15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

1. mál, fjárlög 1954

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Maður skyldi halda af þessum umr., að það væri nýjung, að ráðh. hefðu til umráða bila á Íslandi, en þannig hefur þetta verið í 15 ár, hverjir, sem í stjórn hafa setið, úr hvaða flokkum sem þeir hafa verið. Einu sinni tók ég við ráðuneyti af einum af aðalforkólfum kommúnista. Þá voru í ráðuneytinu einn fólksbíll og tveir jeppar.

Mig grunaði það, að hv. 8. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, mundi leka niður á því að tilnefna dæmin um mennina tvo. Það kom mér ekkert á óvart, enda varð það svo.

Hv. þm. A-Húnv. flutti hér áðan einhvern hlálegasta samsetning, sem ég hef heyrt í útvarpsumr. frá Alþ. Ein spekin var sú, að ég hafi staðið á móti innflutningi í stjórn Stefáns Jóhanns, þegar Jóhann Jósefsson var fjmrh. Þá var flutt inn allt það, sem hægt var að borga, allt, sem hægt var að flytja inn gjaldeyrisins vegna, og raunar meira til. Þannig er nú sannleikurinn um þetta. Svo segir hann, að ég hafi breytt um stefnu, eftir að ég varð fjmrh., og þá orðið fylgjandi frjálsri verzlun. Það kom aldrei til greina að slaka á neinum höftum, á meðan ráðh. Sjálfstfl. fóru með fjármálastjórnina og alltaf var stórfelldur halli á ríkisrekstrinum. Þá gat frjáls verzlun ekki komið til greina. Það var fyrst, þegar ráðstafanir höfðu verið gerðar til þess að koma jafnvægi á ríkisbúskapinn, sem nokkur maður með fullu viti gat verið með frjálsri verzlun.

Þá sagði þessi hv. þm., að það hefði hrokkið fram úr mér í gærkvöld, að það hefði þurft að berjast við sjálfstæðismenn um rafmagnsmálið í sumar. Ég sagði aldrei eitt einasta orð í þessa átt. Þetta er hreinn skáldskapur hjá hv. þm. En úr því að hann og hæstv. viðskmrh. eru svo smekklegir í sér að fara að draga þetta hér inn í þessar umr., þá er rétt, að það komi fram, að sú till. að verja 25 millj. kr. að meðaltali á ári í rafmagn og að láta 100 millj. kr. lánsútvegun sitja fyrir öllu, var frá framsóknarmönnum.

Þá sagði þessi hv. þm.: Ja, ef fjmrh. vildi svo fara að spara, þá væri enginn ágreiningur lengur til á milli hans og sjálfstæðismanna. — Af þessu áttu menn að draga þá ályktun, að það stæði á mér að spara. Hér um bil öll útgjöld ríkisins eru á vegum annarra en fjmrn. Í hvert einasta skipti öll þau ár, sem ég hef verið fjmrh., hef ég beðið hina ráðh. um það að rannsaka sínar útgjaldagreinar og vita, hvað þeir gætu gert til þess að draga saman og spara, þ. á m. ráðh. Sjálfstfl. 1:g hef aldrei fengið eina einustu sparnaðartill. frá þeim. Þetta er rétt að hv. þm. A-Húnv. viti, fyrst hann langar til þess að vita það, en auðvitað veit hann það áður. Þá vita aðrir það nú. Svo er þessi hv. þm. að leyfa sér að gefa í skyn, að það standi á mér í þessum efnum.

Þeir voru ekki að flíka því hér, stjórnarandstæðingarnir í kvöld, fremur en í gærkvöld, hvernig þeir ætluðu að afgreiða fjárhagsmálin, ef þeir mættu ráða. Þeir halda leynivopninu í fjárhagsmálunum enn þá vandlega leyndu. Leyndardómurinn er enn hinn sami, en menn hafa grun um, að það sé hinn óttalegi leyndardómur, sem ekki sé ávinningur að segja frá. Ekki er nú traustið meira á úrræðum þessara hv. stjórnarandstæðinga í fjárhagsmálum en svo.

Einn þessara ræðumanna, hv. landsk. þm., Karl Guðjónsson, sagði, að ég hefði gert Sósfl. rangt til, því að hann hefði flutt eina tekjuöflunartill., sem ég hefði sleppt að telja, og hún gæti vegið á móti öllu hinu, gefið 360 millj. kr. Hvað var svo þetta? Jú, það var að leggja tolla á það, sem bandaríski herinn flytti inn á Íslandi. Hef ég heyrt það rangt, að það væri stefna Sósfl. að reka Bandaríkjaherinn á burt? Er þá hægt að gera hvort tveggja í senn: reka herinn á burt og leggja niður allar varnir og hafa á sama tíma upp úr hernum 360 millj. kr. í tolla? Hef ég líka heyrt það skakkt, að þm. Sósfl. hafi hvað eftir annað verið að fárast um það, að menn skyldu treysta á vinnu suður á Keflavíkurflugvelli? En nú er allt í einu ekki nóg að treysta á vinnu suður á Keflavíkurflugvelli, það á að byggja ríkistekjurnar á veru hersins líka. Ef nokkuð er að marka þetta fjas þm. og till. Sósfl., þá á ríkissjóður sem sé nú líka að fara að taka tekjur sínar af hernaðarframkvæmdunum. Er nú hægt að hugsa sér öllu aumlegri frammistöðu en hér er um að ræða hjá kommúnistum?

Hv. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, var að kvarta yfir því hér áðan, að ég hefði rætt um hervarnarmálið, þegar ætti að ræða um fjármálin. Veit ekki þessi hv. þm., að þetta eru eldhúsumr.? Hér á að ræða almennt um stefnu stjórnarflokkanna. Er nú svo komið, að Þjóðvfl. vill ekki láta tala um þessi mál? Hvers vegna er þessi hv. þm. að kvarta? En hv. flokksbróðir hans, Gils Guðmundsson, reyndi þó að klóra ofur lítið í bakkann. Hann var að burðast við að mótmæla hér sumum þeirra raka, sem ég bar fram í gærkvöld í varnarmálinu. Viðleitnin var þar, en árangurinn var ekki beysinn.

Þessi hv. þm. sagði m.a., að það væri eðlilegra, að þær þjóðir hefðu varnir, sem ráðizt hefur verið á, sem hefðu sögulega reynslu, þá lægju fyrir vörnunum söguleg rök. Fékk Ísland að vera utan við síðustu heimsstyrjöld? Nei, það fékk það ekki. Vill þessi hv. þm. ekki opna augu sín í þessu máli fyrr en búið er að hernema Ísland af óvinaþjóð og fá þá sömu reynslu og Evrópuþjóðirnar hafa orðið að þola? Nákvæmlega sömu rök fyrir varnarleysi voru á sínum tíma færð fram fyrir varnarleysi Danmerkur, Noregs og Hollands fyrir síðustu styrjöld, en hvernig fór? — Þá sagði þessi hv. þm.: Írar standa utan við. Þess vegna eigum við að gera það. — Hvað er sameiginlegt með Írum og Íslendingum? Jú, þeir búa báðir á eylöndum, en Írar eru gráir fyrir járnum og hafa sínar varnir sjálfir, það er munurinn. — Þá sagði þessi þm. enn, að eylönd þurfi ekki varnir. En hver var reynslan í síðasta stríði? Hver var reynslan í Kyrrahafinu? Hvað héldu menn um Norður-Noreg fyrir síðustu styrjöld? Menn héldu, að það kæmi ekki til nokkurra mála, að Norður-Noregur yrði tekinn af nokkurri þjóð, sem ekki réði skilyrðislaust á hafinu. En hver var reynslan? Og loks klykkti þessi hv. þm. út með því að segja, að við hefðum engar skyldur við nágrannaríki okkar í sambandi við varnarmálin, af því að það væru ýmsar smáþjóðir annars staðar í heiminum, sem væru utan við varnarsamtökin á Norður-Atlantshafinu. Þetta eru nú rök í lagi. Af því að ýmis smáríki í Suður-Ameríku t.d. telja sér ekki skylt eða rétt að vera í varnarbandalagi með Norðmönum, Dönum og Hollendingum, þá eigum við ekki heldur að vera það, og þá varðar okkur ekkert um þessi lönd eða samstöðuna með þeim. — Þannig eru röksemdir þessa hv. þm., þegar við þeim er hróflað. Ég vil þá víkja hér nokkuð að öðrum málum.

Út af því, sem sagt hefur verið um áætlun á tekjum ríkissjóðs, vil ég taka fram, að séu tekjurnar áætlaðar eins háar og þær geta orðið hæstar, þá er greiðsluhalli alveg vís. Ríkissjóður er flæktur orðinn í alls konar viðskipti, og á hverju ári fellur til mikið af útgjöldum, sem ómögulegt er að sjá fyrir fram. Það sýnir reynslan.

Umframgreiðslur á fjárl. hafa aldrei verið minni tiltölulega en síðustu fjögur árin. Verulegur greiðsluafgangur hefur aðeins orðið einu sinni, og þá var honum ráðstafað sérstaklega með lögum frá Alþ. Fjárveitingavaldið hefur því aldrei verið örugglegar í höndum Alþ. en einmitt nú síðustu árin.

Heildarafkoma ríkissjóðs síðan 1950 hefur ekki mátt lakari vera en nú hefur orðið, þegar litið er á tímabilið í heild. Þetta sjáum við vel á skuldum ríkissjóðs. Lausaskuldir ríkissjóðs hafa að vísu lækkað, en aðeins mjög lítið. Brýna nauðsyn ber á hinn bóginn til þess að greiða nokkuð inn í lausaskuldir ríkissjóðs, og verður að gera svo, ef greiðsluafgangur leyfir slíkt, ekki sízt með tilliti til þess, á hve tæpt vað er teflt með fjárlagaafgreiðsluna fyrir næsta ár.

Það er þess vegna því miður alveg rangt, að ríkissjóður hafi getað komizt af með minni tekjur undanfarið að óbreyttum útgjöldum eða hafi getað séð af tekjustofnum sínum til bæjar- og sveitarfélaga.

Það hefur verið bent á það í þessum umr. af nær öllum ræðumönnum stjórnarandstæðinga, að minna fer nú í verklegar framkvæmdir en áður var af tekjum ríkissjóðs hlutfallslega. Er þetta nokkuð undarlegt, þegar þess er gætt, hvað framfög til menntamála, tryggingarmála og dýrtíðarmála hafa vaxið gífurlega? En það kemur úr hörðustu átt, þegar þeir menn, sem státa af því að hafa aukið útgjöld einmitt á þessum höfuðliðum fjárl., gerast til þess að ráðast á aðra fyrir það, að ekki er hægt að nota sömu peninga til verklegra framkvæmda og þá, sem notaðir eru til annars. Ég gerði ýtarlega grein fyrir því í fyrravetur, að afleiðing þeirrar lausnar, er þá var gerð á verkfallinu, hlyti að hafa í för með sér raunverulega rýrðar verklegar framkvæmdir, og það er nú komið fram. En þá státuðu þessir sömu menn af því að hafa orðið þess valdandi, að þessum fjármunum væri varið til niðurborgunar, en ekki til þessara framkvæmda.

8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, og Lúðvík Jósefsson voru að deila á stjórnina og stjórnarfl. vegna tómlætis í málefnum útvegsmanna og sjómanna. Hvar hafa þessir hv. þm. verið? Eru þeir svo blindir af pólitísku ofstæki, að þeim hafi sézt yfir það, að þær ráðstafanir, sem núverandi stjórnarflokkar hafa beitt sér fyrir í málefnum bátaútvegsins, hafa orðið til þess að breyta til bóta öllu atvinnuástandi í sjávarþorpum landsins? Er þeim ekki ljóst, að gengisbreytingin og bátagjaldeyrisfyrirkomulagið, hvað sem hægt er að segja um þetta að öðru leyti, leysti bátaútveginn og atvinnulífið í fiskiþorpunum blátt áfram úr læðingi? Alls staðar þar, sem fiskur hefur ekki brugðizt, hafa þessar ráðstafanir sett líf í bátaútveginn og tryggt, ekki aðeins fiskimönnum, heldur einnig öðrum íbúum þessara staða, stórum betri afkomu en áður var. En hver er hlutur þessara hv. þm. og sálufélaga þeirra bæði í Þjóðvfl. og kommúnistafl. í þessu máli? Þeirra hlutskipti hefur verið að berjast á móti öllu því, sem gert hefur verið í þessu efni, og gera allt, sem í þeirra valdi hefur staðið, til þess að fá aðra landsmenn en þá, sem stunda fiskveiðar, til þess að sætta sig ekki við þær ráðstafanir, sem gera þurfti til hagsbóta fyrir fiskimenn, útvegsmenn og íbúa smáþorpanna. Svo geta þessir menn fengið sig til þess að koma á mannamót og balda þar hjartnæmar ræður um áhuga sinn fyrir kjörum þeirra, sem hafa uppeldi sitt af fiskveiðum.

Hitt er svo annað mál, þó að það snerti ekki þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til bóta í þessum efnum, að bátaútvegsmenn og fiskimenn fá aldrei rétt verð fyrir afurðir sínar og aldrei það sem þeim ber, fyrr en þeir hafa tekið í sínar hendur alla meðferð afurðanna og sölu afla á sama hátt og bændur hafa gert. Þetta er það, sem þeir verða að gera, ef vel á að fara. Þetta er sú leið, sem Framsfl. bendir á og vill vinna að með öllu móti. Til þess að koma slíku fram þarf tvennt til: öflugan félagsskap útgerðarmanna og fiskimanna til þess að hafa forustuna, þar sem engir aðrir ráða neinu en þeir, sem rannverulega eiga fiskinn, og svo þarf einnig til öflugan stuðning útvegs- og fiskimanna við Framsfl., til þess að hann verði nógu sterkur til að styðja þá í hvívetna í framkvæmd þessarar stefnu.

Ég vil, áður en ég skilst við þessar umr., minnast ofur lítið nánar en ég hef gert á nýsveininn í íslenzkri pólitík, Þjóðvfl.

Þjóðvfl. er stofnaður út af einu máli og er í því bundinn við kommúnista, eins og öllum skynbærum mönnum er ljóst. Flokkurinn vill láta halda, að hann hafi stefnu í innanlandsmálum, og sett hefur verið saman plagg, sem heitir ávarp og stefnulýsing Þjóðvarnarfl. Íslands. Þetta er einhver furðulegasti samsetningur, og rekur sig hvert á annars horn. Er þetta ekkert undarlegt, þar sem flokkurinn er settur saman af pólitískum sérvitringum úr ýmsum áttum, og eru sumir þar innarlega í kró. Er augljóst, að þessir vitringar hafa samið sina klausuna hver og smellt síðan öllu saman. Það er ekki hægt að fara langt út í þetta, en ég vil aðeins nefna dæmi.

Samtök kaupmanna eiga að hafa rétt til þess að flytja inn vörur. Síðan stendur, að ef þurfa þyki, skuli samband kaupfélaganna, S.Í.S., hafa með höndum hluta af innflutningnum, enda séu því sett sérstök skilyrði, sem þjóðvarnarmenn svo hafa í pokahorninu. Kaupmönnum þarf á hinn bóginn engin skilyrði að setja.

Þá segir, að stjórn opinberra fjárfestingarmála beri að taka úr höndum stjórnmálamanna og fá hana sérfræðingum. Stjórn fjárfestingarmála er ákvörðun um það, hvaða framkvæmdir skuli sitja fyrir, í hvað skuli ráðizt og í hvað ekki ráðizt. Ákvörðun um þetta segja þjóðvarnarmenn að eigi alls ekki að vera í höndum kjörinna fulltrúa fólksins, heldur sérfræðinga. Hér hefur Þjóðvfl. tekið upp eitt helzta stefnumál nazista og fasista. Það væri gaman að vita, hver af vitringunum hefur kastað þessum steini í hrúguna.

Þá er það mark sett í stefnulýsingunni, að styrkir og önnur fríðindi til landbúnaðarins af hálfu hins opinbera verði numdir úr lögum. Er hér bersýnilega átt við jarðræktarstyrkinn og önnur framlög til landbúnaðarins á 16. gr. fjárlaga og viðar. Þetta ákvæði er vafið í silkiumbúðir á þann hátt, að koma beri landbúnaðinum á svo öruggan fjárhagsgrundvöll, að slíkur stuðningur verði óþarfur. Þetta er sem sé kuti vafinn í silki, sem fram er réttur.

Þá standa þau vísdómsorð í stefnulýsingunni, að draga skuli úr kostnaði við tryggingar, en gera þær jafnframt hagkvæmari. Ekkert er að því vikið, hvernig slíkt megi verða.

Þá er ákvæði um að draga valdið frá dreifbýlli héruðum og til þeirra þéttbýlli með því að fækka þm. þar, sem dreifbýlla er. Þannig mætti lengi telja. Þetta eru bara sýnishorn af þessum samsetningi, en láðst hefur á hinn bóginn að setja í stefnuyfirlýsinguna eitt stærsta mál flokksins, en það er krafan um það, að ráðh. séu jafnframt ráðherrastörfunum bifreiðarstjórar ráðuneytanna.

Tvö mál hafa þó aðallega mótað fram að þessu afskipti Þjóðvfl. af innanlandsmálum. Annað er svo kallað skúrmál, sem þeir tóku upp hér á Alþ. og fjölluðu mjög um í blöðum sínum langa hríð. Þeir héldu því fram, að ég hefði svo sem í greiðaskyni við meðráðh. minn tekið frá fyrirtæki hans ónýta eign upp í stóreignaskatt. Var ég borinn öllum verstu brigzlum í því sambandi. Ég benti á, að skylt var samkvæmt lögum að taka eignina með því verði, sem hún var skattlögð, og um það höfðu allir tilkvaddir lögfræðingar verið sammála. Fjmrn. átti því ekkert val. Allt kom þetta fyrir ekki. Áfram hélt rógurinn. Nú hefur hæstiréttur hins vegar kveðið upp dóm, sem tekur af allan vafa um þetta, hafi hann nokkurn tíma verið til í huga nokkurs manns. Siðan þetta gerðist hefur að vísu rógurinn um mig í sambandi við skúrmálið hjaðnað niður, a.m.k. sá, sem fluttur er í heyranda hljóði. En skort hefur þjóðvarnarmenn bæði manndóm og drengskap til þess að biðja afsökunar á frumhlaupi sínu út af þessu máli.

En nú hafa þeir þjóðvarnarmenn tekið upp enn stórbrotnara baráttumál en skúrmálið nokkurn tíma var. Þeir hafa nú tekið upp eftir fyrirskipun formannsins harða baráttu fyrir því, að formaður flokksins, sem er bókaútgefandi, þurfi ekki að skila í ríkissjóð söluskatti þeim, sem hann tekur af almenningi, heldur fái að stinga skattinum í sinn vasa. Formaður flokksins hefur látið hefja í blöðum þeim, sem hann hefur aðgang að, sérstaklega Frjálsri þjóð, harðsnúna árás á mig fyrir það, sem hann kallar pólitíska ofsókn á hendur sér. „Ofsóknin“ á að vera fólgin í því, að tollstjórinn í Reykjavík gerði nákvæmlega sams konar ráðstafanir til innheimtu á söluskatti frá þessum manni eins og hjá öllum öðrum, sem láta dragast óhæfilega að skila skattinum, en skatturinn er geymslufé þeirra, sem hann innheimta. Hefur tollstjórinn gefið sérstaka skýrslu um þetta mál út af hinni ósvífnu árás, þar sem hann greinir frá því, að dráttur Draupnisútgáfunnar, þ.e.a.s. formanns Þjóðvfl., á greiðslu söluskatts hafi verið orðinn alveg einstakur og að beiðnin um ráðstafanir hans til þess að tryggja innheimtu á þessum 10500 kr., sem um var að ræða, hafi verið aðeins ein af mörgum, sem send var, „til þess að jafnt gengi yfir alla“, eins og tollstjórinn kemst að orði. Þetta segir nú tollstjórinn í Reykjavík, en formaður Þjóðvfl. kallar þetta pólitíska ofsókn. Er hægt að hugsa sér meiri ósvífni en þessa framkomu þjóðvarnarmanna út af söluskattsvanskilum formannsins? Og hvað á við segja um formann flokks, sem þannig níðist á trúnaði flokksmanna sinna, að hann blandar vanskilamálum sínum í málefni flokksins og ætlast til þess, að hann fái að hirða í sinn vasa söluskatt, af því að hann er formaður í þessari flokksnefnu? Hvers er svo að vænta af svona mönnum í pólitísku lífi? Þetta eru ekki óefnilegir siðbótamenn — eða hitt þó heldur. Á þessa ofsókn á hendur formanninum hefur svo ekki verið minnzt af talsmanni Þjóðvfl. í þessum umr. Það var skrýtið. Það skyldi maður þó halda að hefði þótt tíðindum sæta í herbúðunum. Það skyldi þó aldrei vera, að þeir sæju missmíði á þessu öllu saman? En ekki bjarga þeir formanninum og ráðunautum hans með þögninni. Hneykslið stendur, — en á formaðurinn að sitja? Um það spyrja menn nú hver annan.

Stjórnarandstæðingar hafa í þessum umr. deilt bæði á fyrrv. og núverandi stj., og hafa þær ákærur blandazt nokkuð saman og ekkert yfir því að kvarta. En hvað sem þessu líður, þá vil ég benda hér að lokum á eftirfarandi, sem upplýstst hefur í umr.

Framleiðslan hefur síaukizt, Læði til lands og sjávar, undanfarin ár. Atvinnuástæður í sjávarþorpum hafa gerbreytzt til bóta, og er það bein afleiðing gengisbreyt. og bátagjaldeyris. Meira fjármagni hefur verið veitt til framfara í landbúnaði en nokkru sinni áður. Komið hefur verið á greiðsluhallalausum ríkisbúskap í stað stórfellds greiðsluhalla. Afleiðingin hefur orðið meira jafnvægi í peningamálum og gerbreytt ástand til bóta í gjaldeyris- og verzlunarmálum. Framkvæmdir í landinu hafa orðið meiri en nokkru sinni fyrr. Hafin hefur verið uppbygging stóriðnaðar með byggingu áburðarverksmiðjunnar. Meira fé hefur verið lagt til íbúðarhúsa en nokkru sinni áður, þótt enn sé það allt of lítið. Þessu öllu hefur verið komið í framkvæmd án þess að hækka skatta og tolla. Þvert á móti hefur verið stefnt í lækkunarátt og nú ákveðið að lögfesta mjög mikla lækkun á beinum sköttum til ríkissjóðs. Það mega vera blindir menn, sem ekki koma auga á breytingar til bóta á fæstum sviðum, sem orðið hafa síðan breytt var um stefnu. Hitt er svo annað mál, að mörgu er ábótavant og margt þarf að lagfæra, og verður að vinna að því af alúð og samvizkusemi. Því verður ekki neitað, að okkur hættir fremur við að færast of mikið í fang en of lítið, og einkum vill þjóðinni sjást yfir, að menn verða að leggja mikið að sér og neita sér um margt og taka á sig þungar byrðar, ef framfarir eiga að vera örar framvegis. Skorti skilning almennt á þessu, gæti hæglega svo farið, að jafnvægi í þjóðarbúskapnum raskaðist á ný, og væri þá illa farið, því að mikla baráttu og fyrirhöfn hefur það kostað á undanförnum árum að breyta til í þá átt, sem nú er orðið.

Að lokum vil ég segja þetta við framsóknarmenn og þá, sem stutt hafa framsóknarmenn til þingsetu: Berið saman það, sem verið er að vinna, og þau verkefni, sem við höfum haft á oddinum í okkar baráttu í raforkumálum, íbúðamálum, skattamálum, iðnaðarmálum, landbúnaðarmálum og varnarmálum, og þið munuð sannfærast um, að ekki er unnið fyrir gýg. Gerið ykkur jafnframt ljóst, að því öflugri sem okkar flokkur er, því meiru fær hann áorkað til framfara og umbóta. Vinnið því markvisst og kröftuglega að eflingu Framsfl., hvar sem þið fáið því viðkomið. Látið ekkert tækifæri ónotað til þess að efla fylgi flokksins. Það er ekki aðeins flokksnauðsyn, heldur þjóðarnauðsyn. — Góða nótt.