26.03.1954
Neðri deild: 70. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

93. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir fylgi mínu við þetta frv., sem ég tel að í meginatriðum sé til verulegra bóta, og mikil þörf á, að það nái fram að ganga. Það hefur nú um langt skeið verið alltilfinnanlegt, að vantað hefur ákvæði um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og þess vegna er þess orðin full þörf, að frv. slíkt sem þetta nái nú samþykki Alþingis.

Það kann vel að vera, að um einstök atriði frv. megi enn bæta. Þó hygg ég, að þetta frv. hafi fengið þá athugun einmitt af þeim aðilum, sem gerst mega til þekkja, að það sé orðið sæmilega viðunandi og tvímælalaust til mikilla bóta að fá það samþykkt frá þeim tiltölulega ófullkomnu og sundurleitu ákvæðum, sem gilt hafa varðandi þessi efni.

Ég hef ásamt hv. 8. landsk. flutt tvær brtt. við frv. og vildi mæla fyrir þeim með nokkrum orðum. Þessar till. eru á þskj. 441.

Fyrri till. er við 2. gr., og hún er um það, að í stað „forstjóra“, þar sem um það er talað, að ráðherra megi fela forstjóra viðkomandi fyrirtækis að veita minni háttar stöður eða embætti, þá komi: forstöðunefnd (forstjóra). — Það er í sumum tilfellum a.m.k., að forstöðunefndir veita opinberum fyrirtækjum forstöðu, og það virðist eðlilegt, þar sem svo er, að þær eru aðalstjórnendur opinberra fyrirtækja, þá hafi þær þetta vald.

Hin brtt. fjallar fyrst og fremst um það að hafa nokkru meira aðhald en gert hefur verið ráð fyrir um veitingu opinberra embætta. Um þetta efni hafa verið mjög ófullkomnar lagareglur eða ákvæði. Það er vissulega til mikilla bóta, sem þegar er komið hér inn í frv., að öllum opinberum embættum skuli slegið upp, þau skuli öll auglýst opinberlega með ákveðnum umsóknarfresti. En okkur virðist, að þarna vanti nokkru ákveðnari reglur um það, hvernig embættin skuli veitt. Embættaveitingar hafa, eins og alkunnugt er, oft sætt mjög mikilli gagnrýni og stundum réttmætri, að því er manni hefur virzt. Veitingavaldið er pólitískt, þar sem um ráðherra er að ræða í flestum tilfellum, og það virðist þess vegna mjög æskilegt, ef hægt væri með lögum að veita pólitískum ráðherra nokkurt aðhald, eftir því sem kleift er, með lagasetningu. Það er að sjálfsögðu erfiðleikum bundið að setja um þetta ákveðnar reglur í lögum, en þó ætti það ekki að vera ókleift, að um þetta verði settar nokkrar reglur. Brtt. okkar, sú síðari á þskj. 441, fjallar einmitt um þetta, og höfuðatriði till. eru þau, í fyrsta lagi, að ákvæði skuli vera sett um það, hvað skuli einkum telja verðleika umsækjenda, sem sækja um opinberar stöður; í öðru lagi, að sá, sem opinbera stöðu veitir, hvort sem er ráðherra, forstöðunefnd eða forstjóri, sé skyldur til að gera skriflega rökstudda grein fyrir ráðstöfun sinni. Hv. 1. landsk. gerði dálitla athugasemd við þetta atriði, ákvæðið kynni að vera óþarft að því er varðar hinar smærri stöður og það muni þá aðeins verða til þess að auka skriffinnsku. Það er vissulega miklu minni þörf á þessu ákvæði varðandi smáar eða minni háttar stöður, en okkur fannst, að það væri töluvert erfitt að draga þarna línur á milli. Þess vegna lögðum við ekki í það, og því er þetta ákvæði svona. Í þriðja lagi eru í þessari brtt. ákvæði um það, að sé opinbert embætti veitt öðrum en þeim, sem þeir aðilar, er eiga tillögurétt samkv. lögunum, leggja til að fái stöðuna, þá skuli sá umsækjandi, sem veitingavaldið gengur þannig fram hjá, í hverju tilfelli eiga rétt á að sjá rökstuðning veitingavaldsins fyrir veitingunni. Þetta ætti einnig að geta orðið nokkurt aðhald um það, að ekki séu mjög freklega veitt embætti, ef til vill af pólitískum ástæðum, þvert ofan í till. þeirra aðila, sem tillögurétt eiga um þessi mál.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara öllu fleiri orðum um þessar brtt., en vænti þess, að hv. d. geti fallizt á þau rök, sem til þeirra liggja.