26.10.1953
Efri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. réttilega tók fram, þá er fjhn. öll sammála um að mæla með þessu frv., enda þótt n. — ég ætla öll — sé á sama máli og hv. frsm. um, að það sé ákaflega varhugaverð leið, sem hæstv. ríkisstj. hefur farið inn á með því að veita sjálfri sér heimild með brbl. til þess að takast á hendur mjög verulegar fjárhagsskuldbindingar. En skeð er skeð, og n. er sammála um að mæla með, að þessar gerðir hæstv. ríkisstj. verði samþykktar.

Eins og nál. ber með sér, hef ég áskilið mér rétt til að bera fram brtt. við frv. Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að. þar var ekki um að ræða breytingu á efni þeirra greina, sem í frv. eru, heldur um viðauka við það, þess efnis, að ríkisstj. væri heimilað að gera hliðstæðar ráðstafanir til stuðnings einu bæjarfélagi í viðbót, sem einnig er lítið og févana, eins og frsm. orðaði það, ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að atvinnutæki yrðu flutt þaðan í burtu. Ég drap hér á við 1. umr., hvernig ástandið vær í á Ísafirði, og sé ekki ástæðu til að endurtaka það nú.

Er ég leitaði eftir því hjá hv. meðnm. mínum, hvernig þeir tækju undir það að bæta við ákvæði um ábyrgðarheimild fyrir Ísafjörð til þess að afstýra því, að bátar yrðu seldir burt úr bænum, tjáðu þeir mér, að þar sem þetta frv. væri eingöngu bundið við togaraútgerð bæjarfélaga, þá treystu þeir sér ekki til að verða með flutningi slíkrar till. Ég tel því þýðingarlaust að bera fram till. um þetta efni nú í sambandi við þetta frv., en mun athuga, hvort ekki er hægt að taka málið upp á annan veg, áður en þingi lýkur, ef tilmæli koma um það, sem mér þykir sennilegt.

Út af samningnum milli Siglufjarðarkaupstaðar og ríkisstj. eða stjórnar síldarverksmiðjanna um framkvæmdastjórn togaraútgerðarinnar skal ég taka það fram, að ég hef aldrei borið brigður á það, að formlega væri togaraútgerðin rekin á ábyrgð og fyrir reikning Siglufjarðarkaupstaðar. Það hef ég aldrei efazt um, svo að það eru engar nýjar upplýsingar fyrir mig, sem stendur í þessum samningi. Hins vegar lét ég þau orð falla hér við 1. umr., að ég héldi, að það gæti orðið ákaflega örðugt í framkvæmdinni að halda þeim reikningum svo fullkomlega aðskildum frá reikningum síldarverksmiðjanna, að ekki gæti þar orðið um millifærslur að ræða. Og eins og fjárhag Siglufjarðarkaupstaðar nú er komið, — það er bezt að segja eins og er, — þá er ábyrgð kaupstaðarins ekki mikils virði; það hygg ég að hv. frsm. sé ekki í neinum vafa um. Spurningin er sú, hvort unnt er að halda þessu fyrirtæki gangandi, án þess að það þurfi í bili — út á væntanlega sölu afurða og annað þess háttar — að skjóta þar inn einhverju rekstrarfé, og hef ég ekki fengið neinar sannanir fyrir því, að til þess geti ekki komið, annaðhvort með beinu fjárframlagi eða þá vegna þess trausts, sem lánardrottnar ef til vill bera til þess manns, sem stjórnar nú fyrirtækinu ásamt síldarverksmiðjum ríkisins. Reynslan mun skera úr um það.