægisástandinu í atvinnulífinu, fjárhags- og peningamálum þarf að viðhalda, til þess að verzlunin geti verið frjáls. Við skulum vona, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar takist að gera verzlunina frjálsari en nú er. En ég vil benda á það, að núverandi höft á útflutningsverzluninni eru í ósamræmi við aukið frelsi í innflutningsverzlun og því ætti hæstv. stjórn hið allra fyrsta að gera útflutninginn frjálsari en nú er. Og að síðustu þetta: Við afgreiðslu fjárl. bæði nú og síðar ættu menn að hafa það í huga, að greiðsluhallalaus ríkisbúskapur er eitt af grundvallarskilyrðum fyrir því, að verzlunin geti verið frjáls.

Tími minn er þrotinn og dagurinn er líka að kvöldi kominn. — Góða nótt.