16.12.1953
Sameinað þing: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

1. mál, fjárlög 1954

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur síðan 2. umr. um fjárlfrv. lauk tekið til athugunar ýmis atriði í sambandi við frv., bæði þau, sem ekki var lokið athugun á, þegar frv. var tekið til 2. umr., og einnig endurskoðun nokkurra atriða, sem af hálfu n. voru tekin aftur til 3. umr., og í þriðja lagi koma hér til greina nokkrir nýir liðir, sem þá lágu ekki fyrir.

Svo sem tekið var fram í nál. fjvn. við 2. umr., þá var þá ólokið algerlega athugun á 18. gr. frv., og enn fremur voru nokkur einstök mál, sem ekki hafði þá unnizt tími til að ljúka afgreiðslu á, ýmist vegna þess, að þau höfðu borizt n. seint, eða upplýsingar skorti, til þess að hægt væri að taka endanlega ákvörðun.

Ég hygg, að einfaldast sé að taka í röð brtt. n. á þskj. 308 og ræða um þær eftir því, sem mér sýnist tilefni vera til, og mun ég síðan að því loknu gefa lítillega yfirlit yfir, hvaða áhrif samþykkt þessara tillagna mundi hafa á heildarútkomu á fjárlfrv.

Svo sem ég gat um við 2. umr. málsins, hafði fjvn. haft hug á því að fá inn í fjárlfrv. rekstrarreikninga eða rekstraráætlun fyrir ríkisbúin öll. Undanfarin ár hefur aðeins eitt ríkisbúanna verið á fjárl., þ.e.a.s. Bessastaðabú, en hin búin hafa þar ekki verið tekin með, en hafa hins vegar verið sundurliðuð á ríkisreikningi, þannig að þetta hefur verið mjög óheppilegt varðandi allan samanburð, enda sjálfsagt og eðlilegt, úr því að eitt búanna er tekið, að taka þau öll. Og eins og hv. þm. sjá, er nú í brtt. fjvn. lagt til, að rekstraráætlanir fyrir ríkisbúin öll verði nú teknar inn í fjárlfrv., og niðurstöðutalan af afkomu þessara búa í heild er 55 þús. kr. sem nettóhagnaður. Mörgum mun nú þykja, að það beri ekki vott um mjög glæsilegan búskap á þessum búum, þegar þess er að gæta, að fjárfesting til búanna er greidd sérstaklega með fjárveitingum úr ríkissjóði. Um það skal ég ekki sérstaklega ræða hér, en um ýmis þessi bú er þó auðvitað það að segja, að þau eru rekin sem tilraunabú, og gerir það að verkum, að ekki er þess að vænta, að þau geti orðið rekin jafnhagkvæmt og ef þau væru einungis starfrækt með það í huga að skila sem beztri afkomu.

Fjvn. hefur lagt til, að teknir yrðu inn tveir nýir liðir í sambandi við löggæzlu. Annar er varðandi löggæzlu á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum, sem mjög hefur verið leitað eftir, en eins og kunnugt er, sækja þangað mjög margir til vinnu á vetrarvertíðinni, og bærinn þykist illa haldinn af því að fá ekki eitthvert sérstakt framlag til þess aukna löggæzlukostnaðar, sem af því leiðir, og þótti n. sanngjarnt að leggja til, að 20 þús. kr. yrðu greiddar í þessu skyni.

Þá hefur n. einnig lagt til, að framlag til sumarlöggæzlu á Raufarhöfn verði hækkað upp í sömu upphæð, 20 þús. kr., með hliðsjón af því, að þarna er um að ræða mjög mikla umferð að sumarlagi, bæði fólk í landi og miklar skipakomur, en hins vegar er þarna engin löggæzla fyrir, þannig að sanngjarnt þykir að leggja þetta fé fram í þessu skyni.

Smávægileg hækkun er gerð á liðnum „landhelgisgæzla“. Ástæða þessarar hækkunar er sú, að áformað er að hækka tryggingu skipanna, þannig að sú hækkun, sem hér er tekin inn, er hækkun á iðgjöldum, sem leiðir af þessari hækkun tryggingarupphæðarinnar.

Þá er tekinn inn smár liður til útgáfu félagsdóma. Það er aðeins til þess að ljúka útgáfu á dómum, gefa út registur, og þótti rétt og eðlilegt, úr því að dómarnir hafa verið gefnir út, að ganga þá fullkomlega frá þessari útgáfu.

Þá kemur næst dálítil hækkun á stjórn vegagerða. Ástæða þessarar hækkunar er sú, að í rekstraráætlun vegamálastjóra, sem lögð var til grundvallar við samningu fjárlfrv., hafði láðst að taka með um 80 þús. kr., sem er síma- og póstkostnaður vegamálaskrifstofunnar, og einnig hafði húsaleiga hækkað milli 20 og 30 þús. kr. frá því, er sú áætlun var gerð, og hér er því ekki um að ræða nema leiðréttingu á áætlun. Eins og hv. þm. er kunnugt, var sú breyting gerð nú í sambandi við fjárlfrv., að hætt var að setja á einn lið í 13. gr. D. allan síma- og póstkostnað opinberra stofnana, heldur er honum skipt niður á einstakar stofnanir, en það hafði láðst í þessu tilfelli hjá vegamálastjóra að taka upp þessa viðbótarupphæð.

Lagt er til, að breyt. verði gerðar á liðnum „hafnarmannvirki og lendingarbætur“, — ég hirði ekki um að ræða um Þykkvabæjarveg, sem er 7. brtt., það er aðeins skipting á fjárveitingu og breytir engu um niðurstöðu, — en eins og hv. þm. sjá, er tekinn inn nýr liður: Kópavogur, enda þótt n. leggi mikla áherzlu á, að ekki sé breytt frá því, sem samkomulag verður um við 2. umr. En hér stendur nokkuð sérstaklega á vegna þess, að það hafði orðið misskilningur í sambandi við Kópavog, að talið var, að hafnarmannvirkin þar hefðu ekki verið gerð undir því eftirliti, sem tilskilið er í sambandi við hafnargerðir af hálfu vitamálaskrifstofunnar, en hins vegar er það upplýst nú í málinn, að uppfyllt hafi verið þau skilyrði, sem til þessa þurfti, og hér er því lagt til að taka 70 þús. kr., sem er þó ekki nema hluti af því framlagi, sem á að vinna fyrir og gjaldfallið er orðið.

Þá eru hér teknir fimm staðir með smávægilegar fjárveitingar til lendingarbóta, — það er við Ísafjarðardjúp og í Suður-Múlasýslu. Þessir staðir voru ekki teknir inn við 2. umr. fjárl., þar sem þörf þótti á nánari athugun í sambandi við það. En hins vegar hefur n. nú lagt til, að það væru teknar þarna smáupphæðir til þessara fimm staða til lendingarbóta, þar sem upplýst er, að mikil nauðsyn sé á framkvæmdum á þessum stöðum. (Gripið fram í.) Já, ég bið afsökunar, tveir þessara staða voru þegar fyrir, en liðurinn var tekinn aftur við 2. umr., þannig að það er um að ræða aðeins þrjá nýja staði.

Þá hefur n. lagt til, að tekin væri samtals 30 þús. kr. fjárveiting til Háskóla Íslands, þ.e. til lektors í íslenzku, lektors í þýzku og til Hermanns Pálssonar við Edinborgarháskóla. Þessar upphæðir eru í samræmi við þær greiðslur, sem háskólinn hefur greitt að undanförnu til erlendra lektora, og greiðslu, sem hann hefur innt af hendi til lektora, sem sendir hafa verið til annarra háskóla, og það þótti þess vegna sanngjarnt með hliðsjón af öllum aðstæðum að leggja til, að þessar fjárveitingar yrðu teknar upp í þessu skyni.

Þá er 11. brtt. n., sem fjallar um lánasjóð stúdenta. N. hafði við 2. umr. lagt til, að fjárveitingin yrði hækkuð úr 300 þús. í 400 þús., en við endurskoðun þykir n. rétt að leggja til, að hækkunin verði upp í 500 þús., með hliðsjón af því, að áætlunin, sem lögð er til grundvallar starfsemi sjóðsins, er við það miðuð, að hann fái 500 þús. kr. framlag úr ríkissjóði tiltekið árabil, og eins og ég gat um í framsöguræðu minni við 2. umr. fjárl., telur fjvn., að hér sé stefnt inn á mjög heilbrigða braut í sambandi við þessi styrkjamál stúdenta og beri því að stuðla að því, að þessi sjóður geti sem fyrst orðið fær um að sinna sínu hlutverki.

12. liður er óbreyttur frá því, sem hann var borinn fram við 2. umr., en var þá tekinn til baka. En nánari athugun leiddi í ljós, að það hafði verið rétt, sem lagt var til þá, að liðurinn orðaðist svo sem hér er aftur lagt til að gert verði.

Við 2. umr. gat ég þess, að meðal erinda, sem ekki hefðu endanlega verið afgreidd frá fjvn., væri ósk um hækkun á framlagi til íþróttasjóðs. N. hefur orðið sammála um að leggja til, að í stað 600 þús. kr. í fjárlfrv. verði greiddar til sjóðsins á næsta ári 750 þús. kr. Er það þó of naum fjárveiting, miðað við þær miklu þarfir, sem fyrir hendi eru, vegna þess að áfallnar skuldbindingar á sjóðinn eru það miklar, að það mun taka mörg ár að greiða þær, jafnvel þótt þessi fjárveiting væri til staðar. En n. þótti þó ekki fært að fara hærra að þessu sinni en hér er lagt til.

Fjvn. hefur tekið upp hér till. um það, að styrkur til Skáksambands Íslands verði hækkaður um helming, úr 10 þús. í 20 þús. kr. Íslenzkir skákmenn hafa gert þjóðinni mikið gagn og kynnt landið vel á erlendum vettvangi og staðið sig með prýði á þeim mótum, sem þeir hafa sótt fyrir Íslands hönd, og n. þykir því ekki nema sjálfsagt og sanngjarnt að veita nokkra viðurkenningu fyrir þá ágætu frammistöðu, því að vitanlega þarf Skáksambandið að leggja í margvíslegan kostnað við að senda skákmenn til þátttöku í mótum erlendis.

Þá er lagt til, að styrkur til Alþýðusambands Íslands verði hækkaður um 25 þús. kr. Alþýðusambandið telur sig búa við mjög erfiðan fjárhag, erfiðleikar miklir séu á að gefa út blað sambandsins, og mér skilst jafnvel, að það hafi ekki getað komið út um sinn vegna erfiðs fjárhags. Það þykir því sanngjarnt að leggja til, að nokkur hækkun verði gerð á styrk til Alþýðusambandsins, svo sem hér er lagt til.

Listasafn ríkisins — þar er meira um leiðréttingu að ræða, um það, að annar kostnaður hækki úr 20 þús. í 30 þús. kr., og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það.

Þá kemur 17. brtt., sem var eitt af þeim málum, sem ekki hafði verið afgr. úr n. við 2. umr., en þar er lagt til, að 40 þús. kr. sé varið til þess að styrkja amtsbókasafnið á Akureyri og héraðsskjalasafnið á Ísafirði til þess að eignast ljósprentun eða filmur af skjölum og handritum í þjóðskjalasafninu. eins og flestum hv. þingmönnum mun kunnugt, hefur að undanförnu verið mikið að þessu unnið og m.a. af hálfu manna, sem komu vestan um haf og ljósprentuðu mikið úr skjölum hér heima, og landsbókasafnið mun hafa fengið tæki, sem hér um ræðir, til þess að geta filmað skjöl upp. Með þessu móti er hægt með tiltölulega litlum kostnaði að ljósprenta margvisleg skjöl og bækur, sem hér eru varðveitt á söfnum í Reykjavík, og flytja þær þá út á land og geta þannig fræðimönnum þar og almenningi, sem kynna vill sér þessar bækur og skjöl, aðgang að þeim í sínum heimkynnum. Það var upplýst fyrir n., að það mundu vera aðeins tiltölulega fá söfn, sem mundu hafa að lögum sérstöðu um þetta atriði, eða hafa staðfestingu á sínum skipulagsskrám, þannig að það þótti gerlegt að taka upp þessa fjárveitingu miðað við það, að hér væri um að ræða 1/3 af kostnaði við að afla þessara tækja.

Þá er nýr liður, brtt. 18, þar sem lagt er til að verja 15 þús. kr. til þess að safna ýmiss konar gögnum og gefa út rit um þjóðhætti við sjávarsíðuna. Áður hefur verið gefin út mjög merk bók, eins og hv. þm. er kunnugt, þar sem eru Þjóðhættir séra Jónasar frá Hrafnagili, varðandi þjóðsiði og vinnubrögð við landvinnu, en það hefur hins vegar skort á um það, að hliðstæðar upplýsingar væru til varðandi sjávarsíðuna. Nú mun vera unnið að þessu af færum manni, og það þykir þess vegna sanngjarnt að leggja fram nokkurn styrk, til þess að úr þessari útgáfu geti orðið. Og eðlilegt þykir þá, að það sé Fiskifélag Íslands, sem hafi hönd í bagga með um það mál.

Þá er tekinn upp nýr liður, 19. till., um nokkurn styrk til Jónasar Tómassonar tónskálds, sem er mjög merkur maður í sinni grein og hefur unnið mikið fyrir tónlistarlíf á Ísafirði.

N. hefur lagt til að hækka lítið eitt fjárveitingu til leikstarfsemi á Siglufirði, úr 3000 í 4000 kr., og þetta byggist á því, að það er upplýst, að það eru tveir aðilar, sem hafa þar leikstarfsemi með höndum, en hins vegar hefur verið um það nokkur ágreiningur, hvor þeirra ætti að fá þessa fjárveitingu, og ekki þótt mögulegt að skipta henni eins og hún var, og því leggur n. til, að þetta verði nokkuð hækkað, en taldi ógerlegt að framkvæma meiri hækkun á þessu með hliðsjón af styrkjum til annarra hliðstæðra leikfélaga víðs vegar um land.

Þá er lagt til, að styrkur til Bandalags íslenzkra leikfélaga hækki um 20 þús. kr. Þetta er tiltölulega ný starfsemi, sem þarna er um að ræða, en er mjög mikilvæg fyrir alla leikstarfsemi úti um byggðir landsins, því að hér er um að ræða margvislega fyrirgreiðslu við leikfélög úti um land, útvegun búninga, leikrita, leiðbeinenda og ýmis önnur fyrirgreiðsla, sem er mjög dýrmæt fyrir alla leikstarfsemi úti á landsbyggðinni. Þykir því sjálfsagt að stuðla að því, að það sé hægt að halda þessari starfsemi uppi.

Lagt er til að hækka styrk til Landssambands blandaðra kóra og kvennakóra lítið eitt, eða um 3 þús. kr.

Þá er lagt til að veita Gerði Helgadóttur styrk til þess að læra myndskreytingu á gluggum í kirkjur og samkomuhús. Það er enginn, sem hefur áður lært til þessara hluta. Hins vegar hafa mjög eindregin meðmæli komið frá ýmsum sérfróðum aðilum um þessi mál, húsameistara ríkisins og fleirum, um að styrkja Gerði Helgadóttur í þessu skyni, og hefur n. lagt til, að 5 þús. kr. yrðu veittar í þessu sambandi.

Þá kemur nýr liður, þ.e. til norskrar listsýningar í Reykjavík. Ætlunin er, að á næsta sumri eða vori komi norsk listsýning hingað til lands. Áður hafa íslenzkir málarar tekið þátt í listsýningu í Noregi, og það þykir því sjálfsagt á móti að bjóða norskum listamönnum hingað til lands. Af þessu leiðir töluverðan kostnað, og er lagt til, að 90 þús. kr. verði veittar í þessu skyni.

Þá er lagt til að veita Jóni Guðmundssyni fyrrv. veitingamanni á Þingvöllum 10 þús. kr. í viðurkenningu fyrir margvísleg störf hans.

Þá er smáliður, þar sem lagt er til, að byggðasafni Rangæinga verði veittur smástyrkur til að byggja skýli yfir hið nafnkunna skip, Pétursey. Ég hirði ekki að fara nánar út í það. Ég býst við, að hv. þm. sé öllum kunnugt um það, hvað hér er um að ræða.

Þá kemur hér till., sem n. tók aftur við 2. umr. Það er 150 þús. kr. framlag til sýningarreita í jarðrækt og námskeiða í því sambandi. Það hefur mjög þótt á það skorta, að hægt væri að gera ræktunar- og áburðartilraunir nógu víða á landinu, og þar sem að ýmsu leyti hefur skapazt nokkuð sérstakt tækifæri til þess nú að vinna þetta verk, hefur þótt rétt að hagnýta það tækifæri, og verður þá óumflýjanlegt að leggja fram fjárveitingu í því skyni, en þessi fjárveiting mun ekki þurfa að vera varanleg, því að gert er ráð fyrir, að þessi starfsemi taki ekki meira en þrjú ár, — þá eigi að vera búið að fá þann árangur, sem nauðsynlegur er í sambandi við þessar tilraunir.

Þá er till. um að verja til umbóta á Reykhólum vegna skipulags staðarins 25 þús. kr., sem er óumflýjanleg fjárveiting í sambandi við ýmiss konar starfsemi.

Þá eru smábreytingar varðandi fyrirhleðslur, sem ég hirði ekki að fara út í nánar, nema tilefni gefist til.

Þá hefur n. lagt til að hækka nokkuð styrk til skógræktarfélaga. Það er upplýst fyrir n., að skógræktin hafi nú mjög mikið af plöntum til umráða og sé mikil nauðsyn að greiða fyrir því, að hægt sé að hagnýta þessar plöntur, og það verður þá vitanlega bezt gert með því að styrkja skógræktarfélögin, því að á þann hátt verður bezt unnið að eflingu skógræktarinnar víðs vegar um land, því að þar er um að ræða að nota sér mikilvægt sjálfboðastarf við þessa starfsemi. Því þykir eðlilegast og skynsamlegast einmitt að hlynna að þessum félögum.

Þá þykir óumflýjanlegt að hækka framlag til veiðimálaskrifstofu um 20 þús. kr.

Smábreyting er gerð við iðnaðarmálin. Eins og hv. þm. sjá, er í fjárlfrv. nokkuð annað orðalag á 2. tölulið 16. gr. C., þar sem er talað um upplýsingastarfsemi og skýrslusöfnun í sambandi við iðnaðinn, en ætlunin er, — og það hefur alltaf verið skilið svo, — að þessi fjárveiting renni til hinnar nýstofnuðu Iðnaðarmálastofnunar Íslands, því að fjárveitingin í fyrra var einmitt við það miðuð að undirbúa starfsemi þeirrar stofnunar.

Þá er 33. brtt., sem gerir breytingu á skiptingu kostnaðar við byggingu iðnskóla í Reykjavík. Það hefur ekki verið löggjöf um það atriði sérstaklega hvað snertir iðnskóla. Hins vegar þykir sanngjarnt, að þeir lúti sömu reglum og heimangönguskólar, þar sem greiddur er helmingur kostnaðar, þar sem sýnt er, að þau félög, sem standa að þessari byggingu, hafa ekki aðstöðu til þess að greiða það, sem hér ber á milli framlags ríkisins annars vegar og framlags bæjarsjóðs hins vegar, og er því lagt til, að sama gildi um þennan skóla og aðra skóla yfirleitt, gagnfræðaskóla og aðra slíka.

34. og 35. brtt. eru aðeins til leiðréttingar. Það er í frv. gert ráð fyrir nokkuð annarri skiptingu á fé til nýrra raforkuframkvæmda, en hér er þessum hlutföllum breytt, og er það óumflýjanleg breyting með hliðsjón af gildandi lögum um það efni, til þess að þessi fjárveiting komi að sem beztum notum.

Lagt er til að hækka nokkuð fjárveitingar til gamalmennahæla, bæði gamalmennahælisins Grundar og gamalmennahæla utan Reykjavíkur, og geri ég ekki ráð fyrir, að ég þurfi frekari skýringu á því. Þörfin á slíkum styrk er vitanlega alls staðar mikil, og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. séu sammála um, að eðlilegt sé að hækka styrkinn sem þessu nemur.

Í 37. brtt. er aðeins tekinn upp liður, sem var tekinn aftur við 2. umr. síðast og er tekinn upp nú aftur óbreyttur. Það þykir eðlilegt, að þessi starfskvennaskóli njóti framlags einnig annars staðar að og að styrkveiting frá ríkinu sé við það miðuð, að svo sé, hvort sem það er frá bæjarsjóði Reykjavíkur eða öðrum aðilum, og því þykir rétt að hafa þessa „klásúlu“ með, að þetta sé veitt með þessu skilyrði.

Þá kemur 18. gr. Þar er um að ræða allmiklar breytingar. Það mun sjaldan eða aldrei hafa verið jafnsótt á um styrkveitingar á þessari gr., bæði hækkanir og einnig nýjar styrkveitingar, þannig að það verður allmikil viðbót við greinina, þó að nokkrir falli niður.

Fjvn. hefur leitazt við, eftir því sem kostur er á, að haga till. sínum í þessu etni á þann veg, að það væri í samræmi við aðra sambærilega aðila. Því er hins vegar ekki að leyna, að 18. gr. í heild er hálfgert vandræðamál, og það hefur iðulega verið á það bent af fjvn. og fleiri aðilum hér á hinu háa Alþ., að þarna væri um vandamál að ræða. Það er því miður svo, að mjög mikils ósamræmis gætir í ýmsum styrkveitingum á greininni, þannig að leiðindi eru að, og auk þess í alla staði óeðlilegt með því skipulagi, sem nú er á þessum málum, að sé verið að veita úr ríkissjóði smástyrki til fólks, þegar þess er gætt, að gildandi tryggingalöggjöf gerir að verkum, að ellilífeyrir getur skerzt sem nemur einmitt þessum fjárveitingum, sem hér er um að ræða, í stað þess að flestir, sem fá þessa styrki, munu gera ráð fyrir því, að hér sé um að ræða viðbótarstyrki, en ekki að það gangi út yfir þeirra styrki aftur frá Tryggingastofnuninni. Það hefur hins vegar til þessa ekki fengizt á þessu breyting, fyrst og fremst vegna þess, að það er talið auka svo stórlega útgjöld Tryggingastofnunarinnar, ef hún yrði svipt þeim hlunnindum að mega skerða sinn ellilífeyri í samræmi við þær reglur, sem um það gilda nú, að það hefur ekki þótt rétt að leiða þetta í lög. Hins vegar sýnist mér, að það sé óumflýjanlegt, að á þessu verði gerð sem allra fyrst breyting, því að þetta er fullkomið vandræðaástand eins og það er. En fjvn. taldi sér hins vegar ekki fært í þetta sinn að gera annað í þessum málum en að haga till. sínum eins og ég gat um, þannig að samræmi væri sem mest með þeim styrkveitingum, sem hún leggur til, og öðrum þeim aðilum, sem hægt væri að finna sambærilega á 18 gr. eins og hún er nú. — Ég hirði svo ekki að fara frekar út í einstök nöfn í þessum till., nema tilefni gefist til.

40. brtt. er samhljóða brtt., sem tekin var aftur við 2. umr., og tel ég ekki þörf á að útskýra hana nánar.

41. tillagan er nokkur breyting á till., sem borin var fram af n. við 2. umr., og stafar breyt. aðeins af því, að þetta framlag á að vera til skólastjóraíbúðar við íþróttakennaraskólann, en ekki til íþróttakennaraskólans sjálfs, en upphæðin sjálf er óbreytt.

Þá er gert ráð fyrir og lagt til að hækka framlag til byggingar lögreglustöðvar í Reykjavík um 200 þús. kr. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt og iðulega hefur verið bent á í blöðum og annars staðar, er það orðið fullkomið vandræðamál og vansi að því, hversu lögreglan býr hér við slæman húsakost og aðstaða öll er þar hörmuleg, þannig að það er óumflýjanlegt að hefjast sem allra fyrst handa um .að bæta úr þessu, og það er með hliðsjón af þessari þörf, sem n. hefur lagt til, að þetta framlag verði hækkað.

Þá kem ég að 43. brtt. Þar er um að ræða breyt. á till. í heimildagr. fjárlfrv. um lán til flugþjónustunnar. Þar er lagt til, að lánsheimildin verði 5.5 millj., en fjvn. hefur lækkað þetta niður í 1.4 millj., sem stafar af því einn, að hið háa Alþ. hefur þegar á þessu ári, eða nú fyrir skömmu, veitt sérstaka lántökuheimild í þessu skyni, og er því heimildin lækkuð sem nemur þeirri heimild, sem veitt var með þessum lögum, en þeirrar heimildar var leitað vegna þess, að það þótti ekki mega bíða eftir afgreiðslu fjárl., þar sem það þurfti að ganga frá lántöku þá þegar.

Þá er lagt til að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 400 þús. kr. lán, sem hreppsn. Hveragerðishrepps tekur til að leggja hitaveitu í þorpið, þó eigi yfir 80% af heildarkostnaði. Í fjárl. yfirstandandi árs er sams konar heimild, en hún er að upphæð 500 þús. og er miðuð við 85% af heildarkostnaði. Á síðasta þingi voru samþ. heildarlög varðandi aðstoð ríkisins við byggingu hitaveitna utan Reykjavíkur. Ástæðan til þess, að þessi till. er aftur tekin upp hér, er hins vegar sú, að það þykir leika nokkur vafi á því kannske, að þannig sé frá þessari hitaveitu gengið, að hún falli að öllu leyti undir þau lög hvað snertir þá aðila, sem að henni standa, og ýmis önnur atriði., þannig að óumflýjanlegt þykir öryggis vegna að leggja til, að tekinn verði á heimildagr. í þessu samhandi þessi liður, en hann er lækkaður um 100 þús. vegna þess, að 100 þús. kr. voru notaðar á yfirstandandi ári, en hins vegar er hér aðeins um framlengingu að ræða á eftirstöðvunum, en ekki viðbót við þær 500 þús., sem þá voru heimilaðar.

Eins og hv. þm. er kunnugt, urðu Hnífsdælingar fyrir því tjóni, að barnaskóli þeirra fauk, og lá þar við stórslysum og mildi mikil, að ekki varð af. En augljóst er, að af þessum sökum hefur þetta fámenna byggðarlag orðið fyrir mjög miklu tjóni. Þarna var að vísu um gamalt hús að ræða, en nýuppgert, og óumflýjanlegt að ráðast nú þegar í byggingu nýs skólahúss. Sanngjarnt þykir með hliðsjón af þessu óvænta tjóni, sem þarna varð, að ríkissjóður styrkti eitthvað þetta byggðarlag í sambandi við endurbyggingu skólans, og er því lagt til, að heimilað verði að greiða 250 þús. kr. í þessu skyni án mótframlags, en að öðru leyti kemur byggingin að sjálfsögðu undir hin almennu lagaákvæði um framlög ríkisins til skólabygginga.

Þá eru hér tveir nýir liðir. Annars vegar er lagt til að heimila ríkisstj. að greiða h/f Skallagrími í Borgarnesi allt að 200 þús. kr. viðbótarstyrk, ef óhjákvæmilegt reynist. Ég mun ekki ræða þetta atriði hér nánar. Hér er um að ræða till. frá hv. samvinnun. samgöngumála, og mun frsm. þeirrar n. væntanlega gera nánari grein fyrir, af hvaða ástæðum þetta er tekið hér upp. En fjvn. taldi rétt að verða við þeim óskum og er sammála þeim rökum, sem þar lágu á bak við.

Þá er enn fremur lagt til að heimila ríkisstj. að kaupa land og húseign af héraðsskólanum á Laugarvatni handa menntaskólanum og íþróttakennaraskólanum, enda náist samkomulag um verð. Eins og hv. þm. er kunnugt, er um að ræða þarna eignaskipti milli skóla, og þykir rétt að heimila ríkisstj. að gera nauðsynlegar ráðstafanir í sambandi við það mál.

Þá er 47. og síðasta brtt. n. um það, að 3. mgr. 23. gr. fjárlfrv. falli niður, en þar er svo sagt, að ríkissjóður greiði helming uppbótar á lífeyri, en hlutaðeigandi lífeyrissjóður binn helminginn. Þetta er niður fallið að því leyti til, að ríkissjóður greiðir nú þetta að öllu leyti, þannig að ástæðulaust þykir að vera að hafa þessa klausu áfram í þessari grein, og er því lagt til, að hún verði niður felld.

Ég verð að biðja hv. þm. afsökunar á því, að það er hér annað skjal, sem er frá meiri hl. fjvn. Það er þskj. 324, þar sem eru nokkrar brtt. til viðbótar við þær, sem ég hef nú rakið, og mun ég fara einnig nokkrum orðum um þær til skýringar.

Fyrsta brtt. er sú, að lagt er til að veita 50 þús. kr. til varnar gegn skemmdum á reknetjum í Faxaflóa af völdum háhyrninga. Háhyrningar hafa valdið mjög miklu tjóni á reknetjum báta á þessum slóðum, og vil ég leyfa mér í því sambandi, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp samþykkt, sem gerð var á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna í sambandi við þetta mál og þar sem þetta skýrist nokkuð. Í samþykktinni segir:

„Um leið og fundurinn þakkar forustu þeirra manna, sem beittu sér fyrir veiði og eyðingu háhyrnings til varnar netjum reknetjabáta, skorar fundurinn á Landssamband ísl. útvegsmanna, að heildarsamtökin beiti sér fyrir því, að Alþ. það, er nú situr, veiti ríflega fjárveitingu til áframhaldandi eyðingar á þessari hvalategund, sem nú þegar er að gera reknetjaveiði óframkvæmanlega sökum veiðarfæratjóns, þar sem dæmi eru til, að háhyrningar hafi eyðilagt 400–500 net á einni nóttu. — Í samræmi við framangreinda till. vonum vér fastlega, að hið háa Alþ. sjái sér fært að verða við óskum fundarins um fjárveitingu til eyðingar háhyrnings, þar sem útvegsmenn hafa orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni af völdum hans við reknetjaveiðar undanfarin ár.“

Það hefur verið bátur, sem að þessu hefur unnið að undanförnu, og hefur þótt gefast vel, eins og í ályktuninni segir, og er lagt til, að fjárveitingin verði til ráðstöfunar Fiskifélags Íslands með það í huga, að þessari starfsemi verði haldið áfram.

Þá er lagt til, að tekinn verði á 17. gr. nýr liður, þ.e. 100 þús. kr. fjárveiting til dvalarheimilis á vegum mæðrastyrksnefndarinnar í Reykjavík, byggingarstyrkur. Mæðrastyrksnefndin er að koma sér upp sumardvalarheimili hér nokkuð frá bænum, þar sem ætlunin er, að fátækar mæður og börn geti dvalið að sumarlagi á vegum nefndarinnar. N. hefur haft þessa starfsemi áður með höndum og leigt til þess húsnæði, en nú er þess ekki kostur lengur, og n. hefur því ráðizt í byggingu í þessu skyni, sem kosta mun að vísu nokkurt fé, 700–800 þús., og þykir það nú sennilega ekki mikið, miðað við núgildandi verðlag. N. hefur þegar til ráðstöfunar allmikið fé, en skortir þó nokkuð á til þess að geta komið þessu upp, og er lagt til, að ríkissjóður styrki þessa starfsemi með þessari fjárupphæð. En hér er, eins og ég gat um, um byggingarstyrk að ræða, en ekki áframhaldandi styrkveitingu.

Þá er 3. brtt. Það er aðeins leiðrétting við 18. gr. Það falla niður þar tveir menn.

Þá er 4. brtt. Hún er um, að breytt verði ákvæði, sem er í núgildandi fjárl. og einnig er tekið upp í fjárlfrv. Þar segir svo í 10. lið, að ríkisstj. sé heimilt að leggja fram það mikið nýtt hlutafé í Skallagrím h/f í Borgarnesi, að hlutafé ríkissjóðs verði jafnan 1/3 af heildarhlutafjárhæð félagsins, þó ekki yfir 200 þús. kr. Nú er upplýst í málinu, að til þess að geti orðið um 1/3 að ræða, þá þurfi þessi upphæð ekki að vera 200 þús., heldur 600 þús., og er lagt til, að heimildin verði við það miðuð, með það í huga, að ríkið eigi sama eignarhluta í þessu félagi og áður hefur verið.

Þá er einnig lagt til, að endurveitt verði sú heimild, sem er í núgildandi fjárl., að ríkisstj. heimilist að ábyrgjast fyrir Slippfélagið h/f í Reykjavík allt að 6 millj. kr. til byggingar nýrrar dráttarbrautar. Það hefur áður verið útskýrt hér í umræðum við fjárl., og sé ég því ekki þörf á að vera að fara frekar út í það mál nú, nema tilefni gefist til.

Þá er nýr liður, 6. brtt., um það, að ríkisstj. heimilist að greiða síldarútvegsnefnd allt að 1 millj. kr. vegna ábyrgðar á söluverði sunnanlandssíldar, sem framleidd er á árinu 1953. — Eins og hv. þm. mun væntanlega flestum kunnugt, þá reis um það deila og urðu af því mikil vandræði, að í ljós kom við veiði sunnanlandssíldar, reknetjasíldar hér í Faxaflóa, nú á þessu ári, að síldin var lakari að ýmsu leyti, sérstaklega var miklum mun meiri smásild en áður hafði verið. Þetta leiddi til þess, að síldin gekk ekki upp í nýgerða viðskiptasamninga við Rússland nema með því móti, að söluverð síldarinnar til Rússa yrði lækkað allverulega. Nú hafði hins vegar mikið af þessari síld þegar verið saltað, og það þótti óumflýjanlegt að reyna að gera sér fé úr þessu, en hins vegar ljóst, að það var ekki hægt að leggja þetta tjón á þá aðila, sem hér áttu hlut að máli, og var því farin sú leið, að ríkisstj. tók á sig ábyrgð á síldarverðinu, þannig að saltendum var ábyrgzt visst verð fyrir tunnu, þannig að við það var miðað, að heimilað yrði áfram að hafa þann síldarfjölda í tunnunum og veiða áfram og salta millisíldina og smásíldina eins og gert hafði verið til þess að geta hagnýtt þessa veiði. Þetta hefur hins vegar leitt til allmikilla útgjalda, en þó minni raunar en búizt var við. En vegna þessarar heimildar má gera ráð fyrir, að á ríkissjóð falli að greiða um 1 millj. kr. í þessu skyni, og er þá vitanlega ekki um annað að ræða en að taka upp umrædda heimild fyrir ríkisstj. til þess að greiða þetta fé.

Þá er að lokum till. um það, að ríkisstj. verði heimilað að afhenda vestur-þýzku ríkisstj. húseignina Túngötu 18 í Reykjavík. — Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er þetta hús fyrrverandi sendiráðshús Þjóðverja hér á landi, en var tekið í stríðsbyrjun og hefur verið til afnota síðan fyrir íslenzku ríkisstj., þannig að ráðuneytin sum hafa verið þar til húsa. Hins vegar hefur þótt eðlilegt og sanngjarnt, með hliðsjón af því, sem gert hefur verið í öðrum löndum, eftir að viðskiptasamningar og eðlileg sambönd eru upp tekin milli þessara tveggja þjóða, að afhenda Þjóðverjum aftur þessa sendiráðsbyggingu, þar sem þeir hafa nú sent hingað til lands sendiherra, og það þykir því vera eðlilegt og í rauninni sjálfsagt að sýna á móti þá eðlilegu vinsemd að afhenda þeim aftur þetta hús, sem þeir upphaflega áttu, og er því lagt til, að þetta verði heimilað ríkisstj. á 22. gr. fjárl., svo sem meiri hl. fjvn. leggur til.

Ég hef þá lokið við að rekja þær brtt., sem hér eru fram lagðar. Meginhluti þeirra er, eins og hv. þm. sjá, þ.e.a.s. þskj. 308, borinn fram af fjvn. í heild. En till. þær, sem ég síðast rakti á þskj. 324, eru bornar fram af meiri hl. fjvn.

Eftir að fjárlfrv. var afgreitt við 2. umr., var greiðslujöfnuður á sjóðsyfirliti rúmar 3.5 millj. kr. Ef þær till. verða samþ., sem ég hef hér getið um og lagðar eru fram af fjvn,, mun greiðslujöfnuður á sjóðsyfirliti verða um 800 þús. kr., og má segja, að varla sé hægt að fara naumara í sakirnar en að skilja eftir greiðslujöfnuð, sem er innan við 1 millj. kr., og augljóst er, að ekki má mikið út af bera, ef ekki á illa að fara, nema til komi einhverjar aðrar eða meiri tekjur en áætlaðar eru, þar sem ekkert er upp á að hlaupa í fjárl. sjálfum samkvæmt þessari áætlun, sem nú liggur fyrir, nema þessa smáupphæð.

Ég hirði svo ekki að rekja þessar till. frekar, nema sérstakt tilefni gefist til.