06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég sagði áðan, að ríkisstj. hefði gefið út brbl. um þetta mál í samráði við þá, sem hana studdu, að því leyti sem til hefði náðst. Ég stóð satt að segja í þeirri meiningu, að þannig hefði þessu verið háttað, því að þannig var því háttað í þeim herbúðum, sem ég þekki til f. Hafi ég farið skakkt með að þessu leyti til, þá leiðréttist það hér með.

Um efni málsins vil ég taka fram í tilefni af því, sem hv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að ríkissjóður eða ríkið hefur ekki tekið á sig að reka Siglufjarðartogarana og ber ekki ábyrgð á rekstri þeirra, en mér fannst eins og hann áliti, að svo væri. Það, sem gerðist, var það, að ríkið veitti þessa ábyrgð, sem hér er heimiluð í brbl., en setti það skilyrði um leið, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins, eða framkvæmdastjóra síldarverksmiðja ríkisins, væri falin framkvæmdastjórn skipanna. Sem sé: ríkið setti það skilyrði fyrir ábyrgðinni, af því að hún var svo stórfelld, að ríkisstj. hefði íhlutun um framkvæmdastjórn skipanna. Af því að þarna á staðnum er þessi stofnun, síldarverksmiðjur ríkisins, og framkvæmdastjórinn hjá þeim er maður, sem stjórnin hafði gott traust á til þess að stýra framkvæmdum togaraútgerðarinnar, þá varð að ráði að gera það að skilyrði, að síldarverksmiðjur ríkisins tækja við framkvæmdastjórn skipanna, en skipin eru eftir sem áður rekin af bæjarsjóði Siglufjarðar og á ábyrgð Siglufjarðarbæjar. Hins vegar hefur ríkið tekið ábyrgð á vissri lánsfjárhæð, sem til útgerðarinnar hefur verið lögð. Það er enginn eðlismunur á þeirri ábyrgð og á hinum ábyrgðunum, sem teknar hafa verið fyrir mörg önnur Bæjarfélög samkv. heimildinni, sem var sett í fjárl., enginn eðlismunur, en stigsmunur er mikill, vegna þess að miklu hærri fjárhæð er ábyrgzt fyrir Siglufjarðarútgerðina.

Hér hefur því ekki verið farið inn á þá braut, að ríkið reki togaraútgerð fyrir Siglufjarðarbæ, en hins vegar tekin ábyrgð á tilteknu láni, til þess að ekki þyrfti að flytja togarana burt úr bænum, og áskilið, að ríkisstj. hefði um það úrslitavald, hvernig framkvæmdastjórninni yrði fyrir komið.