07.10.1953
Neðri deild: 4. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

16. mál, sóttvarnarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. til sóttvarnarlaga hefur verið samið af landlækni. Þetta er alllangur lagabálkur, 45 gr. samtals, en það er breyt. á l. frá 1933. Ýmsar skýringar fylgja þessu frv., þannig að hv. þm. geta sjálfir áttað sig á því, en það þykir rétt að taka fram, að Ísland hefur á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gerzt aðili að hinum alþjóðlega sóttvarnarsamningi, nr. 2 25. maí 1951, en þennan dag var hann samþykktur á 4. þingi stofnunarinnar í Genf. Fyrir þá aðila Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem höfðu ekki tilkynnt fyrirvara innan tiltekins 9 mánaða frests, gekk samningurinn í gildi hinn 1. okt. 1952, og var Ísland í hópi þeirra aðila.

Ákvæði l. nr. 65 19. júní 1933, um varnir gegn því, að næmir sjúkdómar berist til Íslands, en svo heita sóttvarnarlög vor, þau er nú gilda, þóttu ekki vera því til fyrirstöðu, að við gætum í öllum atriðum, er máli skipta, fullnægt ákvæðum hins alþjóðlega sóttvarnarsamnings. Að vísu eru ákvæði l. yfirleitt allmiklu ríkari en heimilt er að beita samkv. samningnum, en hins vegar gert ráð fyrir, að eftir atvikum megi víkja frá ýtrustu fyrirmælum, og muni til þess verða gripið, ef á reynir og til árekstra stefnir við fyrirmæli samningsins. Mest ber á milli um bókstaf laga og samnings varðandi sóttvarnargjöld af skipum og flugförum, en reyndar bitamunur en ekki fjár um hæð gjaldanna til uppjafnaðar.

Hagkvæmt þótti að flýta ekki svo hinni sjálfsögðu endurskoðun sóttvarnarl., að ekki væri unnt að hafa nokkurn stuðning af því, sem í þessu efni gerðist á öðrum Norðurlöndum, sem vér höfum svo lengi átt samleið með um skipun sóttvarnarmála. Danir riðu hér á vaðið og lögðu fyrir landsþing sitt 28. jan. 1953 frv. til nýrra sóttvarnarlaga samkv. ákvæðum hins alþjóðlega sóttvarnarsamnings. Hefur danska heilbrigðisstjórnin sýnt íslenzku heilbrigðisstjórninni þá góðvild að leyfa henni að fylgjast með undirbúningi þessarar lagasetningar, og er frv. þetta mjög sniðið eftir hinu danska frv., en þó samræmt íslenzkum staðháttum og aðstæðum. Hið danska frv. er nú orðið að lögum.

Þá er rétt að geta þess, að frv. hafa haft til umsagnar læknadeild háskólans og stjórn Læknafélags Íslands. Læknadeildin hefur í bréfi, dags. 25. apríl 1953, tjáð sig samþykka frv. og telur það í samræmi við gildandi alþjóðareglur. Stjórn Læknafélagsins gerði í bréfi, dags. 8. júní 1953, ekki aðrar athugasemdir við frv. en þær, að lækni væri tryggð ónóg þóknun fyrir sóttvarnarstörf. Ef svo þætti, ættu ákvæði þar að lútandi þó ekki heima í sóttvarnarl., heldur í hinum opinberu læknagjaldskrám, og má hvenær sem er taka það til athugunar af réttum aðilum.

Eins og hér er tekið fram, hefur verið óhjákvæmilegt fyrir Ísland, úr því að það sagði ekki upp samningnum á tilteknum fresti, að samræma löggjöfina við hinn alþjóðlega sáttmála og er þetta frv. samið algerlega með tilliti til þess. Ég hef átt tal um þetta við landlækni, og hann telur, að þótt þetta frv. verði að lögum, þá muni það ekki leiða til neinna verulegra nýrra útgjalda fyrir ríkissjóð, — að það sé klaufaskapur, eins og hann orðaði það, að framkvæma lögin á þann hátt, að ekki verði mögulegt að fá eins mikið inn og út þarf að borga vegna framkvæmdar laganna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um frv., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og heilbrigðis- og félagsmálanefndar.