02.11.1953
Neðri deild: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

9. mál, bæjarútgerð Siglufjarðar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv.

þetta er samhljóða brbl., sem gefin voru út á þessu ári, en efni þess er það, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast f. h. ríkissjóðs fjárhæð allt að 2 millj. og 900 þús. kr. fyrir Bæjarútgerð Siglufjarðar og lán allt að 350 þús. kr. fyrir hlutafélagið Bjólf á Seyðisfirði. Um ástæður fyrir þessu máli er bent á það, að hag þessara bæjarfélaga, sem hlut eiga að máli, hafi verið stefnt í tvisýnu með því, að atvinnutæki yrðu flutt úr bænum, ef ekki hefði verið gripið til þess ráðs að gefa út þau brbl., sem hér er fjallað um.

Frv. þetta hefur legið fyrir hv. Ed. og hefur hlotið afgreiðslu þaðan án breytinga. Fjhn. þessarar d. hefur tekið málið til athugunar og mælir með því, að frv. verði samþ. Einn nm. hefur þó áskilið sér rétt til þess að bera fram brtt. eða fylgja brtt., sem fluttar kynnu að verða af öðrum hv. þdm.