22.02.1954
Efri deild: 50. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

13. mál, vátryggingasamningar

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Allshn. Ed. hefur athugað frv. það, sem hér er til umr., um vátryggingarsamninga, og leggur einróma til, að frv. verði samþykkt. Bendir hún á, að inn í 128. gr. frv. hefur slæðzt prentvilla. Í lok greinarinnar stendur: „enda hafi fyrning eigi fullnazt fyrr en eftir lögum þeim, sem gilt hafa hingað til“, en á að vera: „enda hafi fyrning eigi fullnazt fyrr ettir lögum þeim, sem gilt hafa hingað til.“ Orðinu „en“ er þarna ofaukið og gefur skakka meiningu. N. hefur þó ekki þótt ástæða til að gera formlega brtt. um þetta, þar sem hér er um augljósa prentvillu að ræða.

Þá vil ég benda á, að í 6. gr. frv. hefur orðið línubrengl. Þriðja lina í 2. málsgr. 6. gr. á ekki að vera þar, heldur að verða 2. lína í 3, málsgr. Þetta hef ég bent skrifstofustjóranum á, og er hér um hreina prentvillu að ræða líka.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af nefnd, sem Norðurlandaþjóðirnar hafa skipað frá því rétt eftir aldamót til þess að samræma löggjöf hjá sér á sviði kröfuréttarins. Sams konar n. hefur unnið hjá þeim til að samræma lög á sviðum sifjaréttarins. Hefur mjög verið vandað til þess starfs, og eru menn sammála um það yfirleitt, að nefndir þessar láti ekki fara frá sér annað en þaulhugsaðar till., sem þörf er á, enda eiga sæti í þeim sérstakir kunnáttumenn á hverju sviði frá fjórum Norðurlöndum.

Frv. nefndanna, sem er hér um bil að öllu leyti samhljóða því frv., sem hér er til umr., er orðið að lögum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en mér er ókunnugt um, hvort það er orðið að lögum í Finnlandi enn þá.

Ísland hefur notið góðs af þessu samstarfi, þó að það hafi ekki tekið beinan þátt í því, og hafa þó nokkur lög af þessum uppruna verið sett hér á landi, svo sem lögin um lausafjárkaup, nr. 39 19. júní 192'2, lögin um samningsgerð, tilboð og ógilda löggerninga, nr. 7 frá 1936, og ýmis lög á sviði sifjaréttarins.

Frv., sem hér liggur fyrir, er undirbúið af bínum færustu mönnum. Ólafur próf. Lárusson hefur þýtt það mjög nákvæmlega og víkið því við, eftir því sem þörf var á, og það hefur verið yfirlesið af Guðmundi K. Guðmundssyni vátryggingarfræðingi. Yfirleitt hefur frv. ekki verið breytt frá því, sem lögin eru á hinum Norðurlöndunum, sem neinu nemur, að öðru leyti en því, að í 29. gr. frv. er breytt ákvæðum um fyrningarfresti í samræmi við íslenzka löggjöf. Sum af þeim vátryggingarfélögum, sem málið hefur verið borið undir, hefðu óskað þess fremur, að frestirnir hefðu verið látnir vera nokkru styttri, eins og er í dönsku lögunum, sem aðallega hafa verið höfð til hliðsjónar, en það atriði hefur ekki þótt svo mikils virði, að ástæða væri til þess að mynda þar ósamræmi við íslenzkar réttarreglur, sérstaklega þegar það er athugað, að auðvitað er vátryggingartaka og vátryggðum til hags, að fyrningarfrestirnir séu frekar lengri en skemmri, en það er einmitt þeirra hagur, sem löggjöfin ber meira fyrir brjósti í þessari vátryggingarlöggjöf, sem hér er lögð fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en leyfi mér sem frsm. nefndarinnar að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt, með þeim fyrirvara um prentvillur, sem ég hef tekið fram.