12.02.1954
Neðri deild: 46. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég tel, að það sé dálítið sérkennilegt, að hæstv. ríkisstj., sem gerði um það snemma á s.l. hausti samning með sér, að ný skipun ætti að taka við að því ar snerti öll mál Keflavíkurflugvallar, skyldi ekki koma því í verk að móta það áform sitt með lagasetningu á þeim haustmánuðum, sem Alþingi starfaði. Ég lít því svo á, að hæstv. stjórn hafi þótt viðkunnanlegra að fara með þetta mál svona hálfgildings í felur, þegar Alþingi sæti ekki að störfum, og svo er aðeins leitað til þingsins að staðfesta þau brbl., þegar það kemur saman aftur. Vita allir, að þingmenn eru miklu bundnari um afstöðu sína, þegar mál ber þannig að. Það er í raun og veru ekki hægt annað en að staðfesta slík brbl., nema því aðeins að menn séu ráðnir í því að fella þá stjórn, sem setti þau.

Ég vil þá næst láta það álit mitt í ljós, að ég tel nú, að orðalag 1. gr. sé að sumu leyti nokkuð óvenjulegt. Í fyrsta lagi er ekki annað að sjá en hæstv. ríkisstj. sé að setja þarna lög, sem séu ótímabundin og ekki miðuð við það óvenjulega ástand, sem nú ríkir á Keflavíkurflugvelli, og reikni með, að þetta skuli vera lagasetning, sem gildi til frambúðar, jafnvel þó að breyting kynni - sem vonandi er —– að verða á því, að Keflavíkurflugvöllur væri herstöð. Ég hefði viljað vænta þess, að í 1. gr. sæjust einhver merki þess af orðalaginu, að á Keflavíkurflugvelli skyldi vera lögreglustjóri, meðan Keflavíkurflugvöllur væri erlend herstöð. En það er engin slík tímatakmörkun í greininni, og virðist þarna vera verið að setja lög, sem eigi að gilda áfram, þó að þetta óvenjulega ástand hætti að vera ríkjandi. Þá fæ ég ekki betur séð en að 1. gr. gefi tiletni til að álykta, að á Reykjanesi séu samningssvæði, sem sum séu eigu íslenzka ríkisins, en önnur séu ekki eign íslenzka ríkisins, því að 1. málsgr. endar á takmarkandi tilvísunarsetningu, sem gefur þetta í skyn. Í 1. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Umdæmi Keflavíkurflugvallar miðast við samningssvæði þau á Reykjanesi, sem varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951 tekur til og eru eign ríkisins.“ Virðist það benda til þess, að þetta umdæmi eigi ekki að ná til þeirra samningssvæða á Reykjanesskaga, sem ekki séu eign ríkisins. Eru slík samningssvæði til? Eru þau ekki öll eign ríkisins? Eða er þetta bara hortittur, sem þarna hefur slæðzt aftan í og alls ekki hefur neitt erindi í lagagreinina?

Ég tek og undir það, sem hér kom fram áðan í umræðunum, að það er dálítið sérkennilegt að búa til lögreglustjóraembætti yfir hluta úr ýmsum sveitarfélögum á Íslandi, án þess að sveitarfélagamörkunum sé þá breytt og gerð nýskipun á því máli að öllu leyti. Hreppsstjórar í hverjum hreppnum um sig fara, að því er ég bezt veit, að íslenzkum lögum með nokkurt brot af lögreglustjóravaldi í sinn hreppsfélagi, innan allra þess takmarka, en hér er sá óvenjulegi háttur á, að lögreglustjóri er settur yfir hluta úr mörgum sveitarfélögum, og eins og einnig hefur komið hér fram í umræðunum, er það líklegast alveg nýtt í íslenzkri löggjöf, að dómsmál heyri undir utanrrh., að samgöngumál heyri undir utanrrh., að póst- og símamál heyri undir utanrrh. og þar fram eftir götunum, en ekki undir þau viðkomandi íslenzk ráðuneyti, sem slík mál í öllum öðrum sveitarfélögum landsins heyra undir.

Þá er það eitt atriði, sem gerði að verkum, að ég taldi rétt að taka hér til máls, og það voru orð í framsöguræðu hæstv. utanrrh., sem voru á þá leið, að sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hefði talið þessi störf ofviða embættinu og hefði óskað eftir þessum breytingum á embætti hans. Mér kom þetta dálítið undarlega fyrir, að þessi lagasetning væri bókstaflega sett að ósk sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, af því að hann hafi talið þessi störf ofviða embættinu, eins og hæstv. ráðh. sagði. Mér er kunnugt um það, að sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu mun hafa tjáð utanrrh., að þau störf, sem hefðu hlaðizt á fulltrúann á Keflavíkurflugvelli, væru það umfangsmikil, að þar þyrfti aukna starfskrafta, en hann mun vissulega hafa látið þá skoðun jafnframt í ljós, að það væri ráðherrann sjálfur, sem réði fram úr því vitanlega, með hvaða hætti þarna væri séð fyrir nægilegum starfskröftum til þess að inna þau aðkallandi verk af hendi, sem þar kölluðu að. En ég hef bókstaflega umboð til þess að mótmæla því, að þessi lagasetning sé framkölluð að ósk sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu eða hann hafi nein afskipti haft af því, hvernig þessi mál yrðu leyst og séð fyrir nægum starfskröftum til þess að inna þau af hendi.

Í seinni ræðu hæstv. ráðh. kom það og fram sem svar við fsp. frá hv. 2. þm. Reykv., að undirnefnd utanrmn. hefði verið látin fylgjast með þessum málum. Ég vil nú segja, að svo mikið sem ég veit um þau mál, þá verður þetta nú að teljast ofmælt. Mér er ekki kunnugt um, að utanrmn. eða undirnefnd utanrmn. hafi fengið neitt að vita um, þegar hæstv. utanrrh. sendi sína fyrstu nótu til Bandaríkjanna, hvorki fengið að vita um, að hún hefði verið send, né um etni hennar, innihald eða orðalag. Mér er nær að halda, að það hafi verið margar vikur — mjög margar vikur — eftir að nótan var send, þangað til utanrmn. fékk um þetta að vita. Það mun og hafa komið svar við þessari nótu. Mér er ekki heldur kunnugt um, að þá hafi utanrmn. fengið neitt um það að vita né undirnefnd, hvernig það svar hafi verið. Og þeirri nótu mun hafa verið svarað á ný án samráðs við utanrmn. Þetta kalla ég ekki að gefa utanrmn. kost á að fylgjast með málinu. Það er fyrst eftir að fulltrúi Alþfl. í undirnefnd utanrmn. hefur skrifað nokkur ákveðin og harðorð bréf, bæði til formanns undirnefndar utanrmn. og hæstv. utanrrh., að kallaður er saman einn einasti fundur í undirnefndinni, og þá eru gögnin lögð að vísu fram, en síðan hefur ekkert verið gert í þeim málum að gefa utanrmn. eða undirnefnd hennar kost á að fylgjast með málunum eða vita neitt, hvað gengi eða ræki í samningunum, þar til hæstv. ráðh. segir nú hér í þingsalnum, að samningarnir gangi að sumu leyti betur en hann hafi þorað að gera sér vonir um og sé að vísu langt frá því að vera lokið, en það sé nú einhver annar gangur á þeim heldur en á samningagerðinni í Berlín, hvar ekkert hefur gengið.

Ég tel, að hæstv. ráðh. hafi í þessum tveimur atriðum ofmælt nokkuð, og vænti þess, að hann geri þá nánari grein fyrir því, ef hann telur, að ég fari með rangt mál um þessi tvö meginatriði.