16.12.1953
Sameinað þing: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

1. mál, fjárlög 1954

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég get ekki flutt hv. fjvn. þakklæti mitt fyrir afgreiðslu á þeim brtt., sem ég hef flutt við fjárlfrv. Ég fæ ekki betur séð en að fram hjá þeim hafi verið gengið að mestu eða öllu leyti. Það er í fullu samræmi við það, sem fram kom og hefur fram komið, bæði við almennar umr. hér í d., afgreiðslu mála, sem stjórnarandstaðan hefur flutt hér, og var alveg sérstaklega undirstrikað í þeim útvarpsumr., sem fram fóru í gærkvöld og fyrrakvöld. Þar komu fram mjög skýrar og ákveðnar yfirlýsingar um það frá hv. stjórnarsinnum, — að ég tel frá báðum flokkum, — að það væri alls ekki meiningin að taka yfirleitt neitt tillit til þess, sem stjórnarandstaðan flytti hér í formi frumvarpa eða kæmi fram sem brtt. við fjárlög. Það er út af fyrir sig gott að hafa fengið þessa yfirlýsingu, og má þá segja, að það leiki ekki á tveim tungum um það, sem um hv. Alþ. hefur verið skrifað að undanförnu í mörg blöð hér, að meiri hlutinn af störfum þess fari ekki fram í sölum Alþ., heldur á klíkufundum stjórnarflokkanna. Þetta var reyndar vitað áður, en hér liggur alveg ótvíræð og skýr yfirlýsing um þetta, og það er gott, að þetta hefur komið fram. Ég efast t.d. um það, að afgreidd sé ein einasta smávægileg till. svo, að ekki sé áður margrætt á meðal stjórnarflokkanna, hvort virkilega eigi að hleypa henni í gegn eða ekki.

Ég flutti hér nokkrar smávægilegar brtt. til hækkunar við fjárl. við 2. umr. Voru þær til samræmis við það, sem veitt er til slíkrar starfsemi í öðrum bæjum, en Siglufjarðarkaupstaður hefur verið vanskiptur af.

Ég flutti t.d. hér till. um það, að til tónlistarskóla Siglufjarðar yrðu veittar 20 þús. kr. í staðinn fyrir 10 þús. kr. Ég vil benda á, að aðrir tónlistarskólar í hliðstæðum kaupstöðum fá þessa upphæð, sem hér er farið fram á. Hér er ekkert farið fram á annað en það, að tónlistarskóla Siglufjarðar, sem veitir forustu ungur og mjög efnilegur maður, sé veittur nákvæmlega sami styrkur og hliðstæðum skólum annars staðar.

Ég flutti t.d. tillögu um það, að til tónlistar á Siglufirði, reyndar til tveggja félaga, yrðu veittar 3 þús. kr. til hvors. Hv. fjvn. hefur sjálfsagt talið sig ganga ákaflega langt í tilhliðrunarsemi, því að ég sé það á till. hennar, að það eru veitta: 4 þús. kr. til leikstarfsemi á Siglufirði, en þeir hafa ekki treyst sér að leggja til, hvernig því yrði skipt, og skjóta því til bæjarstjórnar Siglufjarðar til endanlegrar afgreiðslu.

Þá hef ég flutt hér brtt. við 13. gr., um sjóvarnargarð norðan Siglufjarðareyrar. Þegar ég ræddi þetta mál við 2. umr. fjárl., lýsti ég dálítið nánar, hvernig ástandið væri þarna. Ég tók þessa till. aftur til 3. umr., m.a. til þess, að hv. fjvn. gæfist tækifæri til þess að rannsaka, hvort umsögn mín um þetta mál væri á rökum reist. Ég notaði tímann til að afla mér frekari skýringa á þessu máli og upplýsinga, og með leyfi hæstv. forseta vildi ég mega lesa hér upp bréf, sem ég fékk frá Sigurði Jónssyni framkvæmdastjóra síldarverksmiðja ríkisins um þetta mál. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að gefnu tilefni viljum vér skýra yður frá., að vér höfum á undanförnum árum margítrekað við bæjarstjórn Siglufjarðar brýna nauðsyn þess, að gert væri við hafnargarðinn í Siglufirði, þar sem hið stóra mjölgeymsluhús vort og afurðir þær, sem þar eru geymdar, eru í yfirvofandi hættu vegna flóða, verði ekkert aðgert til viðgerðar flóðvarnargarðsins.

Pr. Síldarverksmiðjur ríkisins.

Sigurður Jónsson.“

Enn fremur barst mér símskeyti frá bæjarstjóranum á Siglufirði, þar sem þetta mál er upplýst frekar og þar sem hann mælir mjög eindregið með því, að veitt verði fé til þess að forða eyrinni, sem aðalbærinn stendur á með öllum sínum mannvirkjum, þar með taldar síldarverksmiðjur ríkisins, sem eru margra tuga millj. kr. virði, en öll þessi mannvirki eru talin í yfirvofandi hættu, ef ekki verður neitt að gert.

Ég ræddi lítils háttar um þetta mál við frsm. hv. fjvn., enn fremur við hv. vitamálastjóra og fékk mjög daufar undirtektir, enda hefur sú reyndin orðið á, að hv. fjvn. hefur ekki séð sér fært að mæla með því, að þetta verði veitt. Mér er sagt, að á fundum fjvn. hafi þetta verið rætt og þar hefði komið fram, að þegar sé búið að ákveða fjárframlag til Siglufjarðarhafnar, sem er eftir till. fjvn. 200 þús. kr. Ég get upplýst hér, að því fé er þegar ráðstafað til allt annars, svo að það eru miklar líkur til þess, að þessu fé verði ekki varið til þess að gera við flóðvarnargarðinn. Það verður svo að fara þá leið, sem Alþ. sýnist þar um, hvort það vill taka á sig ábyrgðina á því, hvernig fer um þau mannvirki, sem ég hef hér lýst að eru í yfirvofandi hættu. Það verður að fara eftir vilja og skoðun hv. þm., hvort þeir vilja taka þá „risiko“ á sig. En ég taldi mér skylt að skýra hv. Alþ. frá þessu og hef hér með gert það.

Þá er hér ein smátill., sem ég er meðflm. að. Hún er við 22. gr. Það er að greiða Skógræktarfélagi Íslands allt að 50 þús. kr. vegna væntanlegrar heimsóknar norskra skógræktarmanna til Íslands. Ég hafði álitið, að hv. fjvn. mundi sjá sér fært að mæla með þessari litlu greiðslu, sem lítil má teljast miðað við fjárl., og gera hana að sinni till. og mæla með því, að hún yrði samþ. Það er vitað, að á næsta vori kemur hingað fjölmennur hópur Norðmanna til að gróðursetja hér trjáplöntur. Enn fremur munu þeir hafa meðferðis allmikið af efnivið til skógræktar ásamt trjáplöntum. Vitanlega kostar allmikið fé að taka á móti þessum mönnum, og ég hef ekki orðið var við, að neinnar sérstakrar sparsemi hafi gætt hingað til, þegar um móttöku erlendra sendimanna hefur verið að ræða. Þessir menn, sem hér um ræðir, koma frá vinaþjóð og sýna Íslendingum alveg sérstaka vinsemd með þeim mikla áhuga, sem þeir hafa á skógræktarmálum Íslendinga. Má þar alveg sérstaklega undirstrika það, að sendiherra Norðmanna hér í Reykjavík hefur sýnt þessu máli alveg sérstaka velvild. Ég hefði haldið, að sóma síns vegna gæti hæstv. Alþ. ekki annað gert en að samþ. þessa till. og auðvelda þar með Skógræktarfélagi Íslands að geta tekið vel á móti þessum frændum okkar, þannig að það mætti verða bæði Skógræktarfélaginu og landinu í heild til sóma.

Ég hafði enn fremur ásamt hv. þm. Sigurði Guðnasyni flutt hér till. um allmikla hækkun á fé til skógræktarfélaga og skóggræðslu Ég sé, að hv. fjvn. hefur tekið upp hækkun um 75 þús. kr. á fyrri liðnum til skógræktarfélaganna, og er það vel, að svo er gert, þótt hins vegar hafi hún ekki séð sér fært að fara alveg eftir því, sem við lögðum til í þessu máli.

Þá kem ég hér að lokum að nýjum lið, sem ég flyt hér við 22. gr. og verður þar 17. liður. Það er að lána Siglufjarðarkaupstað gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar, allt að 2 millj. kr. til kaupa á fiskibátum, 30 rúml. brúttó eða stærri, og til annarrar atvinnuaukningar í kaupstaðnum. Til frádráttar þessari upphæð komi það fé, sem Siglufjarðarkaupstaður kann að fá til atvinnubóta samkvæmt 14. lið þessarar greinar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að skýra nánar en gert hefur verið, hvernig atvinnuástandið er á Siglufirði. Ég þykist vita, að allir hv. alþm. muni vera því að nokkru kunnugir, þó að ég hins vegar þykist vita, að þeir séu ekki eins kunnugir því og æskilegt væri, því að það verður að teljast æskilegt, að hv. alþm., frá hvaða kjördæmi sem þeir eru annars, kynni sér, eftir því sem efni og ástæður leyfa, ástandið í hinum ýmsu byggðarlögum. Það er vitað, að þetta byggðarlag hefur farið verr út úr með atvinnu en kannske nokkurt annað byggðarlag á Íslandi. Það er vitað, að atvinnuhættir Siglufjarðarkaupstaðar voru og eru að mestu leyti enn byggðir á síldveiðum og síldarvinnu í landi. Í níu sumur má heita, að þessi aðalatvinnuvegur Siglfirðinga hafi að mestu leyti brugðizt. Í bænum hafa búið til skamms tíma yfir 3 þús. manns. Fólkinu hefur vitanlega fækkað nú síðustu ár, og ekki horfir til annars en að stórkostlegir fólksflutningar muni eiga sér stað, ef ekkert verður að gert frekar en orðið er.

Í þessu sambandi má benda á, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. sýndi þó þann skilning á þessu máli, að hún varð við þeim óskum og kröfum Siglfirðinga og bæjarstjórnar Siglufjarðar og annarra aðila þar, að ríkisverksmiðjurnar byggðu þar nýtt og fullkomið hraðfrystihús. En til þess að þetta nýja og fullkomna atvinnufyrirtæki geti komið að fullum notum, þá þurfa Siglfirðingar að eignast fiskibáta. Ástandið á því sviði er þannig, að í bænum eru 5 eða 6 dekkbátar. Þar við bætast svo eitthvað 2 eða 3, sem teljast mega ófærir til að stunda veiðar nema um hásumarið og tæplega það og oftast nær þá með undanþágu.

Það geta flestir séð, að þegar atvinnuástandið er þannig í bæ, sem telur um 3 þús. íbúa og engan fiskiskipastól hefur, þá muni atvinnuástandið ekki vera á marga fiska, enda er það staðreynd, að frá Siglufirði hefur verið meira aðstreymi 'til atvinnu hér suður á Suðurland heldur en frá nokkrum öðrum stað á landinu. Ég vil benda á í þessu sambandi, að við kosningarnar, sem fóru fram í sumar, greiddu atkv. utan kjörstaðar að mig minnir 17.9%. Þetta talar dálítið sinn máli. Við forsetakosningarnar var talan eitthvað örlítið lægri. Nú er t.d. yfir vetrarvertíðina brottflutningur fólks frá Siglufirði miklu meiri en á vorin, því að frekar er þó um eitthvert handtak að ræða um vorið og sumarið heldur en um vetrartímann.

Það hljóta allir að sjá, hvernig afkoma muni vera þeirra heimilisfeðra, sem þurfa að stunda atvinnu sína mikinn meiri hluta ársins fjarri heimilum sínum. Það má segja, að heimilisfaðir, sem verður að fara, hvort sem hann á heima á Siglufirði eða á öðrum stöðum á landinu, í atvinnuleit langar leiðir, þurfi að bera tvöfaldan kostnað. Í fyrsta lagi þarf hann að sjá fyrir sínu heimili, þar sem konan og börnin eru, og í öðru lagi þarf hann að halda sér sjálfum uppi á þeim stað, þar sem hann er, og þegar viðlegukostnaður eða kostnaður manns við atvinnu, t.d. suður í Vestmannaeyjum, er farinn að fara upp í 12–15 hundruð kr. á mánuði, þá geta menn séð, hvað það er dýrt spaug að þurfa að fara frá heimilum sínum til þess að sækja atvinnu annars staðar.

Ég vonast nú til þess, að hv. alþm. sjái og skilji, hvað alvarlega horfir á þeim stöðum, þar sem atvinnuástandið er eitthvað svipað og það er í Siglufjarðarkaupstað. Við þetta bætist svo það, að tekjur Siglufjarðarkaupstaðar og annarra þeirra staða, þar sem atvinnuástandið er líkt, hljóta að rýrna stórkostlega, enda má segja, að ekki hafi verið hægt að leggja svo að segja neitt útsvar á íbúa Siglufjarðar s.l. 3–4 ár.

Í þessu sambandi má t.d. benda á það, að ekki eitt einasta atvinnufyrirtæki á Siglufirði, sem rekið var s.l. ár, sýndi ágóða. Hæsta útsvar, sem einstala fyrirtæki, búsett á Siglufirði, bar, var 17 þús. kr., þ.e.a.s. verzlunarfyrirtæki. Og um álagningu á atvinnufyrirtæki einstaklinga væri ekki að ræða, ef ekki væri tekið með veltuútsvarið.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta frekar. Ég gat þess í upphafi máls míns, að það lægju fyrir mjög ákveðnar yfirlýsingar um það frá stjórnarflokkunum, — og hefðu reyndar áður verið undirstrikaðar með afgreiðslu mála hér á Alþ., en sérstaklega voru þær þó undirstrikaðar í útvarpsumr. í gærkvöld og fyrrakvöld, — að ekki kæmi til mála að taka að neinu leyti tillit til framkominna till. frá stjórnarandstöðunni. Ég harma þessa yfirlýsingu. Ég harma það, ef hv. Alþ. Íslendinga er skipað þeim mönnum, sem eru það fullir af fordómum, að þeir geti ekki fylgt máli, hvaðan sem það kemur og hver sem flytur það, ef það á annað borð er gott mál. Ég segi fyrir mig, að ég get gefið þá yfirlýsingu hér, að ég mun geta greitt atkv. og beitt mér fyrir hvaða máli og frá hverjum sem það kemur, ef það á annað borð er þess virði, að því sé veitt brautargengi. Ég hélt, að það ætti að vera heiður hvers einasta alþm. að fylgja þessari reglu; það væri sú skylda, sem hann hefði undirgengizt, um leið og hann gaf kost á sér til þess að verða þm. og um leið og hann hefur undirritað eiðstaf sinn, er hann gengur hér inn í þingsalinn.

Að lokum þetta: Ég harma það, að hv. fjvn. hefur ekki viljað taka að neinu leyti til greina þær till., sem ég hef hér flutt, og þá sérstaklega þær tvær, sem ég hef gert hér að aðalumræðuefni, till. um fé til að endurbyggja flóðgarðinn norðan Siglufjarðareyrar og till. um, að Siglufjarðarkaupstað verði veitt fé til þess að byggja að nýju upp atvinnulíf í bænum.