06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Við fjárlagaafgreiðsluna á síðasta Alþ. var samþ. heimíld til þess að ábyrgjast lán til þess að koma í veg fyrir, að nokkrir togarar yrðu fluttir úr byggðarlögum, þar sem þeir hafa verið reknir. Þessi heimild hefur verið notuð. En þegar farið var að athuga þessi mál nánar en búið var áður en heimildin var samþ., þá kom í ljós, að þannig var ástatt um fjárhag Bæjarútgerðar Siglufjarðar, að þess var enginn kostur að bjarga henni úr örðugleikunum með þeirri heimild, sem í fjárl. var gefin. Til þess þurfti miklu víðtækari ráðstafanir. Var þá um tvennt að velja fyrir ríkisstj., annaðhvort að horfa upp á það aðgerðalaust, að tveir togarar yrðu seldir þaðan brott, ellegar að gefa út í samráði við þá flokka, sem hana styðja, eftir því sem til náðist, brbl. um að veita Siglufjarðarbæ meiri stuðning til þess að halda skipunum en gert var ráð fyrir í fjárlagaheimildinni. Vegna þess neyðarástands, sem ríkir í atvinnumálum Siglufjarðarkaupstaðar af ástæðum, sem öllum eru kunnar, þá tók stj. þann kostinn að afla sér þessarar heimildar með brbl., og liggja þau nú hér fyrir hv. Alþ. til staðfestingar.

Það kom og í ljós, að á svipaðan hátt var ástatt um togaraútgerðarfyrirtæki Seyðfirðinga, en þó ekki alveg eins illa. Það þurfti minni fjárhæð til þess að bjarga því í bili en Siglufjarðarútgerðinni, en þó svo, að alls ekki var hægt að bjarga Seyðisfjarðarútgerðinni eða réttara sagt koma í veg fyrir, að togarinn yrði þaðan fluttur, með þeirri heimild, sem í fjárl. var. Þurfti því einnig að bæta við ábyrgðarheimild vegna Seyðisfjarðar. Þess vegna hljóða brbl. ekki aðeins um aðstoð handa Siglufirði, heldur einnig Seyðisfirði, eins og hv. þm. hafa vafalaust komið auga á.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessu máli verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr.