26.03.1954
Neðri deild: 70. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

93. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til svars síðustu ummælum hv. þm. A-Húnv. (JPálm). Hann hefur mjög oft áður hér á hinu háa Alþingi gert að umtalsefni launakjör opinberra starfsmanna annars vegar og annarra starfsstétta þjóðfélagsins hins vegar, og það er ein af grundvallarskoðunum hans í þjóðfélagsmálum, að opinberir starfsmenn hafi ávallt og þó sérstaklega undanfarið borið of stóran hlut frá borði miðað við aðrar stéttir þjóðfélagsins. En þessi skoðun er röng, og hefur oft verið sýnt fram á það hér á hinu háa Alþingi. Ég skal ekki tefja tíma d. á því að fara að þessu sinni út í almennar umræður um þetta, en vildi þó ekki láta orðum hans að þessu sinni alveg ómótmælt og vil gera það með því einu að benda á, að launakjör opinberra starfsmanna hafa undanfarinn hálfan annan áratug sannanlega breytzt bæði sjaldnar, seinna og minna en launakjör allra annarra starfsstétta í þjóðfélaginu. Það er enginn vafi á því, að hlutdeild opinberra starfsmanna í þjóðartekjunum er nú mun minni en hún var fyrir 15 árum, eða 1939, þ.e. fyrir stríð. Það dróst mörg ár að endurskoða launalögin. Það var að síðustu gert árið 1946, ef ég man rétt, en þá voru launakjör opinberra starfsmanna komin svo langt aftur úr launakjörum þeirra stétta, sem hafa frjálsan samningsrétt um kaup og kjör, að hreint hneyksli var orðið. Og svo lengi hafði endurskoðun launalaganna dregizt, að þegar þau loks voru sett, voru þau svo að segja samstundis orðin úrelt að nýju. Svo er búið að vera lengi undanfarið, að í þessum málum gildir algerlega óviðunandi ástand, enda var ákveðið fyrir einum 4 árum að endurskoða launalögin að nýju. Sú endurskoðun stendur yfir, og það er orðið algerlega óhjákvæmilegt að taka það mál allt upp til endurskoðunar. Samtök opinberra starfsmanna hafa nú fyllsta hug á því, og eina ástæðan til þess, að það mál hefur ekki verið flutt á þessu þingi, er áhugi samtaka opinberra starfsmanna fyrir því að fá í gegn lögin um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. En á því er enginn vafi, að næsta verkefni samtaka opinberra starfsmanna verður að knýja fram nauðsynlegar breytingar og leiðréttingar á launalögunum.

Það er engin sönnun fyrir því, að kjör opinberra starfsmanna séu of góð, miðað við aðrar stéttir, að nægir umsækjendur berist um hverja stöðu, sem auglýst kann að vera hjá hinu opinbera, en raunar er mér kunnugt um, að þessi staðhæfing er ekki rétt, og allra sízt nú á undanförnum einu til tveimur árum. Mér er kunnugt um ýmsa forstöðumenn ríkisstofnana, sem hafa kvartað mjög undan því, að þeir gætu ekki fengið starfsmenn við því kaupi, sem þeim er heimilt að greiða samkvæmt launalögum. Það er öllum, og hv. þm. A-Húnv. líka, kunnugt um, að ýmsir forstöðumenn opinberra stofnana hafa orðið að brjóta launalögin beinlínis til þess að fá starfsmenn í stofnanir sínar. Það er náttúrlega ekki sönnun fyrir því, að launakjörin séu of góð, þegar háttsettir ríkisembættismenn, jafnvel ráðh. sjálfir, þurfa að brjóta lög til þess að fá starfsmenn í ýmsar stöður.

Þetta eru auðvitað skýr og ótvíræð rök fyrir því, að launalögin og þar með kjör opinberra starfsmanna eru orðin óréttlát og komin Langt á eftir öðrum starfsstéttum. Væri enginn vandi að færa fram fyrir þessu alveg óyggjandi tölulegar sannanir, þó að ég hafi þær ekki á reiðum höndum hér við þessa umr., en er reiðubúinn til þess að flytja þær hvenær sem er og hv. þm. A-Húnv. eða einhverjum öðrum þykir ástæða til þess að leita eftir þeim með staðhæfingum eins og þeim, sem hér voru fluttar áðan, að kjör opinberra starfsmanna séu nú enn of góð, miðað við aðrar stéttir þjóðfélagsins.