06.04.1954
Neðri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

93. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Eins og ég vék að í þeim fáu orðum, sem ég sagði um þetta mál við 2. umr. þess, finnst mér óviðkunnanlegt, að afgreiddur sé mikill og vandaður lagabálkur um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, án þess að í honum sé einu orði á það minnzt, eftir hvaða reglum skuli veita embætti og stöður hjá ríkinu.

Ég geri mér ljóst, að það er mikill vandi að forma reglur um þetta þannig, að nægilegt öryggi væri í því fyrir opinbera starfsmenn og skynsamlegt aðhald veitt þeim, sem með veitingavald eða ráðningavald fara. En ég vil samt ekki láta hjá líða að freista þess að koma inn í frv. einhverjum ákvæðum um þetta efni. Fyrir lá um þetta efni við 2. umr. till. frá tveim hv. þm., sem ekki náðu fram að ganga, og ég hef því leyft mér að flytja nú við þessa umr. á þskj. 693 brtt. um, að eftir 5. gr. frv. komi ný gr., sem á að fjalla um þetta efni.

Ég hef reynt að hafa reglurnar sem allra & brotnastar, þ.e. í fyrsta lagi að slá því föstu, sem sjálfsagt virðist vera og ætti í raun og veru að gilda, þó að ekkert lagaákvæði væri um það, að 1.ausar stöður skuli veita þeim umsækjanda, sem hæfastur sé talinn. Svo sjálfsagt er þetta, að það mætti telja það gilda, þó að ekkert ákvæði væri um það sett.

En aðalefni till. er þó nánari skýring á því, hvernig meta skuli hæfileika umsækjanda. Það væri vandi að setja um þetta nákvæmar reglur, og þess vegna hef ég reynt að orða þær sem allra óbrotnast. Í fyrri hluta till. er því slegið föstu, að sé um að ræða embætti eða starf, sem krefjist ákveðinnar sérþekkingar eða sérhæfileika, þá skuli sá umsækjandi, sem fullnægir þeim sérkröfum, teljast öðrum hæfari. Þetta er regla, sem getur varla verið ágreiningur um og ætti að fylgja, þótt engin lagaákvæði væru um efnið.

Seinni till. er í raun og veru mikilvægari, því að þar er fjallað um embætti eða störf, þar sem ekki er krafizt sérstakra sérhæfileika eða sérþekkingar. En þar er ætlazt til, að þeirri mikilvægu reglu sé slegið fastri, að þá skuli í aðalatriðum embættisaldur ráða, þ.e.a.s., að þeir, sem gegnt hafa embætti lengur en aðrir og eiga að öðru leyti farsælan starfsferil að baki, skuli ganga fyrir um embætti eða störf. Þessari reglu hefur verið fylgt sem aðalreglu hjá ríkinu, og ég hef ekki orðið var við, að opinberar till. hafi komið fram um það, að hún skyldi afnumin. Þess vegna tel ég rétt að setja ákvæði um hana inn í þessi l., sem nú stendur til að afgreiða.

Um þessa reglu má dálítið deila, en fyrst hún er aðalreglan, sem nú er fylgt við stöðuveitingar hjá ríkinu, tel ég rétt að setja ákvæði, sem lögfesta hana. Stundum hefur verið brugðið gegn henni, og þá hafa embættaveitingarnar venjulega vakið opinberar deilur og óánægju, en um þær embætta- og stöðuveitingar, sem þessari reglu hefur verið fylgt við, hefur verið mestur friður, enda má telja þær réttlátastar.

Þessi orð skal ég láta nægja sem meðmæli fyrir þessum till. og undirstrika að síðustu, að mér finnst illa fara á því, að slíkur lagabálkur sé afgreiddur án þess, að nefnt sé jafnmikilvægt mál og það, eftir hvaða reglum embætti og opinber störf skuli veitt.