18.03.1954
Efri deild: 63. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

167. mál, tollskrá o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. um, að þessi breyting á tollalöggjöfinni sé ekki verulega til bóta fyrir iðnaðarmenn, þá væri nú ástæða til að svara því nokkru. Hér er komið mjög verulega á móti óskum iðnaðarmanna í þessu máli, og hygg ég jafnvel, að kröfur þeirra í sambandi við afgreiðslu þessa máls hafi ekki verið miklu meiri en hefur verið mætt í höfuðatriðum. Ég vil hins vegar láta það í vald hv. frsm. að ræða það atriði efnislega.

Ég hef borið hér fram brtt. á þskj. 474, að á eftir 111. tölul. 1. gr. komi nýr liður, svo hljóðandi: Aftan við textann í nr. 85 í sama kafla bætist: svo og hálfunnar blikkdósir undir niðursuðuvörur. — Ég skal í stuttu máli gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég hef borið þessa brtt. fram. Í sjálfri tollskránni segir, undir lið 83, að af blikkdósum og kössum, máluðum, áletruðum, lakkeruðum eða skreyttum, með áletrun, sem ber það með sér, að þeir séu ætlaðir undir innlenda framleiðsluvöru til útflutnings, skuli vörumagnstollurinn vera 7 aurar og verðtollurinn 30%, en aðrar blikkdósir skulu tollast með 7 aura vörumagnstolli og 20% verðtolli. Nú er það svo, að allar niðursuðuverksmiðjur, sem eru starfræktar fyrir utan Rvík, verða að lúta þeim kjörum að flytja inn svo að segja allar belgdósir, þ.e.a.s. sívalar dósir, hálfunnar og greiða 30% verðtoll af slíkum innflutningi auk 7 aura vörumagnstolls, ef þær eru lakkeraðar innan, en meginhluti þeirra er það, a.m.k. fyrir sérstakar vörur og sérstaklega fyrir fiskniðursuðu, eða 20% toll, ef þær eru ólakkeraðar. Þetta stafar af því, að ef þeir ættu að kaupa dósirnar hjá hinni einu dósaverksmiðju, sem til er í landinu og er hér í Rvík, þá er flutningskostnaðurinn á þessum vörum frá Rvík og út á landið miklu hærri en tollurinn á innfluttu vörunum, svo að þessi fyrirtæki eru dæmd til þess að greiða raunverulega sí og æ 30% innflutningstoll af þessum hluta umbúðanna eða lúta öðrum enn lakari kjörum. Á meðan þessar verksmiðjur unnu fyrir erlendan markað, hafði þetta ekki nein áhrif á afkomuna, vegna þess að annars staðar í tollskránni er gefin heimild til þess að fá þennan toll endurgreiddan af hverri þeirri dós, sem flutt er út úr landinu. Þetta hefur orðið til þess, að niðursuðuverksmiðjurnar hafa orðið að snúa sér eingöngu að útflutningnum og hætta alveg viðskiptunum á innlendum markaði, en þessi viðskipti á innlendum markaði er mér m.a. kunnugt um að námu á þriðju milljón króna fyrir þá verksmiðju, sem hefur verið starfrækt nú í nærri tvo tugi ára á Bíldudal. Þessi viðskipti eru nú algerlega útilokuð, vegna þess að með þessum háa verðtolli á dósunum og frjálsum innflutningi í samkeppni frá öðrum löndum er engin leið að hafa samkeppni við hinar innfluttu vörur. Þó að þessi till. yrði samþykkt, þá gengi það ekkert á hagsmuni þeirrar dósaverksmiðju, sem hér er í Rvík, vegna þess að eins og ég hef skýrt frá, þá geta verksmiðjur úti á landinu aldrei keypt þessar umbúðir af dósaverksmiðjunni, vegna þess að það væri enn dýrara að flytja þær frá Rvík fullunnar vegna þess rúmtaks, sem þær taka, heldur en að flytja þær frá útlandinu hálfunnar og borga 30% toll. Nú mætti spyrja, hvers vegna dósaverksmiðjan í Rvík gæti þá ekki unnið þessar dósir að hálfu leyti fyrir hinar fjarliggjandi verksmiðjur. Um þetta hefur ekki tekizt samkomulag, og það er vegna þess, að einmitt dósaverksmiðjan í Rvík hefur flutt inn mjög mikið af hálfunnum dósum, vegna þess að það hefur einnig verið henni hagkvæmara að flytja inn hálfunnar dósir heldur en að búa þær til sjálf, því að fyrir hverjar 10 dósir, sem hún flytur þannig inn, kaupir hún minna magn af blikki, þegar tekið er tillit til þess, sem þarf að skera af og fer til einskis, og það kostar minna í innflutningi í vigt og vegur þar af leiðandi þannig upp á móti þeim kostnaði, sem tollurinn hefur í för með sér. Þrátt fyrir þetta er byrðin af 30% tollinum lögð á þessa framleiðendur í landinu og meira en það, því að þegar dósaverksmiðja í Rvík flytur slíkt inn til þess síðar að selja það, þá leggur hún einnig á fyrir sína fyrirhöfn og sinn kostnað og þarf að fá hann endurgreiddan, sem eðlilegt er. Allt er þetta til þess að gera íslenzku framleiðsluna dýrari og torvelda afkomu niðursuðuverksmiðjanna í landinn. En niðursuðuiðnaðurinn í landinu er svo nýr atvinnuvegur meðal þjóðarinnar og hefur þess utan mjög mörgum erfiðleikum að mæta og mjög marga erfiðleika að yfirvinna og þarf sannarlega á allri aðstoð að halda til þess að geta staðizt samkeppnina frá öðrum löndum og til þess að geta einnig skapað útflutning fyrir þjóðina. Ég hef rætt þessi mál nokkuð áður og sé ekki ástæðu til að fara allmiklu lengra út í þetta atriði. Hv. þm. er þetta vel kunnugt.

Til vara hef ég borið fram hér till. um það, að tollurinn sé þó ekki ákveðinn nema 2 aurar á hvert kg, vörumagnstollur, og 10% verðtollur í staðinn fyrir 30%. Ég sé í hinu nýja frv. um ýmsar þær vörur, sem áður voru fluttar inn og nutu sömu kjara um að fá niðurfelldan tollinn, ef varan væri flutt út úr landinu, að þar hefur tollurinn verið alveg afnuminn, þó að það væri fyrir innlendan markað, að undanteknu þessu eina sérstaka ákvæði, og þykir mér því enn meiri ástæða til þess, að þessi till. sé nú samþykkt. Ég sé einnig, að ýmsar aðrar vörur, sem eru fluttar inn hálfunnar, hafa ýmist verið gerðar tollfrjálsar eða látnar falla undir lægsta tollflokk.

Ég vil svo að endingu mega geta þess, að ég hef rætt þessa brtt. við tvo af þeim mönnum, sem skipaðir voru í mþn., hvar af annar hafði sérstaklega að gæta hagsmuna verksmiðjuiðnaðarins í landinu. Þeir hafa að nokkru leyti fallizt á sjónarmið þau, sem ég hef fært fram, þ.e., að þau væru rétt hvað snertir þær verksmiðjur, sem eru staðsettar fyrir utan Rvík.

Ég er því fús til þess að taka þessa till. aftur til 3. umr., vænti þess, að hv. fjhn. vilji ræða hana með velvilja og hafa samráð við mþn. um, hvort ekki sé hægt að finna einhverja aðra leið, ef ekki þá, sem hér er farið fram á, þá a.m.k. einhverja aðra leið til þess að ganga ekki fullkomlega á rétt þessara aðila. Væri þá hægt að hugsa sér, að inn yrði sett heimild til endurgreiðslu á þessum tolli síðar fyrir þær verksmiðjur, sem þannig eru settar sem ég þegar hef lýst hér.

En ég vil alvarlega benda á, að það sé ekki rétt að ganga svo frá þessu máli, að það torveldi starfsemi þessara aðila, sem á margan annan hátt eiga miklu erfiðara í sambandi við sína framleiðslu heldur en ef verksmiðjurnar væru staðsettar hér í Rvík og m.a. hafa undanfarin ár haldið uppi, á sumum stöðum a.m.k., atvinnulífi, svo að það hefur létt verulega á ríkissjóði að þurfa ekki að hlaupa þar undir bagga. Er mér kunnugt um m.a., að svo hefur verið um þá niðursuðuverksmiðju, sem hefur verið starfrækt á Bíldudal. Ég get m.a. upplýst það, að á s.l. ári mun hún hafa greitt eitthvað hátt á aðra millj. kr. í vinnulaun á staðnum, svo að það er ekki alveg einskis vert að hlúa svo að því fyrirtæki, að það þyrfti ekki fyrir ranglát eða óeðlileg lagafyrirmæli að draga saman sína starfrækslu.

Ég skal svo láta þetta nægja og vænti þess, að hv. form. taki þetta til athugunar fyrir 3. umr.