05.04.1954
Efri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

178. mál, útsvör

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er að vísu frá félmrn., en ég sé, að hæstv. félmrh. er ekki við, svo að ég skal gera grein fyrir því með örfáum orðum.

Mþn. í skattamálum var falið að íhuga um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga. Því starfi n. er ekki lokið, eins og kom fram í framsögu þeirri, sem ég hafði fyrir frv. um breytingar á tekjuskattslögunum. Hér er nú samt á ferðinni frv., sem er komið frá mþn., um breytingar á útsvarslögunum. Í þessu frv. eru tvö atriði. Annað er það, að niðurjöfnunarn. skuli skylt að birta opinberlega, eftir hvaða reglum þær jafna niður útsvörum, og gera mönnum grein fyrir, hvernig útsvar þeirra er á lagt eftir þeim reglum, ef óskað er eftir því. Hitt atriðið er, að sparisjóðsinnstæður skuli undanþegnar útsvörum, og er það í samræmi við frv. til l. um breyt. á tekjuskattslögunum, sem er hér einnig á ferðinni. Það hefur mikið verið athugað, hvort hægt væri að setja í l. útsvarsstiga fyrir sveitar- og bæjarfélögin, og niðurstaðan af þeirri athugun sýnir, að slíkt er vægast sagt mjög erfitt, og hefur því ekki verið í það lagt. Á hinn bóginn þykir sjálfsagt að stefna að því að hafa um þetta fastari skipan en áður hefur verið, og þá sýnist einmitt það nýmæli, sem hér er gert ráð fyrir í frv., eiga að geta verið merkilegt spor í þá átt. Þar á ég við ákvæðið um, að niðurjöfnunarn. birti reglur sínar.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn.