16.12.1953
Sameinað þing: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

1. mál, fjárlög 1954

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en það voru hér örfáar till. frá fjvn., sem eru á því þskj., sem síðast var útbýtt, nr. 334, sem höfðu orðið eftir, þegar fyrra þskj. var prentað. Það er aðeins um að ræða smávægilegar breytingar.

Það er lagt til að hækka framlag til dvalarheimilis fyrir afvegaleidd börn og unglinga um 150 þús. kr. Það er hækkun, sem óhjákvæmilegt er að gera vegna umbóta, sem þarf að gera á staðnum, til þess að það sé hægt að starfrækja þetta heimili þar svo sem nauðsynlegt er, og því telur n. óumflýjanlegt að leggja til, að þessi hækkun verði gerð á liðnum.

Þá hefur enn fremur verið lagt til að hækka framlag til Norræna félagsins úr 8 þús. kr. í 15 þús. kr., en það er sú sama upphæð og er í núgildandi fjárl., og er lagt til að sú upphæð verði áfram í fjárl. næsta árs.

Að auki er aðeins ein leiðrétting við 18. gr., sem ég tel ekki ástæðu til þess að orðlengja um. Það mætti vitanlega ýmislegt segja í sambandi við ræður ýmissa hv. þm., sem hér hafa talað fyrir einstökum till. Ég mun þó ekki gera það umfram það, sem sérstaklega hefur verið beint til fjvn. Um till. hennar hefur ekki verið rætt hér, nema um eina till., sem hv. 2. þm. Reykv. sérstaklega vék að, en það var í sambandi við, að lagt er til, að tekin verði upp á 22. gr. heimild fyrir ríkisstj. til þess að afhenda vestur-þýzka sambandslýðveldinu hið fyrra hús sendiráðs Þýzkalands hér í bæ. Ég skal nú ekki fara langt út í það mál. Ég býst við, að vakið hafi nokkra undrun sumra sá hávaði, sem hv. þm, hafði í frammi við þessa till., sem hann taldi hið fullkomnasta hneyksli. Það hefur að vísu ekki alltaf verið hneyksli í hans augum að eiga samvinnu við Þýzkaland og það jafnvel meðan sú stjórn var þar við völd, sem átti sök á fyrri heimsstyrjöld og því tjóni, sem við Íslendingar eins og margar aðrar þjóðir urðum fyrir.

Varðandi það, að vestur-þýzka stjórnin hafi sérstaklega hampað glæpamönnum og fyrrverandi nazistum, þá má nú benda á, að austurþýzka ríkisstj. virðist nú ekki hafa staðið þar neitt að baki. Má þar minnast á t.d., þegar þeir nú nýlega hafa gert von Paulus marskálk, sem duglegastur var við hernaðinn í Rússlandi, að einum af sínum aðalmönnum þar eystra. Hins vegar munu hv. þm. afsaka það væntanlega hjá hv. 2. þm. Reykv., þó að hann blási dálítið út í sambandi við þessa till.

En eftir sem áður sýndist mér vera eðlilegt mál, eins og allar sakir standa, að þetta hús verði afhent þýzka sendiráðinu hér. Það voru margar aðrar þýzkar eignir hér, sem skiptu milljónum, sem teknar voru, þýzkar innstæður, og þeim hefur ekki verið skilað og verður ekki skilað, heldur hafa þær verið notaðar til þess að greiða bætur vegna þess fólks, sem fórst á íslenzkum skipum, sem skotin voru niður hér umhverfis Ísland á þessum árum, þannig að þeim milljónum, sem eru allmargar, verður vitanlega ekki skilað Þjóðverjum aftur, þó að þetta hús verði afhent þeim nú eftir að samband er tekið upp á milli þessara ríkja, og það er auðvitað fásinna hin mesta, að það sé sama ríkisstjórn eða sami hugsunarháttur, sem ríkir þar nú eins og var meðan nazistar voru þar við völd.

Varðandi það, sem hv. 4. landsk. þm. sagði, að hann undraðist, að það hefði ekki verið talið fært að hækka framlag til tónlistarskóla Siglufjarðar, þar sem þetta væri til samræmis við aðra staði, vil ég aðeins geta þess, að það eru tveir aðrir staðir, sem eru með sömu fjárveitingu og tónlistarskóli Siglufjarðar og óhjákvæmilegt hefði þá vitanlega verið að hækka um leið, en auðvitað getur alltaf verið matsatriði, hvað upphæðir eigi að vera háar til þessara og annarra styrkja.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, sé ekki ástæðu til þess að vera að gera hér að umtalsefni till. þær, sem fyrir liggja frá ýmsum hv. þm. Margar þeirra eru endurteknar frá 2. umr. með aðeins breyttum upphæðum og voru þá ræddar, þannig að ég vil ekki, nema sérstakt tilefni gefist til, fara að lengja þessar umr. frekar.