15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

1. mál, fjárlög 1954

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hávaða og gleiðgosahætti hæstv. forsrh. þarf ég ekki að svara ákaflega mörgum orðum. Þar var ekki bitastætt í neinu. Ég hef skorað á forsrh. að fara hérna niður að höfninni og spyrja sjómennina, hvort ég hafi sagt satt eða ósatt um málefni þeirra. Hann er áreiðanlega ekki búinn að fara þangað enn þá, því að annars hefði hann ekki farið að hlaupa hingað með það rakalausa fleipur, sem hann nú gerði. Sjómönnum læt ég eftir að meta réttmæti þeirra ummæla forsrh., að ég hafi lifað á sjómönnum, en hann — hann! — hafi lifað til þess að hjálpa þeim. Ja, margt getur nú einn forsrh. leyft sér að segja. Þegar togaravökulögin voru fyrst til umræðu, sagði þessi hæstv. forsrh. Íslands, Ólafur Thors, að gamlir sjómenn mundu verða andvaka, ef þeir fengju meira en sex tíma hvíld á sólarhring. Slík hefur nú barátta hans verið fyrir sjómennina. Með þeim orðum ætla ég að kveðja hann í kvöld.

Hæstv. fjmrh. reyndi hér áðan af nokkrum vilja, en lítilli getu, að hrófla við röksemdum mínum hér fyrr í kvöld og gagnrýni á hina fáránlegu hernaðarfræði, sem ráðherrann bar hér á borð í gærkvöld. Sýnilegt var af orðum fjmrh., er hann bar aðstöðu Danmerkur og Noregs í hugsanlegri styrjöld saman við aðstöðu Íslands, að hann er sá hernaðarspekingur að halda, að t.d. Rússar gætu spásserað til Íslands, á sama hátt og þeir gætu gert inn í Danmörk og Noreg, þó að leiðin til Íslands liggi yfir Atlantshafið, þar sem vesturveldin ráða lögum og lofum og hafa yfir að ráða 90% af heimsflota herskipa og kaupskipa.

Ég hef ekki tíma til að hrekja hér hinar furðulegu rökleysur Eysteins fjmrh. Jónssonar um stefnuyfirlýsingu Þjóðvarnarflokks Íslands. Þar voru einstakar setningar slitnar úr sambandi og gefin alröng mynd af öllum þeim stefnuatriðum, sem hann minntist á.

Margt hefur verið sagt furðulegt í þessum umræðum, en hámark þess málflutnings mun þó vera sá rógur og þau ósannindi, sem Eysteinn Jónsson fjmrh. lét sér sæma að viðhafa um Valdimar Jóhannsson, formann Þjóðvarnarflokks Íslands. Þessi ráðherra, sem hefur látið hefja pólitíska ofsókn á hendur Valdimar Jóhannssyni, blygðast sín ekki fyrir að koma fram fyrir alþjóð og snúa öllum staðreyndum gersamlega við, reyna að láta lita svo út sem sá maður, sem ofsóttur er, sé hinn seki. Því miður hef ég skamman tíma til að leiðrétta lið fyrir lið þessa skröksögu fjármálaráðherra, en ég ætla þó að nota tvær eða þrjár mínútur til að segja söguna rétta, og geta þá hlustendur sjálfir dæmt um það, hvor er hinn seki í þessu máli.

S.l. þriðjudag gerðist hér í Rvík sá atburður, að hópur lögreglumanna ásamt fulltrúum lögreglustjóra og tollstjóra var sendur á fund formanns Þjóðvfl., Valdimars Jóhannssonar bókaútgefanda, til að leggja löghald á allar nýjar forlagsbækur hans. Jafnframt lokuðu þessir sendimenn með lögregluvaldi nokkrum hluta afgreiðsluhúsnæðis blaðsins Frjálsrar þjóðar. Var þessi aðför gerð undir því yfirskini, að krefja ætti Valdimar um söluskatt, sem hæstaréttardómur er fyrir að ranglega er innheimtur af bókaútgefendum. Málavextir eru þeir, að lagður hefur verið á og innheimtur 3% söluskattur hjá bókaútgefendum af verði forlagsbóka. Útgefendur töldu þessa skattheimtu ólöglega, og fór bókaútgáfan Hlaðbúð í mál gegn ríkissjóði, vann málið, og féll hæstaréttardómur á þá leið, að söluskattur skyldi vera 2%. Varð ríkissjóður að endurgreiða Hlaðbúð ofgreiddan söluskatt og láta sér nægja framvegis að krefja um 2% af verði forlagsbóka þess fyrirtækis. Nú er það föst regla í prófmálum sem þessum, er snerta marga aðila, sem nákvæmlega er eins ástatt fyrir, að hæstaréttardómur í einu máli er látinn nægja og skattlagning á hliðstæða aðila fer eftir þeim dómi. Um þetta má nefna óteljandi dæmi, þótt ég hafi ekki tíma til þess nú. Nú hefur fjmrh. hins vegar neitað að hlíta dóminum, sem féll í máli Hlaðbúðar, a.m.k. hvað snertir útgáfu Valdimars Jóhannssonar, og er hann krafinn um 3% söluskatt þvert ofan í hæstaréttardóminn, þó að fyrir fram sé víst, að ríkissjóður hljóti að tapa hverju máli, sem höfðað er út af þessu atriði. Aðförin að Valdimar Jóhannssyni er því ekkert annað en grímulaus pólitísk ofsókn og til þess valið tækifærið, þegar bækur hans eru nýkomnar

út og eiga að sendast á jólamarkað, ef takast mætti að klekkja á honum fjárhagslega og jafnvel gera hann gjaldþrota. Er þessi ósvífna skattheimta algerlega einstæð, þegar þess er gætt, að Valdimar Jóhannsson á raunverulega töluvert fé inni hjá ríkissjóði vegna ofgreidds söluskatts á undanförnum árum. — Þetta er í örfáum orðum hið rétta í málinu, og læt ég svo hlustendur um að dæma um þá frekju hæstv. fjmrh. að ætla að fara að reyna að slá sér upp á einmitt þessu máli.

Þessum umræðum er nú að ljúka. Form. Framsfl., hv. þm. Str., Hermann Jónasson, sem ég sakna nú því miður í þessum umræðum, hefur lengi haft þann sið að skrifa um hver áramót í blað sitt, Tímann, yfirlitsgrein um stjórnmál. Stundum hafa ritgerðir þessar vakið töluverða athygli, eins og greinin alkunna um Heiðnaberg íhaldsins og áramótagreinin í fyrra, sem einkum fjallaði um íslenzkt varnarlið. Síðarnefndu greininni lauk Hermann Jónasson með þessum spaklegu orðum, og bið ég tilheyrendur nú að taka vel eftir:

„Lýðræði og frelsi eru viðkvæmur gróður, sem ekki dafnar vel til lengdar, nema jarðvegurinn sé réttlæti. Það þurfum við fyrst af öllu að muna.“

Þetta er vel mælt og viturlega. Minna þessi orð formanns Framsfl. á kjörorð samherja hans, Sjálfstæðisflokksins, sem kvað vera eitthvað á þessa leið: Gjör rétt, þol eigi órétt. — Mikil gæfa má það vera íslenzkri þjóð að hafa valið sér að forustumönnum slíka spámenn og postula réttlætisins, sem vitna svo fagurlega og berjast hinni göfugu baráttu gegn ranglætinu. Já, Íslendingur góður, kannast þú ekki við einhverja tegund af réttlæti þessara manna? Ef til vill hefur þú og þínir orðið þess aðnjótandi í einhverri af þeim mörgu myndum, sem það tekur á sig. Fagurt skal mæla, stendur á einhverjum stað. Kannske þykir ófróðlega spurt, en þó vil ég leyfa mér að spyrja: Hvar er réttlæti íslenzkra valdamanna í dag? Finnur þjóðin, að henni sé réttilega stjórnað? Hvar er réttlæti valdhafanna í garð íslenzkra sjómanna? Er það fólgið í því að halda fiskverðinu sem allra lægstu og leyfa hvers kyns milliliðum og bröskurum eftirlitslaust að mergsjúga útveginn? Hvar er réttlætið í garð iðnaðarins? Er það fólgið í því að draga sem mest fjármagn frá iðnaðinum og beina því í alls konar kaupskaparbrall? Hvar er réttlætið í garð þeirra þúsunda Íslendinga, sem búa í kolryðguðum herskálum, rökum og fúlum kjöllurum og öðrum lífshættulegum vistarverum? Er það fólgið í því að drepa hverja einustu till., sem fram á það fer að byggja mannabústaði yfir þetta fólk? Hvar er réttlætið í garð allra þeirra, sem þrá það eitt að vinna eins og menn við íslenzk framleiðslustörf? Er það fólgið í því að svelta þá eða reka frá heimilum sínum til að hreinsa sorp undan amerískum dátum í Keflavík? Hvar er réttlætið í garð þeirra tugþúsunda, sem þrá það heitast af öllu að vita föðurland sitt frjálst og stjórnarfarslega og efnahagslega sjálfstætt? Er það fólgið í því að binda það á klafa stærsta herveldis heimsins og leysa fjárhagsörðugleikana með vansæmandi betli? Hvar er réttlætið í garð pólitískra andstæðinga? Er það fólgið í því að hundelta þá og ofsækja vegna stjórnmálaskoðana þeirra? Hvar er réttlætið í garð íslenzkra námsmanna, sem sækja um opinbera styrki til framhaldsnáms, svo að þeir geti aflað sér ankinnar þekkingar og orðið þjóð sinni að liði? Er það fólgið í því, að börn og annað venzlalið hinna æðstu ráðamanna þjóðarinnar hafi forgangsrétt, hvað sem hæfileikum líður? Hvar er réttlætið um embætta- og stöðuveitingar? Er það fólgið í því, að venzlamenn ráðherra eru rakleitt settir í hinar betur launuðu stöður hjá ríki og fyrirtækjum, en gengið fram hjá fólki, sem þar hefur starfað lengi við góðan orðstír? Já, hvar er ykkar lofsungna réttlæti, hæstv. stjórnarherrar?

Eftir nokkra daga höldum við heilög jól. Væntanlega minnumst við þá hans, sem borinn var í þennan rangláta heim til að boða sannleika og réttlæti. En áður en jólaklukkunum verður hringt, ætlar ríkisstj. Íslands ásamt þingliði sínu að framkvæma það lítilræði að afgreiða fjárlög fyrir komandi ár. Hvert verður réttlæti þeirra í garð íslenzkrar alþýðu? Því verður svarað eftir fáa daga.

Að svo mæltu óska ég landslýð öllum gleðilegra jóla svo og þess, að íslenzk þjóð megi njóta aukins réttlætis á komandi tímum.