15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

1. mál, fjárlög 1954

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Hv. áheyrendur, nær og fjær. Fjárlfrv., sem nú liggur fyrir Alþ., boðar engar nýjungar á hinu efnahagslega sviði, þvert á mótí. Það er gamalt plagg, uppskrifað með nýjum tölum, tölum, sem marka þróun í sömu átt og ríkisvaldið hefur fetað á undanförnum árum. Sú þróun hefur leitt það í ljós, að ríkisstj. er stofnun, sem þjónar auðmannastéttinni af trú og dyggð. Hún ber ekki virðingu fyrir landi okkar og þjóð og metur það eitt til verðgildis, sem gefur auðmönnum gróða.

Ríkisstj. hefur heldur ekki þungar þrautir af því, þótt fjármunir þeir, sem hún kemst yfir, séu fengnir með óvönduðum ráðum, og í sukki sínu virðist hún engra þjáninga kenna, þótt hún viti óbreyttan landslýðinn búa við skarðan hlut um húsnæði, atvinnuöryggi og kaupgjald. Þar á móti lætur ríkisstj. þinglið sitt samþ. lög um launahækkanir eða ráðstafanir, sem jafngilda því, minnkar hlutfallslega ár frá ári fjárveitingar til verklegra framkvæmda, og siðast í dag létu liðsmenn ríkisstj. það afrek eftir sig liggja að nema úr lögum fyrirmæli um útrýmingu heilsuspillandi íbúða.

Þegar stjórnarstefnan er athuguð nánar, þykir mér vert að geta þess, að ég sé ekki ástæðu til þess að greina á milli þeirrar ríkisstj., sem nú situr, og þeirrar, sem mynduð var á öndverðu ári 1950, enda er því lýst yfir, að þar sé um að ræða beint áframhald sömu stjórnarstefnu, og sömu stjórnmálaflokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., standa að henni. Raunar er stjórnarstefnan eldri. Hún er frá árinu 1947, og tók þá Alþfl. einnig þátt í henni og hafði þá forustu hennar. Ekki er heldur vert að láta þess ógetið, að hér er um að ræða stjórn, sem þegið hefur erlendis frá stórar fúlgur fjár, sem gjafir eru kallaðar, þótt sannast mála sé, að aldrei hafa keyptir verið dýrara verði aðrir hlutir en gjafir þeirra Ameríkumanna.

Þá er þess einnig að minnast úr fjármálasögu stjórnarinnar, að hún lækkaði verðgildi allra launa landsmanna með lögum um gengisfellingu íslenzkrar krónu, og þrýsti sú ráðstöfun stórlega niður lífskjörum alls vinnandi fólks í landinu. Öllum sköttum, sem lofað var að lækka eða aflétta í sambandi við gengisfellinguna, var samt haldið áfram, þ. á m. söluskattinum, sem sýgur um 100 millj. kr. árlega af þjóðinni, eða að meðaltali 3400 kr. af hverri fimm manna fjölskyldu í landinu. Og enn er ótalin af afrekaskrá stjórnarinnar siðasta gengisfellingin, sem felst í reglugerðinni um hinn svonefnda bátagjaldeyri, og ætla ég ekki að ræða þá ráðstöfun hér. Hún var svo rækilega skýrð hér í gærkvöld og afleiðingar hennar.

Það verður ekki með sannindum ráðið, hver sé stefna ríkisstj., af því, sem hún kann sjálf um þetta að segja á mannfundum, eða af því hóli, sem hún lætur prenta um sig í blöðum, heldur af verkum hennar og árangri. Í gærkvöld áttum við þess t.d. kost að heyra bæði ráðh. og fleiri liðsmenn stjórnarinnar guma af þeim ágætu fyrirætlunum, sem ríkisstj. hefði á prjónunum. Hún ætlaði í fyrsta lagi að koma á verzlunarfrelsi, í öðru lagi ætlaði hún að lækka skatta, í þriðja lagi ætlaði hún að vinna stórvirki í raforkumálum, og í fjórða lagi ætlaði hún að bjarga því ástandi, sem nú ríkir í húsnæðismálum.

Það hefur sagt verið, að vegurinn til vítis væri lagður úr gullnum áformum, sem aldrei væru framkvæmd, og það skyldi nú aldrei vera, að stjórnin væri einmitt í þess háttar vegavinnu.

Eitt af þessum fjórum boðorðum hefur stjórnin þegar fengið smiðaða löggjöf um á þessu þingi, þ.e. verzlunarfrelsið. Ég þarf ekki að rekja það hér, hve fráleitt það er, að sú löggjöf boði nokkurt frelsi í verzlunarmálum. Það ómak tók hv. þm. V-Húnv., Skúli Guðmundsson, á sig í gær, og sannar það, að hæstv. ríkisstj. tekst ekki einn sinni að sannfæra þm. sína um raungildi hinna fögru fyrirheita. Þessi hv. þm., Skúli Guðmundsson, sýndi t.d. mjög réttilega fram á það í ræðu sinni, að útflutningur er algerlega einokaður í höndum örfárra gæðinga ríkisstj.; þar sem eru ráðamenn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sambands ísl. samvinnufélaga. Þá er það á allra vitorði, að þetta sölufyrirkomulag gefur þá raun, að fiskverð til sjómanna og útvegsmanna er hér miklum mun lægra en t.d. í Noregi. Þrátt fyrir allt þetta felldi þinglið hæstv. ríkisstj. brtt. mína um að gefa útflutninginn frjálsan, og meðal þeirra, sem greiddu atkv. gegn henni, var Skúli Guðmundsson, hv. þm. V-Húnv., og þóttu honum það samt firn mikil, að þm. skyldu bornir þeim brigzlum að láta fremur ríkisstj. en sannfæringuna ráða í atkvgr. á þingi.

Það þarf engum blöðum um það að fletta, að skraf hæstv. ríkisstj. um verzlunarfrelsi er skrum eitt. Það höfum við stjórnarandstæðingar margsinnis sýnt fram á, og það vita og viðurkenna einnig margir þm. stjórnarinnar. En fyrst svo er um hið græna tré, hvað þá um hin? Á það má einnig líta, þótt engin þskj., frv. eða grg. sé þar við að styðjast, heldur aðeins loforð stjórnarsamningsins og fyrirheit ráðh., sem hér töluðu í gærkvöld.

Skattur skal lækkaður um 20%, sögðu þeir. Hér mun átt við tekjuskatt, og er ekki ljóst, hvort þetta á einnig að taka til eignarskatts og tekjuskattsviðauka, en þessir skattar nema alls um 6O millj. kr. á ári. Þessi lækkun mundi því í hæsta lagi geta numið 12 millj. kr. Það er álíka upphæð og sparaðist þjóðinni, ef söluskatturinn væri lækkaður úr 3% niður í 2.7%, og það er auk þess yfirlýst von hæstv. forsrh., að hægt verði að koma þeim pappírsgögnum, sem að þessu lúta, svo fyrir, að lækkunin verði í rauninni engin og helzt hækkun. Sem sagt, loforðið getur numið allt að 12 millj. kr., en efndin á engin að verða, gott ef ekki hið gagnstæða.

Ég mun ekki ræða hér fyrirætlanir stjórnarvaldanna í raforku- og húsnæðismálum að neinu ráði, og má þó rétt geta þess, að ríkið tók á síðasta ári 25 millj. kr. skatt af efnivörum til Sogsog Laxárvirkjananna, og nú á landslýðurinn að syngja stjórninni lofgjörð fyrir að láta þetta fé laust til raforkumálanna. Þetta minnir á söguna um ræningjann, sem rændi fyrst aleigu ferðamannsins, en gaf honum síðan smáskilding til að öðlast þakklæti hans.

Um húsnæðismál er það að segja, að í gær lofuðu ráðh. mikilli fyrirgreiðslu ríkisvaldsins í húsnæðismálum, en í dag þoldi stjórnarliðið ekki að vita af því ákvæði í lögum, að heilsuspillandi húsnæði skuli útrýmt, og nam það úr gildi.

Þegar glamur og skrúðmælgi stjórnarliða hefur verið lagt til hliðar og hinir raunhæfu hlutir einir eru eftir, sést, að hið eina, sem gleður hjarta hæstv. ríkisstj. og hún í alvöru er upp með sér af, er dálítill rekstrarafgangur hjá ríkissjóði á undanförnum árum, og þykir mér vel hlýða að gleyma honum ekki, þegar rætt er um stefnu og árangur stjórnarinnar, þótt ég líti hann öðrum augum en þeir ráðh., og vík ég síðar að því.

Verkin sanna, að stjórnarstefnan mótast fyrst og fremst af þrennu: vantrú á íslenzka atvinnuvegi og þó sjávarútveg alveg sérstaklega, þjónustulund við hina amerísku ásælni, en þó kannske fremur öllu af dæmalausri skammsýni. Ef fjárlög og ríkisreikningar síðustu ára eru höfð að vitnum um framferði stjórnarvaldanna, kemur berlega í ljós það, sem hér hefur sagt verið, og þar að auki að mitt í öllu smjaðrinu við herveldið, óþjóðhollustunni og fyrirhyggjuleysinu er geigur í liðinu. Í mínum takmarkaða tíma get ég þó ekki rakið nema fáein dæmi um þetta.

Sjávarútvegurinn er sú atvinugrein, sem nú og í nánustu framtið gerir okkur kleift að lifa í menningarþjóðfélagi á okkar landi. Hann leggur okkur til yfir 90% af útflutningsverðmætunum. Til eflingar og viðgangs þessum atvinnuvegi eru aðeins greiddar um 6 millj. kr. úr ríkissjóði árlega. Til samanburðar get ég þess, að til lögreglu og dómsmála, skattrukkunar og eftirlits er greidd 6–7-föld sú upphæð, eða um 40 millj. kr., enda verður stjórninni ekki tíðræddara um annað en varnir og öryggi, og lýsir það bezt ástandi sálarinnar.

Sjávarútvegurinn er hrein hornreka og olnbogabarn stjórnarinnar. Til hans rennur aðeins 1.50 kr. af hverjum 100.00 kr., sem ríkissjóður greiðir til eins og annars, en þótt hér skini í furðulegt sinnuleysi gagnvart þeirri atvinnugrein, sem í flestu hlýtur að móta lífskjör þjóðarinnar, eru það smámunir hjá hinu, sem ekki er skráð í fjárlög, en það er sú aðstaða, sem braskarar og afætur fá neytt í skjóli ríkisstj. til þess að mergsjúga útveginn, bæði í útflutningsverzluninni og öllu, sem að þörfum hans lýtur, enda er árangurinn sá, að mestur hluti útgerðarinnar er reikningslega á vonarvöl, þótt hún í raun réttri sé aðalmáttarviður okkar þjóðfélagsbyggingar.

Vantrú stjórnarinnar á íslenzka atvinnuvegi sést hvað gleggst á því, að hún horfir upp á fiskiskipastólinn minnka og innlendar bátasmiðar leggjast niður, án þess að hafzt sé að. Að hverju beinist þá athygli ríkisstj., fyrst þýðingarmesti atvinnuvegurinn sætir slíku sinnuleysi? Um það eru þeir vart í efa, sem hlýddu á ræðu hæstv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, í gær. Hann sagði m.a.: „Höfuðáhyggjuefni manna í Evrópu er, að Bandaríkin leggi minna fram til varnarmála en verið hefur“ — og var þetta ábyggilega kjarni máls hans, þótt hann bæri mikið mál í það, hve óvitrir andstæðingar hans væru í fjármálum, og þuldi í því sambandi upp tölur, er hann kvaðst hafa látið glöggan mann gera um, hver greiðsluhalli ríkisins yrði, ef við andstæðingar hans ættum að ráða. Að því er varðar okkur sósialista eru tölur hans tóm endileysa, m.a. af því, að hann gengur alveg fram hjá einni till. Hún er á þskj. 164 brtt. um endurskoðun varnarsamnings, og er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Meðan herlið Bandaríkjanna er enn í landinu, skal það eingöngu dveljast á þeim stöðum, sem það hefur fengið til umráða, og lúti það og starfsemi þess öll íslenzkum lögum.“

Ef þáltill. þessi væri samþ. og framkvæmd, þá mundu krafðir verða tollar og gjöld af varningi hernámsliðsins svo sem af öðrum vörum til landsins. Ég skora á hæstv. fjmrh. að upplýsa, hvað þetta mundi nema mikilli fjárhæð í ríkissjóð. Það er grunur minn, að ráðh. viti ekki, hve miklu slíkt mundi nema, því þótt Eysteinn dái Ameríkana, þá á ég þess vart von, að þeir geri sér það ómak að sýna honum vöruskrár sínar. Og ef svo er, sem mig uggir, þá hefur ráðh. hér reiknað dæmi, sem hann ræður ekki við, enda ber útkoma hans þess glöggt vitni. En það er hægt að fyrirgefa ráðh. þá barnalegu tilhneigingu að afflytja mál andstæðinga sinna, og það er hægt að fyrirgefa honum skekkjur í reikningsdæmum, en stefnu hans og allrar ríkisstj. höfum við engin efni á að þola. Við verðum að losa okkur við þá niðurlægingu og skammsýni, sem felst í þessari pólitísku feigðarstunu: „Höfuðáhyggjuefnið er, að Bandaríkin leggi minna fram til varnarmála en verið hefur.“

Eins og áður er að víkið, er íslenzkt atvinnulíf ekki áhugasvæði ríkisstj. Kjör sjómanna varðar hana ekkert um. Bátaflotinn má stöðvast, án þess að hún telji það svo mjög með skaða sínum. Gjaldeyristekjur fær hún samt nokkrar. Hún fær þær með því að senda vinnuaflið burt úr hinum aðþrengdu atvinnuvegum til stríðsmanna sinna, sem uppi hafa tilburði í sinni grein suður á Reykjaneshrauni og víðar. Þessar fórnfæringar íslenzks atvinnulífs gefa um 1 millj. kr. gjaldeyristekjur á degi hverjum, og þetta finnst hæstv. ríkisstj. einhverjar þær ákjósanlegustu tekjur, sem hugsazt geta. Þessum tekjum fylgja t.d. þeir meginkostir að dómi afturhaldsins, að menn þeir, sem fyrir þeim vinna, fá rækilegar yfirheyrslur um, hverjar séu skoðanir þeirra á stjórnmálum, og þá um leið allar nauðsynlegar vísbendingar um það, hvað sé rétt og hvað rangt í þeim efnum. Hvernig sem þessi skóli kann að gefast, þá er það víst, að auðmannastéttin og ríkisstj. hennar bindur við slíkt uppeldi miklar vonir um það að fá íslenzka verkalýðsstétt auðmýkta og krjúpandi fyrir valdinu.

Allir hugsandi Íslendingar sjá, hve alvarleg hætta það er að láta vinnu sem þessa koma í stað íslenzks atvinnulífs. Þessi vinna er öll til undirbúnings styrjöld, sem þó er ekki vitað, hvort verður nokkru sinni eða ekki. Ef stríð verður, svo sem undirbúningur þessi miðar að, er þarflaust að ræða, hver áhrif íslenzkt þjóðlíf hefur af slíku. Tekjur Íslendinga af hernaðarstörfum gætu þá orðið dýru verði keyptar. Verði hins vegar ekkert stríð á næstunni, þá stendur ríkisstj. einn góðan veðurdag frammi fyrir þeim vanda, að atvinnuvegur sá, sem hún hafði velþóknun á, er búinn og hættur. Hinir íslenzku atvinnuvegir munu þá verða þess vanbúnir eftir þá erfiðleika, sem þeim hafa verið skapaðir, að taka í skjótri svipan við og nýta til fullnustu það vinnuafl, sem þeir voru sviptir. Þá verða erfiðir tímar á okkar landi, a.m.k. ef núverandi stjórnarvöld ættu að ráða fram úr vandamálunum.

Ég hef þá sýnt fram á, að ríkisstj. þolir hvorki stríð né frið. Það eina, sem henni gagnar, eru þrotlausar stríðsæsingar vina hennar vestan hafs, þó að því tilskildu, að þær beri ekki árangur.

Af þessu mótast svo viðhorf og gerðir hæstv. ríkisstj., jafnt til íslenzkra þjóðmála sem alþjóðamála, og eru hagsmunir okkar, að því er tekur til hinna íslenzku atvinnuvega, mest undir því komnir um þessar mundir, að Austur-Evrópuþjóðirnar sem kaupendur afurða okkar og seljendur olíu og fleiri þýðingarmikilla vörutegunda til okkar lands liti meira á vesöld íslenzkra stjórnarvalda en fjandsamlega tilburði til vígaferla.

En ríkisstj. á afgang í aurabauk sínum í lok hvers árs um þessar mundir, og fjmrh. sindrar af gleði og ánægju af því tiletni. Hitt telur hann aldrei þess virði, að á það sé minnzt, hvort fólkið í landinu hefur til hnífs og skeiðar, klæða og húsaskjóls eða ekki.

Þetta um gleðina yfir aurunum í sjóði er raunar ekki nýtt fyrirbrigði í okkar þjóðlífi. Þess eru áður dæmi, að vesalir menn hafa gengið með húsum, betlað sér ölmusueyri á einum bænum og setzt upp á öðrum og safnað skildingum í skrín eða skjóðu og reynzt síðan efnaðir, þegar til uppgjörs kom. Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, safnar aurum með þeim hætti að sníkja hjá Ameríkumönnum, en setjast upp á Íslendinga með alla sína skatta. Hann hefur fordæmi fyrir þessu öllu. Verknaðurinn er áður þekktur, þótt Eysteinn sé sá fyrsti, sem hrósar sér af þessu og telur slíkt framferði til dyggða.

Þegar á það er litið, að það, sem einna lítilmótlegast var á fyrri tímum í fari sumra húsgangsmanna, er nú orðið eina skrautblómið í slóð hæstv. ríkisstj., verður það ljóst, að blómi hennar er furðulítill.

Fyrir fjórum árum gaf hv. 3. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, þá lýsingu á afturhaldsliðinu íslenzka, að það staulaðist áfram á hækju, og hækjan, sem það studdist við, var Alþfl. Þetta var og er rétt lýsing. Siðan hún var gefin, hefur árað vel fyrir hið hruma afturhald. En því hefur ekki farið fram. Þrátt fyrir allt er það nú valtara og verr á sig komið en þá var, enda hefur það nú orðið að bæta við sig annarri hækju til viðbótar, og styðja þeir nú við það sinn hvorum megin, Alþfl. og Þjóðvfl., með því að halda uppi sundrung í röðum andstæðinga þess. Án stuðnings þeirra væri ganga afturhaldsins harla ósigurstrangleg, enda kann það að meta veitta aðstoð, þ.e.a.s., það metur aðstoð pólitísku foringjanna, en hinir óbreyttu liðsmenn eiga alltaf fjandskap þess vísan, hvar í flokki sem þeir standa og þá allt að einu, þótt þeir veiti stjórnarflokkunum að málum beint. Í kosningum þeim, sem fram fóru hér á Alþ. fyrir fáum dögum, kaus ríkisstj. Alþýðuflokksbroddana í margar nefndir og ráð og einn af leiðtogum þjóðvarnarmanna í landskjörstjórn.

Hve lengi afturhaldinu kann að takast að halda áfram betli sínu erlendis og fjárkúgun innanlands, fer ekki hvað sízt eftir því, hve vel því duga hækjurnar. En íslenzk alþýða er á móti hæstv. ríkisstj. og hún vill ekki láta nota sig fyrir hækju undir hana, og þess vegna á hún samleið með Sósfl.