06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Jóhann Jósefsson:

Hér er að ræða um brbl., sem útgefin hafa verið á sínum tíma milli þinga, og eftir því, sem hæstv. ráðh. lýsti og taldi, hefur ríkisstj. í samráði við þingflokkana stigið þetta spor vegna þess, að aðgerðir þingsins eða tilhlutun fjvn. hefði ekki verið nægileg á sínum tíma til þess að leysa að fullu þau vandræði, sem hlóðust á. Ég verð nú að segja það fyrir mitt leyti, þótt ég tilheyri einum — ja, víst stærsta flokknum á þinginu, að þá er mér ekki kunnugt um, að þessi ráðstöfun um brbl. hafi verið borin undir þann þingflokk, a.m.k. ekki svo að ég viti til, og skiptir ef til vill ekki miklu máli. Á hinn bóginn er þess að geta, að því er virðist, að það, sem hefur skeð í þessu, a.m.k. á Siglufirði, er í rauninni það, að ríkisstj. hefur tekið á sig eða sína eigin stofnun rekstur skipsins eða skipanna. Ég veit ekki, hvort það er í sama formi á Seyðisfirði, en hér er gefið fordæmi, að því er virðist, um það, að ríkið sjálft — eða stofnanir þess — tekur að sér rekstur á togara, að vísu af því tilefni að halda uppi atvinnu í því byggðarlagi, sem togarinn á heima í, en að öllu leyti hlýtur þetta þó að verða á kostnað og ábyrgð ríkissjóðs, ég segi ekki beinlínis, heldur miklu frekar óbeinlínis, þar sem ég held ég fari rétt með það, að reksturinn á togaranum á Siglufirði eða togurunum þar annist síldarverksmiðjur ríkisins, og að þær starfi á ríkisins ábyrgð, tel ég vera upplýst og vitað.

Nú hefur það komið fyrir í öðrum byggðarlögum, þar sem ef til vill er ekki eins ástatt og á Siglufirði, að svo hefur rekið í strand með togaraútgerð, sams konar og hér er um að ræða, að menn hafa orðið að losa sig við skip af þessu tilefni. Mér er ekki kunnugt um það, hvort leitað hafi verið til ríkisstj. á sama hallærisgrundvelli í þessu máli frá því kjördæmi, sem ég hef í huga og er Vestmannaeyjar, en það getur verið, þó að ég hafi ekki vitað um það, því að ég hef verið fjarverandi.

En það, sem ég vildi benda á, er, að hér er tekin upp stefna, — að því er virðist hjá hæstv. fyrrv. ríkisstj., sem flytur þessi brbl., þó að þau séu lögð fram af öðru rn. að nafninu til, — að það er gengið í þá áttina og hafnar aðgerðir til þess að reka togaraútveg á ábyrgð sjálfs ríkisins. Það blasir þannig við fyrir mér. Og það hélt ég að væri spor, sem a.m.k. sumir mér vitrari og hyggnari menn hefðu sjálfsagt álitið þörf á að gera á annan veg en hér blasir við, eða með brbl.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál, aðeins benda á það, sem virðist vera staðreyndin í þessu máli, og á hitt um leið, að með því að fordæmið er gefið á þann hátt, sem það er gert hér, þá hljóta önnur pláss, hvort sem þau heita Ísafjörður eða hvað annað, að gera kröfur til og eiga rétt á, að ríkisvaldið hlaupi undir bagga með þeim á alveg sérstakan hátt og ef í nauðirnar rekur með því að láta stofnanir sínar taka eða taka sjálft á sig ábyrgð á rekstri áhættusamra fyrirtækja. Það er óskandi og vonandi, að ekki komi til þess, en leiðin að slíkum kröfum er hér opnuð.