16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hafði svarað að nokkru leyti ýmsum athugasemdum, sem ég hafði gert við þetta frv., og enn fremur komið nokkuð inn á þá samninga, sem nú standa yfir.

Það er þá í fyrsta lagi viðvíkjandi fyrirmælum frv. í 1. gr., 2. málsl., um umdæmi Keflavíkurflugvallar og við hvað það miðast.

Ég gerði fyrirspurn um samningssvæðin, hvað þau væru mörg og hvernig þessi takmörkun á þeim væri, sem miðaðist við eign ríkisins. Hæstv. ráðh. svaraði, að þessi svæði mundu vera Keflavíkurflugvöllur og radarstöðin í Sandgerði, — og ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki verið alveg viss í því sjálfur, hvort loftskeytastöðin hjá Grindavík væri þarna með í.

Nú vil ég strax segja það, að ef það er ekki einu sinni ákveðið enn þá, þannig að hæstv. ríkisstj. sé viss í því, þegar hún gefur út þessi brbl., hver þessi samningssvæði eru, hvernig er þá orðið viðhorfið fyrir almenning og fyrir þá embættismenn, sem þetta eiga að framkvæma? Hingað til hefur það verið svo, að þegar sérstök umdæmi hafa verið sköpuð, þar sem sérstakur lögreglustjóri, dómari og önnur yfirvöld eru, hvort þau eru í einni persónu sameinuð eða fleiri, þá hefur verið reynt að hafa þetta sem mest samhangandi svæði, þótt að vísu séu til í því undantekningar. Nú t.d. held ég, að radarstöðin við Sandgerði nái ekki saman við það svæði, sem tilheyrir Keflavíkurflugvelli. Þarna liggur vegurinn til Sandgerðis á milli, ef ég þekki rétt. M.ö.o.: Það eru strax sköpuð þarna tvö umdæmi, sem eiga að heyra undir þennan lögreglustjóra, og þarna á millí liggur svo annað umdæmi, sem heyrir undir annan lögreglustjóra og eins og lögin nú bera með sér líka undir annan ráðherra. Enn fremur er sem sé ekki alveg víst enn þá, hvort loftskeytastöðin við Grindavík eigi að heyra þarna undir.

Ég verð að segja, að það var strax slæmt í upphafi, þegar var verið að setja þessi lög, sem ákváðu lagagildi hernámssamningsins. Þá ræddi ég um þetta hér í þinginu, hver samningssvæðin væru, hvernig ætti að auðkenna þau, hvernig ætti að auglýsa um þau, og það hefur aldrei verið gert neitt af slíku. Þessi samningssvæði eru ótilkynnt enn þá. Og nú, þegar talað er um samningssvæði í ákveðnum lögum á ákveðnu svæði, þá er meira að segja ekki hæstv. ríkisstj. sjálfri ljóst enn sem komið er, hver þessi samningssvæði eru.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að þessi 1. gr. laganna og lögin sjálf væru sett til þess að framkvæma forsetaúrskurðinn og þau væru í samræmi við hann.

Ég verð að segja það, að ég hef alltaf litið á þennan forsetaúrskurð, frá því er ég sá hann fyrst, sem hreint vandræðafálm, og þessa verkaskiptingu alla illframkvæmanlega, ef ekki óframkvæmanlega, án þess að vandræði hlytust af. Og ég held, að það komi til með að sýna sig.

Hingað til hefur það verið svo, þegar ákveðið hefur verið um lögreglustjóra á Íslandi, að þeir hafa þá verið í fyrsta lagi í kaupstöðunum á Íslandi. Í öðru lagi hefur verið ákveðið, að þeir væru í verzlunarþorpunum, í verzlunarstöðunum, þ.e. löggiltum verzlunarstöðum. Enn fremur er í öllum þeim lögreglusamþykktum og lögum um lögreglusamþykktir, sem til eru, byrjað með því að ákveða, að viðkomandi lögreglustjóri skuli hafa hreppsstjórastörf, svo framarlega sem ekki er um að ræða sérstakt bæjarfélag, sem lögreglustjóri starfar í. Keflavíkurflugvöllur og það svæði, sem hann er á, hefur hingað til heyrt undir þrjá hreppsstjóra að því er ég bezt veit, og náttúrlega er það út af fyrir sig ákaflega kjánalegt fyrirkomulag. En hins vegar er hér ekki einu sinni ákveðinn til að byrja með nokkur skapaður hlutur viðvíkjandi slíku, viðvíkjandi þeirri verkaskiptingu, sem þarna er. M.ö.o.: Sjálf aðferðin við ákvæðin um skipun lögreglustjórans og starfssvið hans brýtur í bága við alla þá venju, sem verið hefur hingað til um slíka embættismenn hjá íslenzka ríkinu. Ég held, að það sé alveg einstakt að taka hluta úr þrem hreppum og setja þar yfir sérstakan lögreglustjóra.

Þá — og það er nú miklu alvarlegra mál –ræddi hæstv. utanrrh. um og staðfesti það, sem ég þar um sagði, að það mundi vera meiningin með 2. gr., að þessi lögreglustjóri hefði á hendi dómarastörf, lögreglustjórn, innheimtu á sköttum og tollum og eftir því sem við getur átt önnur störf. En svo fórum við að telja upp í sameiningu. Við ræddum um dómsmálin. Ég spurði um eftirlit með gjaldeyrinum. Við ræddum um síma- og gjaldeyrismálin. Og hæstv. ráðh. sagði yfirleitt öll mál, vegna þess að þarna virtust svo að segja öll mál heyra undir einhver afskipti við varnarliðið og öll þessi mál ættu að heyra undir þetta sérstaka ráðuneyti. Hæstv. ráðh. orðaði það sjálfur svo, að m.ö.o. væri hann sem utanrrh. sem sé dómsmrh. á Keflavíkurflugveili eða á þessum samningssvæðum, — nú, og mér virðist hann þá vera fjmrh. á Keflavíkurflugvelli og þessum samningssvæðum, þar sem lögreglustjórinn þar, sem á að sjá um innheimtu og allt mögulegt annað slíkt, heyrir undir hann sem fjmrh. á Keflavíkurflugvelli, - og hann verður líklega póst- og símamálaráðh. á Keflavíkurflugvelli eða jafnvel heilbrmrh., — Ég veit ekki hvað mikið yfirleitt. Ef eitthvað kemur fyrir í heilbrigðismálum, eins og stundum hefur borið við hjá þeim þar á Keflavíkurflugveili, þá mundi það líklega heyra undir hann sem viðskipti við varnarliðið, og ég býst þess vegna við, að hann mundi þá vera heilbrigðismálaráðherra á Keflavíkurflugveili líka. En hvað þýðir þetta? Það þýðir með öðrum orðum, að dómsmál á Keflavíkurflugvelli, fjármál á Keflavíkurflugvelli, svo og svo mörg mál eru tekin út úr hinni venjulegu ríkisheild og sett undir sérstakt ráðuneyti, þannig að hér eftir verður einn dómsmrh. fyrir Ísland, annar dómsmrh. fyrir Keflavíkurflugvöll, einn heilbrmrh. fyrir Ísland, annar heilbrmrh. fyrir Keflavíkurflugvöll. Og þessi dómsmrh. fyrir Keflavíkurflugvöll, heilbrmrh. fyrir Keflavíkurflugvöll, fjmrh. fyrir Keflavíkurflugvöll á að vera utanrrh. Ísands. Með öðrum orðum: Öll stefnan í þessari lagasetningu er sú að setja þennan part af Íslandi út úr ríkinu, gera það skyldast utanríkismálum að hafa með þennan hlut að gera. Það hlýtur hver aðili að sjá, hvert stefnt er með þessu. Það er stefnt með þessu að því, þó að það sé náttúrlega ekki nema byrjunarsporið, að líma þessi svæði út úr íslenzkri ríkisheild. Og nú vil ég segja það við hæstv. utanrrh., þó að hann treysti sér sjálfur til þess að standa í þessu og þó að margir treysti honum til þess, þá býst ég við, að hvorki hann né aðrir gangi út frá því, að hann verði til eilífðar utanrrh. á Íslandi, og það geta komið lakari menn en hann í þetta embætti, sem hafa þá aðstöðu til þess að framkvæma þetta með miklu verri hætti en hann hefur hugsað sér. Við verðum þess vegna að ræða þá stefnu, sem hér er tekin, án tillits til þess, hvernig kann að hátta í stjórnmálum Íslands í augnablikinu núna. Við verðum að ræða þessa stefnu jafnt út frá því sjónarmiði, að t.d. Sjálfstfl. hafi hreinan meiri hl. hér á Alþ. og þessi stefna þyki hentug upp á framkvæmd á íslenzkri löggjöf undir slíkum kringumstæðum.

Með öðrum orðum: Ég álít stórhættulega stefnu, sem þarna hefur verið tekin upp, að fara að líma ákveðin svæði á Íslandi undan venjulegum íslenzkum ráðuneytum og setja þessi sérstöku svæði á Íslandi undir sérstakan ráðh., sem þar að auki skuli vera utanrrh. Ég veit, hvernig á þessu stendur. Það stendur þannig á þessu, að óánægjan með framkvæmd ríkisstj. á öllum þeim málum, sem snerta Keflavíkurflugvöll og yfirleitt hernámsmálin, var orðin svo mikil, að stjórnarflokkarnir sáu sér ekki annað fært en að reyna að gera þarna einhverjar breytingar á. En stjórnarflokkarnir hafa bara tekið alveg skakka stefnu við þessar breytingar. Þeir hafa haldið, að það væri nóg að breyta um rn. í þessum málum, þegar það, sem þurfti að gera, var að breyta um pólitík í þessu máli, breyta um stefnu. Þess vegna verður sú tilraun, sem gerð er með þessari lagasetningu, að mínu áliti, að setja breytingu á rn. og svona skiptingu í staðinn fyrir breyt. á pólitík, — hún verður bara til bölvunar. Hún verður spor í þá áttina að lima þessi svæði út úr Íslandi, út úr þeirri almennu íslenzku ríkisheild.

Þá minntist hæstv. utanrrh. nokkuð á þá samninga, sem nú standa yfir, og mér þótti vænt um, að hann tók vel þeim tilmælum, sem fram komu um að láta Alþ. fylgjast með þessum málum, enda býst ég við, að það verði svo bezt nokkur árangur í þeim, að það verði gert. Hæstv. utanrrh. sagði, að sér virtist þetta nú ganga eiginlega betur en hann hefði búizt við. Mér skildist nú eiginlega á honum, að hann hefði ekki búizt við neinu góðu. Það kemur kannske sumpart af því, að það er náttúrlega ekki við góðu að búast, eins og praksísinn hefur verið í þessum málum undanfarið. Og af því að hæstv. ráðh. minntist nú á samninga í Berlín í því sambandi, þá vil ég minna hann á, að við Íslendingar stöndum dálítið öðruvísi að vígi, þegar við erum að semja, heldur en þeir aðilar, sem eigast við í Berlin. Við Íslendingar höfum þarna öll völd og ráðum þarna öllu, og þarna er ekkert hægt að gera nema með okkar samþykki. Við getum tilkynnt Bandaríkjamönnum hvaða dag sem er: Nú segjum við þessum samningi upp, góðir hálsar. — Og ef það er álit ríkisstjórnarinnar, að hún vilji heldur fá eitthvað fram nú, þá getur hún bætt við: ef þið ekki gangið inn á þetta.

Bandaríkjamenn vita það ósköp vel, að þeir eru hér eingöngu vegna sinna eigin hagsmuna, og þeim er sjálfum alveg ljóst, hvað sem þeir segja, að þeir eiga allt undir Íslendinga að sækja, þannig að Íslendingar og þá einmitt hæstv. utanrrh. hefur aðstöðu til að diktera Bandaríkjamönnum hvað sem vera skal í sambandi við Keflavíkurflugvöll, enda veit ég það, að hvaða krafa sem til þeirra er gerð, — ég tala nú ekki um þessar smáu kröfur, sem Framsfl. hefur lýst yfir að hann muni gera, — hver einasta af þessum kröfum er þannig, að Bandaríkjamenn mundu gleypa við henni sama daginn, ef þeim væri tilkynnt, að svo framarlega sem þeir ekki gerðu það, yrði samningnum sagt upp daginn eftir. Það er þess vegna enginn vandi að semja, þegar menn standa í svona samningsaðstöðu.

Víðvíkjandi hins vegar bæði þessu frv. og þeim samningum, sem fram fara, þá vil ég vekja athygli á þeirri hættu, og ef til vill kemur það til umr. líka í þessum samningum og liggur að nokkru leyti hætta á slíku í þessu frv., að þetta verði teygt út yfir fleiri samningssvæði. Við vitum, að Bandaríkjamenn eru að koma sér upp herstöð, radarstöð, hjá Horni í Hornafirði, á Langanesi, á Vestfjörðum í Aðalvík, og það er viðbúið, ef gengið er inn á þetta frv., sem hér liggur fyrir, að þess verði ekki langt að bíða, að þess verði líka krafizt, að utanrrh. verði dómsmrh. fyrir ákveðið svæði hjá Höfn í Hornafirði og ákveðið svæði á Langanesi og annað slíkt, og smám saman verði öll þessi samningssvæði eins og sérstakar herstöðvar settar út úr þeirri almennu íslenzku ríkisheild og settar undir sérstakan ráðherra, sem sé dómsmála-, utanríkisráðherra og annað slíkt. Og ég vildi aðeins setja fram þá fyrirspurn í sambandi við þetta frv.: Álítur hæstv. ráðh. ekki, að slík þróun sé vel hugsanleg? Eða er það sem stendur hugmyndin hjá ríkisstj., að það komi aldrei til mála, að þessi breyting, sem þarna er gerð, verði teygð út yfir önnur svæði, við skulum segja t.d. Hvalfjörð? Ég vil um leið bera fram þá fyrirspurn, af því að ég fékk henni ekki svarað seinast, hvort Hvalfjörðurinn teljist — eða partur af honum — á þeim samningssvæðum, sem nú er talað um í hernámssamningnum, eða hvernig geti annars staðið á því, að amerískir hermenn leyfi sér að fara með lögregluvald á bryggjum. í Hvalfirði og landi þar og reka Íslendinga þar burt.

Þá er enn fremur eitt atriði, sem ég vil vekja athygli hæstv. ráðh. á og ég hef raunar áður vakið athygli hér á í þinginu, og það er um eina tegund af þeim lögbrotum, sem fram fara á Keflavíkurflugvelli, eina tegund af þeim lögbrotum, sem beinlínis eru brot á sjálfum hernámssamningnum. Í 2. gr. viðbætisins um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna er ákveðið í b-liðnum, að liði Bandaríkjanna og skylduliði liðsmanna á Íslandi beri að virða íslenzk lög og hafast ekkert að, sem fer í bága við anda þessa samnings, og einkum skuli þeir forðast að hafa nokkur afskipti af íslenzkum stjórnmálum.

Þessi lög hafa verið brotin. Bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvelli hafa haft þau frekustu afskipti af íslenzkum stjórnmálum, sem hægt er að hugsa sér. Bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvelli og þeirra fulltrúar hafa verið látnir yfirheyra Íslendinga, ekki aðeins um alla ætt þeirra, skyldfólk og allt annað slíkt, heldur líka um þeirra pólitísku skoðanir. Og þetta hefur gengið það langt, að mönnum hefur af hálfu Bandaríkjanna verið víkið úr starfi á Keflavíkurflugvelli og það bréflega með tilvitnun í amerísk lög. Það var kona, sem vikið var úr starfi fyrir það, að hennar maður væri meðlimur í ákveðnum félagsskap á Íslandi, og þetta var tilgreint með tilvísun í amerísk lög. Ég hef áður kært yfir þessu hér í þinginu, og það hefur áður verið kært yfir þessu, og hefur aldrei fengizt neitt í því gert. M.ö.o.: Það er til staðfesting frá hálfu Bandaríkjanna sjálfra, undirskrifað skjal, og það hefur verið birt í Þjóðviljanum mynd af því skjali, þar sem ákveðinn amerískur fulltrúi rekur Íslending úr starfi með tilvitnun í amerísk lög vegna stjórnmálaskoðana manns viðkomandi konu. Það hefur ekkert verið aðhafzt í öllum þessum skoðanaofsóknum, sem fram fara á Keflavíkurflugvelli. Þar hefur hver maður á fætur öðrum verið rekinn fyrir að koma fram eins og Íslendingur, fyrir að leyfa sér að hafa sjálfstæðar skoðanir, og vegna þess að ekkert hefur verið aðhafzt í þessum efnum, þessum lögbrotum, sem þarna hafa verið gerð, þá hafa Bandaríkjamenn fært sig upp á skaftið. Nú er byrjað á því að framkvæma amerísk lög gagnvart íslenzkum sjómönnum. Einhver óþverralegustu lög, sem samþykkt hafa verið í Ameríku, hrein fasistísk lög, eru framkvæmd gagnvart íslenzkum sjómönnum, þannig að til þess að fá að fara á íslenzkum skipum til Ameríku, þá þurfa menn að gefa alls konar upplýsingar, m.a. um sínar stjórnmálaskoðanir, og láta taka af sér myndir og fingraför og annað slíkt. Menn eru m.ö.o. meðhöndlaðir hér á Íslandi eins og landið væri nú þegar innlimað í Bandaríkin og heyrði undir amerísk lög, og þetta viðgengst án þess, að stjórnarvöldin geri nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum. Ég verð að segja, að þessar skoðanaofsóknir, þessi afskipti af íslenzkum stjórnmálum, sem Bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvelli og þeirra sendiráð hér í Reykjavík leyfa sér, er slík ósvinna, að ríkisstj. ætti fyrir löngu að vera búin að taka fyrir slíkt. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra, hvort þessi mál og þau lagabrot, sem Bandaríkjamenn hafa þegar haft í frammi í þessu efni, hafi komið til umræðu í þeim samningum, sem fram hafa farið. Það er áreiðanlega ekki vanþörf á slíku.

Ég skil vel, að það er mjög erfið aðstaða fyrir þá menn, sem nú hafa tekið við utanríkismálum, að standa í samningum um þessi mál, á meðan þeirra flokkar halda enn þá fast í þá vitleysu, sem þeir gerðu 1951, að gan;a inn á þennan samning við Bandaríkin. Ég veit, að út úr öllum slíkum samningstilraunum mun alltaf koma nýtt og nýtt klúður og halda áfram ný og ný vandræði, og ég sé líka, að stjórnarflokkarnir eru byrjaðir á sama skrípaleiknum í þessum efnam eins og átti sér stað fyrir síðustu kosningar. Þá hafði Sjálfstfl. með þessi mál að gera, og Framsfl. lét sem allar þær slæmu afleiðingar af hernámssamningnum væru bara út af lélegri framkvæmd samningsins í höndum Sjálfstfl. Núna er það það fyrsta, sem gerist í sambandi við samningana um þessi mál, þegar nýr maður tekur við utanríkismálunum, að sá aðili, sem áður hafði haft alla forustu af hálfu ríkisstj. í utanríkismálum og ráðið þar meiru um en nokkur annar Íslendingur, núverandi hæstv. dómsmrh., tilkynnir: Ég kem ekki nærri þessu, — og fer af landi burt og í þetta skipti, aldrei þessu vant, ekki vestur á bóginn, heldur austur á bóginn. M.ö.o.: Sjálfstæðisfl. segir sem svo: Ja, ég varð mér til skammar fyrir mína framkvæmd á hernámssamningnum, og Framsfl. sagði sjálfur, að ég hefði orðið mér til skammar. Nú skal ég lofa Framsfl. að verða sér til skammar og koma hvergi nærri í sambandi við þessa samninga. — M.ö.o.: Þegar hagsmunir Íslands eru þarna í veði, þá er byrjaður skrípaleikur, togstreita á milli stjórnarflokkanna um að ýta af sér. Sjálfstfl. veit ósköp vel, að meðan ameríska herliðið er hér á Íslandi, þá verður það hverjum manni til skammar og bölvunar að koma nærri samningum við það lið. Þess vegna segir Sjálfstfl. nú og hans aðalforustumenn: Ég kem ekki nærri þessu. Hafi Framsókn alla skömmina af því, hvernig framkvæmdirnar verða á næstu árum. — Þetta er hugsunarhátturinn, alveg greinilegur. Er það nú heppilegt, að svona sé ástandið og svona sé búið að, að þessi mynd af kærleiksheimili stjórnarflokkanna ráði því, hvernig með þessa samninga tekst? Ég held þess vegna, meðan núverandi stjórnarflokkar eða annar þeirra ekki hverfur að því eina, sem vit er í í þessum efnum, að segja samningnum upp og láta ameríska herliðið fara burt af Íslandi, þá verði alltaf vandræði og ógæfa, sem út af þessum samningum kemur. En þó held ég, að hún yrði því minni og frekar þó einhver af vandræðunum leyst, ef sá ráðherra, sem í hvert skipti fjallar um þessi mál, hefur samráð við þingið, hefur þingið að bakhjarli og notar sér kröfur, sem uppi eru hjá þjóðinni og fulltrúa eiga hér á Alþingi um, að hart sé gengið að í samningum við Bandaríkin, svo lengi sem þau eru ekki alveg látin hverfa héðan burt.