06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér varð á að brosa. Mér datt í hug, að það hefði sennilega verið dálítið annað hljóð í þessum hv. þm. nú við umr. þessa máls, ef Erlendur hefði komizt að á Siglufirði í vor. Hann hefði þá sennilega ekki verið að ræða um þetta mál í þeim tón, sem hann hefur gert hér, svona hálfgerðum úrtölu- og eftirtölutón út af því, sem gert hefur verið fyrir Siglufjörð, þessa sérstöku náð, sem hann hafi orðið aðnjótandi — að því er manni skilst nú, þó að það sé ekki sagt berum orðum — óverðugur, umfram aðra.

Annars finnst mér engin ástæða til þess að vera að fara í kringum þetta eins og köttur í kringum heitt soð, eins og hv. 4. þm. Reykv. gerði hér áðan, og reyna að leggja allt aðra merkingu í það, sem sagt er, en það, sem orðin segja til um. Þessi hv. þm. var að tala um það, að hér hefði verið gerð ráðstöfun, sem þýddi það, að það ætti að halda gangandi togaraútgerð á Siglufirði, án þess að bæjarsjóður kæmi þar nokkuð nærri eða bæri þar nokkra ábyrgð á; það hefðu aðrir tekið að sér að halda henni gangandi, og manni skildist, að Siglufjarðarbær hefði orðið þar sérstakrar náðar aðnjótandi, að fá framkvæmdastjóra síldarverksmiðja ríkisins tilnefndan framkvæmdastjóra. Ætli þessi hv. þm. hefði talið það sérstök hlunnindi, ef hann væri forráðamaður bæjarfélags, að hann eða forráðamenn bæjarins yfirleitt fengju ekki að ráða því, hverjir stjórnuðu fyrirtækjum bæjarins, sem þó væru rekin á ábyrgð bæjarins, en yrðu að sætta sig við það skilyrði fyrir tiltekinni hjálp, að aðrir réðu þessu? Þetta skilyrði var ekki sett neinum öðrum bæ en Siglufirði. Það var vegna þess, að það þurfti meira fé til þess að koma í veg fyrir, að togararnir yrðu seldir þaðan, en til þurfti í hinum dæmunum. Það er þetta, sem hefur gerzt, og annað ekki. ríkið hefur ekki tekið að sér að reka neina útgerð á Siglufirði eða halda henni gangandi með ríkisfé, því fer alls fjarri, og þetta veit hv. 4. þm. Reykv., þó að hann sé að ræða um þetta í þessum tón. ríkið hefur engar ábyrgðir tekið á sig varðandi rekstur þessarar útgerðar framvegis. Hér hefur enginn ríkisrekstur verið tekinn upp á togurum, hvað sem um það er sagt. Þetta, sem hér hefur verið gert, gefur því enga ástæðu til þess, að einstök byggðarlög komi og krefjist þess, að ríkið fari að gera þar út togara, vegna þess að það sé gert á Siglufirði. Það mætti með sama rétti segja, að ríkið gerði út hina togarana, sem bjargað var undan hamrinum, því að það er ekki í eðli sínu neinn munur á því, sem gert var fyrir þá staði og fyrir Siglufjörð, þó að það sé stigmunur, af því að það þurfti meira fé á Siglufirði. Eini munurinn á framkvæmdinni fyrir utan þann mikla stigmun var sá, að Siglufjarðarbæ voru settir þeir sérstöku kostir, að hann fengi ekki að ráða framkvæmdastjórann fyrir sínu fyrirtæki, og mér finnst ekki vera hægt að lita á það sem einhverja sérstaka náð, sem Siglfirðingar hafi orðið aðnjótandi, heldur harða kosti, sem þeir hafa orðið að sætta sig við vegna þess, hvað bæjarútgerð þeirra var illa sett fjárhagslega, en ekki nema eðlilegt, að ríkisstj. setti það skilyrði, þar sem hjálpin varð að vera svo miklu meiri til þeirra en annarra til þess að koma í veg fyrir það, að skipin yrðu seld.

Ég veit ekki, hvort skoða á þær athugasemdir, sem hér hafa komið fram, sem ávitur á ríkisstj. fyrir að hafa gert þetta, fyrir að hafa komið í veg fyrir það, að togararnir væru seldir frá Siglufirði. En ég fullyrði það, að þeir, sem hér hafa um þetta rætt, mundu hafa gert eitthvað svipað og stj. gerði; þeir mundu ekki hafa séð sér fært að láta fara fram sölu á þessum skipum eins og þá var ástatt á Siglufirði, þegar þessi ráðstöfun var gerð.