18.03.1954
Efri deild: 63. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

167. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. tók þetta frv. til athugunar á fundi sínum síðari hluta sama dags og því var til hennar vísað, en ekki var þó gengið til fulls frá áliti n. fyrr en daginn þar á eftir. Þótt segja megi, að n. hafi ekki varið miklum tíma til athugunar málsins, a.m.k. ekki mörgum dögum, þá reyndi hún þó að gera sér fulla grein fyrir því í heild sinni og fyrir öllum þeim mörgu breytingum, sem frv. gerir eða leggur til að gera á gildandi tollskrá. Frv. hefur fengið rækilegan undirbúning, þar sem það er fyrst samið af mþn., sem varði til þess miklum tíma og í áttu sæti mjög vel hæfir og athugulir menn. Og eftir það hefur frv. gengið í gegnum hreinsunareld fjmrn. og ríkisstj. allrar.

Tilgangurinn með því að skipa nefnd til að semja þetta frv. og með því að bera það síðan fram hér á Alþingi var og er sá að bæta aðstöðu íslenzks iðnaðar, enda fjallar frv. eingöngu um tolla af hráefnum til iðnaðar og af iðnaðarvörum. Er aðalefni frv. að lækka tolla af hráefnum til iðnaðar, og er það viðast gert með því að fella niður 7 aura vörumagnstoll á kg og jafnframt lækka verðtoll úr 8% í 2%, sums staðar þó aðeins í 5%. Nokkur hráefni er lagt til að gera með öllu tollfrjáls. Hins vegar er sú leið farin á stöku stað í frv. að hækka tolla á innfluttum iðnaðarvörum fullunnum, m.ö.o., að setja verndartolla á þær og veita íslenzkum iðnaði stuðning á þann hátt.

Að rekja frekar efni frv. tel ég bæði óþarft, því að ýtarleg grg. fylgir því, og má vísa til hennar, og svo mundi það taka ærið langan tíma, sem ég veit ekki hvort menn hefðu þolinmæði til að hlusta á, ef gera ætti sérstaka grein fyrir hverri þeirri breytingu, sem frv. gerir á gildandi tollskrá, því að þær breytingar eru um 140, og þó raunar fleiri, þegar undirliðir eru meðtaldir. Búizt er við, að ef frv. þetta verður að lögum, hafi það í för með sér um 5 millj. kr. árlegan tekjumissi fyrir ríkissjóð, og ég fyrir mitt leyti hef grun um, þó að ég hafi ekki gögn í höndum til að rökstyðja það, að sá tekjumissir verði jafnvel töluvert meiri. Þennan tekjumissi þolir ríkissjóður auðvitað ekki nema með því móti að fá aðrar tekjur í staðinn nú á þessu ári, þar sem þegar er búið að ákveða gjöldin fyrir yfirstandandi ár. Næstu ár mætti að vísu ef til vill jafna þetta með því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. En fyrir þessari hv. d. liggur frv. til laga um aukatekjur ríkissjóðs, og er hægt að gera sér von um, að það frv., ef samþ. verður, bæti ríkissjóði að einhverju leyti upp þann halla, sem hann hefur af því, ef það frv., sem hér er til umr., verður samþykkt. Þess vegna er það bæði álit mitt persónulega og ég hygg nefndarinnar, að þessi tvö frv. þurfi að fylgjast að í gegnum þingið.

Eins og sjá má af nál. fjhn. á þskj. 469, er n. einhuga um að mæla með samþykkt þessa frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að bera fram brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Hefur nú einn af nm., hv. þm. Barð., þegar flutt brtt. og aðra til vara á þskj. 474. Nefndin hefur ekki tekið þessa brtt. neitt fyrir, og ég mun ekki um hana ræða að svo stöddu. Og á þessum fundi a.m.k. get ég ekki neitt sagt um afstöðu n. til hennar.