15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

1. mál, fjárlög 1954

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það mun vart hafa farið fram hjá ykkur, hlustendur góðir, hvað málflutningur ræðumanna stjórnarflokkanna hefur verið svipaður í þessum umr. Býst ég við því, að ýmsum ykkar hafi gengið illa að átta sig á því, hver þeirra talaði fyrir hvorn flokkinn um sig, sbr. þó sérstaklega ræðu hv. þm. A-Húnv., Jóns Pálmasonar, sem boðaði opinberlega sameiningu flokkanna, og hefur hann þó hingað til ekki verið talinn neinn sérstakur vinur Framsfl.

Báðum varð þeim ráðh., Eysteini Jónssyni og Ingólfi Jónssyni, á mjög alvarleg pólitísk skyssa í þessum umr. Var hún í fyrsta lagi í því fólgin, að þeir sem fjmrh. og viðskmrh. vörðu megninu af þeim ræðutíma, sem þeir höfðu til umráða, að því er ætla mætti til að skýra fjárlfrv. ríkisstj. og fjárlagaafgreiðslu stjórnarflokkanna fyrir öllum landslýð, til þess að ræða um herstöðvamálin, sem ættu að vera fjárlagaafgreiðslunni og fjárl. óviðkomandi, ef allt væri með felldu. Og í öðru lagi var þetta stórpólitísk skyssa vegna þess, hvað þeir undirstrikuðu rækilega með ræðum sínum hið órjúfanlega samband og beinu tengsl, sem eru á milli hernaðarframkvæmda og annarra framkvæmda Bandaríkjanna hér á landi og stefnu og aðgerða hæstv. ríkisstj. í íslenzkum etnahagsmálum. Mun ég því ræða það mál nokkru nánar hér á eftir, þar sem einmitt þetta atriði getur ráðið úrslitum í þeirri baráttu, sem nú er háð um sjálfsfæða tilveru þjóðarinnar í framtiðinni milli gömlu flokkanna allra, að vísu með nokkuð mismunandi móti, annars vegar, og Þjóðvfl. Íslands eins hins vegar. Áður en ég geri það, þykir mér þó hlýða að gera örfáar athugasemdir við nokkur atriði, sem fram hafa komið í ræðum stjórnarliðsins við þessa umr.

Í gærkvöld skoraði ég á ríkisstj. að hrekja það, að 6 ráðh. hefðu nú 7 bila og a.m.k. 5 einkabílstjóra á ríkiskostnað, röðuðu sonum sínum og tengdasonum og öðrum gæðingum á ríkisjötuna, greiddu fyrir hæstv. utanrrh. húsaleigu nær 8 þús. kr. á mánuði og ætluðu að greiða honum þingfararkaup.

Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, svaraði þessu með þrem athugasemdum. Hann sagði að það væri venja að greiða húsaleigu utanrrh. Ég spyr: Hvenær var það venja? Var fyrrv. hæstv. utanrrh., Bjarna Benediktssyni, greiddur húsaleigustyrkur? Hvers vegna er þessi húsaleiga ekki færð á fjárlög eins og húsaleigustyrkur forsrh., ef á að greiða hana?

Fjmrh. sagði, að það væri sjálfsagt að greiða ráðh. þingfararkaup, þó að hann væri ekki þm., af því að hann þyrfti endrum og eins að mæta á þingi. Ég spyr: Gegnir hann sömu störfum á þingi og aðrir þm., t.d. nefndarstörfum? Var ráðherrum utanþingsstjórnarinnar greitt þingfararkaup, eða létu þeir aldrei sjá sig á þingi? Og loks: Tilheyrir það ekki skyldustörfum ráðh. sem ráðh. að sitja á þingi?

Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, sagðist ekki trúa því upp á sjálfan sig, að hann hefði ráðið tvo menn hjá ríkisstofnunum án þess að þörf væri fyrir þá. Þau orð, sem ég sagði um það, voru nákvæmlega það, sem einn af ábyrgum mönnum fyrir áfengisútsölu ríkisins í Reykjavík viðhafði í þriggja votta viðurvist, og tel ég það fullboðlega heimild. Þau dæmi, sem ég nefndi, voru aðeins fá af mörgum á lista hæstv. ríkisstj., og vil ég bæta því við, að nýlega var búið til embætti í þjóðskjalasafninu handa fyrrv. ritstjóra Alþýðublaðsins án allrar heimildar í lögum, enda hefur hann um langt skeið verið ein dyggasta hækja stjórnarflokkanna. En tengdafulltrúana og bilkostnaðinn nefndi hæstv. fjmrh. ekki í gærkvöld og ekki heldur hæstv. landbrh., Steingrímur Steinþórsson, og nefndi ég hann þó til. Munu illyrði hans í garð Þjóðvfl. af því hafa stafað.

Þá sagði hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, að hann hefði fengið sérfræðing, væntanlega gegn þóknun úr ríkissjóði, til að reikna út, hver áhrif það hefði haft á fjárl., hefðu till. stjórnarandstöðuflokkanna verið samþykktar. En svo undarlega brá við, að þegar hann kom að Þjóðvfl., bilaði bæði reiknimeistarinn og ráðh. og skiluðu engri útkomu. Var það af því, að útkoman hefði orðið óþægilega hagkvæm fyrir Þjóðvfl. og sýnt þá ábyrgðartilfinningu, sem einstök mun vera um stjórnarandstöðuflokk? Eitthvað vafðist ráðh. a.m.k. tunga um tönn, þegar að þessu atriði kom.

Ræðumenn gömlu flokkanna hafa sýnt Þjóðvfl. þann heiður að gera hann að einu aðalumtalsefninu í ræðum sínum. Hefur skelfing þeirra við tilvist Þjóðvfl. ekki leynt sér. Og það er eftirtektarvert, að engum þeirra, hvorki kommúnistum né hernámsflokkunum þrem, hefur komið til hugar annað en það, að Þjóðvfl. hlyti að vera einhverjum undirgefinn. Engum þeirra hefur dottið í hug, að hugsazt gæti, að til væru menn á Íslandi í dag, sem vildu vera Íslendingar aðeins, en ekki auðmjúkir þjónar erlends valds. Sýnir það betur en flest annað, hvernig herleiðing þessara heiðurspilta í austur og vestur hefur leikið þá, togað skynsemi þeirra og teygt, eins og sagt er að tröllin í fjöllunum hafi gert til forna og er óþarft að fjölyrða um.

Ég býst við því, að það hafi fleiri en ég komizt í vanda við að ráða þá gátu, hvaða erindi hæstv. forsrh., Ólafur Thors, hafi átt í ræðustólinn hér í gærkvöld, nema þá til að framleiða hávaða, sem hann gerði svikalaust, og lesa upp margprentaðan stjórnarsamninginn. Ef það kom fyrir í ræðu hans, að hann nálgaðist eitthvert málefni, var viðkvæðið: fjmrh. skýrir nú þetta fyrir ykkur, eins og þar væri um dyggan flokksbróður að ræða, enda minntist hann aldrei á stjórnarflokkana tvo, heldur stjórnarliðið eitt, og gat ég ekki betur heyrt en þar væri eina sannleikskornið í ræðu ráðh. Afgangurinn af ræðunni var svo hinn gamli söngur, sem allir kannast við: Kom, kom, kom í frelsisherinn. „Aukið frelsi mun fara eins og heitur straumur um þjóðina,“ sagði hæstv. forsrh. og bætti við, „annað væri líka svik við kosningaloforð okkar og sjálfa sjálfstæðisstefnuna“. Og fjmrh. botnaði þetta með svofelldum orðum: „Fjárlögin standast ekki á næsta ári, nema góðærið haldist.“ Og þó eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 40–50 millj. kr. lægri 1954 en þær verða 1953. Þannig er þá málflutningur hæstv. ríkisstj. um efnahagsmálin, og má af því draga mjög mikilsverða ályktun um málflutning hennar á öðrum sviðum. Jafnhliða því sem hún heldur fram skoðun sinni um lakari efnahagsafkomu næsta ár en var á þessu ári, boðar hún með miklum bumbuslætti það, sem hún kallar aukið frelsi. Það á að auka frelsi manna til að byggja og þar með væntanlega að auka fjárfestinguna, og það á að auka verzlunarfrelsið, þ.e.a.s. í innflutningsverzluninni, og þar með væntanlega að auka innflutninginn.

En hvernig samrýmist nú þessi háværi athafnafrelsissöngur hæstv. ríkisstj. kenningum hennar. um heldur lakara árferði 1954, eða a.m.k. ekki betra en á því ári, sem nú er að ljúka? Því er fljótsvarað. Í þessu er ekkert samræmi til. Skynsöm alþýða þessa lands mundi segja, að þessi málflutningur hæstv. ríkisstj. minnti helzt á öfugmælavísuna: „Fiskurinn hefur fögur hljóð.“ Skynsöm alþýða þessa lands veit, að til þess að unnt sé að auka fjárfestinguna, þurfa bæði þjóðartekjur og sparnaður að aukast. Hún veit einnig, að til þess að auka frelsi í innflutningsverzluninni og þar með að auka innflutninginn þarf auknar gjaldeyristekjur og því betra árferði í útflutningsatvinnuvegunum og þar með meiri þjóðartekjur næsta ár en var á þessu ári. En hæstv. ríkisstj. gengur út frá því sem staðreynd í væntanlegum fjárl., að sú verði ekki þróun málanna, heldur miklu fremur þvert á móti. Það má því öllum ljóst vera, að það er herfileg mótsögn í málflutningi hæstv. ríkisstj., ef engin önnur rök hníga að þeim málflutningi en þau, er sækja má í eðlilegt íslenzkt þjóðlíf.

En eru þá til einhver önnur rök, sem sækja mætti út fyrir eðlilegt íslenzkt þjóðlíf og skýrt gætu þessa mótsögn, einhver rök eða skýringar, sem hæstv. ríkisstj. þorir ekki, vill ekki, getur ekki eða má ekki nefna? Hugsanlegt er, að svo sé og þurfi ekki langt að leita.

Það er öllum kunnugt orðið, að s.l. 3–4 ár hafa íslenzkar ríkisstj. fallið fram og beðið um og þegið erlent gjafafé og lánsfé í gegnum Marshallaðstoð, samtals að upphæð 38.65 millj. dollara eða 630 millj. ísl. kr., en auk þess um 70 millj. kr. yfirdráttarheimild frá Greiðslubandalagi Evrópu. Þessi leið er nú lokuð íslenzkum valdhöfum. En sú athöfn að þurfa ekki annað fyrir lífinu að hafa en að biðja auðuga vini sína um ölmusu og leyfa sér þrátt fyrir það að lifa í hóflausum munaði á kostnað almennings verður að sjúkdómi þeim, sem það gerir. Haldnir þessum sjúkdómi þorðu íslenzkir valdhafar ekki að fara út á þá braut að betlitímabilinu loknu að stjórna fámennri, fátækri þjóð, sem ætlaði að sjá sjálf sjálfri sér farborða af eigin aflafé. Þess vegna játuðu þeir kröfum Bandaríkjanna um hernaðarbækistöðvar hér árið 1951, sem þeir neituðu 1945. Hræðslan við að missa gjafaféð varð skynseminni og skyldurækninni sterkari, og sá möguleiki, sem þessir menn eygðu á því að fá beinar tekjur af dvöl herliðsins hér í stað gjafafjárins, lokaði augum þeirra fyrir afleiðingunum. — Og þó nægir þetta eitt ekki til að skýra mótsögnina í málflutningi hæstv. ríkisstj. fullkomlega.

Árið 1953 voru beinar gjaldeyristekjur af starfsemi herliðsins hér orðnar 140 millj. ísl. kr. í septemberlok og munu því með sama áframhaldi verða um 190 millj. kr. allt árið. urðu þær svipaðar næsta ár, nægði það því ekki sem ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. til að boða aukið frelsi. Það er því eitt og aðeins eitt, sem getur legið til grundvallar og skýrt boðskap hæstv. ríkisstj. um aukið frelsi, auknar framkvæmdir og aukinn innflutning. Það eru auknar framkvæmdir hersins, sem hér dvelst, svo stórauknar framkvæmdir, að þær gætu haft í för með sér stórauknar þjóðartekjur íslendinga þrátt fyrir þann samdrátt á framleiðslu landsmanna sjálfra, sem slíkt mundi hafa í för með sér vegna skorts á vinnuafli við innlendar framleiðslugreinar. Yrði það dæmið sett upp í tölum, sem mig vantar því miður upplýsingar til að geta gert, er hætt við, að mörgum þætti ískyggilega horfa um íslenzka framleiðslu á Íslandi. Og þó er þetta það eina, sem hæstv. ríkisstj. gæti bent á til stuðnings loforðum sínum um aukið frelsi og aukinn innflutning, ef hún ætlast ekki til, að litið sé á það sem blekkingu.

Og þess sjást þegar ljós dæmi, að það er þetta, sem er á bak við orð hæstv. ríkisstj., þó að hún segi það ekki beinum orðum. Á öllum landshornum er nú verið að byggja radarstöðvar úr hollenzku grjóti, innfluttu af Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem kosta eiga hundruð millj. kr. Byggingu Keflavíkurvígis er haldið áfram af fullum krafti, og vitað er, að rætt hefur verið um bandaríska stóriðju á Íslandi, sem að vísu mundi færa þjóðinni allmiklar tekjur, á meðan verið væri að koma þeim framkvæmdum upp, en litlar eða engar síðar, heldur mundi það gera þjóðina að fátækri nýlenduþjóð, sem hefði þá lífsbjargarvon helzta að snapa eftir lausavinnu kringum bandarískar herstöðvar og stóriðjuver, en yrði aldrei trúað fyrir neinum mikilsverðum ábyrgðarstörfum. Það er vitað, að slíkar áætlanir voru ræddar af fyrrv. ríkisstj., og var frá þeim skýrt í blaði Þjóðvarnarflokksins, Frjálsri þjóð, fyrir tæpu ári, án þess að ríkisstj. mótmælti því. Einn af þingmönnum stjórnarflokkanna, hv. þm. S-Þ., Karl Kristjánsson, játaði á framboðsfundi í kjördæmi sínu, að þessar áætlanir hefðu verið ræddar. Hins vegar var þeim frestað vegna kosninganna og þó fyrst og fremst vegna þeirrar pólitísku hreyfingar, sem vakizt hafði upp gegn þeim með Þjóðvarnarflokki Íslands.

Slík er stefna hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum landsins, sem hún boðar með málflutningi sínum, en hefur ekki karlmennsku til að játa berum orðum. Þetta er sú stefna, sem hún hefur gefið hið skáldlega heiti „jafnvægi í byggð landsins“, því að af þessu seyði skal landsbyggðin öll fá að súpa. Og vegna þessarar stefnu einkennist fjárlfrv. það, sem hér er til afgreiðslu, fyrst og fremst af sívaxandi rekstrarkostnaði ríkisins og síminnkandi framlögum til verklegra framkvæmda og athafnalífsins, svo að enn sé notuð túlkun hv. 2. þm. Eyf., Magnúsar Jónssonar. Og þess ber vandlega að gæta í þessu sambandi, að aðra stefnu en þessa hafa stjórnarflokkarnir ekki í efnahagsmálum þjóðarinnar, því eins og öllum landslýð er ljóst, hafa þeir svíkið margfaldlega og eru löngu horfnir frá sinni upphaflegu stefnu.

Með þennan boðskap í huga og þessa stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar leyfði oddviti hennar, hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, sér að halda því fram og endurtaka það þrisvar til fjórum sinnum í umr. í gærkvöld, að vegna þess að Þjóðvfl. Íslands er þessari stefnu algerlega andvígur, hefði hann enga stefnu í innanlandsmálum og engin mál á stefnuskrá sinni nema sjálfstæðis- herstöðva- og utanríkismál. Enda þótt þau mál séu ærið viðfangsefni og lausn þeirra sé háð, hve mikla ástæðu við höfum til að ræða önnur stjórnarfarsmál, þar sem ljóst má vera, að þjóð, sem hefur glatað sjálfstæði sínu og ræður ekki sjálf sjálfri sér, endist lítt til farsældar það eitt að jagast um önnur atriði, fer því þó víðs fjarri, að Þjóðvfl. Íslands hafi ekki markað sér skýra stefnu til allra helztu þjóðmála, en sökum fátæktar sinnar hefur flokkurinn ekki haft efni á því að útbreiða hana til allra landsmanna. Af því tilefni mun ég nú leitast við að skýra höfuðdrættina í stefnu Þjóðvfl. í efnahagsmálum, enda ástæða til, þar sem fjármál og efnahagsmál eru til umr. Það væri þó freistandi að ræða þá stefnu í samanburði við stefnu hinna stjórnmálaflokkanna, — einstaklingsframtak og frelsi Sjálfstfl., sem þýður ótakmarkað frelsi handa fáum útvöldum til að féfletta marga, og afnot þeirra af sparifé smásparifjáreigenda og lánsfé lánsstofnana til að sölsa undir sig atvinnu- og framleiðslutækin og arð þeirra, — samvinnustefnu Framsfl., sem upphaflega var við það miðuð, að fyrirtækin skyldu stofnuð af fólkinu sjálfu fyrir fólkið, en hefur nú snúizt upp í það, að fólkið skuli þjóna undir auðsöfnun fyrirtækjanna og völd foringjanna, — samvinnustefnuna, sem Sambandið sjálft virðist nú hafa endanlega yfirgefið og kastað trúnni á, ef höfð er í huga hlutafélagastofnun S.Í.S., sem sýnilega er talið heppilegra rekstrarform af forkólfum Framsfl., — eða í samanburði við hina rússnesku ofsatrúarpólitík forustumanna Sósfl. og hina tækifærissinnuðu, rótlausu bitlingastefnu hækjuliðsins í Alþfl., sem virðist eftir ræðum hv. þm., Haralds Guðmundssonar og Eggerts Þorsteinssonar, bíða þess eins að komast í stjórn með Framsfl. og Sjálfstfl. Tími vinnst þó ekki til að ræða málið á þeim grundvelli.

Þjóðvfl. Íslands telur, að erlendar kennisetningar, byggðar á erlendum staðháttum og aðstæðum stórþjóða, verði ekki með árangri framkvæmdar óbreyttar hér við þau skilyrði, sem þjóðin býr nú og mun búa næstu öld, fámenn í stóru, strjálbýlu landi. Hann er því andvigur allsherjarþjóðnýtingu og telur, að hún leiði aðeins til ríkiskapítalisma með sízt færri göllum en hinn eiginlegi kapítalismi, án þess að í því felist nokkur dómur um það, hvað öðrum þjóðum kunni að henta í því efni. Þrátt fyrir þetta telur flokkurinn ríkisrekstur í einstökum greinum nauðsynlegan og sjálfsagðan. Stefna Þjóðvfl. er því lýðræðisleg, íslenzk stefna, byggð á íslenzkum staðháttum, aðstæðum og hugsunarhætti og þó umfram allt af íslenzku viti.

Verkalýðs-, efnahags- og atvinnumál telur hann einn málaflokk og óumdeilanlegan í eðli sínu, og hann telur engan eðlismun á hinum vinnandi stéttum, sjómönnum, bændum, verkamönnum, iðnaðarmönnum og öðrum launþegum, svo samantvinnaður sem hagur og afkomuöryggi þessa fólks er. Þjóðvfl. telur, að verkamenn nái ekki fullkomnum árangri í kjarabaráttu sinni með þeim aðferðum, sem til þessa hafa helzt verið notaðar, þ.e. einhliða launapólitík, sem fylgt er eftir með verkföllum. Stafar það af því, að ef þeir, sem með völd fara hverju sinni, eru verkalýðnum andvígir, geta þeir auðveldlega eyðilagt á svipstundu þær kjarabætur, sem nást kunna, með jafnþrautreyndum aðferðum og gengisfellingu, bátagjaldeyri, okurálagningu, skatta- og tollakúgun, svo að dæmi séu nefnd frá líðandi stund. Þess vegna er það stefna Þjóðvfl. Íslands, að hinum vinnandi stéttum beri eignarréttur á þeim framleiðslutækjum, sem lífsafkoma þeirra byggist á, og allur sá arður, sem vinna þeirra og framleiðslutækin skapa í sameiningu.

Til þess að ná því takmarki að eignast framleiðslutækin er aðeins ein leið fær. Sú leið er, að hinar vinnandi stéttir taki allar höndum saman og skapi sér það pólitíska vald, sem þarf til þess að afla þeim eignarréttar á framleiðslutækjunum og viðurkenningar á því, að sú lausn efnahagsmálanna sé jafneðlileg og sjálfsögð og það er nú talið eðlilegt og sjálfsagt, að bændur eigi sín framleiðslutæki, atvinnubílstjórinn sinn bíl, smiðurinn sín verkfæri o.s.frv. Þessa lausn verður fólkið sjálft að undirbúa með því að mynda sín eigin samtök um eign og rekstur þeirra framleiðslutækja, sem það starfar við og afkoma þess byggist á, finna þeim samtökum það form, sem þeim hentar, og afla sér þeirrar rekstrarfræðilegu sérþekkingar og tæknilegu menntunar, sem þarf til að stjórna slíkum fyrirtækjum. Og ríkisvaldið verður að auðvelda með fjármála- og lánsfjárpólitík sinni, að þetta megi takast. Vegna okkar sérstöku þjóðfélagsaðstæðna verða slík rekstrarfélög að vera tiltölulega fámenn, svo að hver meðlimur finni greinilega, að hann sé eigandi framleiðslutækjanna, láti sér annt um þau og verði þess var, að hann ber meira úr býtum fyrir strit sitt með þessu fyrirkomulagi en því, sem hann býr nú við.

Hin fámennu rekstrarfélög geta siðan gengið til margvislegrar samvinnu um lausn sameiginlegra verkefna svo og tekið ríkisvaldið í þjónustu fólksins til lausnar sameiginlegum viðfangsefnum í stað þess, að fólkið þjóni undir ríkisvaldið, eins og nú er og yrði þó enn meir í þjóðnýtingarskipulagi.

Þjóðvfl. Íslands er ljóst, að fram undan eru örlagaríkustu tímamót í sögu íslenzkrar þjóðar, — tímamót, sem ráða sköpum um það, hvort búa á þjóðinni vísa tortímingu í hugsanlegri styrjöld á þann hátt, sem Jóhann Sæmundsson prófessor lýsti með óhrekjanlegum rökum í ræðu, sem hann flutti 1. des. s.l., eða hvort búa á henni líf og sjálfstæða framtíð í sínu eigin landi. Þessi tímamót er alþýða landsins ein fær um að marka, svo að til heilla megi horfa fyrir framtíð þjóðarinnar. Þess vegna setur Þjóðvfl. Íslands ofar öllu öðru heiðarleikann og trúmennskuna við stefnu sína og markmið sitt og þá hugsjón, að aftur megi búa frjáls, sjálfráð íslenzk þjóð í þessu landi.