06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

178. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það væri ákaflega æskilegt, að skattframtöl í landinu væru svo vel gerð, að þau gætu verið ábyggilegur grundvöllur fyrir niðurjöfnun útsvara, og að því þyrfti að stefna, að svo yrði. Það er reynslan, að gjaldendur skatta láta sér víða í léttu rúmi liggja, hvernig skattur þeirra er, þegar skattskrá liggur frammi, og leita ekki leiðréttingar á réttum tíma á skatti, þó að þeir gætu, en aftur þegar útsvarsskrá er lögð fram, þá hafa þeir aðgát og lýsa óánægju sinni. Þetta er eðlilegt. Það er vegna þess, að útsvörin eru miklu þyngri en skattarnir til ríkisins. Það væri æskilegt, að almenningur veitti þeim, sem gera skattframtöl og úrskurða skattframtöl og semja skattskrár, aðhald með slíku eftirliti sem almenningur veitir þó við útsvarsniðurjöfnun. Af því að útsvörin eru miklu þyngri en skattarnir, þá er í raun og veru miklu meira undir því komið, að niðurjöfnun sé unnin vel heldur en skattaálagning.

Nú er það svo, að það er mikill misskilningur hjá hv. 4. þm. Reykv. (HG), að 2. gr. frv., sem liggur hér fyrir, leiði það af sér, að skattframtölin yrðu lögfestur grundvöllur útsvarsálagningar. Þau eru það ekki frekar eftir lögfestingu þeirrar gr. en þau voru áður, en gr. felur það 3 sér, að hert er á því, að vandað sé til niðurjöfnunar útsvara, og það er mikil nauðsyn, og hún getur gjaldendunum aðstöðu til þess að fylgja þeirri kröfu eftir til niðurjöfnunarnefndar. Það er langt frá því, að gr. rekist á 4. gr. útsvarslaganna, sem tiltekur, að jafna skuli niður eftir efnum og ástæðum, og telur svo upp ýmsar ástæður, sem líta skuli til, en alls ekki á tæmandi hátt. Það er ekkert slíkt í gr., en það, sem gr. felur í sér, er, að niðurjöfnunarn. eigi að mynda sér ákveðnar reglur fyrir útsvarsniðurjöfnun, og þessar reglur eru viða til í landinu, en mjög mismunandi. Skatttskrár eru meira og minna lagðar til grundvallar, en þar að auki búa sveitarstjórnirnar sér margar til skattstofna og gefa þeim gildi í útreikningi, svo sem eins og fasteignir, jafnvel brúttótekjur og ýmiss konar aðstöðu, sem metin er til gjaldstofna. Þetta hefur mjög ljóslega komið fram í þeim skýrslum, sem skattamálanefndin hefur aflað sér úr sveitarfélögunum.

Það, sem fyrir liggur þá að samþ. hér með 2. gr., er alls ekki að gera skattframtöl að grundvelli fyrir útsvarsálagningu, heldur hitt, að útsvarsniðurjöfnunarnefndir haldi skrár yfir það, hvernig þær jafna niður útsvörum, og það gera þær sumar nú þegar. Ég veit, að niðurjöfnunarnefnd í minn sveitarfélagi hefur í fleiri ár samið skrár yfir niðurjöfnun, þar sem færður er hver liður, sem reiknaður er í útsvari hvers og eins gjaldanda. Þar eru tveir dálkar fyrir efni og ástæður. Annar þeirra er plús og hinn er mínus. Og þegar kært er yfir útsvari eða kvartað yfir útsvari, þá getur gjaldandinn fengið upplýsingar úr þessari skrá, sem er upphafsskrá að þeirri skrá, sem liggur frammi og sýnir ekki alla þá liði, sem þar koma fram. Fær hann þá að vita, við hvað útsvar hans hefur verið miðað. Hann getur séð þar, hvað það var í „ástæðum“ hans, sem hefur verið tekið til greina, hvort þær hafa verið til hækkunar útsvari eða lækkunar, auk þess sem reiknað hefur verið útsvarið eftir vissum gjaldstofnum, sem niðurjöfnunarnefnd hefur slegið föstu að nota við niðurjöfnunina. Ég held þess vegna, að það sé mikið spor í rétta átt að samþ. óbreytta 2. gr., en vitanlega er þetta aðeins bráðabirgðaákvæði, því að gengið er út frá því, að skattamálanefndin geri heildarendurskoðun á tekjuöflun sveitarfélaga og leggi till. fyrir næsta Alþ. um breytingar á tekjuöflun sveitarfélaganna, þar með útsvarsniðurjöfnun.