05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

167. mál, tollskrá o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það gleður mig, að hv. síðasti ræðumaður er ánægður með frv. eins og það nú liggur fyrir og hefur sama sem ekkert við það að athuga. Það væri líka mjög ósanngjarnt, ef stjórnarandstæðingar færu að tala á móti þessu frv., því að þetta frv. er það stærsta, sem gert heftir verið á mörgum árum í þá átt að létta tollum og styðja innlenda framleiðslu. Ef þetta frv. verður samþ., sem þegar er raunar alveg víst, þá hefur það í för með sér tekjumissi fyrir ríkissjóð að minnsta kosti 5 millj. kr., ef til vill meira.

Eins og áður hefur verið talað um, þá starfaði mþn. til þess að endurskoða tollalöggjöfina með hagsmuni iðnaðarins fyrir augum. N. vildi ganga nokkru lengra í því, sem kallað er vernd iðnaðinum til handa, með því að lækka tolla á hráefnum til iðnaðar nokkru meira en gert er ráð fyrir með frv., sem hér er nú til umr., og afla svo ríkissjóði tekna aftur á móti með hækkun tolla. Þegar nál. mþn. var athugað, þótti ljóst, að það var tæplega hyggilegt eða rétt að ganga svo langt í lækkun tolla á hráefni til iðnaðar, að til þess óyndisúrræðis þyrfti að grípa að hækka tolla, því að það er stefna núverandi ríkisstj. að gera það ekki nema í brýnustu nauðsyn. Það var þess vegna haft samband við iðnaðarsamtökin um þetta mál, og má fullyrða, að þau eru mjög ánægð með frv. í því formi, sem það er nú, og vafasamt, að þau hefðu verið nokkuð ánægðari með það, þótt lengra hefði verið gengið í lækkun tolla, ef það hefði kostað hækkun tolla á öðru sviði.

Hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að þetta frv. miðaði að því að endurgreiða gamla skuld, sem ríkisvaldið væri í við iðnaðinn. Það má alltaf deila um það, hvort ríkisvaldið er í raun og veru í skuld við eina atvinnugrein frekar en aðra. Ég skal ekkert leggja dóm á það. En það, sem hv. ræðumaður átti sérstaklega við, skildist mér vera það, þegar söluskatturinn var lagður á iðnaðarframleiðsluna og hráefni til iðnaðar eins og aðrar innfluttar vörur. Ég er í hópi þeirra, sem helzt vildu, að það þyrfti enginn söluskattur að vera, og ég mundi vera glaður þann dag, sem hægt væri að upplýsa, að við hefðum efni á því að létta söluskattinum af iðnaðinum og helzt af öllum atvinnugreinum landsmanna. En það verður að játa staðreyndir. Það verður að viðurkenna, að fjárlögin eru byggð upp nú og hafa verið mörg undanfarin ár með því að gera ráð fyrir þessum tekjupósti, sem af söluskattinum leiðir. Og það þarf enginn að imynda sér, að það sé mögulegt í einn að afnema eða létta verulega þennan skatt frekar en aðra. Hitt ber svo að gera sér ljóst, að þótt nú sé verið að endurskoða tollalöggjöfina og gera ráð fyrir 5 millj. kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóð og þar með 5 millj. kr. hagnaði fyrir iðnaðinn, þá er ekki þar með sagt, að það beri ekki að stuðla að því að ganga lengra, hvenær sem það telst fært, annaðhvort með því að létta af söluskatti eða öðrum skatti á þessari atvinnugrein sem annarri.

Hv. þm. var hér að tala um brtt., sem var samþ. í Ed. Það var hækkun á tolli á gúmmískófatnaði úr 15% í 25%, og fullyrti hv. þm., að þeir skór, sem hér væri átt við, væru ekki framleiddir í landinu. Það er nú svo, að þótt þetta sé merkt gúmmískór í tollskránni, þá eru þetta ekki gúmmískór að öllu leyti, heldur aðeins að nokkru leyti. Það mun vera gúmmí í sólunum, þykkir sólar, þannig að það er talið vera meira en 50% af efninu gúmmí, og þess vegna er þetta nefnt í tollskránni gúmmískór. Skór, sem falla undir þennan tollskrárlið, eru framleiddir hér, og þessi till. er fram komin í Ed. eftir eindreginni ósk iðnrekenda, sem framleiða skó. Ég skal viðurkenna, að það má deila um, hvort það hefði átt að samþ. þessa till. eftir ósk iðnaðarmanna. Það má vel deila um það, og það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að ,það er í rauninni í mótsögn við anda og stefnu þessa frv., sem að sáralitlu leyti gengur í þá átt að hækka tolla, en ég tel ástæðu til að taka það hér skýrt fram, að þessi till. er samþykkt eftir ósk iðnrekenda, vegna þess að þeir framleiða skó, sem falla undir þennan tollskrárlið.

Hv. þm. flytur hér brtt. á þskj. 639 um lækkun tolla á rafmagnsspennum. Forstjóri raftækjaverksmiðjunnar Rafha talaði við mig fyrir nokkuð löngu einmitt um þetta atriði. Ég hef einnig rælt það við hæstv. fjmrh., og hv. 2. þm. Eyf. hefur rætt um þetta við skrifstofustjórann í fjmrn. Eftir því sem hv. 2. þm. Eyf. segir mér, þá mun vera komið fullt samkomulag um þetta atriði, aðeins eftir að orða till. í þessa átt. Var talið líklegt, að það yrði að vera í endurgreiðsluformi, þar sem erfitt mundi vera að ákveða, hvaða efni færi í spenna og hvað færi í aðra framleiðslu. Ég vil þess vegna biðja hv. þm. að gera svo vel að taka þessa till. aftur til 3. umr., vegna þess að þetta atriði er í athugun og undirbúningi hjá stjórnarflokkunum. Ég tel svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða öllu meira um þetta frv., en lýsi ánægju minni yfir því, hversu því er vel tekið af stjórnarandstöðunni sem öðrum hv. þdm.