06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þótti þær upplýsingar, sem hv. þm. Vestm. gaf hér, að ýmsu leyti merkilegar. Í fyrsta lagi er það, að þessi brbl., sem gefin voru út — að ég ætla — síðast í marz s.l., hefðu ekki verið borin undir hann og leitað fyrir fram samþykkis hans á þeim. Hæstv. ráðh. upplýsir, að hann hafi talið, að leitað hafi verið álits og samþykkis þeirra þm. stjórnarflokkanna, sem til náðist. Virðist af einhverjum ástæðum bv. þm. Vestm. hafa verið einn af þeim, sem ekki náðist til, þó að — ég held ég muni það rétt — hann hafi verið hér í bænum einmitt um það leyti, sem brbl. voru gefin út.

Mér skilst, að hæstv. ráðh., sem talaði um „sínar herbúðir“ og háttsemi þar, vildi með því gefa í skyn, að það hefði ekki verið hans að leita eftir samþykki þessa hv. þm., heldur væntanlega þá formanns Sjálfstfl., sem kynni þá að hafa láðst að gera þessa nauðsynlegu athugun.

Hinar upplýsingarnar eru að vissu leyti merkilegri, og furðar mig á, að hæstv. ráðh. skyldi ekki geta þeirra strax í sinni framsögu, að, eins og hv. þm. Vestm. orðaði það, samtímis því sem þessi ábyrgð er veitt, þá hefði ríkissjóður eða ríkið tekið að sér rekstur togaranna. Mér hefði þótt eðlilegt og sjálfsagt, að hæstv. ráðh. hefði skýrt frá þessu strax. Hæstv. ráðh. segir, að þetta sé ekki með öllu rétt hjá hv. þm. Vestm., ríkið beri ekki neina ábyrgð á rekstrinum, hafi aðeins sett það skilyrði, að framkvæmdastjóri síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði skyldi fara með framkvæmdastjórn togaraútgerðarinnar. Ég hygg, að það sé bitamunur frekar en fjár, hvort þetta er orðað þann veg, sem hv. þm. Vestm. gerði, eða á þann hátt, sem hæstv. ráðh. orðaði það. Niðurstaðan verður sú, að í viðbót við það að ábyrgjast 2 millj. og 900 þús. kr. lán fyrir þessa togaraútgerð hefur framkvæmdastjóri síldarverksmiðjanna, sem eru ríkiseign, jafnframt tekið að sér framkvæmdastjórn togaraútgerðarinnar og að halda henni gangandi. Það er vitað, að fjár er ekki að vænta frá bænum til útgerðarinnar. Þurfi framkvæmdastjórinn að afla fjár til rekstrarins, verður tryggingin fyrir því að koma annars staðar að. Hæpið er að treysta því, að svo mikið verði lagt upp úr aðstöðu þess manns, sem framkvæmdastjórn útgerðarinnar annast, að það eitt nægi.

Við Alþýðuflokksmenn höfum á nokkrum undanförnum þingum flutt frv. um það, að ríkissjóður aflaði sér fjögurra nýrra togara til atvinnujöfnunar. Skyldi útgerð þeirra hagað svo, að skipunum yrði beint til hinna ýmsu staða á landinu, eftir því sem atvinnuásland og aðstæður krefðust á hverjum tíma. Mér skilst, að eftir þessa byrjun á þjóðnýtingu togaraútgerðar, sem hér virðist hafin, ætti að mega vænta þess, að undirtektir hv. þm. og hæstv. ríkisstj. undir þetta frv. Alþfl. verði nú betri en verið hefur, því að það er augljóst mál, að ekki er hægt að taka einn kaupstað á landinu út úr, þannig að fyrst sé ábyrgzt fyrir hann lán vegna útgerðarinnar og síðan séð um að halda útgerðinni gangandi, án þess að bæjarfélagið eigi þar hlut að eða leggi nokkurt fé fram. Slíkt er ekki hægt að gera fyrir einn einstakan stað á landinu, það verður að vera í samræmi við aðrar aðgerðir.

Að því er snertir fyrirspurn mína um, hvort hæstv. ráðh. hafi verið kunnugt um auglýsingu um sölu á atvinnutækjum burt úr Ísafjarðarkaupstað, þá vil ég þakka þær undirtektir, sem hæstv. ráðh. veitti því máli. Ég ætla, að ég hafi skilið það rétt, að hann hafi sagt, að ríkisstj. mundi fylgjast með þessu máli og reyna það, sem í hennar valdi stæði, til þess að afstýra því, að skipin verði seld burt úr bænum. Mér er að sjálfsögðu ljóst, að það er ekki hægt að ætlast til þess af stofnlánadeildinni, að hún bíði í það óendanlega fremur þegar um vélbáta er að ræða heldur en togaraútgerð. Ég treysti því, eftir þessi ummæli hæstv. ráðh., að hæstv. ríkisstj., sem hefur verið svo fundvis á ráð til þess að hjálpa vissum bæjarfélögum í þeirra þrengingum, reynist nú ekki siður fundvis og viljagóð í að leysa vandræði þessa staðar.