16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð til skýringa um samningssvæðin þarna suður frá. Þau verða auðkennd þannig, að þau verða afgirt og takmörkuð umferð um þau. A.m.k. er það tilætlunin, að umferð verði takmörkuð um þessi svæði til þess að draga úr samneyti Íslendinga og þeirra, sem á þeim búa. Það er eitt af stefnuskráratriðum stjórnarinnar — og framsóknarmanna sérstaklega — að aðgreina svæðin þannig, að Íslendingar og erlendir hermenn og verkamenn búi þar ekki í samblandi.

Þótt hv. 2 þm. Reykv. finnist það takmörkun á frelsi Íslendinga, að radarstöðvarnar verði lokaðar, þ.e.a.s. Íslendingum verði ekki heimilað að vera inni á svæðum, sem afmörkuð verða handa þeim, þá er takmörkunin ekki gerð aðallega til þess, að Íslendingar fari ekki inn á svæðin, heldur vegna þess, að það er ekki ætlazt til þess, að þeir erlendu menn, sem á þessum svæðum búa, vaði um landið hindrunarlaust. Það má líta á þetta mál frá tveim hliðum. Sumir mundu ef til vill heldur kjósa, að svæðin væru algerlega opin og óhindraður gangur á milli hinna erlendu manna og Íslendinga, og þá þyrfti engin mörk að hafa og engar girðingar. En ég hygg, að meiri hluti þjóðarinnar vilji hafa einhverjar hömlur. Það er venja, þar sem hermenn dvelja, að hafðar eru einhverjar hömlur, eitthvert „kontrol“ á ferðum þeirra um landið. Og það er sama, þó að herstöðvarnar séu í þeirra eigin landi, að þær eru afgirtar.

Þar sem erlendar herstöðvar eru, er til sú leið að hafa þær algerlega lokaðar, og þá þarf ekki að deila um valdssvið innlends lögreglustjóra, eins og t.d. í Finnlandi á Porkalasvæðinu. Þar er enginn finnskur lögreglustjóri, því að það er alveg undir rússneskum yfirráðum. Við hefðum vel getað hugsað okkur að hafa Keflavíkursvæðið þannig, að það væri algerlega lokað og enginn Íslendingur færi inn á það, og þá sæju Ameríkanar þar alveg um sín mál sjálfir. En það er ekki hægt að gera hvort tveggja að halda íslenzkum yfirráðarétti yfir landssvæði því, sem útlendingar hafa fengið að nota að nokkrum hluta, og að loka því. Við verðum að skipta okkur af málunum á flugvellinum, og ég verð að segja, að mér finnst það miklu mannlegra og meira þjóðarstolt í því, að við setjum okkar löggæzlumann, sem hefur lögregluvald jafnt yfir Íslendingum sem erlendum mönnum, þó að lögregluvaldið yfir hermönnunum sé að einhverju leyti takmarkað. Amerískir hermenn hafa verið dregnir fyrir lög og dóm hér á landi og orðið að hlíta að öllu leyti íslenzkum lögum. Það falla í hverri viku dómar út af alls konar yfirsjónum og brotum jafnt yfir Ameríkumenn sem Íslendinga.

Hv. 2. þm. Reykv. telur, að utanrrn. sé að sölsa undir sig störf frá hinum ráðuneytunum, en það, sem hann sagði um það, tel ég meir gamanyrði. Ég hef talið það heppilegra að hafa öll mál, er snerta flugvöllinn, á einum stað. Hæstv. dómsmrh. leit þannig á strax þegar forsetaúrskurðurinn var gefinn út, að hann væri ekki lengur dómsmrh. yfir Keflavíkurflugvelli, heldur féllu þau mál undir utanrrn., og þannig hefur það verið framkvæmt síðan í haust, að ákæruvaldið hefur verið hjá utanrrn. eða varnarmáladeildinni, en dómsmrn. hefur afsalað sér því. Engin veruleg breyting hefur orðið hvað hin rn. snertir. Starfssvið þessa lögreglustjóra verður nákvæmlega sama og sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu var áður. Hann fór með dómsmál, og hann fór með innheimtu á sköttum, og hann hafði heilbrigðismál o.fl., sem of langt yrði upp að telja. Á þessu verður engin veruleg breyting. Það eru nákvæmlega sömu störfin, sem lögreglustjórinn hefur, eins og fulltrúi sýslumannsins hafði þar áður.

Ég vildi mælast til þess við hv. d., að framgangur þessa frv. yrði ekki hindraður, því að ég álít, að skipun lögreglustjóra hafi verið bráðnauðsynleg, þó að ég viðurkenni, að aðferðin að setja brbl. um það svo skömmu áður en Alþ. kom saman sé óvenjuleg. En það var gert af nauðsyn til þess að koma málunum fram og eftir því, sem ég álít, í betra horf en var.