30.11.1953
Efri deild: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

87. mál, löggiltir endurskoðendur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Eftir því sem viðskipti manna á milli aukast og verða margbrotnari, er eðlilegt, að löggjafinn setji ýmsar reglur til þess að hafa eftirlit með og tryggja, að þessi viðskipti fari réttilega fram. Árið 1909 voru því sett hér á landi lög um bókhaldsskyldu kaupmanna, og var þeim nokkuð breytt á Alþ. 1911 og fögin frá 1909 ásamt breytingunum síðan gefin út sem lög nr. 53 frá 11. júlí 1911. Lög þessi náðu eingöngu til kaupsýslumanna. Smám saman hefur svo löggjöfin verið að stækka hóp þeirra manna, sem skyldir séu til að hafa bókhald, ekki einungis til tryggingar hinu almenna viðskiptalífi, heldur munu breytingar á skattakerfinu hafa valdið miklu þar um, þannig að möguleikar væru opnaðir fyrir því, að tolla- og skattayfirvöld gætu haft eftirlit með fjárhagsstarfsemi sem flestra atvinnurekenda. Lögin frá 1911 giltu svo óbreytt þangað til 1938, en það ár voru sett allfullkomin og umfangsmikil lög um bókhald, nr. 62 11. júní það ár, og eru þau enn í gildi.

Það segir sig nú sjálft, að þegar eins almenn bókhaldsskylda er lögð á menn og hér er orðið, verður að gera eitthvað til að tryggja, að menn læri að færa bækur sínar rétt, og koma upp stétt manna, sem kennt geti mönnum það, komið bókhaldinn í kerfi og haft eftirlit með og endurskoðað bókhald manna, þannig að allir þeir, sem hlut eiga að máli, hvort heldur eru skuldheimtumenn eða skattheimtuyfirvöld, hafi tryggingu fyrir því, að bókhaldið sé rétt og skipulega fært. Árið 1926 voru því sett sérstök lög um löggilta endurskoðendur, og í sambandi við þau lög var sett reglugerð nr. 18 frá 27. marz 1929, og er þetta hvort tveggja enn í gildi. Þessi ákvæði þykja nú ekki lengur fullnægjandi, og eru það þau, sem lagt er til að breytt verði með lagafrumvarpi því, sem hér liggur fyrir, og þeirri reglugerð, sem gert er ráð fyrir í frv. að sett verði, þegar það er orðið að lögum, ef samþ. verður.

Frv. þetta er lagt fram sem stjfrv. Það var samið af stjórn félags löggiltra endurskoðenda, en hefur gengið í gegnum hreinsunareld hjá dómsmrn., sem gerði á frv. stjórnar félags löggiltra endurskoðenda nokkrar breytingar. Allshn. Ed. hefur athugað frv. þetta og ekki séð ástæðu til þess að koma fram með neina brtt. við það, enda er það, eins og ég áður tók fram, vel og samvizkusamlega undirbúið, og hefur að mestu leyti verið farið eftir núgildandi dönskum lögum í þessu efni, en þau eru aftur í samræmi við lög annarra Norðurlandaþjóða.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir, að nokkuð séu þyngd skilyrði fyrir því, að menn geti fengið löggildingu sem endurskoðendur, og kemur það aðallega fram í því, að aldurinn er hækkaður úr 21 ári upp í 25 ár og sett inn í lögin ákvæði um það, að sá, er fær löggildingu sem endurskoðandi, skuli áður en hann þreytir prófraun hafa unnið þrjú ár samtals að endurskoðunarstörfum undir eftirliti löggilts endurskoðanda. Þó er sá varnaglí sleginn, að veita má undanþágu frá þessu ákvæði, ef prófmaður hefur unnið í þrjú ár að endurskoðun, þó að ekki sé undir handleiðslu löggilts endurskoðanda, ef álita má, að setja megi þau störf hans jafnfætis störfum hjá löggiltum endurskoðanda, enda mæli prófnefndin með því. Verður ekki séð, að þessi breyting sé óeðlileg, vegna þess að um leið og maður fær þennan stimpil hins opinbera á sig, verður almenningur að geta gengið út frá því, að hann hafi þá kunnáttu, starfsreynslu og þroska, sem nauðsynleg er til þess að hægt sé að trúa honum til þess að framkvæma þetta starf sitt sómasamlega.

Í 6. og 7. gr. laganna frá 15. júní 1926 var gert ráð fyrir þagnarskyldu löggiltra endurskoðenda og að viðurlög fyrir brot í starfi færu eftir því, sem gildir um opinbera sýslunarmenn. Í 6. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, er þetta nákvæmar tiltekið og beinlínis sagt, að löggiltir endurskoðendur hafi réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna, að því leyti sem við á, og að ráðh. geti sett nánari reglur um réttindi og skyldur löggiltra endurskoðenda og starfsmanna þeirra.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja frv. grein fyrir grein, en eins og ég tók fram í upphafi ræðu minnar, leggur. allshn. Ed. einróma til, að það verði samþ. óbreytt.