15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

1. mál, fjárlög 1954

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þm. Húnv. virðast ætla að verða hæstv. ríkisstj. býsna erfiðir. Báðir þessir þm. eru gamlir og reyndir af merkilegu starfi hér á Alþ. Báðir hafa þeir verið ráðh. og annar verið forseti sameinaðs Alþ. um alllangt árabil. Jón Pálmason orðaði það svo, að ástandið væri þannig, að eyðsla, bruðl og skattaáþján væri að færa allt í kaf og sliga framleiðsluna. Og hann bætti því við, sem er sannmæli, að það væru vissulega nægjusamir menn, sem gætu kallað þetta ástand sæmilegt. Skúli Guðmundsson hafði þau orð um frelsisskrána, innflutningsskrifstofuna nýju, að þetta væri hégómafrv., sem enga breyt. gerði, og það litla, sem breyttist, væri heldur til bölvunar. Þetta var um frelsishugsjón Ólafs Thors, sem lét heita strauma fara um þjóðarsálina, — þetta var dómur Skúla um hana.

Ég skal þá víkja að öðru.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að sigur Sjálfstfl. hefði orðið mikill við seinustu kosningar. Það er rétt. Hann vann 4 þingsæti og tapaði 2 uppbótarsætum; ég var búinn að segja það áður. En hann vann aðeins 90 atkv. og hann lækkaði stórkostlega hlutfallslega við atkvæðamagnið, sem fram kom við kosningar, eins og reynslan hefur sannað, og hér í Reykjavík — í höfuðvíginu — lækkaði það svo stórkostlega, að hann er nú kominn niður fyrir 40% af atkvæðamagninu hér, og spáir það góðu um úrslit næstu bæjarstjórnarkosninga. — Hann sagði, að Alþfl. væri áhrifalaus á þingi. Að vissu leyti er þetta rétt. Alþfl. hefur því miður ekki haft áhrif á lagasetningu, þannig að hann hafi komið sínum frv. eða till. fram. En hann hefur skapað þá skoðun hjá þjóðinni, að vissum nauðsynjamálum hennar beri að ýta fram, og með því orkað nokkru — þó allt of litlu — á framgang og afgreiðslu mála. — Hann sagði, að kosningabandalagsfrv. væri stjórnarskrárbrot. Forseti hefur nú fellt sinn úrskurð við því, og sjálfur greiddi þessi hæstv. ráðh. frv. atkv. til 2. umr., ef ég man rétt.

Hæstv. landbrh. sagði, að Alþfl. væri í fýlu, stefna hans væri neikvæð o. s. frv. Ég vísa til þess, sem ég sagði um viðræðu milli Alþfl. og Framsfl., áður en stjórnarmyndunin fór fram í haust, og hverja niðurstöðu hún gaf, og hæstv. landbrh. getur engu breytt í minni frásögn, ef hann segir satt. — Hann lét mikið af því, hve áhugi stj. og hans sérstaklega væri ríkur fyrir bættu húsnæði og auknum íbúðabyggingum. Það hefur nú heldur munað um framlögin undanfarin ár, eftir að kratar og kommar fór úr stj., eins og hann orðaði það. Einn flokksmaður hefur orðið frægur fyrir að segja, að það færi nú mikið eftir því, hvaða tölur væru teknar, og eins mun nú vera um þessar tölur, sem hæstv. ráðh. bar fram. Það er að vísu rétt, að upphæðin var nokkru hærri þessi ár heldur en árin á undan, en það voru, eins og kunnugt er, aflátspeningar, sem voru greiddir sem eins konar skaðabætur og sálubótakaup fyrir gengislækkunina og það, að hæstv. fjmrh. tók yfir 100 millj. kr. meira í skattpeninga 1951 heldur en fjárl. gerðu ráð fyrir. En hver er áhuginn núna? Í fjárlögum núna eru 1640 þús. kr. ætlaðar til byggingarsjóða verkamanna. Það er allt og sumt. Hvernig stendur á því, þegar áhuginn er svona mikill, að það þarf að lækka svona stórkostlega framlög til verkamannabústaða? Till., sem Alþfl. bar fram um nokkra hækkun á þessu, var steindrepin af stjórnarflokkunum báðum — og ég ætla með atkv. hæstv. landbrh. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hans, hvernig stendur á því, úr því að hann segist hafa verið svona örlátur á peningana á undanförnum árum, að nú á að klípa þetta niður í 1600 þús. kr. á árinu 1954, eins og ástandið er nú gott í fjármálunum samt.

Fjmrh., Eysteinn Jónsson, virðist hafa nokkuð einkennilegar hugmyndir um hlutverk stjórnarandstöðu í þinginu. Ég sé ekki betur en að hann ætlist til þess, hvenær sem hann opnar sinn munn, að stjórnarandstæðingar leggi fram fjárlfrv. og segi fyrir um það, hvernig þeir vilji haga gjöldum ríkissjóðs, og að sjálfsögðu þá líka væntanlega um tekjuöflunarlöggjöf og annað slíkt. Hann veit það fullvel, að hvergi í heimi ætlast nokkur fjmrh. til slíkra endema, enda er það augljóst, að sá minni hl., sem ekki hefur vald á fjárlagaafgreiðslu einn sinni, hefur enn síður vald á annarri lagasetningu, sem snertir fjármálin.

Um skúrmálið, sem oft hefur verið hér á dagskrá, sagði ráðh., að hann væri ekki sekur þar, hann hefði bara farið eftir lögunum, og þetta kann rétt að vera, en það getur ekki fyllt þá hæstv. ráðherra, sem eru aðilar í þessu máli, ánægju. Sé sökin ekki ráðherrans, þá er sökin löggjafans, þeirra, sem settu gengislögin og allar þær vitleysur, sem í þeim eru, þ. á m. heimildina um að greiða skatt til ríkisins með slíkum eignum sem þessum. Og hverjir sömdu þessi lög? Það gerðu stjórnarflokkarnir báðir í innilegu samræmi og samkomulagi.

Ekki var hæstv. fjmrh. alveg sammála þm. A-Húnv. um, að ástandið væri slæmt. Það var nú eitthvað annað. Ástandið var að hans dómi gott, og ríkasta sönnunin fyrir því, sem hann ber fram í hvert skipti, sem hann heldur ræðu hér á Alþ. er sú, að fjárl. eru hallalaus, jafnvel kannske von um greiðsluafgang. — Hann sagði hér skemmtilega sögu í gærkvöld. Ég ætla að segja honum aðra, sem hann kannast við.

Það var einu sinni hæna, sem var höfð í fjósinu að vetrarlagi í skoti þar, og neðan á fjóshurðinni var lítið op, sem hænan fór út um, þegar hún þurfti að fara út að viðra sig. Veturinn leið, og hænan undi sér vel. Hún skrapp út og fékk sér frískt loft öðru hverju. Vorið kom. Kúnum var hleypt út og fjósdyrnar opnaðar upp á gátt, en hænan vappaði fram og aftur um fjósið og komst ekki út. Hún sá ekkert nema litla gatið á hurðinni. Hún gat ekki fundið opnar dyr. Það kom henni ekki neitt við.

Hæstv. fjmrh. minnir mig stundum á þessa hænu. Þegar talað er um afkomu landsbúa og þjóðarinnar, þá eru það fjárlögin, ríkiskassinn, — verða fjárlögin hallalaus, verður ríkiskassinn með tekjuafgang? Ef það er, þá er allt í himnalagi, og hvað kemur mér þá við þjóðarbúskapurinn, afkoma landsmanna? Hvað koma mér við opnu dyrnar? Ég hef alltaf látið mér nægja að skoða litla gatið á hurðinni.

Ég skal ljúka þessu máli minn nú. Tíminn er að verða búinn, og ég þakka hæstv. forseta fyrir frjálslyndið. Ég vildi leyfa mér að lokum að óska áheyrendum öllum, nær og fjær, gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, en farsæld almennings á Íslandi á næstu árum fer eftir því, hvern styrk hann veitir Alþfl. og hver áhrif hann í gegnum það getur fengið á störf hæstv. Alþ. — Góða nótt.