23.03.1954
Efri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Breyting sú, sem gerð var með útgáfu þeirra brbl., sem frv. þetta á að vera staðfesting á, virðist mér ekki vera önnur en sú, að fulltrúi sýslumannsins í Gullbringusýslu, sem áður hafði þessi mál með höndum, skal nú gerður að lögreglustjóra og að nú skal hann heyra undir utanrrh., en ekki undir dómsmrh. Þetta er raunar eina breytingin, sem orðið hefur á fyrirkomulagi viðskiptanna við hernámsliðið, síðan núverandi ríkisstjórn tók við. En eins og kunnugt er, lofaði núverandi hæstv. ríkisstj. miklum umbótum í því efni og endurskoðun hernámssamningsins, og það er því alveg sérstakt tilefni til þess að spyrja, hvað þessum samningum líður, sem nú hafa staðið alllengi, og hvort nokkurs árangurs sé að vænta í bráð.

Löggjöf þessi, eða þau brbl., sem farið er fram á að staðfest verði með þessu frv., er nú raunar með alleinkennilegum hætti, eins og raunar flest sú löggjöf, sem snertir hernámið, smán Íslands. Hér er um að ræða brbl., sem sett voru í þinghléi, án þess að nokkur frambærileg rök hafi verið færð fyrir svo óvenjulegri málsmeðferð, því að ég tel það ekki frambærileg rök, að það hafi legið svona óskaplega á, að ekki hafi verið hægt að bíða eftir því, að þingíð kæmi saman, eftir að þetta fyrirkomulag hefur nú staðið allan tímann síðan hernámssamningurinn var gerður.

Þetta nýja lögsagnarumdæmi, sem hér er nú búið til, er líka með ærið óvenjulegum hætti, þar sem það tilheyrir mörgum hreppum og enginn veit um takmörk þess með neinni vissu. Og loks það furðulegasta, ákveðinn hluti af Íslandi er að því er löggæzlu snertir tekinn út úr landinu sjálfu, látinn heyra undir utanrrn. Fátt minnir okkur betur á þá harmsögu, að við höfum látið af hendi hluta af landi okkar undir raunveruleg yfirráð erlends stórveldis, en samkv. því mun það þykja rökrétt, að afskipti okkar af þeim landshluta heyri undir utanrrn.

Því hefur verið haldið fram, að sýslumaðurinn í Gullbringusýslu hafi ekki treyst sér lengur til þess að hafa þessi mál með höndum. Ég hygg, að þetta sé alrangt. Hann hefur aðeins bent á, að hann hefði ekki næga starfskrafta til þess að annast verkefnið, nema þeir starfskraftar, sem hann hefur til umráða, væru auknir, og af þeim ástæðum er vitaskuld engin nauðsyn að stofna nýtt embætti og leggja það undir utanrrn.

Af öllum þessum ástæðum mun ég að sjálfsögðu greiða atkv. gegn slíku frv. sem þessu.