01.03.1954
Efri deild: 54. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

93. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Eins og fram er tekið í nál. á þskj. 404, þá hef ég ritað undir það með fyrirvara, og í fyrirvaranum felst það, að ég hef áskilið mér rétt til að bera fram brtt. við frv. núna við þessa umr. málsins.

Í meginatriðum er ég sammála þessu frv. og þeirri stefnu, sem fylgt er við undirbúning þess. Að mestu leyti, hygg ég, að hér sé um að ræða lögfestingu á reglum, sem fylgt hefur verið undanfarin ár, og þær breytingar, sem frá þeim reglum eru gerðar í lögunum, miða yfirleitt helzt þó í þá átt að tryggja réttindi starfsmannanna. Ég tel það vel farið og er ánægður með þá meginstefnu, sem fram kemur í frv.

Eins og hv. frsm. tók fram, þá átti n. viðræður við stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ræddi við þá um brtt., sem þeir höfðu óskað eftir, að gerðar yrðu á frv. Nokkuð af þessum ti1l. hefur n. tekið upp í sínar till., en þó eru tvö eða þrjú atriði, þar sem n. í heild gat ekki fallizt á að verða við tilmælum stjórnar Bandalagsins, og hef ég leyft mér að flytja brtt. um það efni. sem ég ekki hef fengið tíma til að láta prenta, en mun nú leyfa mér að leggja fram skriflega í lok ræðu minnar.

1. brtt., sem hér kemur fram, er við 14. gr., þess efnis, að á eftir orðinu „sama“ í 2. málsgr. bætíst inn: „eða sams konar“. Verður þá þessi málsgr. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef sama eða sams konar staða er aftur stofnuð innan 5 ára, á starfsmaður að öðru jöfnu rétt til hennar.“

Nú stendur í frv.: „Ef sama staða er aftur stofnuð innan 5 ára.“ En ég legg til; að á eftir „sama“ komi orðin „eða sams konar“ til þess að taka af öll tvímæli. Það er jafnan nokkuð erfitt að segja til um það, hvort ný staða, sem er stofnuð, er nákvæmlega sama staðan og sú, sem áður var lögð niður. Það er hægt að stofna sams konar stöðu og veita henni annað nafn, þó að starfssviðið sé í raun og veru alveg það sama. Brtt. er því fram borin í því skyni að taka af öll tvímæli í þessu efni, taka af allan vafa um rétt manna til fyrri stöðu sinnar, ef hún er stofnuð að nýju, þó að það yrði þá undir öðru starfsheiti, ef hlutverkið er hliðstætt eða hið sama og fyrri stöðunnar. Ég álit, að þessi brtt. þurfi ekki frekari skýringar við; það er aðeins til þess að gera lögin ákveðnari í þessu efni og til þess að sá möguleiki sé ekki til að breyta um nafn á stöðu án þess, að stöðunni sjálfri sé breytt.

2. brtt. mín er við 34. gr. 34. gr. fjallar um skyldur starfsmanns til að hlíta breytingum samkvæmt lögum á störfum hans og verkahring frá því, er hann tók við starfi. Ég legg til, að aftan við fyrri málslið gr. bætist: enda hafi breytingin ekki áhrif til skerðingar á launakjörum hans eða réttindum. — Verður þá málsgr. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er starfsmanni að hlíta breytingum lögum samkvæmt á störfum hans og verkahring frá því, er hann tók við starfi, enda hafi breytingin ekki áhrif til skerðingar á launakjörum hans eða réttindum.“ Þetta atriði var allmjög rætt í n., og því var haldið þar fram, að dómar væru fyrir því, að mönnum væri ekki skylt að hlíta slíkum breytingum, ef þeim fylgdi skerðing á kjörum þeirra eða réttindum. Ég hygg, að það sé rétt, að dómur sé til í einstöku máli um þetta efni, en engu að síður tel ég rétt að taka af vafa í þessu efni með því að setja inn skýr ákvæði í lögin sjálf. Sé það skilningur hv. dm., að þetta sé rétt og eðlilegt og mundi fara svona, ef til málssóknar kæmi, þá er bezt að komast hjá því með því að setja ákvæðin beint inn í lögin, svo að ekki þyrfti til málshöfðunar að koma til skýringar á þessu atriði.

Loks er svo sú brtt., sem ég álít að frekast hafi verið meiningarmunur um í hv. allshn., en hún er þess efnis, að á eftir 36. gr. frv. komi ný gr., sem verði svo hljóðandi:

„Starfsmenn, sem við gildistöku laga þessara hafa með samningum eða reglugerðum öðlazt fyllri réttindi á þeim sviðum, sem lög þessi taka til, en í lögunum er ákveðið, skulu halda þeim.“

Þessi till. er einnig flutt að ósk Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og var talsvert rætt um hana í n. Kom þar fram bæði sú skoðun, að þetta væri óeðlilegt, það sem farið er fram á, að þau réttindi og fríðindi, sem búið væri að veita einstökum starfshópum með reglugerðum eða samþykktum, væru látin haldast að breyttum lögunum, þó að þau væru fyllri heldur en í lögunum segir. En öðrum þræði var einnig vísað til niðurlags síðari málsgr. 15. gr. í frv., sem fjallar um skylt efni, og talið, að það tryggði starfsmennina einmitt á þessu sviði, en þessi ákvæði eru samkvæmt brtt. n. á þessa leið, það er 17. brtt., við 15. gr.:

„Ákvæði ráðningarsamnings, sem gerður hefur verið fyrir gildistöku laga þessara, eða sérákvæði í lögum, er öðruvísi kveða á, skulu standa.“

Um þetta er n. sammála, að sérákvæði, þótt lengra gangi, eða ráðningarsamningar, sem gert er fyrir gildistöku laga þessara, skuli standa, þó að lögin séu samþ. Sú skoðun kom einnig fram í n., að með tilliti til þessarar gr. væri óþarft að bæta þessari nýju gr. aftan við 36. gr. Ég er nú sömu skoðunar að verulegu leyti eins og þeir nm., sem héldu því fram, að síðasta málsgr. 15. gr. segi nú til um þetta. En til þess að taka af allan vafa, hygg ég þó, að rétt sé að samþ. brtt. mína við 36. gr., að setja þar inn nýja gr., orðaða eins og þar segir. Þeir, sem eru því fylgjandi eða líta svo á, að brtt. við síðari málsgr. 15. gr. beri að skilja réttilega þann veg, sem ég gerði grein fyrir áðan, geta ekki haft á móti efni þessarar gr., því að það er nákvæmlega það sama og þeir segja að felist í síðari málsgr. 15. gr. eftir till. nefndarinnar.

Ég skal svo ekki tefja tíma hv. þm. með lengra máli um þetta. Ég ætla, að brtt. skýri sig sjálfar, það sem til kynni að þurfa umfram það, sem ég hér hef sagt, og vænti, að hæstv. forseti leiti afbrigða til þess að mega taka þær fyrir, þó að þær séu skriflegar.