05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

167. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv. og gefið út nál. á þskj. 623. Mælir n. með því, að frv. verði samþ. Fjhn. flytur þó við það nokkrar brtt. á þskj. 636. Þar að auki flytur einn nm., hv. 1. landsk. þm. (GÞG), sérstakar brtt. á þskj. 639.

Fyrsta brtt. fjhn. er um það, að 113. tölul. 1. gr. frv. falli niður. Í þeim lið eru ákvæði um tolla af blikkdósum, og var þetta sett inn í frv. í hv. Ed., og leggur n. til, að frv. verði að þessu leyti fært í sitt upphaflega form.

Þá er næsta brtt. n. um það að lækka tolla á fiskkössum úr aluminium frá því, sem nú er. Hafði borizt um þetta erindi til n., og er lagt til hér, að tollurinn verði 7 aura vörumagnstollur af kg og 8% verðtollur. Er þetta í samræmi við toll, sem nú er á fiskkörfum.

Þá er loks þriðja brtt. n. Hún er í tveim töluliðum, og eru þær till. báðar um lækkun tolla af hvalveiðitækjum, bæði hvalveiðabyssum og hlutum til þeirra og hvalveiðaskutlum. Hafði einnig borizt erindi um þetta til n., sem henni þótti rétt að taka til greina.

Það er því till. fjhn., að frv. verði samþ. með þessum brtt. hennar á þskj. 636.