23.03.1954
Efri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh., hvort ætlunin sé, að sams konar fyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir eigi einnig að ná til radarstöðvanna úti á landi. Eins og kunnugt er, þá er ver ið að byggja radarstöðvar úti um land, og ég veit ekki fyrir víst, hve margt lið kemur til þess að vera þar, en ef það er ekki ætlunin, að hér sé sama fyrirkomulag, þá er augljóst mál, að bæði löggæzla og dómsstörf þessara mála verður tvískipt. Ég teldi eðlilegast, að þetta heyrði allt undir sama aðila, undir sömu yfirstjórn, bæði á Keflavíkurflugvelli og eins úti um land. Þá vildi ég einnig beina því til hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessar radarstöðvar: Ég fyrir mitt leyti efast ekkert um nauðsyn þess, að sérstök löggæzla og hún öflug sé á Keflavíkurflugvelli; en ég hygg, að það sé ekki síður nauðsyn að hafa aukna löggæzlu úti um land þar sem þessar radarstöðvar eiga að koma, ef þar verður eitthvert lið, og ég vil mjög eindregið beina því til hæstv. ríkisstj., að það verði strax í upphafi séð fyrir þessu. Aukinni löggæzlu á þessum stöðum, því að það geta orðið mikil vandræði að því einmitt í smástöðum úti um land, ef ekki er þar séð fyrir aukinni löggæzlu samhliða því, að þessar stofnanir komi upp. Ég veit ekki, hve margar radarstöðvarnar verða, en verið er að reisa eina nálægt Höfn í Hornafirði, og mér hafa borizt kvartanir þaðan„ að þar séu þegar orðin vandræði vegna þeirra starfa, sem þar er verið að vinna, og beðið um löggæzlu þar. Ég hef skrifað dómsmrn. þessu viðvíkjandi, en vil hér með hreyfa þessu máli til athugunar í sambandi við lausn þessa máls almennt.