02.04.1954
Neðri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

178. mál, útsvör

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 626 við þetta frv., sem fer í þá átt, að 2. gr. frv. falli niður. Í þessu frv. er raunar um aðeins tvö efnisatriði að ræða. Hið fyrra er það, að ekki megi leggja útsvar á skattskyldar sparifjárinnstæður aðila né vexti af þeim. Ég hef út af fyrir sig ekkert við þetta að athuga, sérstaklega með hliðsjón af því, að sams konar ákvæði hefur verið tekið upp í frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, sem hér var til umr. nú síðast. En hitt efnisatriðið er allt annars eðlis. Það er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við 21. gr. laganna komi ný málsgr., svo hljóðandi:

Skylt er niðurjöfnunarnefnd að leggja fram með útsvarsskrá skýrslu um þær reglur, sem hún hefur farið eftir við álagningu útsvaranna, svo sundurliðaða og skilmerkilega, að hver gjaldandi eigi að geta reiknað út útsvar sitt. Einnig er niðurjöfnunarnefnd skylt að gefa sérstaklega hverjum gjaldanda, sem þess krefst, nákvæmar sundurliðaðar upplýsingar um það, hvernig útsvar hans er á lagt.“

Eins og kunnugt er, þá er nú útsvarsálagningu þannig hagað samkv. 4. gr. laga um útsvör, frá 12. apríl 1945, að útsvar skal leggja á eftir efnum og ástæðum, eins og þar segir, og skal þá til greina taka, með leyfi hæstv. forseta:

Eignir aðila, hverjar þær eru og hversu verðmætar, skuldir aðila, enn fremur tekjur þær, sem hann hefur haft s.l. ár, og að því leyti sem útlenda gjaldþegna varðar tekjur,er þeir hafa haft á gjaldárinu, nema á þá verði lagt útsvar á næsta ári eftir almennum reglum. Þá skal athuga, í hverju tekjurnar voru fólgnar og hversu mikil fyrirhöfn, kostnaður og áhætta var samfara öflun þeirra. Í þriðja lagi skal taka til greina ástæður aðila að öðru leyti, svo sem fjölskyldu hans, heilsufar hans og þeirra, sem á vegum hans eru, höpp eða óhöpp, sem hann hefur orðið fyrir, svo sem slys, dauðsföll, fjárskaða af sjó, veðri eða vötnum, sérstakan uppeldiskostnað eða menningarkostnað barna hans, er nauðsynlegan má telja eða venjulegan,tap á ábyrgðum og sérhvað annað, er telja má máli skipta um gjaldþol hans og með sanngirni má til greina taka til hækkunar útsvari hans eða lækkunar.

Eins og af þessu sést, þessum skilyrðum, sem sett eru um álagningu útsvara, er augljóst, að þau eru nokkuð mikið öðruvísi en þegar um álagningu tekju- og eignarskatts er að ræða. Þar eru ákveðnar reglur, sem farið er eftir án nokkurs persónulegs mats á hlutunum og skattanefndarmenn eru við bundnir og skyldir til að fara eftir í öllum greinum nákvæmlega. Hins vegar, þegar um útsvörin er að ræða, eru niðurjöfnunarnefndarmönnum gefnar miklu frjálsari hendur en skattanefndarmönnum til þess að hnika til útsvörunum eftir efnum og ástæðum. Eins og segir í 4. gr. útsvarslaganna, sem ég las hér áðan, ber niðurjöfnunarnefndarmönnum að taka tillit til ýmiss konar tilvika, sem alls ekki er gert ráð fyrir að tekið sé tillit til, þegar um álagningu tekjuskatts eða eignarskatts er að ræða. Reglan er þess vegna sú, að ég ætla, hjá flestum eða öllum niðurjöfnunarnefndum, a.m.k. þar, sem ég þekki til, að þær búa sér til álagningarstiga, sem þær fara eftir í öllum meginatriðum, en þær svo hvika frá, þegar um sérstök tilvík er að ræða. Ég sé sannast sagna ekki, hvernig það er hægt, og þætti gott, að það yrði upplýst hér, ef það er einhver leið, sem gerir það fært, að niðurjöfnunarnefnd leggi fram, eins og í gr. segir, með útsvarsskrá skýrslu um reglurnar, sem hún fer eftir við álagningu útsvaranna, svo sundurliðaða og skilmerkilega, að hver gjaldandi eigi að geta reiknað út útsvar sitt. Ég sé ekki, hvernig það er hægt að gera hvort tveggja í senn, gera þessar reglur svo ákveðnar, að það sé hægt að birta þær, eins og gr. frv. gerir ráð fyrir, þannig að hver og einn gjaldandi geti reiknað út útsvar sitt eftir reglunum, og jafnframt taka tillit til allra þeirra tilvíka, sem getið er um í 4. gr. útsvarslaganna. Ég sé þess vegna ekki, ef þessi 2. gr. frv., sem hér er um að ræða, verður samþykkt, að þá sé annað að gera en að breyta meginreglunum, sem útsvarið er lagt á eftir samkv. 4. gr. Ég vildi þess vegna gjarnan, ef annaðhvort hæstv. ráðh., sem leggur hér frv. fram, eða einhver annar, gæti komið mér í skilning um það hvernig hægt er, bókstaflega hægt, að hafa í gildi þessa nýju 2. gr. frv., sem hér liggur fyrir, og 4. gr. laganna, sem í gildi eru, því að ég sé ekki betur en að þær stangist illilega.

Annað atriði er þó kannske öllu þyngra á metunum hjá mér og sú raunverulega ástæða fyrir því, að ég bar þessa till. fram, en það er, að mér virðist með frv. verið að löghelga framtölin til skatts, hvernig svo sem þau eru gerð, jafnvel þó að niðurjöfnunarnefnd viti, að þar sé ekki að öllu leyti rétt með farið, þó að hún geti ekki sannað það, m.ö.o., það sé verið að löghelga skattsvik með frv. Ég skal fúslega viðurkenna það, að ég hef alla tíð verið mjög fylgjandi því, að beinir skattar væru á lagðir, og ég tel enn, að það væri sú vísasta og eðlilegasta leið til þess, að menn gyldu hinum sameiginlega sjóði ríkisins þau gjöld, sem þeir væru færir um að greiða og ættu að greiða. En ég hef upp á síðkastið séð svo mikla misbresti á framkvæmd þessarar tekjuöflunar ríkissjóðsins, að ég hef orðið meira og meira fráhverfur henni með hverju árinn sem liður. Það eru einungis launamennirnir, sem til næst til þess að greiða þennan skatt, svo að réttilega og örugglega sé þar frá öllu gengið. Það er á hvers manns vitorði, að mikill hluti af skattgreiðendum, þ.e.a.s. þeir, sem eru þess umkomnir og hafa aðstöðu til þess, telja ekki fram allar tekjur sínar og eignir til skatts. Þetta gerir það að verkum, að misræmið á milli skattgreiðslu manna eftir þessari beinu skattaleið verður svo áberandi eins og það er. Maður sér æ ofan í æ fjölda manna, sem vitað er að hafa miklu meira fjármagn og miklu meiri tekjur um hönd heldur en á framtölum þeirra kemur fram, en borga samt minni skatta en aðrir sem sýnilega hafa minni tekjurnar. Þó að beitt sé öllum þeim ráðstöfunum, sem mögulegar eru, til þess að reyna að koma í veg fyrir þetta, þá er það í mörgum tilfeilum ekki hægt, svo að útkoman verður sú, að beini skatturinn hjá mörgum manninum verður miklu lægri en hann ætti að vera, ef rétt væri fram talið. Nú er sjálfsagt ekl:i gott að koma leiðréttingum við hvað þetta snertir með tekjuskattsgreiðslurnar, eins og þar er um hnútana búið, en niðurjöfnunarnefndirnar hafa þó haft það frjálsræði til þess að leiðrétta þetta í hendi, sem lögin hafa gefið þeim, með því að leggja á eftir efnum og ástæðum. Og í flestum sveitarfélögum landsins utan Rvíkur er kunnugleiki niðurjöfnunarnefndanna og í sveitum hreppsnefndanna, sem annast útsvarsálagninguna, það mikill, að það er vitað nokkurn veginn, hvað hver maður hefur í tekjur, þó að hann hefði einhverja tilhneigingu til þess að telja það öðruvísi á sínu framtali. Það er þess vegna hægt að leiðrétta þetta og lagfæra í hendi sér nokkuð, ef vilji niðurjöfnunarnefndar er til þess. En með því, eins og hér er gerð till. um í frv., að niðurjöfnunarnefnd skuli birta með útsvarsskránni skýrslu um þær reglur, sem hún hefur farið eftir við álagningu útsvaranna, svo sundurliðaða og skilmerkilega, að hver gjaldandi geti reiknað sitt útsvar eftir skýrslunum, eru bundnar svo hendur niðurjöfnunarnefndar, að hún hefur enga möguleika til þess að laga í hendi sér það misræmi, sem hún kynni að sjá í framtalsskýrslunum, þó að hún gæti ekki sannað það.

Mér finnst þess vegna, að með samþykkt þessarar greinar sé stefnt algerlega í öfuga átt og þeim mönnum gert léttara um vík, sem vilja koma sér hjá hinum opinberu greiðslum, en hinum íþyngt, sem kannske, við skulum segja, komast ekki hjá því að telja rétt fram til skatts eða a.m.k. að framtal þeirra liggi réttara fyrir. Ég sé enga ástæðu til þess að setja þetta í lög. Reglan hefur verið sú, að a.m.k. allar bæjarstjórnir á landinu hafa auglýst eða lagt fram opinberlega þá skattstiga eða útsvarsstiga, sem þær hafa farið eftir í meginatriðum, en áskilið sér rétt til þess að hnika til eða frá eftir því, sem þeim hefur fundizt við eiga, og ég hef ekki orðið var við, að að því væri neitt að ráði fundið, að þessi háttur væri hafður á niðurjöfnuninni, og ég sé ekki, að það sé stefnt til neinna bóta á því fyrirkomulagi með því að lögtaka þau ákvæði, sem í 2. gr. hins nýja frv. felast.